Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Fóu feykirófu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Fóu feykirófu

Einu sinni var kerling í koti sínu; hún átti tvo sonu. Annan þeirra þótti kerlingu mjög vænt um og var hann jafnan í búri hjá henni og át það af matnum er hann vildi helzt; því var hann Smjörbítill kallaður. Hinn var út undan hjá kerlingu og var ætíð skinhoraður. Það var siður hans að hann sat jafnan á bæjarburstinni og gelti að gestum þeim er komu, svo skein í tennurnar; því var hann Gullintanni kallaður. Skammt frá koti kerlingar var hellir; þar bjó tröllskessa er hét Fóa feykiróa.

Einn dag sat Gullintanni á bæjarburst eftir vanda og gelti mjög; þá kom Smjörbítill út. „Að hverju geltir þú nú, Gullintanni bróðir?“ sagði Smjörbítill. „Ég er að gelta að henni Fóu feykiróu,“ sagði Gullintanni; „hún kemur nú hlaupandi og ætlar að sækja þig og éta.“ „Á, ég vil ekki deyja! Hvað á ég nú að gjöra, Gullintanni bróðir, svo hún Fóa nái mér ekki?“ segir Smjörbítill. „Farðu inn til móður þinnar,“ segir Gullintanni, „og biddu hana að hvolfa yfir þig stóra pottinum í eldhúsinu; þá mun Fóa ekki finna þig.“ Smjörbítill fór nú inn og gjörði sem bróðir hans sagði honum. Í því bili kom Fóa feykiróa. „Hvar er hann Smjörbítill bróðir þinn?“ segir Fóa. „Það veit ég ekki,“ segir Gullintanni. „Þú lýgur því, skömmin þín,“ segir Fóa, „og ef þú værir ekki svona horaður skyldi ég éta þig fyrir lygina.“ Hún ruddist nú inn í kotið til kerlingar; hún sat á palli og spann á snældu. „Hvar er hann Smjörbítill sonur þinn?“ segir Fóa. „Hann er ekki heima,“ segir kerling. „Þú lýgur því, skömmin þín,“ segir Fóa. Hún ryðst nú um og leitar alstaðar. Loks kemur hún í eldhúsið og sér pottinn. Ber hún á botn honum og segir: „Hér mun Smjörbítill vera undir.“ Veltir hún honum nú um og finnur Smjörbítil, lætur hann í poka og hleypur með hann á leið til hellis síns. Þegar hún er komin á miðja vegu segir hún: „Hvort á ég nú heldur að fara til fjalls eða fjöru að kasta af mér vatni?“ „Far þú til fjöru,“ segir Smjörbítill því það var lengra. Skessan kastar nú pokanum niður og hleypur til fjöru; en á meðan fer Smjörbítill úr pokanum, en fyllir hann aftur með grjót, og heim í kot til móður sinnar.

Næsta dag geltir Gullintanni einnig mjög á bæjarburstinni; kemur þá Smjörbítill út til hans og farast þeim sömu orð á milli nema nú segir Gullintanni honum að hann skuli biðja móður sína að fela sig undir stóra sánum í búrinu. Litlu síðar kemur Fóa feykiróa og skiptast þau Gullintanni á sömu orðum. Ryðst Fóa inn og hittir kerlingu; fer nú allt á sömu leið sem daginn áður. Þriðja daginn geltir Gullintanni enn mest á bæjarburstinni. Kemur þá Smjörbítill og ræður Gullintanni honum til að biðja móður sína að fela sig undir pilsum hennar. Fóa kemur nú og hittir Gullintanna; farast þeim líkt kveðjur og fyrri. Fer Fóa inn í kotið og situr þá kerling á rúmi sínu og spinnur og er Smjörbítill undir pilsum hennar. „Hvar er Smjörbítill sonur þinn?“ segir Fóa og er nú mjög reið. „Hann er ekki heima,“ segir kerling. „Þú lýgur því, skömmin þín,“ segir Fóa. Leitar hún um allt og finnur hann loksins undir pilsum kerlingar. Lætur hún hann í pokann og hleypur nú hvíldarlaust með hann heim til hellis síns. Setur hún hann í afhellir og ætlar nú að ala hann um tíma; og á hverju kvöldi skipar hún honum að stinga litla fingrinum út um gat á hurðinni. Á hverju kvöldi bítur hún svo í fingurinn. Gengur þetta langan tíma þangað til henni þykir hann loksins orðinn nógu feitur.

Skessan átti eina dóttir. Einn dag segir hún henni að hún skuli nú slátra Smjörbítli, en sjálf segist hún ætla að fara að bjóða vinum sínum til veizlu. Segir hún henni að hún skuli taka hjarta hans og lifur og binda við potteyrað því það ætli hún sjálfri sér, og skuli hún nú hafa hann soðinn og allt tilbúið er hún komi aftur. Síðan fer Fóa af stað, en stelpan hleypur til afhellisins og ræðst þegar á Smjörbítil. Hafði hann heyrt allt samtal þeirra mæðgna og hugði nú ekki gott til ef hún hefði yfirhöndina. Tekur hann því á móti henni með miklu afli. Stimpast þau nú lengi, en svo fara leikar að hann fellir hana. Drepur hann hana nú hið skjótasta og sundrar og fer að öllu að sem Fóa hafði sagt dóttur sinni fyrir. Síðan fer hann sjálfur í föt hennar og nýr framan í sig ösku og bíður nú þar til Fóa kemur með tröllin. Er hún hin kátasta og líkar vel allar aðgjörðir dóttur sinnar sem hún hélt að væri. Setjast nú tröllin að veizlu og éta og drekka með mikilli kæti. Sætir þá Smjörbítill lagi og ber að eldivið og kveikir bál mikið fyrir utan hellisdyrnar og lætur allan reykinn leggja inn. Brælir hann þannig öll tröllin inni því eigi komust þau út fyrir bálinu og hleypur síðan heim í kotið til móður sinnar. Daginn eftir fóru þeir Gullintanni til hellisins og voru þá öll tröllin dauð. Báru þeir þaðan gnótt af gulli og gersemum heim í kotið til móður sinnar. Lifðu þau svo það sem eftir var ævinnar í allsnægtum og bezta samlyndi og hafði nú Gullintanni allt til jafns við Smjörbítil bróður sinn.

Lýkur svo sögunni af Fóu feykiróu.