Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Fögrustjörnu kóngsdóttur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Fögrustjörnu kóngsdóttur

Það er upphaf þessarrar sögu að kóngur og drottning réðu fyrir ríki og áttu sér ekkert barn. Þar var hjá kóngi ráðgjafi er Hertryggur hét; hann var svikull og ágjarn og flestir hlutir voru honum illa gefnir. Hann hafði aðsetur sitt í turni sem var hærri en öll önnur hús í borginni og sá því allt sem gjörðist í nánd.

Það var einn dag er drottning var að ganga sér til skemmtunar fyrir utan staðinn og var fallið snjóföl á jörð; fékk hún þá blóðnasir og þegar blóðið kom í snjóinn segir drottning: „Það vildi ég að ég ætti mér dóttur sem væri hvít sem snjór og rauð sem blóð.“ Þá heyrir drottning að sagt er einhvurstaðar nærri sér: „Og gætir þú aldrei séð hana án þess að sækjast eftir lífi hennar og myndir ekkert til þessara orða eða hvur þau hefði talað fyrr en ég er dauður.“ Drottningu varð hverft við er hún heyrði þetta og þóttist vita að það mundi vera Hertryggur ráðgjafi er talaði. Fer nú drottning heim aftur. Eftir nokkurn tíma verður hún þess vör að hún er ólétt og á tilteknum tíma fæðir hún meybarn; það var svo frítt og fagurt að slíkt þóttist enginn fyrr séð hafa og var mærin nefnd Fagrastjarna. Kom kóngur henni til fósturs hjá völvu nokkurri sem bjó út á skóg í húsi sér. Líða svo fram tímar að kóngsdóttir vex og vel dafnar hjá völvunni. Þegar hún var orðin átta eða níu vetra þá var það einn tíma að Hertryggur kemur að máli við kóng og drottning og segir það sé undarlegt háttalag er þau hafi fremur en allir aðrir, að láta einkabarn sitt vera hjá kellingu út á skóg, en hafa það ekki heldur heima sér til yndis og ánægju. Þau segjast vita að vel fari um dóttur sína hjá völvunni og hvurgi betur. Samt hætti ekki Hertryggur fyrr en að kóngur bjóst til ferða út á skóg og hafði Hertrygg með sér; finna þeir völvuna og Fögrustjörnu og segir faðir hennar að hann sé nú þess erindis kominn að sækja hana og flytja heim til borgar. Hún fer að gráta og biður að lofa sér að vera hjá fóstru sinni. Er ekki að orðlengja það að þó Hertryggur legði á móti þá vann hún þó föður sinn um síðir til að lofa sér að vera. Fara þeir svo búnir heim aftur.

Ber nú ekki til tíðinda þar til Fagrastjarna var tólf ára, þá tók fóstra hennar sótt hættlega; og er hún fann að skammt mundi eftir ævinnar segir hún við Fögrustjörnu: „Þegar ég er dáin þá skalt þú grafa mig hér skammt frá kofa mínum; mun þá ekki líða langt um að Hertryggur og faðir þinn komi að sækja þig; og ef þú vilt fresta því að fara með þeim þá skaltu segja að ég sé í langferð og megirðu ekki fara úr húsinu fyrr en ég komi aftur. En þó svo verði að þú fáir dvalið heimferð þína með þessu um hríð, sem ekki er víst, þá mun þó að því reka að þú komist á vald móður þinnar. Vertu þolinmóð hvað sem á dagana kann að drífa fyrir þér, því líklegt er að úr bætist fyrir þér þó seint verði.“ Síðan gaf hún henni mörg heilræði og eftir það dó hún. Kóngsdóttir jarðaði hana með miklum harmi þar hjá húsinu á afviknum stað.

Nú er þess ekki langt að bíða að þeir kóngur og Hertryggur koma og finna Fögrustjörnu og segir kóngur að hún skuli koma með sér heim til borgar, en hún segir að valvan sé í langferð og verði hún því að vera í húsinu þar til hún komi aftur, og samsinnti kóngur það, en Hertryggur var að ganga í kringum húsið og kom auga á leiði völvunnar. Kemur hann nú til kóngs og segir: „Það er ekki alllítil langferð sem valvan er í, því hún er dauð.“ „Því trúi ég ekki,“ segir kóngur; en Hertryggur fór þá og sýndi honum leiðið. Varð nú kóngsdóttir að fara með föður sínum, hvurt sem hún vildi eða ei; fara þau nú öll heim til borgar. Fer kóngur á fund drottningar með Fögrustjörnu og segir hún skuli nú taka við dóttur sinni og sjá um hana. Drottning kvað það vera skyldi; fór kóngur svo burt aftur; en þegar hann er nýfarinn segir drottning við dóttur sína að þær skuli koma út sér til skemmtunar og samsinnti hin það. Þegar þær voru komnar út segir drottning að þær skyldi fara út á skóg að skoða bústað völvunnar; og er þær eru þangað komnar segist hún vilja sjá leiði hennar. Fagrastjarna sýnir henni það. Þá segir drottning: „Grafðu nú moldina upp úr gröfinni;“ og þegar Fagrastjarna var búin að því hratt drottning henni ofan í og jós moldinni yfir þar til gröfin var full. Að því búnu hljóp hún heim til borgar það allra hraðasta; en þegar hún er nýkomin heim kemur kóngur til hennar og spyr hvar Fagrastjarna sé. Drottning segir það sé æðistund síðan hún hafi farið út og sé ekki komin inn aftur. Kóngur lætur nú kalla saman nokkra menn og er farið að leita að kóngsdóttur og var hann sjálfur með í leitinni.

Nú er að segja frá Fögrustjörnu að þegar móðir hennar jós moldinni ofan í gröfina hafði hún hjá sér skæri og gat með þeim gjört holu frá andlitinu svo hún kafnaði ekki. Síðan fór hún að bera sig að komast upp úr gröfinni og gat loksins komizt upp; en þá er hún var að skríða upp á grafarbarminn kom faðir hennar að og undraðist ekki alllítið að finna hana svo á sig komna og spyr hvað því valdi, en hún anzaði því ekki að neinu. Ávítaði kóngur hana fyrir að hún skyldi taka þetta til bragðs. Fer nú kóngur með hana enn heim til borgar og afhendi hana drottningu sinni og segir hún skuli passa hana betur en áður og fer hann síðan burtu. Þegar hann er nýfarinn segir drottning að þær skuli ganga út sér til skemmtunar og lét Fagrastjarna það svo vera. Ganga þær nú þar til þær koma að fljóti einu og var skógur mikill meðfram því svo að limið lagðist fram yfir vatnið. Drottning leggst niður á bakkann og fara þær að skoða sig í vatninu. Segir þá drottning: „Mikill er munur á fegurð okkar“ – og fór hún þar um mörgum orðum; en þegar minnst varði stekkur hún upp og hrindir Fögrustjörnu út í fljótið og hleypur svo burt; en Fögrustjörnu skaut upp og náði þá í hríslu eina og gat klifrazt svo upp á bakkann. Liggur hún þar svo nokkra stund og veit ekki hvað sér muni nú til líknar verða. Í því sér hún hvar maður kemur; hann var lágur og gildur og ljótur heldur; með honum rann hundur geysistór. Þeir koma þar sem kóngsdóttir lá og segir þá dvergurinn: „Er það sem mér sýnist að það sé Fagrastjarna kóngsdóttir sem hér liggur? Mjög er það ólíklegt; og valla vænti ég að hún muni þiggja lið mitt þó boðið væri.“ Fagrastjarna segir: „Rétt kennir þú það að hér er Fagrastjarna kóngsdóttir; og þó mér þyki þú ljótur þá er mér sagt að engin skepna sé svo ljót eða lítilfjörleg að ekki sé betra lið hennar en ólið; þigg ég fegins hendi lið þitt.“ Hann segir: „Ef þér þykir ég ljótur þá er ég hræddur um að þér þyki kelling mín ljót. Nú ef þú vilt koma með mér þá settu þig á bak á hundinum mínum.“ Gjörði Fagrastjarna það, og fer svo dvergurinn nokkra stund og rakkinn á eftir þar til þeir komu að steini einum stórum. Tekur dvergurinn upp hjá sér tálknsprota og sló á steininn og laukst hann jafnsnart upp. Leiðir nú dvergurinn kóngsdóttur inn með sér; sá hún þar fyrir kellingu og hræddist hún hana óskaplega og þótti henni það ekki ýkjur er dvergurinn hafði sagt um álit hennar; þó fagnar hún kóngsdóttur vel og er hún þar um nóttina í góðum fagnaði. Um morguninn spyr dvergurinn hvurt heldur hún vilji fara heim til borgar eða vera kyr hjá þeim og kaus hún það heldur. Undi hún þar hið bezta hag sínum og var á daginn heima hjá dverginnunni, en hann var á dýraveiðum; prýddi hún allt er hún gat í steininum og þótti þeim yfirmáta vænt um hana.

Nú er að segja frá kóngi að hann kemur til drottningar þegar hún var nýkomin heim frá Fögrustjörnu, og spyr hann eftir dóttur sinni; en drottning segir hún hafi farið næstum strax burt aftur og ekki sézt frá því. Kóngur bregður við og fer að leita með mönnum sínum bæði út að skála völvunnar og svo hvar sem mönnum datt í hug. Lætur kóngur leita í marga daga fjær og nær og varð þó allt til einkis sem von var. Tók kóngur þetta svo nærri sér að hann lagðist í sorg, en drottning og Hertryggur stjórnuðu ríkinu. Tryllti hann svo drottningu að hún sinnti kóngi svo sem ekkert, en var öll við hann.

Nú víkur sögunni til Fögrustjörnu þar sem hún er í steininum hjá dvergnum og dyrgjunni og líkaði við þau hvurn daginn öðrum betur og þau aftur á mót fengu ást á henni. Það var einn dag er dvergurinn var út á skóg á dýraveiðum að maður kom til hans er hann þekkti ekki, en það var Hertryggur. Þeir taka tal með sér og spyr Hertryggur dverginn að ýmsu, en hann leysti vel úr öllu. Þá segir Hertryggur: „Það finn ég á tali þínu að þér kemur víst ekki margt óvart.“ Dvergurinn segir: „Ég veit ekkert sjálfur, en ég á fugl sem veit alla hluti.“ „Hann skaltu selja mér,“ segir Hertryggur. „Það má ég ekki,“ segir dvergurinn. „Ég skal gefa þér fyrir hann fullan kastala af gulli,“ segir Hertryggur, „og vona ég þá að hann sé vel borgaður;“ og hvurt sem þeir töluðu um það lengur eða skemur þá varð það úr að dvergurinn seldi Hertrygg fuglinn og fór hann með hann heim til borgar og þóttist hafa vel veitt. Varð honum þá fyrst fyrir að spyrja fuglinn hvurt hann vissi nokkuð um Fögrustjörnu kóngsdóttir. „Já, það veit ég vel,“ segir fuglinn, „því hún er nú í bezta yfirlæti hjá honum húsbónda mínum sem var.“ Þegar Hertryggur heyrir þetta fer hann til drottningar með skyndi og segir henni hvurs hann var vís orðinn, en hún brá við og hljóp út á skóg þar til hún finnur steininn. Hún klappar upp á og biður Fögrustjörnu að finna sig; en hún gjörði það og fór dyrgjan með henni. Þá segir drottning: „Það legg ég á þig að þú hverfir til Ófótans jötuns.“ Þá segir kelling: „Þá legg ég á að hún verði að hinni verstu flagðkonu meðan hún er hjá honum“ – og verður það samstundis að hún breyttist í tröllkonu og hvarf burt; en drottning fór heim til borgar og þóttist hafa vel að verið.

Nú er að segja frá Fögrustjörnu að hún í tröllkonu líki hverfur til hellis Ófótans jötuns og var hann á dýraveiðum. Hún kveikir eld og leggur skíði að; gjörðist þá reykur mikill. Sá risinn það út á skóginn og fór heim; en þegar hann sá skessuna þar fyrir þá segir hann: „Hvað er þetta? ég vænti eftir Fögrustjörnu kóngsdóttur í kvöld, en ekki þér.“ Hún svarar: „Ég var gift tröllakóngi sem nú er dauður og vissi ég ekki neinn við mitt hæfi nema þig.“ Risinn varð glaður við þetta. Líður svo til þess að risinn fer að sofa; spyr hann hvurt hún heldur vilji sofa hjá sér eða annarstaðar. Hún segist vilja vera ein þá nótt og lét hann sér það vel líka. Þegar risinn er sem fastast sofnaður sér Fagrastjarna að dvergurinn húsbóndi hennar kemur inn og með honum annar dvergur sem hann sagði að væri vinur sinn. Þeir sögðu henni að fara í fylgsni þar sem henni væri óhætt og gjörði hún það; en þeir tóku járntein tvíoddaðan og ráku hann í eldinn þar til hann var glóandi og lagði annar honum í bæði augu risans svo út gekk um hnakkann, en hinn lagði sverðinu á hann miðjan svo í beðnum stóð. Brauzt þá jötunninn á fætur með ógurlegum hljóðum og fálmaði fram um hellirinn þar til hann drapst; brenndu þeir skrokkinn til ösku. Varð þá Fagrastjarna með sínum fyrra skapnaði; en þeir tóku það sem fémætt var í hellinum og báru út. Hvarf þá ókunni dvergurinn og vissi Fagrastjarna ekki um hann framar; en Fagrastjarna fór með húsbónda sínum og lét hann hana ríða rakkanum. Er ekki sagt af ferð þeirra fyrr en þau koma heim til sín.

Nú er enn að segja frá Hertrygg; hann fer eitt sinn að spyrja fuglinn hvað nú sé títt með Fögrustjörnu. Fuglinn segir hún sé í steininum hjá dverghjónunum í góðu yfirlæti. Þetta segir Hertryggur drottningu, en hún bregður við þegar og fer út á skóg og að steininum og biður þær Fögrustjörnu og dverginnuna að ljúka upp og finna sig; en þær segjast ekki mega það, því dvergurinn hafi bannað að lofa nokkrum inn þegar hann sé ekki við. „Þá get ég talað við ykkur samt,“ segir drottning, „og legg ég það á þig Fagrastjarna að þú hafir enga fró né frið fyrr en þú ert búin að drepa dverginnuna.“ Að svo mæltu fór hún leiðar sinnar; en litlu síðar sé að dyrgjunni svefnhöfgi og þegar Fagrastjarna sá það tók hún hníf og lagði hana, en hún brá sér í svöluham og skrifaði með blóðfjöðrunum upp í steininn að dvergurinn skyldi ekki láta Fögrustjörnu gjalda þessa verks, því það væru álög móður hennar. Þar eftir dó dverginnan, en Fagrastjarna harmaði verk sitt. Um kvöldið kom dvergurinn af dýraveiðum eins og hann var vanur; sér hann brátt vegsummerki og verður það fyrst fyrir að hann rekur Fögrustjörnu út úr steininum. Eftir það kastar hann sér yfir lík konu sinnar og barmar sér mjög hryggilega; lét hann þetta ganga nokkra stund þar til hann kom auga á það sem skrifað var upp í steininum; og er hann hafði lesið það fór hann að iðrast eftir að hann rak Fögrustjörnu burtu og fer að leita eftir henni og kom eftir nokkra leit þar sem hún sat grátandi undir einni eik. Hann segir: „Þú verður að fyrirgefa mér að ég rak þig burt og komdu nú með mér heim aftur, því ekki skaltu gjalda þess í neinu þó þú gjörðir þetta þar þér var ekki sjálfrátt.“ Fagrastjarna þekktist boð hans og fór með honum heim og hafði hann aldrei verið henni jafngóður og nú. Hann gróf dyrgju sína þar fyrir utan steininn, og bar nú ekkert til frétta um hríð.

Það var enn einn tíma að Hertryggur fer að tala við fuglinn og spyr hvursu Fögrustjörnu líði nú. Hann segir að aldrei hafi hún átt betri daga en nú eigi hún hjá dverginum í steininum. Þegar Hertryggur heyrir þetta fer hann og segir drottningu hvar nú sé komið; en hún brá þegar við og hélt út á skóg og að steininum; og er hún sá að Fagrastjarna var heima segir hún: „Það legg ég á þig að þú hafir ekki ró né frið fyrr en þú hefur drepið dverginn.“ Að því mæltu fór hún heim; en þó að dvergurinn heyrði þetta gat hann ekki við því spornað. Fór það sem fyrr að hann syfjaði og lagðist fyrir og þegar hann er sofnaður tekur Fagrastjarna lagjárn og leggur hann. Hann vaknar og segir: „Ekki skal Hertrygg og móður þinni verða að því að ég láti þig gjalda þó [þú] réðir mér bana. Nú þegar ég er dauður bið ég þig að grafa mig hjá konu minni. Svo skaltu taka það sem fémætt er í steininum og leggja á hundinn; vona ég hann geti borið þig og það. Láttu hann ráða ferðum og mun það óhætt, því það mæli ég um að hann fari með þig til þess vænsta konungssonar sem til er í heiminum; og vertu nú ætíð heil og sæl.“ Að svo mæltu dó dvergurinn, en Fagrastjarna gróf hann með sorgfullu hjarta hjá konu sinni. Eftir það tekur hún það er fémætt var í steininum og leggur á hundinn og sezt svo sjálf ofan á. Er ekki neitt um ferðir þeirra getið nema hún lét rakkann ráða þar til þau komu að einni höfuðborg í ríki einu. Þar réði fyrir konungsson ungur og ókvongaður; hann var hinn ágætasti maður að hreysti og ekki síður að góðum verkum. Fagrastjarna beiddist að mega dvelja þar í skjóli konungs og var það auðfengið. Mikið fannst öllum um látbragð hennar og fríðleika, ekki síður kóngi en öðrum. Eitt sinn fer hann að spyrja hana hvaðan af löndum hún sé, hverra manna og hvernig á högum hennar standi. Hún segir það í stuttu máli. Eftir það vekur hann bónorð við hana, og þar hún vissi að maðurinn var hinn ágætasti og hún nú á hans valdi tók hún þeirri málaleitan vel. Er ekki að orðlengja að konungur gjörði brúðkaup sitt litlu síðar með mikilli viðhöfn. Einn maður var með kóngi í miklum metum og öðrum fremur; hann var hinn hraustasti riddari og náskyldur konungi og því kallaður jafnaðarlega konungsfrændi.

Nú víkur sögunni til Hertryggs ráðgjafa að eftir það að drottning lagði á Fögrustjörnu að hún dræpi dverginn datt þeim ekki í hug að hún mundi lifa; þó spyr Hertryggur fuglinn einn tíma er mjög vel lá á honum: „Hvurnig vegnar nú Fögrustjörnu kóngsdóttur?“ Fuglinn segir: „Aldrei hefur henni liðið jafnvel sem nú, því hún er orðin drottning þess vænsta kóngs sem til er í heiminum.“ Við þessa fregn bregður Hertrygg svo að hann tók fuglinn og trað hann sundur undir fótum sér, gengur síðan til drottningar og segir henni hvurs hann var vís orðinn af fuglinum um upphefð og lukku Fögrustjörnu, og síðan mælti hann: „Nú er ekki þitt meðfæri að fara að hitta Fögrustjörnu og skal ég nú sjálfur fara.“ Síðan bjóst hann af stað, og er nú ekki getið um ferð hans fyrr en hann kom að borg þeirri er Fagrastjarna var drottning í; hann finnur kóng og heilsar honum kurteislega og biður hann um veturvist, segist vera kominn úr fjarlægum löndum. – Þess er getið að drottning hafi beðið kóng að taka ekki neinn veturvistarmann svo hún væri ekki búin að sjá hann áður, því henni þótti ekki örvænt að Hertryggur kynni að koma að sitja um líf sitt og hafði kóngur lofað henni því. – Á þetta minntist hann nú og segir við aðkomumann að hann taki ekki við honum nema hann finni drottningu sína áður. Hertryggur segir: „Það er of mikið konuríki, þykir mér, að mega ekki veita einum manni veturvist upp á sitt eindæmi;“ og hvurt sem þeir töluðu um þetta lengur eða skemur þá verður það afráðið að kóngur lofar honum veturvist. Nú finnur kóngur drottningu og segir að þar sé kominn ókenndur maður sem biðji um veturvist. „Hefurðu veitt honum það?“ segir drottning. „Já,“ segir kóngur. „Þá hefur þú gjört móti loforði þínu,“ kvað drottning, „en nú er það ráð mitt að láta þenna ókunna mann sitja á móti húsdyrum og skal ég svo sjá hann úr öðru herbergi þó hann geti ekki séð mig.“ Kóngur sagði það snjallræði vera. Er þetta nú framkvæmt svo Fagrastjarna sá Hertrygg, en hann grunaði ekki neitt. Segir nú drottning kóngi að þessi maður sé Hertryggur ráðgjafi og eflaust kominn til þess að sitja um líf sitt. Ekki lét neinn maður Hertrygg merkja að hann væri þekktur þar og var hann hafður í hávegum; einkum urðu þeir konungsfrændi og hann mestu mátar og sagði Hertryggur honum að hann væri þess erindis þar kominn að ráða Fögrustjörnu drottningu af lífi og bað hann vera í ráðum með sér og lofaði hinn því, en varaði drottningu við að láta Hertrygg sjá sig.

Litlu síðar hélt kóngur veizlu mikla og bauð til fjölda manns og var þar vel veitt og fast drukkið. Nú segir riddarinn konungsfrændi við Hertrygg að þetta sé hinn hentugasti tími til að framkvæma það sem hann hafi áformað – „og skal ég í nótt láta þig vita þegar mál er komið að vinna verkið.“ Hertryggur kvað hann hinn bezta dreng vera og var nú glaður mjög. En um miðnætti kom konungsfrændi til Hertryggs og sagði hann skyldi nú koma með sér; hann reis upp og gekk með honum þar til þeir komu að einum herbergisdyrum; þá stendur konungsfrændi við og segir: „Gákktu nú beint yfir að sænginni sem er móti dyrunum og leggðu þá manneskju í gegn sem í rúminu er, því það er drottning, en ég ætla að verja dyrnar.“ Hertryggur gengur að rúminu og leggur óslælega sverðinu í það sem í rúminu var; en í því kallaði konungsfrændi upp og þustu þá að menn úr næsta herbergi og handtóku Hertrygg. Hafði þetta allt verið ráðið fyrir fram og dauður maður látinn í sængina. Nú er Hertryggur krafinn til sagna og sagði hann allt um athæfi sitt frá því fyrst er hann lagði á drottningu og til þess er þá var komið. Nú segir kóngur að drottning skuli dæma Hertrygg, en hún sagði ekki væri vert að kvelja hann – „og er bezt að hann sé hengdur;“ – og var þeim dómi þegar fullnægt; lét hann svo líf sitt með lítinn orðstír.

Nú víkur sögunni til drottningar móður Fögrustjörnu að á þeirri sömu stundu og Hertryggur enti sitt leiða líf lukust upp augu hennar og sá hún nú allt hvað hún hafði gjört við Fögrustjörnu dóttur sína og angraðist mjög þar af með sjálfri sér, tekur nú það ráð að hún fer til konungsins manns síns og segir honum nú allt frá því fyrsta. Konungur hafði frá því Fagrastjarna hvarf fyrst og til þessa tíma er nú stóð yfir legið í sorg og hafði drottning sinnt honum lítið meðan Hertryggur var við hirðina; og er kóngur heyrði að Fagrastjarna var lifandi og leið vel, glaðnaði yfir honum og segir við drottningu: „Hvað skal nú til gjöra?“ Drottning segir: „Það virðist mér helzt til yfirbótar eftir að ég hefi svo margt og mikið afgjört við Fögrustjörnu að við förum og biðjum hana auðmjúklega fyrirgefningar.“ Kóngur kvað það óskaráð vera. Leið nú lítill tími á meðan kóngur var að ná sér eftir leguna; en á meðan var búinn skipafloti og að því búnu héldu þau af stað með fríðu föruneyti. Segir nú ekki af ferðum þeirra fyrr en þau lentu við aðsetursstað Fögrustjörnu. Þegar landsmenn sáu að útlendur skipafloti var kominn þar á hafnir var sent til stranda og spyrja hvurjir aðkomumenn væri; og þegar er kóngur heyrði að þar væru komnir foreldrar Fögrustjörnu gekk hann út og leiddi þau til borgar með fríðu föruneyti; en ekki þorði Fagrastjarna að láta móður sína sjá sig. Þegar þau kóngur og drottning voru búin að vera þar þrjá daga segja þau að sig langi til að sjá drottninguna og biðja hana fyrirgefningar og var þeim veitt það með því móti að þau komu sitt í hvurt sinni til Fögrustjörnu og lét hún menn vera í næsta herbergi sem hún ætlaði að kalla til ef að þau sýndu sig í nokkru illu; en nú var allt illt burt numið úr hug þeirra og drottning auðmýkti sig svo fyrir Fögrustjörnu sem hún gat mest og bað hana fyrirgefningar á öllu illu er hún hefði af sér sýnt; og er Fagrastjarna sá að hún iðraðist og heyrði að henni hafði ekki sjálfrátt verið fyrirgaf hún móður sinni strax; en við föður sinn sagði hún að hann hefði ekki á neinu fyrirgefningar að biðja.

Eru þau nú hjá dóttur sinni um hríð í góðu yfirlæti og sögðu eitt sinn við hana að þau vildu vera hjá henni það sem eftir væri ævinnar, en hennar væri ríkið og mætti hún af því gjöra hvað sem hún vildi. Fagrastjarna kvað sér það vel líka; segir hún nú manni sínum frá og spyr hann hvur honum sýndist líklegastur til að stjórna föðurleifð sinni. Kóngur segir að sér hafi lengi verið í hug að útvega frænda sínum (þeim sem fyrr er nefndur) einhvurja staðfestu og væri því vel til fallið að gefa honum þetta ríki til yfirráða. Fagrastjarna sagði að það væri sér vel að skapi. Lætur nú kóngur kalla á frænda sinn og segir við hann að nú sé kominn tími til að hann taki verðlaun fyrir drengilega fylgd er hann hafi löngum veitt sér og föður sínum – „og ætla ég nú,“ segir hann, „að gefa þér föðurleifð konu minnar.“ Hann þakkaði honum með mörgum fögrum orðum og eftir það bjóst hann til ríkis síns og var af kóngi út leystur með ágætri fylgd, og er hann úr sögunni.

En Fagrastjarna og maður hennar unntust vel og lengi og stýrðu ríki sínu í friði.

Og endar svo þessa sögu.