Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Gíg

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Gíg

Það var eitt sinn kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu dóttur eina og er ekki getið um nafn hennar.

Ekki langt þaðan var karl og kerling í garðshorni. Þau áttu son er Gígur hét. Þá hann var tólf ára gamall fór hann að fara heim í kóngsgarð og hafði jafnan gaman af að horfa á þá hirðmenn kóngs voru á burtreiðum. Þegar fram liðu stundir fékk Gígur sér hest og fór hann til burtreiðar með hirð kóngs. Þegar hann hafði æft sig litla hríð þá var hann orðinn mörgum fremri og reið þá flesta ofan er þar vóru.

Eitt sinn þá Gígur reið heim frá burtreiðinni þá sá hann mey fagra standa út á borgarmúrunum. Þegar hann kemur heim til foreldra sinna þá spyr hann móður sína hver sú stúlka muni hafa verið sem hann sá á borgarmúrunum þá hann reið heim. „Það hefur líklega verið kóngsdóttir,“ sagði kerling. Gígur sagðist ekki hafa neina ró fyrr en hann fyndi kóngsdóttir. „Hugsa þú ekki neitt [um] kóngsdóttir,“ sagði kerling. Gígur sagðist ekki um annað mundi framar hugsa. Kerling sagði jafnan Gíg að hann skyldi hætta að hugsa um kóngsdóttir, en hann svaraði því að hann skyldi hafa fund hennar eða liggja dauður að öðrum kosti. Móðir hans segir: „Fyrst þú vilt þetta svo dýrt kaupa þá vil ég leggja þér ráð eitt þó [ég] viti ekki hvert það dugar, og verður hamingjan því að ráða. Ég á mér kunnugan mann einn. Hann hefur bústað sinn ekki langt frá kóngsgarði; þangað vil ég þú farir. Svo stendur á að stuttu fyrir jólin er kaupstefna mikil haldin þar í borginni og er kóngur jafnan sjálfur eða dóttir hans fyrir kaupunum. Kemur þar ætíð fjölmenni mikið og sömuleiðis er maður þessi vanur að fara á kaupstefnu þessa. Mun það nú verða lán þitt ef þú hittir svo á að dóttir kóngs standi fyrir kaupunum, ella munt þú hafa hina mestu óhamingju af ferð þessari ef ekki fer svo.“ Ekki löngu eftir þetta fór Gígur til manns þessa og var hjá honum um stund.

Þegar leið að jólum fór fólk að drífa til kaupstefnunnar; þeir fóru og líka Gígur og húsbóndi hans. Hittist þá svo á að kóngsdóttir var fyrir kaupstefnunni. Þegar kaupstefnan var nær því á enda þá ganga þeir að, Gígur og húsbóndi hans, og fór húsbóndi Gígs að kaupa það hann hafði ætlað [að] kaupa, en Gígur horfði alltaf [á] kóngsdóttir og það var heldur ekki eiðfært að hún liti hann oftar en aðra er þar höfðu komið. Áður bóndi fór á burtu þá spyr kóngsdóttir hann hvaða maður það væri er með honum væri. Bóndi sagði það vera bóndason einn. Kóngsdóttir segir: „Þenn[an] mann hef [ég] séð hamingjulegastan og mun hann gæfumaður verða.“ Fara þeir nú heim bóndi og Gígur, og stuttu eftir það er slitið kaupstefnunni og þá stuttu eftir það fer Gígur heim til föðurhúsa, og þá var faðir hans dáinn er hann kom heim. Þegar nokkrir tímar líða frá því er kaupstefnan var haldin þá fær kóngur að frétta hvað dóttir hans hafði sagt og [verður] af því reiður mjög og sendir tuttugu menn til að leita að honum og drepa; en ef þeir fyndu hann ekki þá skyldu þeir drepnir verða. Þetta fréttir kerling móðir Gígs og segir það syni sínum. Hann spyr hana hvað nú mundi helzt til ráða. „Far þú út á skóg og hyl þig þar á milli trjánna.“ Þegar Gígur var nýlega kominn burtu þá koma kóngsmenn og spyrja eftir Gíg. Móðir hans varð reið við og spurði því þeir væru að leita hans hér þá hann væri heima í borg eða þeir væru máske búnir að drepa [hann]. Eftir það leita þeir og finna hann ekki, fara heim til kóngs og lét hann drepa þá alla. En Gígur kom heim til móður sinnar um kvöldið og var hjá móður sinni um nóttina.

Morguninn eftir kom móðir hans til hans og sagði honum að hann mætti ekki þar vera – „því kóngur mun ekki við svo búið hætta“. Gígur fer nú út á skóg og var þar um daginn. Þegar hann var ekki löngu kominn burtu þá koma fjörutíu menn frá kóngi og spyrja eftir Gíg, en kerling svar[ar] líkt og fyrri. Þeir leita nú víða og höggva skóginn, en finna hann þó ekki; fóru heim síðan og vóru allir drepnir. Um kvöldið kom Gígur heim og var hjá móður sinni um nóttina.

Um morguninn eftir kom móðir hans að máli við hann og sagði að hann yrði nú í burtu að fara. Fær hún honum nú hest og sverð og var það ryðgað mjög. Fer hann nú á stað og ríður langa vegi þar til hann kemur að steini nokkrum stórum mjög. Þar hvílir hann sig og fer að borða. Þegar hann [er] nýlega farinn að borða þá sér hann barn koma út úr steininum og hélt það á fötu og sótti vatn. Þegar það kemur með vatnið til baka þá tekur Gígur hring af hendi sér og lætur í vatnsfötuna (þann hring hafði kóngsdóttir gefið honum þá hún sá hann á kaupstefnunni), og eftir það hverfur það inn í steininn. Stuttu eftir þetta þá kemur dvergur út úr steininum og þakkar Gíg fyrir gjöf þá er hann gaf barninu, og sagði hann hefði fyrstur manna orðið til að gefa barni sínu dýrgrip – „og vil ég launa þér að nokkru þó ég geti það ekki [að] fullu launað. Hér eru herklæði er [ég] vil gefa þér, glófar og sverð og spjald. Herklæðunum er svo varið að ekkert bítur á þau og sverðið nemur hvergi í höggi stað, en glófunum er svo varið að sá sem hefur þá á höndum sér kann aldrei aflafátt að verða. Hér er og hestur er [ég] vil gefa þér og mun hann flestum hestum betri. Spjald það er ég gaf þér hefur þá náttúru að þegar þú strýkur um þann rauða blett sem á því er þá verður þú hinn fríðasti maður, en þá þú nýr um hinn svarta sem á því er þá verður þú hinn ófríðasti. Nú ráðlegg ég þér að ríða heim til móður þinnar því nú munu komnir þar menn kóngs og munu vilja brenna hana inni. Þeir munu vera sextíu að tölu og hygg ég það vera þér hægt að vinna þá þegar þú hefur þessi herklæði; og ef þú getur fellt þá, þá skalt þú ríða á kóngsfund og bjóða honum hólmgöngu eða hann gefi þér dóttur sína.“ Ríður Gígur nú heim og þá hann kom þá vóru kóngsmenn farnir að kveikja eldinn. Ríður hann nú að þeim og höggur þá líkt og strá niður þar til enginn var eftir. Að þessu búnu fer hann á kóngsfund og býður honum hólmgöngu utan hann gifti sér dóttir sína; en kóngur köri heldur að gefa honum dóttur sína.

Litlu eftir þetta lét kóngur halda veizlu mikla og [að] þeirri veizlu giftist Gígur kóngsdóttir, og ríkið gaf kóngur honum og lét hann hann stjórna því. Hvar sem hann fór hafði [hann] jafnan sigur, því varla þorði nokkur að standa í ósátt við hann. Þegar hann var nýlega orðinn kóngur þá fór hann út á skóg með gull og gersemar og gaf það dvergnum er áður hafði gefið honum herklæðin og sverðið.

Og er þá hætt að segja frá Gíg.