Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Geirlaugu og Græðara

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Geirlaugu og Græðara

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu; ekki er getið um nöfn þeirra, en son áttu þau er Græðari hét; var hann þá ungur og í vöggu er þessi saga gjörðist; var mjög vandaður umbúningur um hann; sem dæmi þess er sagt að á reifalindann sem bundinn var yfir vögguna var ritað með gylltum stöfum: „Græðari Græðara kóngsson.“

Eitthvert sinn er veður var mjög blítt var kóngur og drottning í lystigarði sínum og höfðu þau vögguna í milli sín; voru þau að dást að fegurð barnsins. Þau vissu þá eigi fyrr til en allt í einu kom þytur mikill og fylgdi honum níðsvart myrkur. En þegar myrkvanum létti var vaggan horfin. Þau urðu frá sér numin af sorg og ekka yfir óláni sínu og neyttu hvorki svefns né matar. En það var dreki einn er vögguna tók.

Nú er að segja frá öðru. Í öðru landi ríkti kóngur og drottning; þau áttu dóttur eina unga sem Geirlaug hét. Þennan sama dag voru þau með barn sitt úti í garði sínum. Kóngur sá þá hvar skýflóki mikill kom eftir loftinu, og er þetta færðist nær sá hann að það stefndi beint á vögguna; var þar kominn hinn sami dreki því hann hafði vögguna í klónum, en ætlaði að ná hinni með kjaftinum, en kóngur stóð eigi kyrr fyrir, heldur þreif til sverðs síns og hjó í auga drekans; var það högg svo mikið að drekinn lét lausa vögguna. Hjónin sáu nú óhamingju barns þessa og aumkuðu það; tóku þau það þá til sín og ólu önn fyrir því eins og dóttur sinni. Börnunum var nú fengin fóstra og voru þau sett í kastala skammt frá svefnherbergi kóngs og drottningar. Þegar þau voru tólf ára dó drottning og varð hún harmdauð öllum borgarlýð, en þó einkum börnunum því að Græðari elskaði hana eins og sonur. Eftir nokkurn tíma fékk kóngur sér aðra konu. Ekki leið langur tími að hatur óx í henni til barnanna af ást er var þeirra í milli. Drottning var haldin fjölkunnug og sömuleiðis fóstra barnanna.

Nú liðu fram stundir þar til kóngur fór eitt sinn til að heimta skatta af ríkjum sínum; þótti honum mikið fyrir að skilja við börnin, en stjúpa þeirra sýndi sig þá mjög blíða við þau ofan á. En er kóngur var brott farinn tók hún til sinna ráða og ætlaði að heimsækja börnin, en þau voru þá horfin. Hún kallaði þá til sín þrjátíu manna og sagði sig hefði dreymt draum þann er boðaði ófrið og kvaðst nú vilja búa í haginn fyrir mann sinn og bauð þeim að fara og safna saman öllum dýrum og hestum er þeir fyndu og drepa þau. Þeir fara nú eftir boði hennar; leita þeir dag allan, en finna ekkert nema tvö trippi svo fögur að þeim þótti þau einkar vel fallin til reiðskjóta handa kóngi og drottningu. Fóru þeir nú heim um kvöldið og sögðu drottningu ekkert frá þessu. Hún hélt þeim þá veizlu og gaf þeim drykk er hafði þá náttúru að þeir sögðu allt sem var. Þá varð drottning afar reið og drap þá alla því þegar hún heyrði að þeir hefðu ekki drepið fallegu trippin sagði hún að það hefðu verið þau skrattahjú. Allt til þess tíma hafði einn maður horfið á hverri nóttu og þótti undarlegt; héldu margir að drottning væri völd að því. Leið nú vika og kemur kóngur heim. Drottning fagnaði honum vel og sagði honum frá hugarburði sínum um ófriðinn er áður var nefndur; kvaðst hún vilja að hann færi sjálfur á morgun við þrjátíu menn og dræpi allt er hann fyndi lífs; gjörir nú kóngur sem hún biður.

Nú víkur sögunni til Geirlaugar að hún hafði vitað allt um ráðagjörðir stjúpu sinnar; hafði hún sagt Græðara að þau skyldu úr kastalanum fara og verða að trippum. En er faðir hennar var riðinn á skóg til veiða sagði hún við Græðara: „Nú kemur faðir minn sjálfur og læt ég hann ekki leita í dag því skammt á hann eftir ólifað þar eð stjúpa mín gefur honum óminnisöl í kvöld; skulum við nú setjast hér á eikur þessar og verða að beztu söngfuglum.“ Syngja þau nú svo fagurt að faðir Geirlaugar gengur á sönginn og segist ætla að hvíla sig og hlusta á söng þennan, en þeir skuli leita. Um kvöldið koma þeir aftur og segjast ekki hafa séð neitt nema þessa fugla er á eikunum sitji. Kóngur kveðst eigi láta drepa þá er hafi skemmt sér allan daginn. Fara þeir nú heim; fagnar drottning þeim með blíðu, setur upp veizlu og biður þá drekka óspart; gefur hún þeim nú hinn sama drykk og hinum. Þeir segja henni þá allt sem var. Hún segir að þau (ᴐ: kóngsbörnin) hafi það verið; drepur hún síðan mann sinn og alla þá er með honum voru. Nú segir Geirlaug við Græðara: „Nú kemur stjúpa mín sjálf og mun hún ekki frá ganga fyrr en í fulla hnefana.“ Hann spyr hana hvað hún ætli nú að ráða af. Hún segir að hann skuli verða uggi á sér, en hún ætli að verða hvalur.

Nú er að segja frá drottningu að hún tryllist mjög og heimtir þrjátíu menn til fylgdar við sig; gengur hún nú lengi þar til hún segir að þau séu ekki á landi. Hún gengur þá til sjávar. Þegar hún er þar komin verður hún að stórum fiski og leggur að hvalnum; lýkur svo þeirra skiptum að Geirlaug drepur kerlinguna; er þá svo af henni dregið að [hún] getur hvorki hrært legg né lim; liggur hún þannig í þrjú dægur og tók síðan að hressast. Þá mælti hún við Græðara (er ávallt var hjá henni og höfðu þau bundizt ástarheitum): „Ef ég megna mér nokkurs vildi ég að við værum nú horfin undir skíðgarð föður þíns ef hann er nokkurs staðar til í heimi.“ Og er hún sagði þetta eru þau þangað komin. Þá sagði Geirlaug: „Far þú nú heim til borgar föður þíns, bind reifalinda þínum um þig og gakk fyrir föður þinn og seg honum allt hið sanna.“ En hún tók honum vari fyrir að drekka hversu mjög sem hann þyrsti fyrr en hann fyndi föður sinn.

Skildu þau nú með kærleikum. Gengur hann nú leiðar sinnar. En er hann gekk eftir strætinu að höllinni brenndi hann svo mikill þorsti að hann þoldi ekki við; sá hann þá hvar gullbikar fullur með vatn stóð á silfurfati; hann tekur hann og drekkur í hugsunarleysi. En er hann hefur drukkið man hann ekkert eftir sínu fyrra lífi nema hann sé fæddur á þessari stundu; ráfar hann nú þar til hann finnur skósvein drottningar. Hann gengur til Græðara og segir: „Heill kóngsson.“ Græðari stendur forviða og heldur svein þennan gabba sig. Skósveinninn biður hann nú með sér koma og það gjörir hann; ganga þeir nú til drottningar. En er hún sér hann þekkti hún þegar son sinn og féll um háls honum. Græðari segir: „Hvernig er því varið að þú ert móðir mín?“ Drottningin mælti: „Því vilt þú ekki vera sonur minn? Ég missti þig missirisgamlan, en heimti þig nú aftur tvítugan.“ Hann mælti: „Ekki þekki ég þig og eigi veit ég hvar ég hef verið til þessa tíma.“ Drottning mælti: „Lindi sá er þú hefur yfir um þig segir mér að þú sért sonur minn því enginn á nafn föður þíns eða þitt nema þið feðgar. Kom þú nú með mér og gleð föður þinn ekki síður en mig.“ Ganga þau nú bæði til Græðara kóngs. Hann verður forviða við og segir: „Þótt þú værir mér vandalaus skaltu samt vera sonur minn.“ Lifir hann nú við alls konar gleði og glaum; honum eru kenndar allar mannlegar listir er hann ekki kunni áður og smíðaður prýðilegur kastali. Hann hafði sveina tvo er voru honum svo kærir að þeir eru þrír sem einn og fylgdu þeir honum jafnan hvert sem hann fór; sat hann nú um kyrrt um hríð.

Nú er að segja frá Geirlaugu að þegar þrír tímar dags eru liðnir og Græðari kemur ekki aftur sér hún að hann muni vera búinn að gleyma sér; hugsaði hún sér þá að launa honum með tímanum vitleysu sína. Hún gengur nú þar til hún kemur að garði einum er ríkur bóndi átti; hann átti sér tvær dætur barna. Hún fer til bóndans og biður hann að lofa sér að vera um tíma, og það fær hún. Ekki var hún búin að vera þar lengi áður hún hafði menntað dætur bónda svo vel að þeirra lof barst út um kóngsríkið og það með að það væri hinni ókunnu konu að þakka; barst það og til Græðara og sveina hans. Hugði nú kóngsson sér gott til glóðarinnar og segir að þeir skuli í þrjú kvöld, sinn hvert kveldið, fara til þeirra; skuli þeir fara fyrst til bóndadætranna, en hann kvaðst sjálfur fara til Lauphöfðu (því það nefndi hún sig á meðan hún bjó hjá systrum þessum).

Einnig er þess að geta að þegar hún kom þangað varð hún þeim svo samrýmd að hún kom þeim til að biðja föður sinn að láta gjöra þeim kastala eins vandaðan og Græðara. Þetta kvöld er hinn fyrsti ætlaði að koma sagði Lauphöfða við þá sem síður var að hún skyldi búa vel um sig og prýða herbergi sitt svo vel sem hún gæti, því gesta von væri til hennar í kvöld. Lauphöfða hafði um haustið látið ala nautkálf og gaf honum ávallt sjálf; var hann orðinn stór þegar þetta gjörðist.

Þegar kvöld var komið var barið á herbergisdyr þeirrar er fyrr var getið. Fer hún nú inn til Lauphöfðu og biður hana að hafa nú góð ráð því mannfýla þessi vilji hjá sér sænga. Hún segir að hún skuli hátta með góðu og segir henni hvernig hún skuli að fara. Þegar hann er háttaður og hún ætlar upp í segir hún: „Æ, ég gleymdi hreint að binda kálfinn hennar Lauphöfðu og má ég til að fara ofan og gjöra það.“ Hann kveðst vilja gjöra það fyrir hana. Hún segir að það sé vont að binda hann. En hann vill gjöra það samt. Hún segir að hann vilji eigi ganga á básinn nema með því móti að hala hans sé vafið um hægri hönd sér, en vinstri hendinni sé tekið um pung hans. Hann gjörir nú þetta og getur varla bisað honum; brýzt kálfurinn svo um að þeir reka sig á hurð eina; lýkst hún upp og eru þeir þá út komnir. En er kálfurinn er út kominn hleypur hann og ærist sem mest hann getur. Er hann nú orðinn fastur við kálfinn og þykist illa kominn. Ólmast nú kálfurinn með hann allt til morguns; verður hann þá laus og kemst með veikum burðum heim. Hann lætur eigi á neinu bera nema hann sé veikur; fer nú á sömu leið fyrir hinum næsta.

Nú kvaðst Græðari ætla í kvöld. Þann sama dag segir Lauphöfða að í kvöld muni gestur til sín koma og biður þær ganga snemma til hvílu; prýðir hún nú allt sem bezt hún getur inni hjá sér. Um kvöldið er að dyrum barið og þekkir hún Græðara, en hann þekkir hana ekki. Hún leiðir hann til sætis og kveður sér vera fremd að slíkum gestum. Hann kveðst vera kominn til þess að vera næturgestur og tekur hún því máli vel; þiggur hann nú bæði vín og vistir. Síðan gengur hún til rekkju og hann á eftir; er hann nú kominn úr öllu nema línklæðum einum og ætlar að stíga í hvíluna upp. Þá hrópar hún að óbundinn sé kálfurinn, en þær háttaðar; ætlar hún nú upp að standa. Hann bað hana kyrra vera því hann skuli sjálfur fara og binda kálfinn. Hún segist halda að hann geti það eigi því annari hendinni verði að halda um hala hans, en annari um punginn, og lyfta honum svo á básinn. Fer hann nú; og er hann finnur kálfinn gjörir hann eins og hún sagði fyrir; lætur hann svo illa að jörðin gengur upp fyrir þeim, en þeir komast út; verður hann þá fastur við hala og pung kálfsins og hleypur hann með hann berfættan og því nær klæðlausan. Veður var svo úti að ýmist var kafald með frosti eða rigning. Þetta gengur til dags; og er hann losnaði var hann nær dauða en lífi; lá hann í viku eftir máttlaus og marinn. Enginn þeirra vissi af annars hrakföllum.

Að nokkrum tíma liðnum segir kóngur við Græðara að hann skuli fara og biðja sér til konu kóngsdóttur einnar í næsta ríki er Áslaug heiti. Hann hlítir þessu ráði og gengur bónorðsförin vel. En er hann leggur að landi með unnustu sína er farið til móts við þau með vagna; sezt Græðari og Áslaug í annan, en sveinar hans í hinn. En er heim á að halda gengur vagninn Græðara hvergi, hvernig sem hestarnir eru keyrðir, og eru nú allir í ráðaleysi. Sveinar Græðara segja þá sín á milli: „En hvað við segjum eigi kóngssyni að fá griðunginn hennar Lauphöfðu.“ Tala þeir nú um þetta við hann og þykir honum það vel fallið; segir hann þeim báðum að fara og hvað sem hún biðji um megi þeir veita henni. Þeir fara nú til hennar og bera henni orðsending Græðara. Hún segir að þeim sé nautið heimilt ef hún fái að sitja að baki brúðhjónanna á giftingardegi þeirra. Þeir játa því. Fara þeir nú með griðunginn, og er þeir eru gengnir frá vagninum og kálfi Lauphöfðu hleypur hann með vagninn svo hart að allt ætlar af göflum að ganga, en Áslaug verður hrædd um líf sitt. Svona hleypur hann heim til borgar, slítur þar af sér öll bönd og hleypur svo leið sína.

Líður nú að brúðkaupi þeirra; eru settir fram bekkir og að baki brúðhjónanna lítill bekkur handa Lauphöfðu og karlsdætrum. Lauphöfða var svo búin að hún var í rauðum silkiskrúða með kórónu á höfði og þar utan yfir hefur hún klæði úr næfrum; undruðust allir fegurð hennar og spurðu sín á milli hvaðan hún mundi að vera og kusu allir henni að þjóna. Fara þær nú heim til hallar og eru með fýlu settar á þennan bakbekk. Lauphöfða hafði körfu á handlegg sér og er allt er setzt tekur hún upp úr körfunni hana og hænu og lætur þau að baki Græðara. Er nú allt kátt í höllinni, nema Lauphöfða er mjög áhyggjufull; er nú borðað og fuglunum matur gefinn. En er þeir eru búnir tekur haninn að reyta allt fiður af hænunni þangað til eftir er einungis vængurinn sá hinn hægri. Þá mælti hænan hátt: „Ætlar þú að fara með mig eins og Græðari Græðarason fór með Geirlaugu kóngsdóttur?“ Þetta mælir hænan svo hátt að Græðari verður hryggur við þessi orð og segir: „Ósköp eru til þess að vita að ég skuli svo hafa kvalið Geirlaugu mína sem ég elskaði mest í öllum heimi.“ Þá réttir Geirlaug honum hring með nafni hans í, en um leið stendur hún upp, kastar næfrunum og stendur í hinum fagra skrúða. Verður nú fagnaðarfundur með þeim og biður kóngsson hana fyrirgefningar fyrir hjartasorg þá er hann af óaðgæzlu hafi bakað henni. Segja þau nú gamla kónginum ævisögu sína. En nú skipt um, stígur Geirlaug á brúðarbekkinn og giftist Græðara. en sveinar hans giftast bóndadætrunum. Eru nú öll þessi brúðkaup haldin undireins. En að endaðri veizlunni gefur Græðari Áslaugu erfðaland sitt fyrir gabbið, en hann er með konu sína í hennar erfðaríki og ríktu þau þar til dauðadags. Lýkur svo þessari sögu.