Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Gríshildi góðu (2)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Gríshildi góðu

Kóngur er nefndur Artus; hann ríkti einsamall og eggjuðu ráðgjafar hans hann oftsinnis á að hann skyldi gifta sig, og eyddi hann því allajafna. Hann var ætíð seinn á sér og vildi draga alla hluti sem lengst því hann var ætíð tvísýnn og óafgjörðu[r]. Var hann nú orðinn sextugur að aldri.

Einn dag lét hann söðla handa sér hest sinn og annan með kvenreiðtygjum svo dýrðlegan sem hugsast mátti. Síðan lét [hann] söðla hesta handa tólf sveinum og tólf meyjum og þótti öllum þetta mjög kynlegt því enginn vissi hvert fara skyldi. Kallar hann nú á sveinana og meyjarnar og hugsa þær hver fyrir sig hver mesta fegurð bæri til að brúka fallega hestinn. Og er Artus kom skipaði hann hverri þeirra til síns hests. Teymdi hann nú sjálfur þann fallega. Síkkaði brún meyjanna yfir því að engin þeirra bæri hæfilegleika til að njóta hans. Honum fylgdu þrjátíu hermenn. Reið hann nú svo lengi dags að ekki talaði hann við neinn og enginn þorði á hann að yrða. Kom hann nú að kotbæ einum sem fátækur svínahirðir byggði. Hann átti dóttir þá er Gríshildur hét. Hún átti á daginn að hirða svín föður síns og þann litla kotbæ með öllu því er gjöra þurfti, því faðir hennar lá í kör og móðir hennar var vesöl líka. Fór nú kóngur þar af baki og inn til kallsins og varð hann hræddur við þann höfðingja. Hann biður kónginn að gera ekki sér þá óvirðing að koma þar inn. Kóngur spur að dóttir hans, en kallinn spur hvað hann henni vilji; en hann segir að hún skuli verða sín eiginkona. Tekur kallinn þetta upp fyrir spott, en kerling mælti: „Það er þó virðingarskarnið!“ Kallinn hélt með öllu móti mætti þau spotta fyrir utan slíkt. Sagðist kóngur þá eiga so mikið ráð að hann tæki dóttur þeirra ef hann ætlaði sér, sleit nú þrætu við kalltetrið, og kom nú Gríshildur að í þessu, og tók Artus hana á kné sér og kyssti hana. Varð nú kallinn reiður af þessu öllu. Færir Artus hana í fagran skrúða og fer með hana út. Kallinn æpti með hljóðum og skömmum að hann stæli einka-ellistoð sinni frá sér; og er allt [fólkið] sá nú athæfi kóngsins var fúll svipur yfir allri fylgdinni. Fór nú fram brúðkaup þeirra. Og er þau voru eitt ár ól hún meybarn mikið frítt; og er það lá í reifum í kjöltu hennar kom einn konungsþjón og tók barnið og sýndist henni hann drepa það og burtu fara. Fór so í þrjú skipti að hún ól tvö sveinbörn og sami maður tók öll. Spurði nú Artus þénara sinn hvurnin hún bæri sig við barnamissirinn. Hann sagði í fyrsta sinn hefði hún brugðið litum, orðið eldrjóð við annað, en grátið sárt við það þriðja. Kom nú kóngur til hennar og spurði hvar þrjú börn þeirra væru; en hún féll honum um háls og kyssti fætur hans og sagði að hans bezti þénari hefði fyrir sínum augum myrt þau og burtu farið. Sagði Artus að hún kæmi ekki oftar fyrir sín augu. Fer hún nú til foreldra sinna og sagði hún þeim allt er skeð var. Þá sagði kallinn faðir hennar að sona hefði þetta legið í huga sínum, en móðir hennar var mikið góð við hana.

Liðu nú sextán ár til þess að einn dag gerir Artus ströng boð til Gríshildar að hann í annað sinn ætli að gifta sig einni kóngsdóttur og vilji hann nú endilega að hún þjóni sér og brúður sinni til sængur og komst hún ekki undan þessu. Fer hún nú tötralega búin heim til hallar. Og um kvöldið er þau til sængur gengu vill Artus ekki annað ljós hafa en Gríshildur haldi á litlum stubbi sem rétt sé dauður. Og er hún nú sér brúðarefnið fara upp í og kóngurinn er að komast í rúmið og er mjög stirður segir Artus að ljósið sé að deyja og er sagt að kviknað hafi á gómum hennar og hún hafi þá sagt: „Sárt brenna fingurnir, en sárara brennur hjartað.“ En þá mælti kóngurinn: „Ég er nú að sýna góðlyndi og þolinmæði þína. Þetta er þín og mín eigin dóttir.“ Og so er komið með báða sonu þeirra og verður nú gleði mikil og sagði kóngurinn: „Hvur mundi þetta hafa getað? Og gef ég henni nú það nafn að hún heiti Gríshildur góða.“ Börn þeirra voru alin upp í öðru landi til er hún sá þau attur. Er nú so ekki víðar getið um þau.

Lýkur so þessari sögu.