Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Hans og Bæring

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Hans og Bæring

Einu sinni vóru hjón; ekki er getið um bústað þeirra; þau áttu einn son er Hans hét og þótti þeim ofur vænt um hann. Getur ekki uppvaxtar hans fyrr en hann var tólf ára; þá spyr faðir hans hann einu sinni hvurt hann hafi ekki löngun til að læra neitt að vinna. Hans segir: „Helzt hefði ég gaman af að læra að skjóta“; og lét faðir hans hann fá byssu og skotfæri eftir vild sinni. Gekk hann nú daglega út á skóg með byssu sína, en sjaldan hafði hann neitt í aðra hönd. Þegar hann var á fimmtánda ári var hann þó orðinn góð skytta og kom oftast með eitthvurt kvikindi þegar hann fór á skóg; en undur var hann huglaus og lítill fyrir sér.

Það var einn dag að hann fór lengra á skóginn en hann var vanur; og þegar hann ætlaði að fara að halda heimleiðis heyrir hann ólæti mikil í skóginum hvar við hann verður ofur hræddur; en þó tók það yfir að þetta var milli hans og bæjar foreldra hans. Samt svo hræddur sem hann var kemur honum til hugar að læðast nær og huga að hvað þetta væri; og er hann kemur nær þeim stað er lætin voru sér hann að leystar voru upp eikur og öllum jarðveg umsnúið. Gægist hann nú fram millum eikanna og sér að maður (en þó miklu stærri en hann hafði áður séð) var að glíma við ókind eina. Virðist honum eftir því sem hann hafði heyrt frá sagt að maðurinn muni vera tröllakyns og það fluggammur sem hann er að glíma við. Það sér hann að maðurinn fer halloka fyrir illdýri þessu, og hugsar með sér að það mundi vera ráð að reyna til að bjarga lífi manns þessa þó hann væri stór og voðalegur og óvíst hvursu vel hann launaði hjálpina. Hleður hann nú byssuna og miðar á dýrið; er hann þá svo heppinn að skotið kemur undir væng gammsins og datt hann þegar dauður til jarðar. Fer nú Hans og treður sér inn undir fallinn eikarbol og ætlaði að dyljast þar; en þegar hann var nýkominn þangað kemur maðurinn þar að og segir honum sé óhætt að koma í ljós, því annað ætti hann af sér skilið en að hann gjörði honum illt, – „því þér á ég líf mitt að launa“. Skreiðist nú Hans þó hræddur væri fram undan eikarstofninum, og heilsar aðkomumaður honum og spyr hann að heiti. Hans segir honum það. Þá spyr hinn hvað gamall hann væri; en Hans sagði sem satt var að hann væri fimmtán vetra. „Við erum þá jafngamlir,“ segir aðkomumaður, „því ég er líka fimmtán vetra. Skal ég nú segja þér að ég heiti Bæringur og er sonur risa nokkurs er býr í hellir hér nokkuð frá. Ég fór í dag á skóg til dýraveiða eins og ég var vanur, en þá kom gammurinn að mér og hefði hann orðið minn bani hefðir þú ekki komið og sýnt mér drengilega liðveizlu; en ekki get ég launað þér liðveizluna hér og verður þú að koma með mér heim til föður míns, því ég vona að hann hafi vilja til að þú fengir endurgoldinn drengskap þinn.“ Þorir Hans nú ekki annað en fara með Bæringi þó honum væri það hálfnauðugt. Ganga þeir nú litla stund áður en fór að draga sundur með þeim þó Bæringur væri þrekaður af viðureign gammsins; bíður hann eftir Hans og tekur hann á herðar sér og gengur síðan sem laus þar til hann kemur að hellrinum, þá lætur Bæringur Hans niður og segir: „Þú verður nú að bíða mín hér á meðan ég fer inn að finna föður minn og segi honum frá hérkomu þinni.“ Eftir það fer hann inn; en þegar hann er kominn inn hugsar Hans með sér að nú muni sér vera bezt að forða sér, og með það tekur hann á rás og hleypur ákaflega. Þegar Bæringur kemur út aftur sér hann hvar Hans fer, og tekur til fóta líka; er þess ekki lengi að bíða að hann nær honum og segir að hann skuli nú koma með sér heim aftur og mátti Hans til með að hlýða því. Þegar þeir koma heim að hellirnum segir Bæringur við Hans að hann verði að kveðja risann og lofar Hans því. Fara þeir nú inn; og er Hans sá jötuninn varð hann hræddur af því að sjá stærð hans; þó herðir hann sig sem mest og heilsar honum, en risinn tók vel kveðju hans og þakkar honum fyrir Bæring.

Er nú Hans hjá þeim feðgum um hríð og átti hina beztu daga; fannst honum sér aukast furðanlega orka og áræði. Eitt sinn spyr Bæringur hann að: „Hvað heldur þú að þú sért lengi búinn að vera hér?“ Hans segir: „Hér um bil hálfan mánuð.“ „Þá hefur þér ekki fundizt langt úr verða,“ segir Bæringur, „því þú ert búinn að vera hér í sex vikur.“ Hans segir: „Mikil undur held ég foreldrarnir mínir séu orðnir hræddir um mig.“ Bæringur segir að ekki sé ólíklegt – „að þeim hafi kunnað að finnast tíminn stuttur eins og þér; en á morgun skaltú fara heim og mun faðir minn áður láta þig kjósa þrjá hluti úr eigu sinni þá er þú helzt vilt, og skaltu kjósa sverðið sem er við fótagafl föður míns, hornið er hangir yfir rúmi hans og rauðskjóttan hest sem er á hurðarbaki í hesthúsinu, og mundu mig um það að taka hann heldur en aðra þó þeir sýnist máske fallegri.“ Líður nú þar til morguninn eftir; þá segir risinn við Hans: „Nú er þér held ég orðið mál að fara heim til foreldra þinna og máttu nú kjósa þrjá hluti úr eigu minni hvurja sem þú vilt.“ Hans segir: „Þá kýs ég fyrst sverðið sem er við fótagafl þinn og veiðihornið er hangir yfir rúmi þínu.“ Risinn segir: „Sverðið er hið bezta vopn og nemur aldrei í höggi staðar hvað sem fyrir er; en horninu fylgir sú náttúra að ef blásið er í mjórri enda þess þá safnast að manni alslags dýr og fuglar svo maður getur drepið og fangað af því eftir vild sinni; en ef blásið er í hinn endann þá fer það allt í burtu aftur. Njóttu nú þessara hluta eins og þú hefur til þeirra unnið; en nú skulum við koma í hesthúsið mitt.“ Og er þeir komu þangað sér Hans að húsið er fullt af brúnskjóttum hestum sem vóru spikaðir og eftir því fjörlegir; en á hurðarbaki sér Hans að er rauðskjóttur klár, hormagur og svo ljótur í hárbragði að Hans hreint hnykkti við; líka hengdi hann hausinn niður í gólf. Hans ætlaði að fara að kjósa einhvern brúnskjótta hestinn, en í því kippti Bæringur í hann, því hann stóð á baki hans; við það rankaði hann við hvað Bæringur hafði áður sagt um klárinn og segir við risann að hann kjósi rauðskjótta klárinn þann arna. Þá segir risinn: „Þar hefur þú ekki verið einráður og hefur sonur minn sagt þér þetta. Verður nú svo að vera; en þó vildi ég hann sízt láta af öllum mínum hestum.“ Þakkar Hans nú risanum með mörgum fögrum orðum þessa hluti og kveður hann síðan.

Fara þeir nú af stað Hans og Bæringur, og er þeir komu þar sem þeir fundust í fyrstu tók Bæringur svo til máls: „Hér munum við nú skilja að sinni, því nú ratar þú heim til foreldra þinna. Ekki skalt þú kæra um að segja hvar þú hefur verið þenna tíma; þér er bezt að farga ekki hlutum þessum er faðir minn gaf þér; allra sízt hestinum þó hann sé ljótur. Farðu nú alla daga vel, og ef þér liggur á þá máttu nefna nafn mitt ef þú vilt.“ Eftir það skilja þeir og fer Hans heim til foreldra sinna og urðu þau honum alls hugar fegin, því þau hugðu hann fyrir löngu dauðan.

Fyrir þessu landi réði kóngur og drottning og áttu sér dóttur eina barna; hún var hinn bezti kvenkostur. Þegar Hans var skamma stund búinn að vera heima eirði hann því ekki lengur og fór til konungs og bauð honum þjónustu sína. Kóngur spyr hvað honum sé hentast að vinna. Hans segist vera veiðimaður. Kóngur sagði sér kæmi það vel, því það væri ekki nema fjórir veiðimenn í hirð sinni. Eftir það fær hann hús handa hesti sínum og er hann nú á dýraveiðum með hinum veiðimönnunum. Sáu þeir það brátt að hann veiddi miklu meira en þeir og fengu því öfundarhug á honum. Tóku þeir það til bragðs að þeir sögðu kóngi að Hans væri enginn veiðimaður, en stæli frá þeim af þeirra afla. Kóngur kvaðst ei trúa því og sagði það væri bezt að Hans væri einn sér og sjá þá hvurnig færi. Var nú svo gjört að Hans fór einn, en þeir í öðru lagi. Tekur hann þá upp hornið risanaut og blés í mjórri enda þess; þyrptist þá að honum ótölulegur fjöldi af dýrum og fuglum og stóð sem bundið væri. Hjó hann nú niður það honum sýndist, en blés hinu burt aftur þegar hann þóttist vera búinn að fá nóg. Dró hann saman í bunka veiðina og sagði kóngi að láta flytja heim; var það miklu meira en hinir fengu allir saman. Sá nú kóngur að Hans var miklu meiri veiðimaður en hann hafði ímyndað sér. Fengu hinir veiðimennirnir ekki nema sneypu fyrir róg sinn; en Hans fór á skóg daglega með sama hætti, og liðu svo fram stundir.

Einn dag fór drottning og meyjar hennar á skóg að skemmta sér; reið drottning rauðum gæðing er hún átti. Kom þá þoka svo svört að þær villtust hvur frá annarri og misstu þær sjónar á drottningu. Þegar birti smátíndust allar meyjarnar heim nema drottning, hún sást ekki og ekki heldur Rauður. Var nú safnað mönnum og farið að leita; gekk það í marga daga að leitað var fjær og nær um byggðir og óbyggðir og fannst drottning ekki að heldur; var svo leitinni hætt. Gjörir nú kóngur heyrum kunnugt að hvurjum þeim er færi sér drottningu skuli hann gifta dóttur sína og gefa honum ríkið með; en enginn treystist til að vinna til meyjarinnar og þótti það mörgum þó fýsilegt.

Einn tíma fara veiðimennirnir að tala um hvarf drottningar við Hans og hvað fýsilegt væri að reyna að leita hennar. Þá segir hann: „Ekki trúi ég því að ekki sé hægt að vita hvar drottning er, hvurt sem hægt er að ná henni.“ Þeir sögðu kóngi þetta og sögðu að hann hefði sagzt geta fundið drottningu. Lét þá kóngur sækja Hans og spyr hvurt hann hafi sagzt geta fundið drottningu. „Nei,“ segir Hans, „það hef ég ekki sagt; en það sagði ég að hægt mundi að vita hvar drottning er.“ Kóngur segir: „Þar þú hefur þanneg talað skaltu nú fara að leita hennar og ekki koma fyrir mín augu fyrr en þú hefur hana með þér, enda skaltu þá fá það sem ég hef öðrum heitið.“ Nú sá Hans ekki fært að mótmæla þessu; fer hann nú frá kóngi og er í þungu skapi. Verður honum reikað í hús það er Skjóni hans var í og ætlar hann nú að fara að klappa honum eins og hann var vanur, því honum þókti vænt um klárinn þó hann ljótur væri; en nú brá svo undarlega við að Skjóni barði og beit á báðar síður svo Hans þorði hvergi nær að koma. Þó varð það um síðir að klártetrið spektist korn svo Hans gat komið til hans. En þá brá enn meir út af því er fyrr hafði að borið, því nú fór Skjóni að tala og segir svo: „Ef þú ætlar þér að fara að leita að drottningu þarftu víst annað en gana fram eins og ráðlaus rusti. Nú skaltu fara til kóngs og heimta af honum tuttugu hrossakjötsvættir, tíu öldungshúðir, nesti handa þér til þriggja mánaða og hesta vel járnaða til að bera þetta. Þetta skal hann hafa til að þriggja nátta fresti.“

Nú fer Hans til kóngs og segir: „Ef þú vilt að ég fari að leita að drottningu þinni þá skaltu nokkuð til vinna.“ Síðan nefndi hann allt það sem áður er talið og sagði það skyldi allt til reiðu að þriggja nátta fresti og sagði kóngur að svo skyldi vera; og þegar allt var tilbúið fer Hans af stað með allan þennan útbúnað og Skjóni með honum og réði hann ferðinni. Þegar þeir voru búnir að halda áfram nokkuð lengi þá var það eitt kvöld er þeir vóru að búast um til nátthvíldar að Skjóni segir: „Nú verður á morgun alheiður himinn, en ef svo kann til að bera að þú sjáir nokkuð á loftinu er þér þyki breytilegt þá taktu ofan tíu hrossakjötsvættir og snaraðu þeim á veginn og farðu síðan sem hvatlegast það eftir er dags“ Um morguninn var – eins og Skjóni sagði – skafheiðríkt; en þegar kom fram á miðjan dag sá Hans svartan skýflóka í þeirri átt er þeir komu úr og nálgaðist þá með miklum hraða, og er Hans sá þetta fór hann að eins og Skjóni hafði ráðlagt og hélt síðan áfram.

Er nú ekki meir sagt af ferð þeirra fyrr en eitt kvöld þegar þeir vóru búnir að vera á ferð næstum þrjá mánuði, þá segir Skjóni: „Á morgun komum við á sléttar grundir og þar verður fyrir okkur Rauður drottningar; er hann orðinn trylltur og sækist eftir að drepa mig.“ Síðan lagði hann Hans ráð til hvursu hann skyldi að fara. Daginn eftir er þeir koma á grundirnar sér Hans að rauður hestur kemur og stefnir á þá; og er Hans sá það gjörir hann með sverðinu djúpa gröf og lætur Skjóna þar ofan í og breiðir svo húðirnar þar ofan yfir. Stóðst það á að Hans var búinn að þessu og Rauður var kominn til þeirra. Hann hafði vitneskju af hvar Skjóni var, og til að komast til hans hljóp hann á húðirnar og datt ofan í gröfina, en þá hljóp Hans til og beizlaði hann, því Skjóni hafði sagt að þá yrði hann almennilegur ef beizli yrði á hann komið. Eftir þetta gjörði Hans trappir upp úr gröfinni og leiddi þar upp bæði Skjóna og Rauð. Um morguninn eftir halda þeir áfram ferð sinni; og þegar komið var undir kvöld segir Skjóni: „Nú er ekki nema lítill kippur heim að hellirnum þar sem risinn er sem hefur stolið drottningunni og ætlar hann að giftast henni hvurt sem hún vill eður ekki; er hann nú að bjóða og kemur heim í kvöld ellegar er nýkominn. Honum fylgja ætíð tíu ljón hvurt sem hann fer, en þegar hann er heima liggja sín fimm hvurumegin hellisdyra, og er þá ekki heiglum hent að komast í hellirinn. Farðu nú heim og horfðu eftir hvurt þú sérð ekkert við dyrnar.“ Hans gjörir nú svo og sér ekkert við dyrnar; fer hann aftur til Skjóna og segir honum þetta. Skjóni segir: „Þá er risinn ekki enn heim kominn; skaltu nú fara með þær tíu hrossakjötsvættir sem eftir eru og láta sínar fimm hvurumegin við hellisdyrnar svo sem minnst beri á.“ Síðan gjörði Hans þetta og er það var búið fer hann og finnur Skjóna. Bíða þeir nú þar til myrkt er orðið og sagði Skjóni honum hvurnig að öllu skyldi fara og verður þess síðar getið.

Þegar orðið var dimmt fer Hans heim að hellirnum og hafði með sér sverðið risanaut, en Skjóni var eftir hjá farangrinum. Þegar Hans kemur heim að hellirsdyrunum sér hann að ljónin eru heim komin og dorma mjög fast, en uppétið að mestu kjötið. Bregður hann nú sverði og drepur þar hvurt af öðru og varð honum lítið fyrir því. Eftir það gengur hann inn í hellirinn og hleður garð úr grjóti um þver göngin svo rambyggilegan sem unnt var og var nú eins og hann hamaðist. Þegar garðurinn var orðinn nokkuð hár tók hann sverðið og gekk frá hjöltunum niðrí garðinum og skorðaði sem fastast, en lét oddinn standa upp. Eftir það fer hann að gjöra hark mikið og hávaða fyrir framan garðinn, en hafði haft hljótt um sig þangað til. Manar hann nú jötuninn og talar honum til margt hæðilegt. Verður hann nú þess var að jötunninn vaknar og lætur þess ver. Kallar nú risinn og skipar honum að skammast í burtu og hótar honum öllu hörðu; en Hans lætur því verr og manar hann að koma ef hann sé ekki ragur; linnir hann ekki látum fyrr en að risinn er kominn á fætur og brýzt nú fram með mikilli reiði. Færði Hans sig nú frá garðinum, en lét þó alltaf bituryrði dynja um risann. Verður hann þá svo ær og örvita að hann brýzt á garðinn, en gáir ekki að sverðinu; lenti það, þegar hann slengdi sér áfram til að brjótast yfir garðinn, í kvið honum svo oddurinn stóð út um bakið. Rak hann þá upp öskur ógurlegt og brauzt um svo gríðarlega að veggurinn féll að grunni þó hann ramgjör væri og lét hann þar líf sitt með illum látum. Eftir það fær Hans sér eld og brennir hann til ösku, gengur síðan og leitar hvurt ekki sé fleira manna í hellrinum. Kemur hann nú þar að sem hurð er greypt í bergið og klappar upp á, en þar kom ekkert svar. Tekur Hans þá stein og kastar á hurðina svo hún fer í smámola, og sér þá Hans að drottningin liggur í óviti á gólfinu. Dreypir hann víni á hana svo hún hressist við og þekkti Hans. Biður hún hann að forða sér það fljótasta í burtu, „því nóg er ég búin að fá af undrum þeim er hér hafa gengið á í nótt þó ekki bætist það ofan á að þú verðir drepinn fyrir augum mínum.“ Hans segir hún þurfi valla að kvíða því að risinn gjöri ei það eða annað hér eftir – „því hann er dauður og brunninn til kaldra kola.“ Síðan segir hann drottningu allt um ferðir sínar og hvurnig á því stóð að hann fór þessa ferð og svo til hvurs væri að vinna.

Eftir það búa þau sig burt úr hellirnum og tók Hans með sér það er fémætt var. Að morgni tóku þau sig upp með alla lestina og héldu heimleiðis það allra hraðasta. Getur ekki um ferðir þeirra fyrr en þau komu þar sem Hans skildi eftir hrossakjötsvættirnar. Sjá þau þá að þar liggja tíu flugdrekar dauðir. Sagði Skjóni að risinn hefði sent þá til að drepa Hans með fylgd sinni, en þeir hefðu lent í kjötinu og sprengt sig á því. Eftir það halda þau enn áfram þar til þau voru komin á skóginn skammt frá aðsetursstað kóngsins, manns drottningar. Vóru þau þá svo yfirkomin af þreytu að þeim kom það ásamt að taka sér góða hvíld áður en þau kæmu heim til borgar. Setjast þau nú niður og taka farangur af hestum sínum. Segir þá Skjóni við Hans: „Ef þér hefur þótt ég nokkurn greiða gjöra þér í þessari ferð þá bið ég þig að gjöra nú eina bón mína sem er að höggva af mér höfuð og fætur og leggja hvurtveggja ofan á skrokkinn.“ Það segist Hans ekki geta fengið af sér að launa svo gott með illu. Skjóni sagði hann gæti ekki launað sér betur með öðru móti. Hleypir nú Hans í sig bræði, tekur sverðið risanaut og heggur af Skjóna bæði höfuð og fætur og leggur ofan á skrokkinn. Leggjast þau síðan til svefns; og þegar þau höfðu litla stund sofið vaknar Hans við þrusk nokkurt og litast um; sér hann þá að þar sem Skjóni átti að vera liggur fríður og fallegur kóngsson, en hestshamurinn í öðru lagi. Hann brennir haminn, en dreypir á kóngssoninn, og þegar hann raknar við þakkar hann Hans með mörgum fögrum orðum hjálpina; en Hans sagði hann mundi hafa verið búinn að vinna til þess. Spyr hann nú hvurra manna hann sé. „Ég er,“ segir hann, „kóngsson; en þegar ég var orðinn fullorðinn dó móðir mín; giftist svo faðir minn aftur ókenndri konu sem í rauninni var hin argasta flagðkona þó engan grunaði það. Þegar hún var komin fyrir nokkru þóttist hún hafa elsku til mín og vildi fá mig til fylgilags, en mér var það ekki að skapi. Reiddist hún þá og lagði á mig að ég skyldi verða að þessum ljóta og leiðinlega hesti og hverfa til risans sem ég var hjá, en það er bróðir hennar, en henni þó í mörgu ólíkur. Ætlaðist hún til að hann skyldi hafa mig hjá sér og því var honum nauðugt að láta mig til þín, en Bæringur vildi ætíð losa mig úr álögunum og því sagði hann þér að kjósa mig. Hún sagði ég skyldi ekki komast úr álögunum nema með því móti að einhvur yrði til að ágirnast mig frekar en aðra hesta risans, er henni þótti ólíklegt; og síðan er ég hefði veitt honum lið eins og ég nú hefi þér veitt, að hann vildi höggva af mér höfuð og fætur, og er nú þetta allt fram komið. Verð ég nú að fara heim til ríkis míns hið allra fljótasta þó mér þyki fyrir því að skilja við þig.“ Eftir það gaf Hans honum bezta hestinn af þeim er vóru í förinni. Kvöddust þeir síðan með miklum virktum og mæltu til vináttu með sér og bað hvur vel fyrir öðrum.

Þegar þeir voru skildir leggst Hans til svefns og vaknar ekki fyrr en hann er hnepptur í fjötur og drottning líka. Þekkir hann þá að þetta er stallbræður hans veiðimennirnir er veittu þeim þessar köldu kveðjur, og höfðu þeir komið þarna að þeim sofandi. Er nú ekki að orðlengja að þeir fara með allan farangurinn og þau í böndum tafarlaust heim til borgar og fara með þau fyrir kóng heldur en ekki hróðugir í huga og taka þanneg til máls: „Það var ekki furða þó að Hans þæktist geta fundið drottninguna, því hann hefur stolið henni sjálfur í fyrstu og hefur verið með hana hér í skóginum, og þar hittum við þau í morgun. Getið þér nú séð af þessu hvað Hans er trúr.“ Nú er kóngur heyrði þetta varð hann hinn reiðasti og skipaði að setja Hans og drottningu í fangelsi, sitt í hvuru lagi. Mátti einu gilda þó að þau afsökuðu sig, þá var þeim ekki trúað til neins. Líður nú þar til kom sá dagur að kóngur kvað dóm upp yfir þeim og dæmdi hann að drottningin skyldi sitja í ævilöngu varðhaldi, en Hans hengjast á hæsta gálga og skyldi þegar fullnægja dóminum. Var nú reistur gálgi skammt frá borginni og var böðullinn þar, en tveir menn leiddu Hans til aftökustaðarins; stóð kóngur og fjöldi fólks að horfa á þetta. Þegar Hans er nú kominn að aftökustaðnum hugsar hann með sér: „Aldrei held ég mér liggi meir á að Bæringur minn veiti mér lið en nú.“ Sér hann í þessu hvar maður kemur harla stórvaxinn og fer hart. Þekkir hann þar vin sinn Bæring og hafði hann vaxið mikið frá því þeir sáust síðast. Hann gengur að þeim sem leiddu Hans og slær með sinni hendi til hvurs þeirra svo þeir komu fjærri niður og varð það þeirra bani; síðan tók hann böðulinn og kastaði honum yfir gálgann og kom hann niður á höfuðið og hálsbrotnaði. Síðan tók hann Hans í fang sér og minntist við hann, en segir við kóng að „sömu leiðina og þessir þrír eru farnir skulu allir þeir fara sem vilja gjöra Hans eitthvað til meins, enda hefur hann ekki unnið til þess þar sem hann sókti drottningu þína í tröllahendur og lagði líf sitt í hættu til þess.“ Segir nú Bæringur allt sem farið hafði frá upphafi til enda og eins um róg og svik veiðimannanna við Hans. Þykir nú kóngi skipta í tvö horn við það er honum hafði verið flutt áður, en veit ekki hvurju trúa skal. Lætur hann nú taka veiðimennina fasta og krefja þá til sagna. Sögðu þeir þá allt um öfund sína við Hans frá því fyrsta; og er kóngur heyrði það lætur hann hengja þá á þann gálga er Hans var ætlaður; en Hans og Bæringur voru leiddir til hallar með hinni mestu virðingu. Lét nú kóngur líka sækja drottninguna í fangelsið og bað hana fyrirgefa sér að sér hefði svo óviturlega tekizt fyrir illra manna fortölur.

Reis nú upp hin dýrðlegasta veizla; og að henni endaðri var Bæringur með hinum sæmilegustu gjöfum út leiddur og voru þeir hinir mestu vinir alla ævi Hans og Bæringur og skiptust gjöfum á; en Hans lét sækja foreldra sína og varð það hinn mesti fagnaðarfundur er þau komu til hans. Lætur nú kóngur mennta Hans, gifti honum síðan dóttur sína og gaf honum hálft ríkið meðan hann lifði, en allt eftir sinn dag. Unntist það allt bæði vel og lengi. – Og lýkur hér með þessari sögu. Endir.