Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Helgu kóngsdóttur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Helgu kóngsdóttur

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttur sem Helga hét; hún var kvenna vænst og fríð sýnum. Konungur lét byggja henni skemmu og fékk henni tvær þernur er hétu Ey og Þey. – Einhverju sinni vóru kóngsmenn niður á strönd og fundu þar dálitinn stokk og var í honum reifarstrangi. Báru þeir stokkinn heim og sýndu konungi. Hann tók barnið upp og var það fríður sveinn. Miði lá og í stokknum og var á ritað að hver sem fyndi var beðinn að skíra sveininn Tristran. Konungur lét svo gjöra og fékk sveininum fóstru og elskaði sem sinn eiginn son; vóx hann þar upp og var hinn mannvænlegasti og elskuðust þau Helga konungsdóttir.

Drottning var hnigin á efri aldur og einhverju sinni tekur hún sótt og lætur hún þá kalla á Helgu dóttur sína og gefur henni belti og skæri og biður hana að skilja þetta aldrei við sig, kveður hana síðan og segir að þær muni ekki sjást þaðan af. Síðan andast drottning og harmaði konungur hana mjög. Menn hans hvöttu hann þá að leita sér nýs kvonfangs og lét hann það eftir þeim. Létu þeir þá frá landi og sigldu út í haf. En er þeir voru komnir úr landa sýn kom á þá fjarska stormur og fóru þeir svo í tvo daga að þeir ekki vissu til leiðar; en að því kvöldi komu þeir að landi einu og gengu upp. Heyrðu þeir þar fagran hörpuslátt í skóginum og gengu þangað; sáu þeir þar sitja fagra konu á gullstóli og ung stúlka sló fyrir henni hörpuna. Þeir heilsuðu hinni fögru konu og spurðu hvernig á henni stæði. Hún kvaðst vera drottning, en hafa orðið að flýja land fyrir víkingum sem drepið hafi konung sinn, en það væri dóttir sín sem með sér væri og héti Sólsvört. Þeir spurðu hvort hún ekki vildi fara með sér og hugga konung sinn sem sæti í sorgum eftir drottningu sína. Hún kvaðst það heldur vilja en sitja í óbyggðum, en ekki mættu þeir neitt láta vita um dóttur sína. Héldu þeir svo heim; en er konungur leit drottningu fékk hann strax ástarhug til hennar og gerði til hennar brullaup.

Nokkru síðar fer konungur að heimta skatta af löndum sínum og biður hann þá drottningu að skemmta Helgu dóttur sinni á meðan. Og er konungur er í burtu kominn gengur drottning í skemmu Helgu og býður henni að koma út á skóg að skemmta sér með þernum sínum. Helga þáði það. Gengu þær svo um hríð þangað til þær komu að gröf einni mjög djúpri; þar hrindir drottning Helgu ofan í og þernum hennar með, Ey og Þey. Eftir það gengur hún heim og lætur Sólsvört dóttur sína taka yfirlit Helgu og setjast í skemmu hennar.

Þær Helga sátu í gröfinni og sáu engan veg til að komast upp og loks dóu þær Ey og Þey af hungri, en Helga kenndi eigi svengdar vegna beltisins góða. Loksins minntist hún þess að hún hafði skærin á sér og tók hún að bora sér með þeim spor upp úr gryfjunni og tókst henni loksins að komast upp þannig, en þar missti hún af skærunum. Síðan gengur hún lengi lengi þangað til hún kom að kotbæ einum. Þar bað hún gistingar og fékk hana. Ílengdist hún þar og vann með karlinum, og loks kom þar að hún sagði honum hver hún væri, en bað hann fara hljótt með. Liðu nú stundir fram þangað til það fréttist í kotið að Tristran ætlaði að fara að giftast Helgu konungsdóttur. Bað hún þá karl að koma sér heim í kóngsríki svo lítið á bæri. Karlinn gjörði það og komst hún í eldhúsið kvöldinu áður en veizlan átti að standa. Þar hírðist hún um nóttina. Um morguninn var hún á felli með eldakonum. Þá kom brúðurin þar og spurði eldakonur hvort þær vissu engan kvenmann sér líkan að yfirlitum því svo stæði illa á að hún væri ólétt orðin og ætti nú í dag að fæða barnið; en þar hún ekki hefði viljað fresta brúðkaupsdeginum yrði hún nú að fá annan kvenmann til að setjast fyrir sig á brúðarbekkinn. Eldakonur sögðu að þar væri aðkomukvenmaður sem ekki væri óáþekk henni, og mundi mega fá hana til þessa. Helga lét til þessa leiðast og var hún nú færð í brúðarskartið og leidd til Tristrans.

Þá var genginn brúðargangur, en brúðurin setti það upp að hún mætti leiða brúðgumann á undan og ráða ferðinni. Gengur hún þá fyrst fram hjá skemmudyrum sínum og segir: „Ljót ertu orðin, skemma mín; áður varstu hvít á fold, en nú ertu orðin svört sem mold.“ Síðan gekk hún að læk einum og segir: „Manstu eigi, Tristran, er við trúlofuðustum við þennan læk og ég gaf þér hringinn, en þú mér skóinn?“ Síðan gekk hún til gryfjunnar og segir:

„Hér liggur Ey og Þey,
báðar mínar skemmumey;
eftir skildi ég skærin hjá,
gekk þeim báðum dauðum frá.“

Síðan gengu þau heim. Hafði þá Sólsvört alið barn sitt og kastað fyrir hamra og tók á sig brúðarskartið.

Um kvöldið er brúðhjónin fóru að hátta spurði Tristran brúðrina hvað hún hefði meint með orðum þeim er hún í dag hefði talað við skemmuna, lækinn og gryfjuna. Brúðurin svaraði ekki, en setti blóðrauða og síðan hljóp hún fram í eldhús og ræðst að Helgu og kveður hana hafa talað óþarfa orð. Tristran var þar kominn á hælana á henni og vildi skakka leikinn. En brúðrinni varð þá svo við að hún brást í flagðkonu líki og var þar þá drottningin móðir hennar komin í sömu mynd. Réðust þær báðar að Helgu. En karlinn var þar þá og kominn og með tilstyrk Tristrans fengu þeir báðum flögðunum komið úr hálsliðnum og voru þær brenndar. Helga sagði þá Tristrani frá öllu hinu sanna og átti hann hana. Konungur gaf honum allt ríkið eftir sig og stjórnaði hann því vel og lengi.