Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Hermóði og Háðvöru

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Hermóði og Háðvöru

Það var einu sinni konungur og drottning í ríki sínu; þau áttu eina dóttir er Háðvör hét. Hún var mjög fríð og fögur mær og þar eð konungur og drottning áttu ekki fleiri börn þá var hún borin til ríkis. Kóngur og drottning áttu líka uppeldisson er nefndist Hermóður. Hann var hér um bil jafnaldri Háðvarar, fríður sveinn og vel að sér gjör um alla hluti. Hermóður og Háðvör léku sér tíðum saman meðan þau voru í æsku og kom mjög vel saman svo þau þegar á unga aldri hétu hvert öðru tryggðum heimuglega.

Nú liðu fram stundir þangað til drottning tekur sótt, og þegar hún fékk hugmynd um það að það mundi verða sótt til dauða gjörir hún boð eftir konungi. Þegar hann kemur segir hún að hún muni skammt eiga eftir ólifað og kveðst ætla að biðja hann einnar bónar, og hún sé sú að ef hann gifti sig í annað sinn þá gjöri hann það fyrir sín orð að eiga enga aðra en drottninguna af Hetlandi góða. Konungur lofar þessu og svo deyr drottingin.

En er fram liðu stundir fer konungi að leiðast einlífið, býr skip sitt og leggur í haf. Á ferð þessari kemur mikil þoka yfir hann og kemst því í hafvillur. Eftir langa mæðu hittir hann land og leggur þar að skipi sínu og gengur einn á land. Þegar hann hafði gengið nokkra stund verður fyrir honum skógur; fer hann lítið eitt inn í hann og staðnæmist þar. Heyrir hann þá fagran hljóðfærasöng og gengur á hljóðið þangað til hann er kominn að rjóðri einu; sér hann þá hvar þrjár konur eru í rjóðrinu; situr ein þeirra á gullstól og í ljómandi fögrum búningi; heldur hún á hörpu og er augljóslega sorgbitin. Önnur var mjög tíguglega búin, en unglegri að sjá og sat hún einnig á stóli sem þó var ekki eins kostulegur. Sú þriðja stóð hjá þessum; var hún rétt hreinleg á að líta, en í grænum möttli var hún yztum fata og var það auðséð á öllu að hún var þerna hinna. Konungur gengur til þeirra þegar hann hafði litla stund virt þær fyrir sér og heilsar þeim. Sú sem sat á gullstólnum spyr kónginn hver hann sé og hvað hann ætli að ferðast. Segir hann að hann sé konungur og sé búinn að missa drottningu sína, en hann hafi ætlað að sigla til Hetlands hins góða og biðja þar drottningar sér til handa. Hún segir þá að forlögin hafi hagað þessu furðanlega; það hafi verið herjað á Hetland, víkingarnir hafi fellt konung sinn og bónda í orustu og þá hafi hún hrygg í huga stokkið úr landi og eftir langa mæðu hafi hún komizt hingað, svo hún sé einmitt sú er hann leiti að, en með sér sé dóttir hennar og þerna. Konungur lætur þá ekki bið á verða og biður hennar. Tekur hún blíðlega máli hans, verður glöð í bragði og játast honum strax í stað. Eftir stutta dvöl leggja þau öll á stað og nema ekki staðar fyrri en þau koma til skipsins.

Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en konungur kemur heim í ríki sitt; stofnar hann þá mikla veizlu og gengur að eiga konu þá er hann hafði flutt heim með sér. Er nú allt kyrrt um hríð, en samt gefa Hermóður og Háðvör sig lítið að drottningu eða þeim mæðgum; en þar á móti var Háðvör og sú aðkomna þerna drottningar sem hét Ölöf mjög samrýndar, og kom Ólöf oft í kastala Háðvarar.

Áður langir tímar liðu fer konungur í hernað, og þegar hann eru burtu farinn kemur drottning að máli við Hermóð og segir honum að hún hafi svo til ætlazt að hann gengi að eiga dóttur sína. Hermóður segir henni hreint og beint að það muni ekki geta látið sig gjöra. Af þessu verður drottning reið, segir að þau muni ei strax fá að njótast, Hermóður og Háðvör, því nú leggi hún það á hann að hann skuli fara út í eyðieyju, verða ljón á daginn, en maður á nóttum svo hann muni einlægt til Háðvarar og kveljist því meira, og úr þessum álögum skuli hann ekki komast fyrri en Háðvör brenni ljónshaminn sem seint muni verða. Þegar hún hefur þetta mælt segir Hermóður að hann mæli svo um að þegar hann komist úr sínum álögum þá skuli þær mæðgur verða önnur að rottu, en önnur að mús, og verða að rífast í höllinni þangað til hann drepi þær með sverði sínu. Eftir þetta hverfur Hermóður og veit enginn hvað um hann er orðið. Drottning lætur leita að honum, en hann finnst hvergi.

Einhverju sinni þegar Ólöf var í kastalanum hjá Háðvöru spyr hún kóngsdóttir hvert hún viti hvar Hermóður sé niður kominn. Við þessi orð verður Háðvör hrygg og segir að því sé miður að hún viti það ekki. Ólöf kveðst þá skuli segja henni það þar hún viti allt um það. Hún segir að hann sé burtu farinn fyrir tilstilli drottningar, hún sé tröllskessa og einnig dóttir hennar, en hún hafi þannig breytt útliti þeirra mæðgna og þegar Hermóður eftir burtför konungsins hafi ekki viljað fara að ráðum drottningar að eiga dóttir hennar hafi hún lagt á hann að hann skyldi fara út í eyju eina, verða maður á næturnar, en ljón á daginn og ekki komast úr þeim álögum fyrri en Háðvör brenndi ljónshaminn. Nú segir hún að Háðvöru sé líka fyrirhugaður ráðahagur, drottning eigi bróðir í undirheimum, þríhöfðaðan þursa; sé áformið að gjöra hann að fögrum kóngssyni og láta hann síðan eiga hana. Segir Ólöf að drottning finni þannig upp á einum brögðunum á fætur öðrum, hún hafi numið sig burt úr húsi foreldra sinna og neytt sig til að þjóna sér, en hún hafi aldrei getað gjört sér mein því að græni möttullinn sem hún hafi yfir sér komi því til leiðar að hana saki ekki þó eitthvað ætti að gjöra henni. Háðvör verður nú áhyggjufull og hrygg út af þeirri fyrirhuguðu giftingu hennar og biður Ólöfu fyrir alla muni að leggja sér nú góð ráð. Ólöf segist gjöra ráð fyrir að biðillinn muni koma upp um kastalagólfið hjá henni, en þá skuli hún vera viðbúin þegar undirgangurinn fari að koma og gólfið taki að springa í sundur, að hafa við hendina logandi stálbik og hella ótæpt ofan í sprungurnar því það muni vinna á honum.

Um þetta leyti kemur kóngur heim úr stríði sínu, þykir mjög sárt að verða að þola það að vita ekki hvað af Hermóði er orðið. En drottning huggar hann sem bezt hún getur og er nú ei annars getið en konungur yrði rólegur.

Nú víkur aftur sögunni til Háðvarar að hún er í kastala sínum og hefur nú viðbúnað að taka móti biðli sínum. Ekki löngu síðar er það eina nótt að mikill undirgangur og skruðningur kemur undir kastalann; veit Háðvör hvað valda muni og biður þjónustumeyjar sínar að vera viðbúnar. Skruðningurinn og dynkirnir fara einlægt vaxandi þangað til gólfið fer að springa; þá lætur Háðvör taka bikkatlana og hella óspart í sprungurnar. Fara þá dunurnar smátt og smátt að minnka og verða loksins engar. Næsta morgun vaknar drottning snemma og kveðst þurfa að fara á fætur og lætur kóngur það eftir henni. En sem hún er komin á fætur fer hún út fyrir borgarhliðið og er þar þá dauður þursinn bróðir hennar. Þá segir hún: „Mæli ég um og legg ég á að þú verðir að hinum fríðasta kóngssyni og að Háðvör geti ekki neitt haft á móti þeim ásökunum sem ég gef henni.“ Verður nú lík þursans að líki hins fríðasta kóngssonar. Síðan heldur drottning heim aftur og kemur að máli við konung, segir að ekki þyki sér dóttir hans vera það góðkvendi sem vera bæri. Segir hún að bróðir sinn hafi komið og farið að biðja hennar, en hún sé nú búin að drepa hann og hafi hún orðið þess vör að lík hans lægi fyrir utan borgina. Konungur og drottning ganga nú út til að skoða líkið. Þykir konungi þetta vera mikil furða og kveðst halda að svo fagur sveinn sem þessi hafi verið fullboðinn Háðvöru og að hann mundi hafa samþykkt þvílíka giftingu. Drottning biður nú kónginn að lofa sér að ráða hverja hegningu Háðvör skyldi fá og er konungur fús til þess því hann kveðst ekki geta ákveðið straff dóttur sinnar. Leggur drottning svo ráðin á að hann láti búa haug mikinn að bróður sínum og verði Háðvör látin lifandi í hauginn til hans. Þykir konungi þetta óskaráð og hæfilegur dómsúrskurður. Eftir þetta fara þau heim í borgina.

Nú víkur sögunni til Ólafar; hún vissi alla þessa ráðagjörð, fer til kastala kóngsdóttur og segir henni hvað í ráði sé. Biður Háðvör hana að leggja sér einhver ráð. Ólöf segir að það sé það fyrsta sem hún skuli gjöra að hún skuli láta búa sér til mjög víðan stakk sem hún skuli hafa yztan fata þegar hún gangi í hauginn. Þursinn segir hún að muni ganga aftur þegar þau séu komin í hauginn, og þar muni hann hafa tvo hunda hjá sér; þursinn muni biðja hana að skera stykki úr kálfunum á sér til að gefa hundunum, en þetta skuli hún ekki lofa að gjöra nema hann segi henni hvar Hermóður se niður kominn og kenni sér ráð til þess að geta fundið hann. En þegar hún ætli að fara og þursinn láti hana fara upp á herðar sér til þess hún komist upp úr haugnum þá muni hann reyna til að svíkja hana og grípa í stakkinn til þess að kippa henni ofan í aftur en þá skuli hún gæta þess að láta stakkinn vera lausan svo hann haldi eftir einungis stakknum.

Nú er haugurinn tilbúinn, þursinn lagður í hann eða sá dauði konungssonur, og Háðvör hlýtur að fara líka í hauginn án þess að geta komið nokkurri vörn fyrir sig. Það þarf ekki að fjölyrða það að svo fór sem Ólöf gjörði ráð fyrir, kóngssonur gengur aftur og verður þursi; tveir hundar eru hjá honum og hann biður Háðvöru að skera bita úr kálfum sínum handa þeim; en hún kveðst ei muni gjöra það nema hann segi sér hvar Hermóður sé og leggi sér ráð til þess að geta komizt til hans. Þursinn segir að Hermóður sé í eyðieyju einni sem hann til tekur, en þangað geti hún ekki komizt nema hún flái iljaskinnið af fótum sér og gjöri sér skó úr því, en á þeim geti hún gengið yfir láð og lög. Eftir þetta gjörði Háðvör það sem þursinn beiddi, sker stykkin, fer síðan að flá iljaskinnið, býr til skó og þegar allt er búið þá segist hún vilja fara. Þursinn segir hún verði þá að fara upp á herðar sér og það gjörir hún, skreppur síðan upp, en þá er óþyrmilega gripið í stakkinn. Hún hafði gætt þess að láta hann vera lausan svo þursinn hélt honum eftir, en Háðvör slapp. Hélt hún nú leiðar sinnar til sjávar og þangað að sem hún vissi að skemmst var út í eyjuna til Hermóðar. Gekk henni vel yfirferðin yfir sundið því skórnir héldu henni vel á loft. Þegar hún var komin yfir um sá hún að sandur var með öllum sjónum, en háir hamrar fyrir ofan svo hún sá sér engan veg að komast upp, og bæði vegna þess að hún var orðin hrygg í huga og þreytt af ferðalagi sínu leggur hún sig fyrir og fer að sofa. Henni þótti nú kona stórvaxin koma til sín og segja: „Ég veit að þú ert Háðvör kóngsdóttir og ert að leita að Hermóði; hann er á eyju þessari, en torvelt mun þér verða að finna hann ef þér er ekki hjálpað; þú getur ekki komizt upp á þessa háu hamra af eigin ramleik, og því hef ég lagt festi ofan fyrir björgin sem ei mun bila þó að þú lesir þig eftir henni til að komast upp á eyjuna. Af því eyjan er stór getur vel skeð að þú finnir ekki svo fljótt híbýli Hermóðar. Legg ég þess vegna hérna hjá þér hnoða; skaltu halda í endann á bandinu sem er við það og þá mun það leiðbeina þér að takmarkinu. Ennfremur legg ég hér belti sem þú skalt spenna um mittið þegar þú vaknar, því þá muntu ekki örmagnast af hungri.“ Eftir þetta hverfur konan, en Háðvör vaknar og sér að svo er sem hana dreymdi. Festi er komin í hamarinn, hnoða liggur hjá henni og belti líka; spennir hún beltið um mitti sér, gengur að festinni og kemst nú upp á klettana. Síðan tekur hún í endann á tauginni sem lá úr hnoðanu og eftir það tekur hnoðað til ferðar. Fylgir Háðvör hnoðanu þangað til það kom að hellir ekki allstórum. Hún gengur inn í hellirinn, sér þar eitt flet lítilfjörlegt, smýgur hún undir það og leggst þar fyrir. Þegar kvöld er komið heyrir hún undirgang úti, síðan heyrir hún fótatak og verður vör við að ljón er komið að dyrunum og hristir sig, og eftir það heyrir hún að maður gengur inn og að fletinu. Dylst það þá ekki fyrir henni að þessi maður er Hermóður því hann er að tala við sjálfan sig um ástand sitt, um Háðvöru og fleira er hann endurminntist frá hinum fyrri tímum. Háðvör lætur ekki neitt á sér bera og bíður þangað til Hermóður er sofnaður. En er hún heldur að hann sé búinn að festa svefninn rís hún á fætur, tekur eld og brennir ljónshaminn sem úti lá. Eftir það fer hún inn, vekur Hermóð og verða þar fagnaðarfundir.

Að morgni fara þau að hugsa til ferðalags og eru þau hugsandi út af því hvernig þau muni geta komizt úr eyjunni. Segir Háðvör Hermóði frá draum sínum og segir að sig gruni að það muni einhver vera í eyjunni, sem kynni að geta hjálpað þeim. Hermóður kveðst vita af einni skessu sem sé vænsta skessa, mesta tryggðatröll, og mundi vera gott að finna hana. Þau fara síðan að leita að hellinum og finna hann. Er þar ógnastór tröllskessa og fimmtán synir hennar ungir; biðja þau hana að hjálpa sér til lands. Hún segir að annað mundi auðveldara því haugbúinn muni ætla sér að verða á vegi fyrir þeim, hann sé orðinn að stórfiski og ætli að ráðast á þau þegar þau fari í land. Hún kveðst skuli ljá þeim skip, en ef að þau verði vör við fiskinn og þeim þyki sér liggja nokkuð á þá megi þau nefna nafn sitt. Þau þakka henni með mörgum fögrum orðum fyrir hjálp sína og góðu loforð og leggja svo á stað. Á leiðinni í land sjá þau stórfisk með miklu busli og ólátum sem stefnir að þeim. Þau þykjast vita hvað vera muni, halda að sér muni aldrei liggja meir á að nefna nafn skessunnar og það gjöra þau. Rétt á eftir sjá þau hvar kemur á eftir þeim mjög stór steypireyður og fylgja henni fimmtán smáreyður. Þær renna fram hjá bátnum og á móti illhvelinu. Verður þar hörð aðsókn; sjórinn verður allur ókyrr svo varla var kostur á að verja bátinn í þeim öldugangi. En er bardaginn hafði staðið góða stund sjá þau Hermóður og Háðvör að sjórinn verður blóðugur og eftir það fer stóra reyðurin og hinar fimmtán smáu aftur til baka, en þau sem á bátnum voru komust hindrunarlaust í land.

Nú víkur sögunni til hallar konungsins; þar hafði orðið undarlegur atburður: drottning hvarf og dóttir hennar, en rotta og mús eru einlægt að fljúgast þar á. Margir vilja stökkva burtu þessum ófögnuði, en þess er ekki kostur. Líður þannig góður tími svo að konungur verður svo sem frá sér numinn af sorg bæði vegna missirs drottningar sinnar og af því að ókindur þessar skuli hindra alla gleði í höllinni. En eitt kvöld þegar allir sátu í höllinni kemur Hermóður inn gyrtur sverði og heilsar konungi. Konungur tekur honum hið blíðasta. En áður Hermóður fengi sér sæti gengur hann þar að sem rottan og músin voru að fljúgast á og höggur hann þær í sundur með sverði sínu. Verða þá allir hissa er þeir sjá að tvö flögð liggja á hallargólfinu og brenna hami þeirra. Síðan er konungi nú sögð öll sagan og fagnar hann mjög að hann er frelsaður frá þessum óvættum. Líður nú ekki langt um þangað til Hermóður gengur að eiga Háðvöru og þar eð konungurinn var orðinn gamall var hann strax kjörinn konungur. Ólöf fekk tignarlega og góða giftingu. – Og lýkur svo þessari sögu.