Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Hringi kóngssyni

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Hringi kóngssyni

Það var einu sinni að kóngur og drottning réðu fyrir ríki og áttu eina dóttur sem Ingibjörg hét og einn son sem Hringur hét; hann var hugdirfskuminni heldur en þeirrar tíðar menn af aðli og ekki fær um að sýna neinar íþróttir.

Nú þegar hann var tólf ára þá reið hann á skóg með mönnum sínum einn góðan veðurdag sér til skemmtunar. Nú riðu þeir lengi lengi þangað til þeir sáu eina hind með gullhring um hornin. Kóngsson vill nú höndla hindina ef mögulegt væri. Þeir veita henni nú eftirför og ríða hvíldarlaust þangað til þeir eru allir (menn kóngssonar) búnir að sprengja hesta sína og seinast fer nú hestur kóngssonar líka. Nú fór að koma þoka svo þeir gátu ekki lengur séð hindina. Þeir voru nú komnir langt frá mannabyggðum og vildu fara að víkja eitthvað heim á leið til bæja, en voru nú farnir að villast; gengu samt eitthvað í vitleysu sameiginlega þangað til hvörjum fór að þykja sinn vegur réttur og allir skildu og fóru hvör einn fyrir sig villuráfandi í þokunni.

Nú víkur sögunni til kóngssonar; hann er nú villtur eins og hinir og ráfar eitthvað í ráðleysu þangað til hann kemur í dálítið rjóður skammt frá sjó. Þar sér hann hvar kona situr á stóli og stór tunna stendur þar hjá henni. Kóngsson gengur til hennar og heilsar henni kurteislega; hún tekur þægilega kveðju hans. Eftir þetta verður honum litið ofan í tunnuna og sér hvar óvenjulega fallegur gullhringur liggur í tunnubotninum; það kviknar í honum girnd að eignast hringinn og hefur nú aldrei augun af honum. Konan gáir að þessu og segist sjá að hann hafi hug á gullinu sem sé í tunnunni. Já, hann segir það sé. Ja, hún segir að ef hann geti unnið til að ná því þá megi hann eiga það. Hann þakkar henni fyrir og segir það sé nú ekki mikils vert að ná því; hann fer nú að teygja sig ofan í tunnuna sem honum sýndist ekki djúp, og ætlar að verða fljótur að taka hringinn, en hún dýpkaði þá svo hann mátti seilast lengra, en þegar hann var kominn hálfur inn af barminum þá stendur konan upp og stingur kóngssyni á höfuðið ofan í tunnuna og segir jæja, hann skuli nú gista þarna. Síðan slær hún botn í hana og veltir henni svo fram á sjóinn.

Nú þótti kóngssyni komið illa fyrir sér, hann finnur að tunnan flýtur eitthvað frá landi og veltist lengi í bylgjunum, en ekki vissi hann hvað marga daga þangað til hann finnur, að hún nagrar við klöpp. Nú glaðnar kóngsson dálítið því hann hugsar, að þetta muni kannske vera land, en ekki sker; honum kemur nú til hugar að reyna að spyrna botninum úr tunnunni því hann var eitthvað dálítið syndur og nú ræður hann það af þó hann sé hins vegar hræddur um slæma landtöku, en það var öðru nær, því sléttar klappir voru þar við sjóinn svo honum gekk vel að komast á land, en há björg upp yfir. Hann vill nú komast eitthvað upp frá sjónum þó torfært sýnist, og gengur stundarkorn fram með undir björgunum þar til hann fer nú að reyna að klifra upp. Þegar loksins að hann kemst upp á þau og er búinn að litast þar umhverfis sig, þá sér hann að þetta er ey. Hún var skógi vaxin og frjóvsöm. Þar sá hann vaxa epli góð til átu; þarna þótti honum skemmtilegt að vera hvað plátsinu við kom. Þegar hann var búinn að vera þarna nokkra daga þá heyrði hann einu sinni mikið hark í skóginum. Nú varð hann óskaplega hræddur og hljóp í skóginn til að reyna að fela sig. Hann sá nú hvar risi kom með viðarsleða og stefndi til hans. Nú hafði hann engin ráð nema að fleygja sér niður þar sem hann stóð, en þegar risinn fann hann nú þarna þá stóð hann dálitla stund kyrr og horfði á kóngsson og tekur hann svo í fang sér og ber hann heim og er honum óvenjulega góður og færir nú kerlingu sinni sem nærri því var í kör, og segist hafa fundið þetta barn á skóginum, hún skuli nú hafa það til að hella úr koppnum sínum. Kerlingu þykir nú ósköp vænt um þetta og fer nú að klappa kóngssyni með miklum blíðmælum.

Svo er hann nú þarna hjá þeim og er óvenjulega stimamjúkur við þau og gjörir allt sem þau biðja hann og þau eru honum nú hvörn daginn öðrum betri. Einn dag fer nú risinn með hann og sýnir honum í allar hirzlur sínar nema í eldaskálann; af þessu kom nú forvitni í kóngsson að sjá í eldaskálann því hann hugsaði þar væri eitthvört dýrmæti fáséð. Einn dag þegar risinn er farinn á skóg þá fer nú kóngsson og ber sig að ná upp eldaskálanum og kemur hurðinni í hálfa gátt; þá sér hann að eitthvört kvikindi hristir sig og hleypur fram eftir gólfinu og talar eitthvað. Kóngsson hrekkur nú öfugur frá hurðinni, skellir henni aftur og pissar í buxurnar af hræðslu. Nú þegar honum fór dálítið að skána hræðslan þá leggur hann til aftur, því hann hafði gaman að heyra hvað það sagði, en það fór á sömu leið fyrir honum sem fyrr. Nú fer hann að hafa mikla raun af sjálfum sér og harkar sig því upp eftir mögulegheitum. Svo fer hann nú í þriðja sinn og lýkur upp skálanum og ber sig að standa við; þá sér hann að þetta er lóbaggahundur sem talar ennþá til hans og segir: „Kjóstu mig, Hringur kóngsson.“ Nú flýtir hann sér í burtu með hræðslunni og hugsar með sér: „Já, já, ekki er hérna mikill gersemi,“ en annars vegar varð honum það minnisstætt sem hann heyrði í skálanum.

Þess er ekki getið hvað lengi að hann var þarna hjá risanum nema einn dag kemur risinn til hans og segist nú vilja koma honum til lands úr eyjunni, því hann segist nú eiga skammt eftir ólifað. Hann þakkar nú kóngssyni fyrir góða þénustu og segir að hann skuli kjósa hvað sem hann vilji af eigum sínum því hann fái eflaust hjá sér hvað sem hann girnist. Hringur þakkar honum kærlega fyrir og segist nú ekki eiga borgun hjá honum fyrir atvik sín, þar þau væru ekki þess verð, en ef hann vilji ekki annað en fara af gefa sér eitthvað þá segist hann ætla að kjósa það sem sé í eldaskálanum. „Æ,“ segir risinn, „nú kaustu hægri hönd af dyrgju minni, en þó má ég ekki bregða orð mín.“ Síðan fer hann og sækir hundinn. Þegar hundurinn kemur nú með mikillri ferð [og] feginleika þá verður kóngsson svo hræddur að hann hefur nóg með að harka af sér svo ekki á beri. Nú fer risinn með hann til sjóar; þar sá hann steinnökkva sem ekki var stærri en það að hann naumast bar þá báða og hundinn. Svo koma þeir nú til lands og risinn kveður Hring vinsamlega og segir að hann megi eiga það sem sé í eyjunni eftir sinn dag og vitja þess að liðnum hálfum mánuði því þau verði þá dauð. Kóngsson þakkar honum kurteislega bæði fyrir þetta og hitt annað gott umliðið. Nú fór risinn aftur til baka, en kóngsson gengur eitthvað upp frá sjónum og þekkti nú ekki landið sem hann var staddur á, en ekki þorði hann að tala neitt til hundsins. Þegar hann er búinn að ganga stundarkorn svona þegjandi þá talar hundurinn til hans og segir: „Ekki þyki mér þú vera forvitinn að þú skulir ekki spyrja mig að nafni.“ „Ja, hvað heitirðu?“ ber kóngsson sig að segja. „Þér er bezt að kalla mig Snata-Snata,“ segir hundurinn, „nú komum við heim að einu kóngsríki og skaltú biðja kóng um veturvist, og þú skalt biðja hann að ljá þér lítið herbergi fyrir okkur báða.“

Nú fer kóngssyni að minnka hræðslan við hundinn. Svo kemur hann nú heim að kóngsríki og biður kóng um veturvist. Kóngur tekur því vel. Nú þegar kóngsmenn sáu hundinn fóru þeir að hlæja og gjöra sig líklega til að erta hann, en þegar kóngsson sá það þá segir hann: „Ég ætla að ráðleggja ukkur að glettast ekki til við hundinn minn, þið kunnið að hljóta illt af því.“ Já, þeir segja sér lítist nú beggja blands á hann, hræið að tarna. Nú fær Hringur sér afskekkt herbergi hjá kóngi eins og ráð var fyrir gjört á leiðinni. Þegar hann er búinn að vera þar hjá kóngi nokkra daga þá fer kóngi að þykja mikið til hans koma og virðir hann meir en aðra.

Kóngur hafði einn ráðgjafa sem Rauður hét. Þegar hann sá nú þetta, að kóngur fór að hafa meira við Hring en hina, þá kom í hann öfund og vildi feginn afplána það. Einn dag kemur hann að máli við kóng og segist ekki vita hvörnin því dálæti sé varið sem hann hafi á þessum nýkomna manni, hann hafi þó öngvar íþróttir sýnt þar frekar en aðrir. Kóngur segir það sé nú ekki svo langt síðan að hann hafi komið; Rauður segir að hann skuli nú á morgun láta þá báða fara og höggva skóg og vita hvor þeirra verði gagnlegri. Þetta heyrði Snati-Snati og sagði Hringi og segir að hann skuli biðja kóng að ljá sér tvær axir ef önnur kynni að brotna að hann hefði þá hina til taks. Morguninn eftir biður nú kóngur þá báða Rauð og Hring að höggva fyrir sig skóg. Já, já, þeir taka því vel, og Hringur fær nú tvær axir. Svo fara þeir í sína áttina hvör. Þegar Hringur er kominn út á skóginn þá tekur Snati öxina og fer að höggva ásamt kóngssyni. Um kvöldið kemur kóngur fram á skóginn eins og Rauður lagði fyrir og fer nú að skoða dagsverkið þeirra beggja; og þá er viðarköstur Hrings meir en helmingi stærri. „Já, já, þetta grunaði mig,“ segir kóngur, „að hann mundi ekkert mannleysi vera og hef ég aldrei séð annað eins dagsverk.“ Og nú varð Hringur í mikið meiri metum hjá kóngi eftir þetta. Rauður þoldi nú illa yfir þessu og kemur einn dag til kóngs og segir: „Þar eð þessi Hringur er slíkur íþróttamaður sem hann er þyki mér þú mega biðja hann að drepa blótneytin hérna á skógnum og flá þau sama dag, en færa þér hornin og húðirnar að kvöldi.“ „Þyki þér þetta forsvaranleg bón,“ segir kóngur, „þar eð þau eru mannskæð og enginn hefur ennþá komið sem vogazt hefur að ganga á móti þeim?“ Rauður segir að hann hafi þá ekki nema eitt líf að missa, það sé gaman að reyna karlmennsku hans og kóngur hafi þá heldur orsök að tigna hann ef hann vinni þau. Já, já, fyrir þrámælgi Rauðs lætur nú kóngur þetta tilleiðast og neyðist einn dag til að biðja Hring að fara og drepa fyrir sig nautin sem þar séu á skóginum og færa sér af þeim húðirnar og hornin í kvöld. Hringur sem ekki vissi hvað vond þau voru tekur vel máli kóngs og fer strax. Nú glaðnaði Rauður því hann telur Hring allareiðu úr heiminum. Þegar Hringur kemur í augsýn nautanna þá koma þau öskrandi á móti honum; annað var hræðilega stórt, en hitt minna. Nú verður hann óskaplega hræddur. „Hvörnin lízt þér nú á?“ segir Snati. „Ekki nema illa,“ segir kóngsson. „Nú er okkur annaðhvört að gjöra,“ segir Snati, „og ráðast að þeim ef vel á að fara, og skalt þú ganga móti litla nautinu, en ég á móti hinu,“ og með það hleypur Snati að stóra bola og er ekki lengi [að] vinna hann, en kóngsson gengur skjálfandi móti hinum og þegar Snati kemur þá er það búið að leggja Hring undir; hann varð nú fljótur að hjálpa húsbónda sínum. Svo fláðu þeir nú sitt nautið hvor; en þegar Snati er búinn að flá stóra nautið þá er Hringur vart búinn að hálfflá hitt. Nú um kvöldið þegar þeir voru búnir að þessu þá treysti kóngsson sér ekki til að bera hornin öll og báðar húðirnar svo Snati segir honum að fleygja því á hrygg sér heim undir borgarhliðið. Kóngsson þiggur þetta og lætur allt á hundinn, nema húðina af minna nautinu rogast hann nú sjálfur með; svo skilur hann nú allt eftir við borgarhliðið, gengur fyrir kóng og biður hann að ganga með sér þangað og afhendir honum svo húðirnar og hornin af nautunum. Kóngur undrast mikillega hetjuskap hans og segir að varla fæðist hans líki, og þakkar honum nú innilega fyrir dagsverkið.

Eftir þetta setur kóngur hann næstan sér; og allir virtu hann nú mikið og héldu að hann væri hinn mesti kappi, og jafnvel gat nú Rauður ekki mótmælt því, en fór þó alltaf dagversnandi í þeim ásetningi að leitast við að ráða hann af dögum. Einu sinni kemur honum – eftir sinni meiningu – gott ráð í hug og gengur því fyrir kóng og segist þurfa að tala nokkuð við hann. Kóngur spyr hvað það sé. Rauður segir að sér hafi nú dottið í hug gullskikkjan góða, gulltaflið góða og lýsigullið góða, sem kóngur hefði misst hér um árið. Kóngur segir að hann skuli nú ekki minnast á það. Rauður spyr hvört kóngi lítist nú ekki sama eins og sér. Já, kóngur spyr hvað það sé. Rauður segist sjá að Hringur sé mesti afbragðsmaður og halda að honum vinnist allt og því hafi sér komið til hugar að ráðleggja kóngi að biðja hann að leita upp þessa dýrgripi og vera kominn með þá fyrir jólin og skuli hann lofa honum dóttur sinni í staðinn. Það segir kóngur að sér þyki í allan máta ósæmilegt fyrir sig að inna að slíku við Hring þegar hann gæti þá ekki vísað honum til þeirra. Rauður gjörir nú ekkert úr máli kóngsins og telur alla vega um fyrir honum þangað til kóngur neyðist til að láta nú þetta eftir orðum hans. Einn dag þegar mánuður er eftir til jóla þá kemur kóngur á tal við Hring og segist nú ætla að biðja hann stórrar bónar. „Já, hvað er það?“ segir Hringur. „Það,“ segir kóngur, „að sækja fyrir mig gullskikkjuna mína góðu, gulltaflið mitt góða og lýsigullið mitt góða sem stolið var frá mér hérna um árið og ef þú getur fært mér þetta fyrir jólin þá skal ég gefa þér dóttur mína.“ „Hvört ætti ég helzt að fara og leita þess?“ segir Hringur. „Þú verður að segja þér það sjálfur,“ segir kóngur, „því það veit ég ekki.“ Hringur gengur nú burt frá kóngi og er hljóður því hann telur sig í þrautum staddan eða því nær, en þótti þó hins vegar ágætt að eiga von á kóngsdóttur. Snati sér nú að húsbóndi hans er ráðafár og segir því við hann að hann skuli ekki fresta að gjöra það sem kóngurinn hefði beðið hann, en segir að hann skuli fylgja ráðum sínum því hann sé nú annars í vandræðum staddur. Kóngsson hlýðir þessu og fer að búast til ferða og svo gengur hann inn fyrir kóng og kveður hann. Þegar Hringur er genginn út aftur frá kóngi þá segir Snati: „Nú skaltu fara fyrst hér um sveitina og fá þér svo mikið salt sem þú getur.“ Kóngsson gjörir þetta og fær nú svo mikið af salti að hann getur ekki borið. Snati segir að hann skuli fleygja pokanum á hrygg sinn. Hringur gjörir það. Nú var komið fast að jólum. Svo fer hundurinn alltaf á undan kóngssyni þangað til þeir koma undir ein björg. „Hér verðum við nú að fara upp,“ segir Snati. „Það held ég ekki verði neitt hagræði fyrir mig,“ segir Hringur. „Haltu fast í hala minn,“ segir Snati. Svo stökkur Snati með Hring í rófunni upp í neðstu tröppuna og þá fær Hringur svima. Nú stekkur Snati með hann upp á aðra tröppu og þá er nærri því liðið yfir Hring. Í þriðja sinn stekkur Snati með hann upp á björgin; þá er hreint liðið yfir Hring. Eftir litla stund liðna raknar hann við; svo ganga þeir þar stundarkorn eftir sléttum völlum þar til þeir komu að einum hellir. – Þetta var á aðfangadagskvöldið fyrir jól. – Þeir gengu upp á hellirinn og fundu þar glugga og sáu þar inn um fjögur flögð liggja sofandi við eld og stóran grautarpott upp yfir. „Nú skaltu sá öllu saltinu ofan í grautarpottinn,“ segir Snati. Nú gjörir Hringur þetta og að því búnu vakna flögðin. Gamla kerlingin sem var óttalegust fer nú fyrst að smakka á grautnum og segir: „Nú er grauturinn saltur, hvörnin kemur það til? Ég sem seiddi mjólkina úr fjórum kóngaríkjum í gær og nú er hann þó saltur.“ Samt fara nú flögðin að sleikja grautinn og þykir gott, en þegar þau eru búin þá þyrstir kerlingu svo mikið að hún þolir nú ekki við, biður því dóttur sína að fara út og sækja sér vatn í móðuna sem þar var skammt frá. „Ég fer ekki,“ segir hún, „nema þú ljáir mér lýsigullið góða.“ „Ja, þó ég drepist þá færðu það ekki,“ segir kerling. „Drepstu þá,“ segir stelpa. „Farðu þá, stelpan þín, og taktu það og flýttu þér nú með vatnið,“ segir kerling. Nú tekur hin gullið og hleypur út með það; þá glampar af því um völlinn. Þegar hún kemur að móðunni þá leggur hún sig nú ofan að vatninu og fer að drekka, en á meðan hlaupa þeir ofan af glugganum og stinga henni á hausinn í móðuna. Nú fór kerlingu að leiðast að fá ekki að drekka og segir að stelpan hafi nú farið að hoppa með lýsigullið um völlinn og segir við son sinn: „Farðu nú og sæktu mér vatnssopa.“ „Ég fer ekki,“ segir hann, „nema ég fái gullskikkjuna góðu.“ „Þó ég drepist þá færðu hana ekki,“ segir kerling. „Ja, drepistu þá,“ segir hann. „Æ, farðu þá strákurinn þinn og taktu hana, en flýta máttu þér með vatnið,“ segir kerling. Nú fer hann í skikkjuna og þegar hann kemur út þá glampaði af honum svo hann sá til að ganga. Svo kemur hann að móðunni og fer að drekka með sama móti og systir hans. Í því hlupu þeir að honum og færðu hann úr skikkjunni og fleygðu honum svo í móðuna. Kerling þolir nú ekki við fyrir þorsta og biður nú karl sinn að sækja sér að drekka, þau hafi nú sjálfsagt farið að hoppa og leika sér úti, eins og sig hefði grunað, þó hún hefði farið að gegna kvabbinu úr þeim, óhræsunum þeim arna. „Ég fer ekki,“ segir karlinn, „nema þú ljáir mér gulltaflið góða.“ „Þó ég drepist þá færðu það aldrei,“ segir kerling. „Ja, mér finnst að þú þá mega drepast,“ segir karl, „þegar þú vilt ekki vinna það til að gjöra svona litla bón fyrir mig.“ „Æ, taktu það þá, óhræsið þitt, fyrst þú ert eins og krakkarnir,“ segir kerling. Nú fer karlinn út með gulltaflið og gengur að móðunni og fer að drekka. Með það koma þeir og taka af honum taflið og stinga honum svo í móðuna, en áður þeir voru komnir upp á hellirinn aftur þá kemur karltötrið afturgenginn úr móðunni. Snati hleypur sem fljótast á móti honum og Hringur – með hálfum huga – ræðst nú á hann líka, og eftir harða glímu geta þeir nú unnið hann í öðru sinni.

En þegar þeir koma upp á gluggann þá sjá þeir að kerling er farin að akast fram eftir gólfinu. „Nú er okkur annaðhvört að gjöra og fara inn og reyna til að vinna á henni.“ segir Snati, „því ef hún kemst út þá verður hún óvinnandi, þetta er hið versta flagð sem til er, á hana bítur ekkert járn. Annar okkar skal nú ausa á hana sjóðandi graut úr pottinum, en hinn skal klípa hana með glóandi járni.“ Nú fara þeir inn, en þegar kerling sá Snata þá talar hún til hans og segir: „A-á, ert þú kominn, Hringur kóngsson, þú munt hafa séð ráð fyrir bónda mínum og börnum.“ Nú þóttist Snati merkja að kerling mundi ætla að fara að leggja á þá og veður að henni með glóandi járn úr eldinum, en hinn eys hvíldarlaust á hana grautnum, og með þessum hætti gátu þeir um síðir drepið hana. Svo brenndu þeir karlinn og hana til ösku. Eftir það könnuðu þeir hellirinn og fundu nóg gull og gersemar. Það dýrmætasta af þessu fluttu þeir með sér fram á björgin og gengu þar frá því. Svo flýttu þeir sé nú heim til kóngs með dýrgripi hans.

Seint á jólanóttina kemur nú Hringur í höllina og fær kóngi dýrgripi hans. Kóngur varð nú frá sér numinn af gleði og undrast hvað fágætur maður að Hringur sé í öllum íþróttum og vizku, og hefur nú miklu meira við hann en áður; líka fastnar hann honum nú dóttur sína og átti nú veizlan að framfara um hátíðina. Hringur þakkar kóngi kurteislega bæði fyrir þetta og annað gott. Svo þegar hann er búinn að éta og drekka þar í höllinni þá gengur hann til hvíldar í herbergi sínu. Snati segist nú ætla að biðja hann að lofa sér að liggja í nótt í sænginni, en hann skuli aftur vera hérna í bælinu sínu. Hringur segir það sé líklegt og Snati sinn eigi nú meira gott skilið af sér en því svari. Nú fer Snati upp í sængina, en eftir stundarkorn liðið kemur hann aftur og segir kóngsyni að fara upp í, en hann skuli muna sig um það að hræra við öngvu í sænginni.

Nú víkur sögunni til Rauðs; hann kemur inn í höllina og sýnir kóngi á sér hægri handlegginn handarlausan og segir að hann skuli nú sjá hvaða mannkosti að hann tengdasonur hans tilvonandi hafi og þetta hafi hann gjört sér öldungis saklausum. Kóngur varð nú reiður og segist bráðum skuli komast að því sanna og ef Hringur hafi höggvið af Rauð saklausum höndina þá skuli hann hengjast, en ef það sé ekki þá hljóti Rauður að deyja. Nú kallar kóngur Hring fyrir sig og spyr hvað til þess hafi komið að hann skyldi höggva af honum Rauð hendina eða hvört að hann Rauður hefði ekki verið saklaus. Hringur, sem Snati hafði sagt hvör valda mundi því sem til bar um nóttina, biður kóng að ganga dálítið með sér og segist skuli sýna honum nokkuð þessu máli viðvíkjandi. Svo gengur kóngur nú með Hringi í svefnherbergi hans og sér hvar mannshönd með korða í liggur á sænginni. Hringur segir að þessi hönd hefði komið þar inn um þilið í nótt og ætlað að leggja sig í sænginni, en hann hefði brugðið vopni sér til varnar. Það segist kóngur ekki lá honum þar svo hefði staðið á, þó hann hefði leitazt við að verja líf sitt; og Rauður eigi sökina að sjálfum sér og sé hann dauðaverður; svo var Rauður hengdur, en Hringur drakk brúðkaup sitt til kóngsdóttur.

Fyrstu nóttina sem þau hvíldu saman biður Snati Hring að lofa sér að liggja á fótum þeirra. Já, Hringur segir það skuli hann fá. Svo ganga nú brúðhjónin í eina sæng og Snati fer upp í til fóta þeirra. Um nóttina heyrir Hringur ýl og einhvör ólæti þar hjá þeim. Hann kveikir sem fljótast og þá sér hann hvar óvenjulega ljótur hundshamur liggur á þiljunni, en dæilegur kóngsson í sænginni. Hann tekur haminn og brennir hann, svo dreypir hann á kóngsson sem lá í óviti, svo hann raknar við. Brúðguminn spyr hann að heiti, hann segist heita Hringur og segist vera kóngsson og hafa á æskuárum misst móður sína, en faðir sinn hefði í hennar stað fengið flagð fyrir drottningu; hún hefði lagt það á sig að hann skyldi verða að hundi og ekki komast úr þeim álögum nema kóngsson sem héti sama nafni og hann lofaði sér að liggja á fótum hans þegar hann giftist, fyrstu nóttina. „Og þegar hún vissi,“ segir nýkomni Hringur, „að ég eignaðist þig fyrir nafna þá vildi hún reyna til að ráða þig af dögum svo þú yrðir ekki til að frelsa mig úr álögunum; hún var hindin sem þú og félagar þínir eltu forðum og konan sem þú fannst í rjóðrinu hjá tunnunni, og þetta sama flagð drápum við í hellinum núna fyrir skemmstu.“

Eftir að veizlutíminn var liðinn þá fara þeir nafnar og fleiri á björgin og flytja allt þaðan heim til borgarinnar. Líka fóru þeir í eyjuna og tóku það sem þar var fémætt. Svo gaf nú Hringur nafna sínum sem fór úr álögunum Ingibjörgu systir sína og föðurland til umráða. En sjálfur var hann þarna hjá kóngi og hafði hálft ríkið meðan kóngur lifði, en allt eftir hans dag.