Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Hvekk og bræðrum hans

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Hvekk og bræðrum hans

Það var eitt sinn einn ríkur bóndi að ganganda gripum, einkum sauðfé; hann átti þrjá sonu við konu sinni og hét hinn yngsti Hvekkur. Ekki er getið um nöfn hinna. Hann var olnbogabarn foreldra sinna, en bræður hans í mesta uppáhaldi.

Eitt sinn hvarf bónda allt fé sitt og leitaði sauðamaður þar er honum þóttu líkindi á vera og kom loks aftur og fann enga kind. Bóndi varð illa við skaða sínum og bað þá bræður fara og leita fjár síns, en þeir kváðu sér lítið mundu fyri verða að finna – „og mun slæliga eftir leitað af sauðamanni.“ Bjóst nú annar þeirra bræðra vel útbúinn með nesti og nýja skó. Þar eftir fór hann leiðar sinnar og hreytti þó áður úr sér kallsafengnum spottglósum til Hvekks bróður síns. Þar eftir gekk hann lengi um heiðar og öræfi, en að miðju eins dags kom hann að hól einum háum. Þar settist hann að miðdagsverði og fór að snæða. Það var að lítilli stundu liðinni að kvikindi nokkur aumlig og vesælliga útlítandi komu til hans og mændu eftir hverjum bita, en hann hrakti þau frá sér og þeytti í þau beinum og öðru er hann til fann, og meiddi þau. Þar næst er hann hafði snætt eftir þörfum fór hann leiðar sinnar og um síðir kom hann að dal einum. Þar í dalnum var bær byggður að fornu lagi. Þar var maður fyri dyrum úti; sá spurði bóndason að heiti og hver hann væri. Hann sagði sem var og kvað dalbúi það þar vera – „en ekki fær þú það utan þú vinnir fyri útlausn þess í þrjá vetur. Þú skalt hafa mötuneyti með hundi mínum; þú skalt æ upp ljúka nær dyra verður kvatt og rísa úr rekkju nær árgalinn galar og gjöra hvert verk er ég fyri þig legg; en möglir þú nokkurn tíma eður reiðist þá er þér dauði vís enda mátt þú drepa mig ef ég reiðist.“ En með því dalbúi var mikill vexti og þar með ógurligur til útlits þá gekk bóndason að þessum kostum. Þar var hjá bónda kona hans og dóttir, en ekki annara manna. Um kvöldið var honum gefinn matur á gólfi með hundi dalbúans, en er hann hafði nýtekið til matar var dyra kvatt. Hann fór til dyra og lauk upp, en varð engis var. En er hann kom aftur var hundurinn búinn með mat þeirra beggja. Rann honum þá heldur í skap og skammyrti bónda, en hrakti hund hans. Greip þá bóndi til hans og lét hann skurka til dyra og drap hann.

Víkjum nú aftur til föður hans það honum þótti seinkast afturkoma sonar síns og sauða. Talar hann um það við son sinn það hann muni þeirra leita verða. Hann kvað sér mundu það hægt veita og fór á stað vel útbúinn. Þarf ekki að orðlengja um farir hans; þær fóru að öllu sem hins fyrra bróðurs. En sem þetta var um garð gengið og bónda þótti sem ekki mundi að vænta afturkomu sona sinna varð hann svo heiftúðigur við Hvekk son sinn að við sjálft lá að hann mundi ei við haldast, enda hafði hann ávallt verið honum óföðurligur. Þá beiddist Hvekkur nestis af föður sínum og annars útbúnaðar er hann með þyrfti og kvaðst hann ætla að leita bræðra sinna og sauða hans. En faðir hans kvaðst ei mundu ausa út fjármunum sínum á þær glæður að fá honum þá í hendur. Hann fekk honum þó roð og annað ei matarligra og gráða[1] og hrossheminga á fæturnar. Þannig og að þvílíku skapi fór hann á braut, og er ei getið ferða hans fyrr en að hann kemur að áðurnefndum hól. Þar tekur hann upp nesti sitt og snæðir með mestu sparsemi og kurteisi. Þá komu til hans þær hinar sömu vesælligu kindur[2] og gaf hann þeim það hann hafði helzt matarligt. Eftir það hurfu þær inn aftur í hólinn. Að stundu liðinni kom út kona vel í vexti og í blám klæðum. Sú vék sér að Hvekk og þakkaði honum fyri það hann hefði rétt börnum sínum – „og fór þér ólíkt og bræðrum þínum er börðu þau og hröktu.“ Síðan segir hún honum allt um ferðir þeirra og endalykt – „en sá er á dyr ber er faðir dalbúans; hann hvílir í bæjardyralofti. En árgali sá er kvakar er móðir hans í afhýsi þar fram í bænum. Far nú á fund hans og gjör honum hvað illt er þú mátt og þér í hug kemur. Legg ég það til þér verði hvorki giftu vant né ráðaskortur.“ Eftir það hvarf álfkona þessi í hólinn, en hann fór leiðar sinnar eftir það og kom loks að þráttnefndum dal og hitti dalbóndann og spurði hann eftir sauðum föður síns. Hinn kvað þá þar vera, en ei fengi hann þá nema hann ynni fyri útlausn þeirra í þrjá vetur og hafði alla hina sömu skilmála sem við þá bræður hans, en heldur gekk hann að þessu en fara tómhendur aftur. Síðan var honum til verks skipað og gekk honum það vel. Fór svo lengi fram að hann gjörði allt sem fyri hann var lagt. Hið fyrsta kvöld er hann var að máltíð og rakki bónda, var dyra kvatt. Hann fór til dyra, en er hann kom til aftur hafði hundurinn lokið mat þeirra beggja. Bóndi spurði hvort honum þætti fyri því. „Nei,“ segir Hvekkur, „mér þyki það svona skrýtið.“ Fór svo fram í langa tíma að hann talaði aldrei um. Eitt sinn eina nótt hengdi hann hundinn við rúmstólpa sinn. Um morguninn segir bóndi við hann: „Þú ert búinn að drepa hund minn!“ „Já,“ segir Hvekkur, „þyki þér nokkuð fyri í því?“ „Nei!“ segir bóndi, „mér þykir það svona skrýtið.“ Eitt kvöld sem oftar gekk Hvekkur fram þá er barið var og fór að afhúsi því er karlinn lá í, og braut hann úr hálsliðnum. Um morguninn segir bóndi við Hvekk: „Þú hefur drepið hann föður minn!“ „Já,“ segir hann „eður þyki þér nokkuð fyri því?“ Hann kvað það ei vera – „heldur þyki mér það skrýtið.“

Það var vandi hans að fara ofan löngu fyri dag eftir því sem árgalinn galaði. Eitt sinn löngu hér eftir galaði hún eftir vanda. Þá kippti hann skóm á fætur sér og fór fram og drap kerlinguna. Bóndi nefndi það við hann um morguninn, og fór ræða þeirra eftir vanda og höfðu báðir að öllu hin sömu orðtök. Eitt sinn fór hann að heiman til að bjóða vinum sínum til veizlu og skipaði Hvekk að hlaða hornagarð handa fé sínu á meðan, „og kasta nú,“ segir hann, „hýrum (ᴐ: vinveittum) augum upp á gestina.“ Bóndi fór nú leiðar sinnar. En er hann var farinn sagaði Hvekkur öll horn af fé hans sem ærið var margt, og hlóð úr þeim garð við bæinn heima. En er bóndi kom aftur og sá það segir hann til Hvekks: „Þú hefir illa farið með kindurnar mínar að saga af þeim öll hornin!“ „Þyki þér nokkuð fyri því?“ segir Hvekkur. „Nei,“ segir bóndi, „heldur þyki mér það svona skrýtið.“ En er gestir voru undir borð komnir er Hvekkur ekki iðjulaus, heldur stakk hann annað auga úr hverjum hesti boðsmanna og kastaði sínu auga upp á hvern boðsmanna. Bóndi segir það illa er hann hefði meitt hestana. „Þyki þér nokkuð fyri því?“ segir Hvekkur. En bóndi kvað það ei vera og fóru orð þeirra eftir vana.

En er komið var á hið þriðja ár fóru þeir að hlaða kvíar bónda er að falli voru komnar. Sendi bóndi hann þá heim eftir rekum tveimur. Kvíarnar voru ei lengra frá bænum en að vel mátti heyra mál annars ef kallað var. Þær mæðgur höfðu verið Hvekk góðar, einkum bóndadóttir, og var hún mannvænlig. En er hann kom heim sagði hann þeim að bóndi hefði skipað sér að veita þeim karlmannliga þjónustu; en er þær voru ei leiðitamar kallar hann að heiman og spyr hvort hann eigi ekki að gjöra það, en bóndi kvað svo vera. Lét kerling þá til leiðast. En er stund leið kallar bóndi og bað hann flýta sín. „Á ég að hafa þær báðar?“ segir Hvekkur. „Já,“ segir bóndi. En er bónda lengdi eftir rekunum hleypur hann heim; er þá Hvekkur að sem tíðast. Bóndi verður þá fokreiður og ætlar að honum, en Hvekkur spratt upp á móti og færði rekuna í höfuð bónda og varð það hans bani. Eftir það gekk hann frá honum. En er honum þótti tími til færði hann föður sínum sauðfé sitt og varð þá fleira í frændsemi þeirra en áður. Þar eftir tók hann alla þá fjármuni er dalbúinn átti og voru þeir miklir og gekk að eiga dóttur hans og urðu samfarir þeirra góðar og nutu góðrar elli. En kerlingin var í húsum tengdasonar síns þar til hún var öll. – Og ljúkum vér svo þessari sögu.

  1. í skel, hafa sumir. [Hdr.]
  2. Þannig ávallt í sögunni. [Hdr.]