Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Ingibjörgu kóngsdóttur
Sagan af Ingibjörgu kóngsdóttur
Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu sér eina dóttir sem Ingibjörg hét. Hún var svo fögur að fáir höfðu séð hennar líka. Kóngur lét byggja henni skemmu út í þykkum skógi og þar átti hún að vera með hirðmeyjum sínum; og þá hún gekk út áttu þær að fylgja henni svo hún aldrei væri ein. Þegar Ingibjörg hafði verið þar nokkra stund gerði faðir hennar henni boð og sagði að móðir hennar vildi finna hana og þegar hún kom lá hún fyrir dauða. Þar urðu miklir fagnaðarfundir og gaf móðir hennar henni drottningarskrúða og gullskó og gauk sem talaði mannsmáli, og svo andaðist drottningin, en Ingibjörg fór heim og var mjög sorgbitin.
Það bar við einn dag að hún segist vilja ganga út og skemmta sér. Nú býr hún sig sem bezt verður og hefur gullskó. Þegar þær hafa skammt gengið verður henni litið upp í eik sem er stutt frá. Þar situr fugl og vill Ingibjörg fá hann; þær leita allra bragða, en allt var til einkis. Þetta gengur lengi; verður hún þá vör við að gullskóinn vantar, og leita þær heila daginn, en finna ekki. Segir þá Ingibjörg:
- „Hver sem finnur fagran skó
- og færir mér,
- eiga skal ég þann örvagrér.“
Svo fór hún heim og segir ekki meir fyrst frá henni. En svo bar við að kóngsson var á dýraveiðum og finnur hann skóinn og strengir heit að hann skuli eiga þá sem skóinn eigi.
Nú er að segja frá kónginum að eftir að kona hans var önduð undi hann sér ekki og bauð ráðgjafa sínum að útvega sér aðra sem væri honum samboðin; og þegar hann einu sinni sat í djúpum þönkum og horfði á kyrrlæti sjáarins og fegurð sólarinnar sem var að síga í æginn leit hann við og sá konu standa hjá sér. Hún var mjög sorgfull og þerraði augu sín með hárlokkum er hrundu niður um hana. Konungur ávarpar hana og spur hvað hún syrgi. „Ég hefi nýlega misst mann minn og á eina dóttir eftir hann, Sólrún, og undum við okkur ekki heima.“ Konungur biður hana að koma heim og verða kona sín. Hún játar því og fara þær báðar heim. Svo vill hann halda brúðkaup sitt til hennar og er boðið mörgu og þar með Ingibjörgu. Hún vill ekki fara. Þegar stjúpa hennar heyrir það verður hún vond.
Nú líða stundir fram. Einn góðan veðurdag sjá menn koma mörg skip með fannhvítum seglum og blikandi fánum. Þeir leggja í hafnir. Fyrir flotanum réði kóngsson og gengur hann til hallar og segir: „Hver sem á þennan skó, hana skal ég eiga.“ Drottningin hleypur til dóttur sinnar og segir að hún skuli eiga hann. Skórinn var svo lítill að hún varð að höggva af fætinum; gengur svo fyrir konungsson og segist eiga skóinn, og fara þau svo á stað; en þegar hann er kominn frá landi sér fólk að fugl er í toppinum á skipi kóngssonar og kveður þetta:
- „Situr í stafni Höggvinhæla,
- skór er fullur af blóði,
- litlu betra brúðarefni
- en Ingibjörg kóngsdóttir – “
og kveður þetta hvað eftir annað. Kóngsson tekur eftir því og sér hann þá að hún er öll blóðug og fer hann með hana heim. Það er sagt að ein skemmumey Ingibjargar heyrði þetta; segir hún henni frá því. Hún bregður við og fer á fund kóngssonar og sýnir honum gullskóinn og er hann eins. Síðan biður hann hennar og fara þau heim og giftast og lifa þau saman tvö ár. Verður þeim eins sonar auðið.
Frá Sólrún er það að segja að hún unir illa og er að finna upp á einu og öðru við móður sína til að ráða Ingibjörg af dögum, og býr hún sig á stað og segir ekki af ferðum hennar fyrri en hún kemur í kóngsríkið og sér hún sér ekki færi á því fyrri en eftir langa tíð. Þá gekk drottningin til lauga og meðan komst hún í hásæti, og þegar drottning kemur heim er hún rekin burtu. Hún kemur sér fyrir hjá bónda einum og segir hún honum frá hörmum sínum; en fyrstu nóttina sem Sólrún var hjá kónginum var sonur hans óhuggandi og er sagt á glugganum:
- „Ei gala gaukar,
- ei spretta laukar,
- ei skilar hrútur reyfi sínu
- og illa ber sig ungur sveinn.“
Þetta er kveðið hvað eftir annað og gengur svo í þrjár nætur. Fer þá kóng að gruna margt og sér hann þá að drottning er horfin og önnur komin í staðinn. Það er ekki að orðlengja það að Sólrún er tekin og drepin, en Ingibjörg er tekin aftur heim og biður kóngur hana fyrirgefningar. Fyrstu nóttina sem hún er var þetta kveðið á glugganum:
„Nú gala gaukar, nú spretta laukar, nú skilar hrútur reyfi sínu og vel unir ungur sveinn.“
Og varð nú allt kyrrt. Þau unntust til elli og varð margra barna auðið.
Og lýkur hér svo sögu af Ingibjörgu kóngsdóttir.