Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Kisu kóngsdóttur

Úr Wikiheimild
Stökkva á: flakk, leita

Það var eitt sinn konungur og drottning réðu fyrir ríki. Þau áttu ekkert barn og þótti konungi mikið að því.

Eitt sinn segir hann við drottningu að hann atli að skemmta sér í dag, en hún verði að vera búin að eiga barn þegar hann komi aftur eða skuli hann drepa hana. Fer hann svo leiðar sinnar, en drottning fer út undir hallarvegginn og fer að gráta. [Að] litlum tíma liðnum kemur til hennar kona og spyr hana að hvað að henni gangi. Hún svarar: „Það er efni sorgar minnar að þegar konungur minn fór að heiman setti hann mér þann kost að ég skyldi verða búin að ala barn er hann kæmi heim aftur og veit ég þar ekki ráð til.“ Hin ókunna kona segir að þar allskammt frá sé vatn; þar í séu tveir silungar, annar sé gulur en hinn rauður að lit, og skuli hún veiða hinn gula og eta, en varast að láta þann rauða fara í munn sér, því hann muni þar fast eftir sækja. Fer hún þá eftir fyrirmælum konunnar. En þá hún er búin að eta þann gula stekkur hinn upp úr vatninu og í munn henni og í sama bili ofan í hana. Bregður þá svo við að hún verður vanfær. Líður svo fram þar til hún leggst á gólf og fæðir kött einn. Því næst fæðir hún meybarn mikið og frítt. Er þá tekið skjótt til ráða og kettinum fleygt hið snarasta út fyrir glugga, en meyjunni veitt góð viðtaka og Ingibjörg nefnd. Ólst hún svo upp þar til hún var tíu vetra; þá var henni byggður skrautlegur kastali.

Einhverju sinni ber það til að skip kemur að landi og ráða þar fyrir tveir konungssynir; hét annar Sigmundur, en hinn hét Ásmundur. Báðu þeir konung hirðvistar og var þeim það veitt. Og er þeir höfðu þar ei lengi verið fóru þeir að venja komur sínar til Ingibjargar. Oft kom á glugga til Ingibjargar Kisa og var að skrafa við Ingibjörgu og sagði: „Sæl vertu nú, systir mín.“ „Far þú burt, óhræsið þitt,“ sagði hún; „þú ert ekki systir mín.“

Nú er það einn góðan veðurdag að konungur og drottning, Ingibjörg og konungssynir báðir og margir fleiri fara út á skóg að skemmta sér. Lýstur þá allt í einu yfir þoku svo dimmri að enginn mátti annan sjá. Fór þá hvör sem fljótast að gjöra tilraun að komast heim og tókst það öllum nema Ingibjörgu; villtist hún vonum bráðara. Nemur hún þá staðar í einu rjóðri. Kemur þá til hennar risi heldur ófrýnilegur og segir henni velja um tvo kosti; sá annar að eiga sig ella höggvi hann af henni báðar fætur og kjöri hún það heldur. Fer hann síðan í burtu. Og er lítil stund var liðin kemur Kisa með lítinn vagn dragandi í rófunni og segir: „Sæl vertu, systir mín.“ „Sæl, systir mín,“ segir hin. „Hvert viltu nú heldur þiggja lið mitt eður ólið?“ segir Kisa. „Heldur lið,“ segir hin. Tekur hún hana þá og lætur í vagninn, heldur síðan áfram þar til hún kemur að litlu húsi. Tekur Kisa hana af vagninum, ber hana inn í rúm og færir henni síðan mat að borða og biður hana fara að sofa. Morguninn eftir fer Kisa snemma heim í kastala. Finnur hún þá kóngssyni og leikur þar fyrir þeim lengi. Að endingu biður hún þá um salttunnu og biður þá að láta hana á sleða sem hún hafði í skottinu; hleypur síðan á stað og hættir ekki ferð sinni fyr en hún kemur að hellir einum. Þar fer hún á eldhúsglugga. Sér hún þar tröll, karl og kerlingu og strák og stelpu, og eru að elda graut. Tekur hún þá saltið og sáir öllu úr tunnunni. Fara þau þá að smakka í pottinum og þykir gott. Éta þau þangað til búið er úr pottinum. Segir þá karl: „Hvurnin skal þá Ingibjörgu kóngsdóttur líða?“ „Gengur nokkuð að henni?“ segir strákur. „Vissurðu ekki af því að ég tók undan henni báðar fæturnar?“ „Og hvað gerðurðu við þær?“ „Ég lét þær í kistuna mína og lagði lífgrös við.“ „Er ómögulegt að græða hana aftur?“ „Jú,“ segir karl, „ef sömu grös eru við brúkuð.“ „Hvar er lykillinn að kistunni?“ „Hann er geymdur í skó á hægra fæti mínum.“ Segir þá karl: „Mig þyrstir.“ Segir hann þá strák að sækja vatn handa sér. Líður svo langur tími. Fer þá stelpa út og leggst niður við brunninn og segir: „Sjálfa mig met ég mest og má það enginn lá mér.“ Fer þá Kisa og steypir henni í brunninn og sama gjörði hún stráknum. Líður svo æði-tími; tekur þá karl að þyrsta. Biður hann kerlingu að sækja vatn. Fer hún þá og þegar hún kemur að brunninum leggst hún niður; steypir Kisa henni í brunninn. Fer þá karl sjálfur og leggst við brunninn; fer þá Kisa attan að honum og fleygir honum í brunninn, en um leið stígur hún skóinn af fæti hans [og] finnur þá lykilinn að fótakistunni. Tekur hún fæturnar og fer heim. Finnur hún þá Ingibjörgu og græðir hana. Fer hún síðan með hana heim í kóngsríki. Varð þá fagnaðarfundur. Biður þá Sigmundur Ingibjargar og var veizla þeirra haldin. Biður Kisa Ingibjörgu að lofa sér að sofa á fótum sínum og gjörði hún það; en um morguninn var það kóngsdóttir. Bað þá Ásmundur hennar og fékk. Var þá slegið saman veizlunum og ríktu [þau] til dauða.