Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Líneik og Laufey

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Líneik og Laufey

Í fyrndinni réðu konungur og drottning fyrir einu voldugu og víðlendu ríki. Eigi er getið um nöfn þeirra, en frá hinu er sagt að þau áttu tvö börn, son og dóttir, bæði frumvaxta er saga þessi gjörðist. Hét konungssonurinn Sigurður, en dóttirin Líneik; vóru þau bæði vel að sér gjör til munns og handa svo varla fundust þeirra líkar þó víða væri leitað. Þau unnust svo heitt að hvorugt mátti af öðru sjá og lét konungur byggja þeim eina skemmu mjög vandaða og vel gjörða og fékk þeim þjónustufólk eftir þörfum.

Liðu svo fram nokkrir tímar að ekki bar til tíðenda þar til að þar að kemur að drottning tekur sótt mikla. Lætur hún kalla konung á sinn fund og segir honum sína ætlun, að þessi sótt muni sig til bana leiða. „Eru það tvær bænir að ég vil biðja þig,“ segir drottning, „áður en ég dey og vonar mig þú munir á þeim hafa mikinn varnað. Sú fyrri er að ef þú leitar þér kvonfangs aftur þá leita þú ekki eftir því í smábæjum eða úteyjum, heldur í stórborgum eða þjóðlöndum; mun þér það þá vel gefast. Hin önnur bænin er sú að þú leggir allan hug á að veita börnum okkar góða ásjá. Væntir mig að þér verði að þeim einum mest gleði allra manna hér eftir.“ Og eftir að drottning hafði þetta mælt andaðist hún; bar konungur sig harla aumlega eftir fráfall hennar og sinnti lítt ríkisstjórn. Og er nokkrir tímar liðu var það einn dag að hinn æðsti ráðgjafinn gekk fyrir konung og bar upp þau vankvæði lýðsins að ríkisgæzlan færi öll í ólestri og að hann sinnti ekki stjórnarstörfum sökum harms og trega eftir drottningu sína. „Er hitt konunglegra,“ segir ráðgjafinn, „að herða upp hugann og hyggja af hörmum sínum, en leita þess ráðs sem þér væri sæmd og virðing í.“ „Slíkt er nú allmikið vandamál,“ segir konungur, „en fyrst þú hefur hér orði á komið þá er bezt þú fáir hér virðinguna og vandann með; vil ég fela þér það erindi á hendur að leita mér þess konfangs er mér sé sæmd í, en það vil ég áskilja að þú ekki kjósir mér konu í smábæjum eða úteyjum.“ Er þar fljótast frá að segja að ferð ráðgjafans er búin með hinum beztu föngum og fríðu föruneyti.

Siglir hann svo frá landi burt og þegar hann hefur nokkra stund farið leiðar sinnar gjörir á hann þokur svo miklar að hann veit aldrei hvar hann fer. Hrekst hann í þessum hafvillum heilan mánuð svo hann finnur hvörgi land, og er hann varir sízt verður fyrir honum land nokkurt sem hann ekki þekkir. Hittir hann á góða höfn, léttir þar akkerum og setur tjöld á land. Verða þeir engra manna varir og ætla því að þetta sé eitt eyðieyland og er menn hafa tekið á sig náðir gengur ráðgjafinn einn á land upp; og er hann hefur skammt gengið heyrir hann hljóðfæraslátt svo fagran að hann þykist aldrei þvílíkan heyrt hafa. Gengur hann á hljóðið til þess hann kemur í eitt skógarrjóður; þar sér hann konu sitja á stóli svo fagra og tíguglega að hann þykist aldrei þvílíka séð hafa; hún lék á hörpu svo vel að unun var á að heyra, en við fótskör hennar sat jungfrú ein forkunnarfögur og söng undir. Ráðgjafinn heilsar konunni mjög kurteislega, en hún stendur upp á móti honum og tekur kveðju hans mjög blíðlega. Konan spyr ráðgjafann hvörnig á ferðum hans standi og með hvörjum erindum hann fari, en hann segir henni af hið ljósasta, bæði hvörnig á högum konungs standi og hvörra erinda hann fari. „Það er þá líkt á komið með mér og konungi,“ segir konan; „ég var gift einum ágætum konungi sem réði fyrir þessu landi, en víkingar komu og drápu hann, lögðu undir sig land hans, en ég flúði á laun með þessa mey sem er dóttir mín.“ En er mærin heyrði þessi orð segir hún: „Segirðu nú satt?“ en konan rak henni löðrung og mælti: „Mundu hvörju þú lofaðir.“ Ráðgjafinn spyr konuna að heiti, en hún nefndist Blávör, en dóttirin Laufey. Og er ráðgjafinn hefur talað nokkra hríð við konuna finnur hann að hún er vitur og vel að sér gjör, og hugsar með sér að hann muni aldrei komast í betra færi með að fá konungi sínum kvonfangs en hér, hefur því upp orð sín og biður Blávarar til handa konungi; er það auðsótt og kveðst hún vera strax til reiðu að fara með honum; „því ég hef alla mína góðgripi með mér, en föruneyti hirði ég ekki um að hafa annað en Laufey dóttur mína.“

Er það ekki að orðlengja að Blávör fer með ráðgjafanum til strandar og þær báðar; lætur hann þegar svipta tjöldum, halda til skipa og vinda upp seglin í einum hasti. Er þá þokunni aflétt og sjá þeir að þetta er eyðisker eitt lítið með hömrum allt í kring, en þeir gefa því engan gaum. Rennur þegar á blásandi byr, og er þeir hafa siglt í sex daga sjá þeir land fyrir stafni og kenna að þeir eru komnir að höfuðborg konungs. Varpa þeir þegar akkerum og ganga á land. Sendir ráðgjafinn heim til borgar að boða komu sína. Verður konungur harla glaður og býr sig hinum beztu tygjum sínum til þess með fríðu föruneyti að taka á móti festarkonu sinni, og er hann er kominn á miðja leið til skipanna mætir ráðgjafinn honum þar og leiðir sína konuna við hvörja hönd; vóru þær búnar hinum beztu klæðum og fegursta skrauti. Og er konungur gjörir að líta slíkan undraljóma verður hann frá sér numinn af gleði; þykist hann himin höndum tekið hafa er hann veit að sú hin eldri konan er honum föstnuð því hún var enn álitlegri. Fagnar hann ráðgjafanum og þeim mæðgum með hinni mestu blíðu og gáir þess ekki fyrir gleðinni að spyrja hvaðan af landi þær væri. Fylgir hann þeim til borgar og lætur tilreiða handa þeim hin ágætustu herbergi. Er síðan búizt við brúðkaupi og öllu stórmenni til boðið, en ekki er þess getið að þeim konungsbörnunum Sigurði og Líneik væri boðið, enda höfðu þau ekki enn komið á fund Blávarar. Sinnti konungur þeim lítið og gáði einkis annars en sitja á tali við drottningarefnið. Fram fór brúðkaupið með hinni mestu prýði og viðhöfn og að því enduðu vóru allir út leystir með ágætum gjöfum, en konungur settist að ríkjum sínum í náðum.

Líða svo fram nokkrir tímar að ekki ber til tíðinda; tekur drottning við ríkisstjórn ásamt konungi og þykir hún þar brátt öllu spilla. Gjörist hún mjög einráð og drottnunargjörn og fer konungur að sjá að honum muni minni fengur í vera kvonfanginu en hann ætlaði með fyrsta. Ekki skipti drottning sér af þeim systkinum Sigurði og Líneik, enda komu þau ekki á hennar fund, en héldu til nætur og daga í skemmu sinni. Og ekki mjög löngu eftir að drottning hafði tekið við ríkisforráðum með konungi verða menn þess varir að hirðmenn hverfa einn og einn og veit enginn hvað af verður. Gefur konungur þessu engan gaum, en tekur sér nýja hirðmenn; fer svo fram um hríð. Einhvörju sinni kemur drottning að máli við konung og segir honum muni mál að heimta saman skatta sína. „Mun ég gæta ríkis þíns á meðan þú ert á burtu.“ Konungur lætur sér fátt um finnast, en þorir þó varla annað en hlýða drottningu; svo var hún þá orðin stórlát og ill viðurskiptis. Býr hann ferð sína úr landi á fáeinum skipum og er mjög dapur í bragði, en er hann er albúinn gengur hann í skemmu barna sinna; heilsar hann þeim, en þau taka honum blíðlega. Hann varpar mæðilega öndinni og segir: „Ef svo kann til að bera að ég komi ekki aftur úr ferð þessari, uggir mig að ykkur muni hér ekki lengi vært; vil ég svo fyrir mæla að þið flýið á burt á laun þegar þið eruð orðin vonlaus um mína afturkomu. Skuluð þið halda í austur og er þið hafið ekki lengi gengið munuð þið koma að fjalli einu háu og bröttu. Þið skuluð reyna að klifra upp á fjallið og er þið hafið komizt yfir það mun fyrir ykkur verða fjörður einn langur. Við botninn á firðinum standa tvö tré, annað grænt, en hitt rautt. Trén eru hol innan og svo um búið að ljúka má aftur svo engin merki sér til að utan. Þið skuluð fara inn í trén, sitt í hvort, mun ykkur þá ekkert granda.“ Eftir það kveður konungur þau systkin og snýr á braut mjög hryggur í huga. Heldur hann því næst til skipa, vindur upp segl og siglir á burt. Og er hann hefur siglt skamma hríð lýstur á svo miklu ofviðri að engu verður við ráðið; þessu fylgdu eldingar og reiðarþrumur og svo mikil býsn og undur að enginn hafði slíkt séð. Er þar fljótast frá að segja að öll skipin brotnuðu í spón og fórst þar konungur með öllu liði sínu.

Og hina sömu nótt sem konungur lézt dreymir Sigurð kóngsson að honum þykir faðir sinn koma alvotur inn í skemmuna, taka kórónuna af höfði sér og leggja hana fyrir fætur sér, gengur hann síðan þegjandi út aftur. Sigurður segir Líneik drauminn. Þykjast þau nú bæði vita hvar komið er; búa þau sig sem hraðast til burtferðar með gripi sína og klæði, en engan fylgdarmann. Halda þau síðan á laun út úr borginni eftir tilvísun föður síns, og er þau eru komin að fjallinu verður þeim litið aftur; sjá þau þá hvar stjúpa þeirra kemur á eftir þeim og heldur ófrýnleg í bragði. Sýnist þeim hún líkari trölli en mönnum. Skógur mikill var undir fjallshlíðinni er þau höfðu farið í gegnum. Taka þau það ráð að þau slá eldi í skóginn og stendur hann í björtu báli; kemst Blávör ekki lengra en að bálinu, og skilur þar með þeim. Klifra þau systkin upp á fjallið og gengur þeim það næsta erfitt. Fer svo um ferðir þeirra eins og faðir þeirra hafði fyrir sagt, finna þau trén og fara sitt í hvort. Var svo um búið að þau bæði gátu séð hvort til annars og talað saman sér til skemmtunar. Víkur nú sögunni til annara atburða.

Fyrir Grikklandi réði í þenna tíma einn voldugur og ágætur konungur. Eigi er getið um nafn hans. Hann átti tvö börn við drottningu sinni, son og dóttur; eru þau ekki heldur á nafn nefnd. Þau vóru væn og vel gefin og umfram aðra menn í þann tíma að fríðleika og atgjörvi.

Og er konungsson er því nær frumvaxta heldur hann í hernað til að afla sér fjár og mannvirðingar; æfir hann hernað nokkra hríð á sumrum, en situr heima í Grikklandi á vetrum. Og á þessum herferðum sínum heyrir hann oft getið um Líneik kóngsdóttir, að hún sé afbragð allra annara kvenna að fríðleik og atgjörvi. Ræður hann það þá með sér einhvörju sinni að hann siglir í bónorðsför til Líneikar, og er hann kemur að landi veit Blávör af fjölkynngi sinni fyrir um komu hans; býr hún sig og dóttur sína hinu fegursta skrauti og gengur til strandar á móti konungssyni. Konungsson tekur þeim mæðgum blíðlega og spyr tíðinda. Segir drottning honum með miklum harmi frá því að kóngur sinn hafi farizt með öllu liði sínu er hann hafi verið að taka skatta af löndum sínum; er hún mjög syrgjandi og áhyggjufull. Kóngsson spyr eftir Líneik kóngsdóttur, en drottning segir að það sé þessi mær er hún leiðir við hönd sér. Konungsson lætur sér fátt um finnast og segist hafa ætlað að hún mundi miklu fríðari mær verið hafa. Drottning segir það sé vonlegt, hún sé döpur í bragði og fölleit, svo mikinn harm sem hún hafi beðið í missir bróður síns og föðurs. Kóngssyni þykir það og alllíklegt; fer svo að hann hefur upp bónorðið og er það auðsótt hjá þeim mæðgum. Býr kóngsson sem bráðast ferð sína til baka aftur með meyna er hann hyggur vera Líneik. Vill drottning fara með, en kóngsson vill það ekki og verður svo að vera sem hann vildi.

Og er hann er skammt kominn frá landi gjörir á hann hafvillu; veit hann ekki fyrri til en hann er kominn inn á einn fjörð langan. Kóngsson skýtur báti fyrir borð og heldur í land; sér hann standa við fjarðarbotninn tvö tré svo fögur að hann þykist aldrei jafnfögur tré séð hafa. Hann lætur höggva upp trén og flytja þau til skipa, og með því þokunni er þá af létt vindur hann upp segl og siglir sem hraðast heim til Grikklands. Leiðir hann festarmey sína heim til borgar og lætur veita henni alla sæmd; fær hann henni sitt eigið svefnherbergi til íbúðar og skal hún sitja þar á daginn, en vera í skemmu konungsdóttur á nóttunni. Kóngsson hefur svo miklar mætur á trjánum þeim hinum fögru að hann lætur flytja þau í svefnherbergi sitt og reisa annað upp til höfðalags við rekkju sína, en hitt til fóta, og er hann hefur þessu öllu til leiðar komið er við brúðkaupi búizt. Fær hann Líneik (Laufey) efni í þrennan brullaupsklæðnað handa sér, bláan, rauðan og grænan, og mælir svo fyrir að öll klæðin skulu albúin áður en brúðkaup þeirra sé haldið. Skal hún gjöra fyrst hin bláu klæðin, þar næst hin rauðu og seinast hin grænu enda sé þau og bezt gjörð af þeim öllum; „mun ég sjálfur bera þau brullaupsdag vorn,“ segir konungsson. Laufey tekur við klæðinu, en kóngsson gengur á burt. Setur að henni grát mikinn því Blávör kerling hafði ekki kennt henni handvirðir; hafði hún aldrei að saumum setið á ævi sinni og allra sízt svo vönduðum sem þessir vóru. Veit hún það fyrir víst að þegar hún ekki fær lokið klæðagjörðinni muni kóngsson reka sig í burt með smán og fyrirlitningu og jafnvel drepa sig, og fær það henni mikillar hryggðar. Þau systkin, Sigurður og Líneik, sátu nú í trjánum eins og áður er sagt; sjá þau allt hvað gerist í svefnherbergi kóngssonar og heyra harmatölur Laufeyjar; kemst Sigurður konungsson mjög við af þeim og segir til systur sinnar:

„Líneik systir,
Laufey grætur.
Bættu um borða
ef betur þér lætur.“

Líneik svarar:

„Manstu ekki
fjallið háva,
brekkuna bröttu
og bálið undir?“

En svo fær Sigurður um talað fyrir Líneik að hún fer út úr trénu og sezt að saumum með Laufey. Lúka þær nú hinum fyrsta klæðnaðinum og er Laufey næsta glöð yfir hvað hann er vandaður og vel gjör. Fer þá Líneik inn í tréð aftur, en Laufey færir kóngssyni hin bláu klæðin; hann lítur á og mælti: „Aldrei hef ég séð jafngóð klæði og vel gjör sem þessi, og far þú nú til við hin rauðu klæðin og lát þau vera að því skapi betur gjör en þessi sem efnið er kostulegra.“ Fer nú Laufey aftur til herbergis síns, sezt niður og fer að gráta. Sigurður kóngsson kallar til systur sinnar hinum sömu orðum og fyrr og segir:

„Líneik systir,
Laufey grætur.
Bættu um borða
ef betur þér lætur.“

En hún svarar:

„Manstu ekki
fjallið háva,
brekkuna bröttu
og bálið undir?“

En svo fór sem fyrr að Líneik fer úr trénu og sezt að saumum. Gjörir hún nú þessi klæðin miklu vandlegar en hin; eru þau öll gulli saumuð og gimsteinum sett, og er þeim var lokið fær hún Laufey klæðin og segir hún skuli færa kóngssyni, en fer sjálf inn í tréð. Laufey gjörir svo, gengur hún á fund kóngssonar með klæðin og færir honum; hann lítur á og mælti: „Miklu eru þessi klæði betur gjör en líkindi sé til að þú hafir ein um þau fjallað; grunar mig að fleiri en ég veit muni hafa hér hönd á lagt. Far nú og gjör hin þriðju klæðin og haf lokið á þriggja nátta fresti; skulu þau bera af hinum eins og gull ber af eiri; mun ég og bera þau á okkar brúðkaupsdegi.“ Gengur Laufey til herbergis síns eins og fyrr, sezt niður og grætur. Sigurður kóngsson kemst mjög við af harmatölum hennar og talar til systur sinnar eins og fyrr. Er það ekki að orðlengja að þó hún nauðug sé fer hún út úr trénu og tekur til sauma með Laufey. Er nú miklu meira en fyrr í borið klæðin og má svo að orði kveða að hvergi sjái í klæðið fyrir gullrósum og gimsteinum. Og á hinum þriðja degi vita þær Líneik og Laufey ekki fyrri til en kóngssyni vindur þar inn. Verður Líneik mjög felmt við og ætlar að komast inn í tréð, en kóngsson verður fyrri til og þrífur í klæði hennar, setur hana hjá sér og mælti: „Það hafði mig lengi grunað að hér væri brögð í tafli og seg mér nafn þitt.“ Líneik sagði til hið sanna og hvörrar ættar hún var. Kóngsson leit mjög reiðuglega til Laufeyjar og kvað hún væri þess verð hún væri kvalin hinum verstu kvölum fyrir gabb sitt og lygi. Laufey féll til fóta kóngssyni og bað hann vægðar: „Hef ég í engu gabbað þig öðru en um klæðagjörðina af því að Líneik lagði svo ríkt á við mig að leyna því hvör þau hafði gjört. Máttú muna það að ég hef aldrei sagt þér að ég væri Líneik kóngsdóttir, heldur var það móðir mín sem svo er kölluð sem gabbað hefur þig.“ Og er þau vóru þetta að ræða vindur Sigurði kóngssyni út úr trénu. Verður þar fagnaðarfundur með þeim öllum saman og er þar fljótast frá að segja að konungsson hefur upp orð að nýju og biður Líneikar til handa sér, en hún svarar svo að hún muni engum lofast fyrri en stjúpa sín sé af dögum ráðin.

Segir nú Laufey upp alla sögu, að Blávör er hið versta tröll og réð fyrir ey þeirri er hún var í þegar ráðgjafi konungs fann hana. Átti hún byggð í helli stórum og fjöldi annara trölla. „En ég er kóngsdóttir úr nágrenninu; nam Blávör mig á burt á laun og kvaðst mundi drepa mig nema ég samsinnti og sannaði öll orð hennar; hlaut ég að lofa þessu heldur en að missa lífið. Kallaði hún mig dóttir sína og ætlaði með því að gjöra það líklegt að hún væri konungborin. Hefur Blávör valdið dauða konungsins föður ykkar; veldur hún og mannahvarfi því hinu mikla í borg föður ykkar, tekur hún þá og étur á nóttunni, því það er eðli trölla að éta mannakjöt. Er það ætlan hennar að eyða öllu fólki á föðurlandi ykkar og byggja það síðan aftur tröllahyski sínu.“ Og er þeir heyra þetta kóngsson og Sigurður safna þeir mönnum sem skjótast og búast á burtu.

Segir ekki af ferðum þeirra fyrri en þeir koma að höfuðborginni þar sem Blávör réði fyrir; koma þeir öllum á óvart; var fátt manna fyrir, því sumir vóru flúnir úr borginni vegna trölldóms Blávarar, en það var allur fjöldinn sem hún hafði drepið. Verður þar ekki af vörn og er Blávör höndum tekin; verður hún þá mjög illileg, en þeir félagar gefa henni engin grið, heldur berja hana grjóti til bana og brenna hana síðan á björtu báli. Snúa þeir því næst heim aftur sem hvatast til Grikklands og bar ekkert til tíðinda á þeirri leið, og er þeir komu heim er við brúðkaupi búizt og öllu stórmenni til boðið. Og að þeirri veizlu hefur Sigurður kóngsson upp orð sín og biður konungsdótturinnar frá Grikklandi sér til handa; er það auðsótt og veizla því næst aukin svo bæði brúðkaupin vóru drukkin í einu, og að veizlunni endaðri eru gestirnir á braut leystir með ágætum gjöfum.

Sezt nú Sigurður að ríkjum þar í Grikklandi, en kóngsson og þau Líneik héldu til föðurborgar hennar og tóku þar við ríkisráðum. Urðu því allir menn fegnir að afspringur hins fyrri konungs var nú aftur kominn þar til valda. Laufey fór með Líneik og var henni útvegað sæmilegt gjaforð og tók hún síðan við föðurleifð sinni því faðir hennar hafði látizt af harmi eftir hana. Stýrðu allir þessir konungar ríkjum sínum lengi og vel í náðum og lýkur þar þessari sögu.