Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Línusi kóngssyni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Línusi kóngssyni

Einu sinni var kóngur og drottning; þau áttu einn son sem Línus hét; hann var fríður sýnum og vel viti borinn. Þegar hann eltist meir og var kominn á tvítugsaldur hvarf hann allt í einu og fannst hvergi hvernig sem hans var leitað. Skammt frá kóngshöllinni var karl og kerling í garðshorni; kerlingin hafði fóstrað kóngsson og haft hann á brjósti með dóttur sinni. Karlsdóttir undi illa hvarfi Línusar því þeim var kært saman, svo hún ásetti sér seinast að fara og leita hans. Foreldrar hennar voru lengi að telja það úr að hún tækist þessa leit á hendur, en þegar fortölur þeirra tjáðu ekki leyfðu þau henni loks að fara og móðir hennar fékk henni bandhnoða og sagði henni að hún skyldi elta hnoðað hvert sem það færi. Karlsdóttir gerði svo. Hnoðað valt lengi lengi yfir fjöll og firnindi, stokka og steina; loksins nam það staðar í óbyggðum fjalldal undir hamrabelti einu. Karlsdóttir þóktist nú vita að í þessu fjalli mundi sá vera sem hún leitaði að. Hún gekk lengi og leitaði að dyrum á hömrunum og loksins fann hún þröngva glufu sem henni tókst að troða sér inn um. Þegar hún hafði litla stund farið þar um inni sá hún að hún var komin í víðan helli; voru hellisveggirnir sléttir og hengu þar á ýms áhöld. Á meðan hún var að litast þar um varð hún vör við afhelli einn; þar stóð í skrautlegt rúm. Þegar hún kom nær sá hún að maður lá í rúminu og þekkir hún þar kóngsson sem hún unni svo mikið. Hún varð nú alls hugar fegin fundi þessum, en þó var ekki allt þar með búið. Línus svaf og svaf svo fast að hvernig sem hún reyndi til að vekja hann gat hún það ekki. Meðan hún stóð og var að hugsa sig um hvað hún ætti til bragðs að taka í þessum vandræðum heyrir hún undirgang svo mikinn sem hjólvagn ylti; þetta hark færðist æ nær og hún var aðeins búin að fela sig innan um skran nokkurt sem þar var í hellinum, þegar hellisveggurinn opnast og vagn mjög undarlegur brunar fram á hellisgólfið. Það var rúm gert af fílsbeini og greypt í gulli; í rúminu sat skessa ógurleg ásýndar og hélt á gullkeyri í hendinni. Rúmið nam staðar í hellinum, en hellisveggurinn luktist saman á eftir henni; skessan fór úr rúmkerrunni og gekk að sænginni sem kóngsson svaf í. Skömmu síðar heyrði karlsdóttir að skessan kallaði á tvær álftir sem hún hafði ekki fyrr tekið eftir, og sagði við þær:

„Syngi, syngi svanir mínir
svo að Línus kóngsson vakni.“

Þá sungu svanirnir svo fagurt að Línus vaknaði af svefni. Skessan spurði hann þá hvort hann hefði ekki enn hugsað sig betur um og ásett sér að fella ást til sín, en Línus neitaði kallsi hennar með viðbjóð. Eftir það bar skessan honum mat eftir þörfum og sagði við álftirnar:

„Syngi, syngi svanir mínir
svo að Línus kóngsson sofni.“

Sungu svo svanirnir og Línus féll aftur í fasta svefn. Skessan steig aftur í rúmkerru sína, gerði smell með gullkeyrinu og sagði:

„Renni, renni rekkja mín
þangað sem ég kom frá.“

Laukst þá upp hellisveggurinn og ekur svo skessan burtu eins og hún var þangað komin. Karlsdóttir tók vel eftir öllu sem hún heyrði úr fylgsni sínu, og varla var skessan fyrr burt farin en hún fór úr fylgsninu og var nú annast til þess að geta náð tali af kóngssyni. Hún sagði því við svanina:

„Syngi, syngi svanir mínir
svo að Línus kóngsson vakni.“

Svanirnir sungu og Línus vaknaði og varð alls hugar feginn þegar hann sá stallsystur sína. Þau töluðust lengi við og lögðu niður með sér hvernig Línus ætti að flýja og komast undan valdi skessunnar sem hyllti hann þangað og unni honum svo mikið. Þegar þau höfðu talað út um það og sá tími fór í hönd sem skessan var vön að koma aftur í hellinn sagði karlsdóttir:

„Syngi, syngi svanir mínir
svo að Línus kóngsson sofni.“

Svanirnir sungu og Línus féll aftur í fasta svefn. Þegar sú gamla kom og vakti hann að nýju gerði Línus sig blíðari við hana en áður eins og þeim karlsdóttur hafði komið saman um, og lézt ekki mundi vera fráleitur því að taka ást við hana. Þegar hann var búinn að blíðka hana með þessu spurði hann hana um alla hluti og einnig þess hvert lífi hennar væri eins varið og annara manna og hvert hún færi alltaf þegar hún yfirgæfi sig. Þá sagði skessan honum að hún ætti bróður og væri hann risi eins og hún væri skessa og líf þeirra færi saman og væri það komið undir lífssteini einum og væri það bani beggja þeirra ef sá steinn skaddaðist. Þegar hún færi frá honum úr hellinum þá færi hún til bróður síns, en hann hefðist við hjá uppsprettulind einni undir stórum trjám; þar væru þau vön að taka upp steininn og leika sér að honum. Línus lét sem sér væri ekkert annt um þessar fréttir neinar, en gerði sig blíðan við skessuna, og vildi hún þegar halda brullaup sitt daginn eftir; síðan lét hún svanina svæfa Línus og fór svo leiðar sinnar. Þá fer karlsdóttir á kreik og heldur áfram lengi lengi þangað til hún kemur að uppsprettunni undir þremur stórtrjám, en Línus leitar lags á meðan að hugga skessuna og gefa henni dag frá degi góðar vonir. Þegar karlsdóttir var komin þangað sem hún vildi faldi hún sig í einu trénu sem var holt innan. Nokkru síðar kom þar svo ógurlegur risi að þegar hann andaði frá sér hristust öll blöðin á trjánum. Litlu á eftir kom og skessan þar, systir hans, og ók í rúmkerru sinni. Hún stígur úr kerrunni; þau taka steininn og fara að fleygja honum á milli sín og henda hann á lofti. Karlsdóttir sætir nú góðu lagi, læðist fram undan trénu og grípur fyrir þeim steininn og mölvar hann í mél á kletti einum. En varla var hún búin að brjóta steininn fyrr en tröllin duttu steindauð niður, en karlsdóttir sezt í rúmkerruna, smellir gullkeyrinu og segir:

„Renni, renni rekkja mín
til Línusar kóngssonar.“

Rennur þá rúmkerran rétta leið og skiptir það fáum togum, hellisveggurinn opnast eins og áður fyrir skessunni og svanirnir vekja Línus að boði karlsdóttur. Þau láta nú allt sem þau fundu fémætt í hellinum í rúmkerruna og setjast þar bæði upp í á eftir og halda með allt saman heim í kóngsríki. Eins og við var að búast var þar allt á ferð og flugi af gleði yfir heimkomu kóngssonar. Línus gekk svo að eiga karlsdóttur og fékk kóngur honum alla ríkisstjórnina í hendur; lifðu þau svo bæði lengi og vel til dauðadags.