Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Listalin og Trimbiltrút

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Listalin og Trimiltrút

Það var einu sinni kóngur og drottning og áttu sér eina dóttir sem hét Listalin. Þegar hún vóx upp lét kóngur smíða henni dýrðlegan kastala og settist hún þar í með sínum þjónustumeyjum; en sú sem henni var handgengnust hét Lin og lét hún hana vera hjá sér nætur og daga. En þegar kóngsdóttir var orðin fulltíða strengdi hún þess heit að eiga engvan nema þann sem kæmi sér til að hlæja, og heimsóktu hana því margir kóngssynir í þeim tilgangi að koma henni til að hlæja, og tókst engum það. Skammt frá borginni bjó einn fátækur bóndi og átti son er Trimbiltrútur hét og fósturson er Trút hét. Þeir fóru til kastala kóngsdóttir og báðu hana um næturgisting hvað hún gjörði og voru þeir látnir sofa fyrir utan dyr á svefnherbergi hennar. Þá heyrðu þeir um nóttina að kóngsdóttir kallaði upp og sagði: „Lin, Lin!“ Þá svaraði hin: „Ó, mín kæra Listalin!“ Þá sagði kóngsdóttir: „Ljáðu mér munnlaug til að sylla í.“ Að litlum tíma liðnum heyra þeir að kóngsdóttir segir: „Lin! Lin!“ „Ó, mín kæra Listalin!“ „Hvað kemur til þess að mér finnst að eitthvað bögglast undir mér svo ég get ekki sofið?“ Fer þá Lin að leita þar til hún segir: „Ekki skal mig kyn kyn! Það er þá dúnfjöður.“ Enn að stundu liðinni heyra þeir að sagt er: „Lin! Lin!“ „Ó, mín kæra Listalin!“ „Hvað kemur til þess að það er svo bjart að ég get ekki sofið?“ Lin fór svo að aðgæta hvað það gæti verið er legði svo mikla birtu af og segir: „Ekki skal mig kyn kyn! Litla táin á þér stendur út undan fötunum.“ Að nokkrum tíma liðnum heyra þær að sagt er með dimmri röddu: „Trút! Trút!“ „Ó, minn kæri Trimbiltrút!“ „Ljáðu mér hrútshorn að míga í.“ Og enn að æðitíma liðnum heyra þær aftur sagt: „Trút! Trút!“ „Ó, minn kæri Trimbiltrút!“ „Hvað kemur til þess að ég get ekki sofið? Það bögglast eitthvað undir mér.“ Trút fer að aðgæta og segir: „Ekki skal mig kyn kyn! Það er það sem þér ber við.“ Þá gátu þær naumast stillt sig um að fara ekki að hlæja. Leið nú enn nokkur tími þangað til þær heyra sagt: „Trút! Trút!“ „Ó, minn kæri Trimbiltrút!“ „Hvað kemur til þess að það er svo bjart að ég get ekki sofið?“ Segir þá Trútur: „Ekki skal mig kyn kyn! Tunglið skín rétt í rassinn á þér.“ Hlógu þær þá svo mikið að þeir heyrðu! Sögðu þeir kóngsdóttir um morguninn að þeir væru búnir að vinna til þeirra þegar þeir hefðu getað komið þeim til að hlæja og gat hún ei móti borið. Síðan lét kóngsdóttir setja þá til mennta og þegar þeir voru útlærðir átti kóngsdóttir Trimbiltrút, en Lin Trút. Og var Trimbiltrútur kóngur eftir föður hennar, en Trútur ráðgjafi. Unntist það svo vel og lengi.

Og er svo ekki sagan lengri.