Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Loðinbarða

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Loðinbarða

Einu sinni voru þrjár systur í föðurgarði; hétu þær Ása, Signý og Helga. Eitt sinn fór Ása út í skóg að sækja bagga til eldsneytis. Þegar Ása ætlaði að lyfta á sig byrðinni var hún svo þung að hún gat ekki hreyft hana úr stað; fann hún að eitthvað kvikt var setzt á byrðina. Hún sagði þá: „Hver liggur á byrði minni svo þungur?“ En þetta var tröllkarl og svaraði hann með dimmri rödd: „Loðinbarði heitir hann.“ Síðan þreif hann til Ásu og sagði: „Hvort viltu heldur ég beri þig eða dragi?“ Hún svaraði heldur fálega: „Ég vil langtum heldur þú dragir mig.“ Síðan dró hann hana í helli einn mikinn og mælti: „Hvort viltu heldur sofa fyrir ofan mig eða undir rúmi mínu?“ Hún kaus heldur að liggja undir rúmi hans. Daginn eftir reyndi hún til að strjúka heim, en þá náði tröllkarlinn henni og drap hana. Öldungis eins fór með Signýju.

Seinast tók hann Helgu og fór hún svo að ráði sínu að hún kaus heldur hann bæri sig en drægi, og vildi heldur sofa fyrir ofan hann en undir rúmi hans. Fór þá svo að Loðinbarði trúði Helgu og skildi hana eftir til að búa til veizlu er hann hafði lagt næg föng til, en sjálfur fór hann að bjóða tröllum. Helga átti að hafa öllu aflokið innan þriggja daga; tókst henni það og bar alla vist á borð og vín mikið, en í einum stað þar sem skugga bar á reisti hún tréstubba upp við vegg og klæddi hann í föt sín, en festi blöðru með blóði í á vegginn hjá trébrúðurinni. Síðan settist hún á skörunginn og reið honum burt í gandreið því hún var fjölkunnug. En þegar hún fór neri hún ösku og hrími í andlit sér til að gjöra sig torkennilegri. Var þetta þegar líða tók að kvöldi hins þriðja dags. Hún mætti þá fyrst stórum tröllahóp og voru í honum einhöfðaðir þussar og þar var Loðinbarði með. Tröllin sögðu: „Komstu ekki að Gnípufjalli, kolkjaftan þín?“ Helga svaraði: „Kom ég þar.“ Tröllin: „Hvernig var þar umhorfs?“ Helga:

„Breitt var á bekki,
brúður sat á stóli;
full voru ker
svo flóði út af.“

Tröllin: „Ríðum og ríðum og skellum undir nára og látum ekki brúðurina bíða.“ Síðan mætti Helga öðrum hóp og voru þar tvíhöfðaðir þussar, og enn hinum þriðja, þar voru þríhöfðaðir þussar. Allir sóttu þeir til boðsins og fórust þeim og Helgu sömu orð á milli. Þegar til hellisins kom ruddust tröllin að mat og víni án þess að skipta sér af brúðurinni er sat afsíðis í skugganum. Brátt gjörðust tröllin ölvuð og sendust hnútum á. Ein hnúta lenti í blóðblöðrunni og sprengdi hana; dreif blóðið í allar áttir, en tréstubbinn féll. Tröllin kenndu þá hvort öðru um að þau hefðu drepið brúðurina. Tókst þá harður bardagi og lauk svo að þau drápust öll á. Þetta sá Helga af fjölkynngi sínu og fór aftur til hellisins og hafði allt með sér það er fémætt var.[1]

  1. Fleiri sögur eru mjög líkar þessari með þeim mismun að bæði heita karlsdæturnar öðruvísi en hér og eins hitt að þegar þær sofa fyrir ofan risann sem tekur þær vakna þær við það að fyrir framan þær liggur kóngssonur, en tröllshamurinn fyrir framan stokkinn, og brenna þær hann þá og eignast síðan kóngssoninn sem ekki hefur getað losnað fyrr úr ánauðum sínum en mennsk kona verður til að hvíla fyrir ofan hann í tröllshamnum.