Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Maríu og Sigurði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Maríu og Sigurði

Forðum daga hefur ríkjum ráðið einn auðugur kóngur að nafni Friðleifur. Hann hafði fengið sér drottning af dýrum ættum sem Ölveig hét. Þau áttu einn son sem Sigurður hét. Kóngurinn var so mildur og góðsamur við alla, einkum við alla fátæka, að öngvir þekktu til annars eins. Þess vegna settu margir fátækir byggð sína sem næst kóngshöllinni. Meðal þessara voru ein fátæk hjón sem áttu eina dóttir sem María hét. Þau byggðu sér hús innan borgarvirkisveggjanna. Sigurður og María fundust oft og léku marga barnaleika saman, af hvurju að vóx so mikil elska milli þeirra að þau skildu aldrei nema þegar þau sváfu. Einu sinni segir Sigurður við Maríu: „Þess strengi ég heit að ég skal öngvan kvenmann eiga nema þig.“ María svarar: „Þú gleymir því nú þegar þú ferð að sjá kóngadæturnar.“ Hann kvað nei við því.

Nú var Sigurður settur í skóla. En móðir Maríu verður ólétt og leggst á gólf og fæðir sveinbarn. Að því búnu deyr móðirin, en María tekur barnið og hjúkrar eftir megni og liðu so fram nokkrir tímar þar til faðir hennar tekur sótt og andast, en hún fóstrar barnið í húsi sínu.

Víkur nú sögunni til kóngs að hann tekur sótt og andast og verður þar í kring mikil harmaraust í fátæka fólki, því drottning var líka önduð. Nú var Sigurður kallaður heim og til konungs tekinn. Vill hann nú taka Maríu sér til drottningar, en ráðgjafar hans taka hreint fyrir það og segja það ei sambjóði hans tign. Ræður hann það af að sigla úr landi og fær sér eina kóngsdóttir til ekta og siglir heim í ríki sitt og sezt um kyrrt. Við einu varar hann drottningu sína – „og það er,“ segir hann, „það að þú skalt engin afskipti hafa af henni Maríu og aldrei finna hana þegar ég er ekki með þér.“ Kóngur hafði látið smíða sér forkunnar fagra höllu lausa frá borginni hvar hann hélt sig með konu sína nótt og dag, líka með herrum sínum. Einu sinni býr kóngur sig að ríða á skóg og varar nú konu sína innilega við Maríu og ríður so af stað. En að því búnu gengur drottning út og verður litið til húss Maríu. Hún sér að María situr á stól við stein hjá húsinu og segir drottning við sjálfa sig: „Hvað getur af því hlotizt þó ég finni aumingjann hana Maríu, og skal ég fara,“ – hvað hún gjörir. En þegar hún kemur heilsar hún blíðlega Maríu og drengnum sem var að stíga við hana. María tekur því alúðlega, en jafnsnart tekur hún í fæturnar á drengnum og slær höfðinu á honum við steininn so heilasletturnar fara víðs vegar, en drengurinn stendur jafnótt upp og stígur við systir sína. Drottningu þykir þetta mikil list og segist skuli gjöra þetta drengnum sínum sem var hér um bil fjögra ára. María segir: „Varastu að hafa heimskuna eftir mér.“ „Það er ekki líkt heimsku að tarna,“ segir drottning. Nú kveðjast þær og gengur drottning heim, en þegar hún kemur í hallardyrnar kemur barn hennar þar á móti henni og vindur hún því brátt á loft og slær honum af öllu afli við múrinn, en so bar illa til að hann stóð aldrei upp og féllst drottningu mikið um þetta og hélt að það myndi hafa orðið of lint höggið fyrst drengurinn stæði ei upp aftur. Kom nú kóngur heim og þykir illa orðið, vítar mikið konu sína, en hún lofar að láta af forvitni við Maríu. Líða nú fram eitt eður tvö ár þar til að kóngur var boðinn í eitt mikið gestaboð og varar harðlega drottningu sína að forvitnast ekkert um Maríu, hvurju hún lofar upp á æru og trú, og skilja þau með það.

En einn dag gengur drottning út úr höllinni, verður litið til húss Maríu og sér hún að það stendur þá í björtu báli, og verður henni mjög hverft við og hrópar á alla þá næstu og hleypur með þeim til brennunnar hvar María stóð við og ofrar höndum og segir: „Niður niður, funi funi,“ – og dettur allur logi niður og sást enginn reykjareimur, og ekkert hafði sviðnað. Annað veifið segir hún: „Upp upp, funi funi,“ – og strax stóð allt húsið í björtu báli. Að þessu gamni var hún lengi og bar bæði við og tjöru í eldinn. Nú stendur drottning með undrun yfir þessu sjónarspili og vill nú læra það vel svo sér slái nú ekki feil, því þetta skuli hún gjöra við höllina sína. María segir: „Öngvan veginn skalt þú hafa heimskuna eftir mér.“ „Við skulum ekki tala meira um þetta; vertu sæl,“ segir drottning. Gengur hún nú heim til borgar, kallar saman alla sína þegna og biður þá nú að ganga til næsta skógar og sækja sína byrðina hvurn af viði, – „og hraðið þið ykkur so sem þið getið, því ég ætla að leika mér eins og hún María meðan kóngurinn kemur ekki heim.“ Þeir svara: „Hvurt er yðar hátign öldungis gengnar af vitinu?“ Hún svarar: „Þið sjái það sjálfir að þó ég kveiki upp í kringum höllina okkar þá skaðar það ekkert, því ég kann orðin til að slökva aftur þegar ég vil.“ Þeir segjast hvurgi fara. Svífur þá á drottning og segir: „Eru þið so dáðugir að afsegja mér einu sinni so lítið og skal ég klaga ykkur fyrir kónginum þegar hann kemur heim og skuluð þið þá rekast úr okkar þjónustu.“ Þeir segja þá sín á milli: „Vandinn liggur á henni og skulum við gjöra allt sem hún leggur fyrir okkur.“ Fara þeir so í skyndi og koma brátt aftur. Jafnar hún þetta með þeim í kringum stásshöllina og lætur so slá eldi í allt, en hún stendur sjálf með uppréttum höndum og hrópar í sífellu: „Upp upp, funi funi.“ Tók nú brátt að loga og eldurinn að læsast í nýbrædda hallarveggina. Þykir drottningu nóg loga, hengir nú hendur til jarðar og segir: „Niður niður, funi funi.“ En því það dugði ekki hvurnin sem [hún] hrópaði brann höllin til kaldra kola á mjög litlum tíma. Féllst drottningu mikið um þetta og hélt að viðurinn mundi hafa verið of lítill og átaldi menn sína fyrir letina og litla bagga. Og að því búnu gjörir hún sér að góðu að ganga inn í borgina. Kemur nú kóngur og þegar hann sér þessi verksummerki verður hann nú öldungis hlessa af gáfum og tiltektum konu sinnar, átelur hana nokkuð, en þykir komið sem komið er, lætur aftur taka til hallarbyggingar og gengur það bæði fljótt og vel og lætur snúa dyrunum beint til hafs og að henni fullgjörðri sezt kóngur þar í með drottningu sinni.

Líður so nokkur tími þar til víkingar koma þar að landi og fara hermannlega. Verður nú kóngur að friða land sitt og gengur til drottningar og segir: „Það mun sannast nú sem fyrri þar sem þú átt hlutinn að að fátt sé verra en vara heimskan; samt gjöri ég skyldu mína að áminna þig að hafa öngva forvitni um hagi Maríu. Og ég fyrirbýð þér hreint so mikið að koma nokkurn tíma út meðan ég kem ekki aftur.“ Hún lofar öllu góðu hér um, og skilja so með þetta. Til þess hafði kóngur látið hallardyrnar horfa til sjóar að ef kona sín kynni að glæpast á að ganga út í dyrnar yrði ekki María eður hús hennar fyrir augum hennar.

Nú segir frá því að drottningu fer að leiðast að sitja þarna sem í aresti með frúm sínum. Hún segir við þær: „Óhætt er mér að koma út í dyrnar að skoða þetta fagra veður.“ Þær segja: „Breyttu ekki út af því sem fyrir þig var lagt, því hér er allskemmtilegt þegar kristallsgluggarnir taka á móti sólargeislunum so allt glóar upp okkur til indælis.“ Þessi ræða gramdist drottningu og segir: „Flest vilji þið mér fyrirmuna sem til skemmtunar þéna mætti og get ég ekki drepið so niður tign minni að láta ykkur sitja so ofan á mér og skal mig ekki sú smán henda,“ – stekkur upp og gengur út í hallardyrnar og þær á eftir. Hún sér þá hvar María er þar beint út á sjónum og situr á sænginni sinni, en hefur forklæði sitt fyrir segl og siglir aftur og fram meðfram landinu. Drottning segir: „Öngvan kvenmann veit ég eins listfengan sem Maríu og þoli ég ekki að sjá þetta, og sækið sængina mína strax:“ Þær segja: „Hvað sér þú eður hvað ætlar þú með sængina þína?“ Hún segir: „Eru þið bæði sjónlausar og vitlausar, skoði hvar hún María er að sigla fram og aftur á sænginni sinni og ætla ég að gjöra hið sama. Þið sjái að af þessu getur hvurki hlotizt mannsbani né húsbruni.“ Þær hugsa með sér: „Þú hefur lengi vitlaus verið, og hefur sokkið félegra þing,“ – sækja sængina, en hún býr sig til burtsiglingar, og þegar þær hafa lagt sængina á sjóinn stígur drottning út á, en þær hrinda so langt frá landi með rá sem þær gátu. Tók sængin að verða æ djúpsyndari þar til allt sökk til grunna. En Maríu höfðu þær aldrei á þessum tíma hvurgi séð né heyrt. Varð nú furðu lítil sorg í borginni. Kemur kóngur heim að unnum sigri yfir víkingunum og fær þessa fregn að heyra, bar sig hreystilega og segir herrum sínum: „Þið vissuð að þessarar drottningar fékk ég mér eftir ykkar orðum og var hún af kóngaættum, en þess vegna brá ég trúlofun við Maríu, og skal það nú við hana allt bæta ef hún vill mig nú þýðast.“ Og eftir harða ræðu yfir herrum sínum lét hann sækja Maríu og höfðu þau aldrei sézt þann tíma sem drottning var þar í landi; og varð nú fagnaðarfundur og giftust síðan og undust lengi og vel og juku ætt sína. – Og lýkur þar þessari sögu.