Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Ríkarði Ríkarðssyni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Ríkarði Ríkarðssyni

Fursti einn ákaflega ríkur bjó í borg einni í fyrndinni; hann átti svo mikið af gulli og gersemum, peningum og hverju öðru innistandandi í þess konar. Þar í borginni bjó maður sá er Ríkarður hét og [var] hinn mesti þjóðhagasmiður svo hann lagði á hvaðeina gjörva hönd. Fátækur var hann og lifði mest á handbjörg sinni. Konu átti hann og er hún ekki nefnd og með henni son einn er Ríkarður hét. Þenna mann fekk konungur til að smíða gripahús sitt; skyldi það vera afhús eitt út úr hallarveggnum, svo nett múrað að engi missmíði sæist til dyranna, og geymdi fursti lykilinn sjálfur. Mælt er hann hafi gengið þangað með gjöld þau og peninga er honum guldust. Að lokinni smíði þessari fekk Ríkarður ríflega borgun því furstanum gazt mæta vel að smíði þessu. Liðu svo heilmörg ár að ekki er þess getið að neitt bæri til tíðinda.

Þegar mörg ár eru liðin þykist furstinn sjá að ekki vaxa svo mikið peningar í hirzlum hans sem hann átti von á. Athugar [hann] þetta betur. Sér hann þá að þeir eyðast heldur en vaxa; skilur hann ekki í hvernig það geti verið. Samt hugsar hann upp ráð ef mögulegt væri það upp að götva. Lætur hann nú taka gryfju ofan í gólfið og fyllir hana á barma af olíu eða lími. Líður nú svo nóttin og næsta nótt að furstinn verður einkis var. Þriðja morguninn árla kemur hann í húsið og sér vegsummerki að inn hefir verið komið. Lítur hann þá í kerið og sér þar mann í höfuðlausan. Lætur hann draga hann upp, þvo föt hans og hreinsa, en verður einkis vísari.

Nú víkur sögunni til Ríkarðs karls. Eftir þetta kemst hann í þröng og fátækdóm. Hann hafði tekið eftirmynd af lykli furstans. Eftir þessari eftirmynd smíðar hann nú lykil og stelur frá furstanum oft og stórum sem áður er getið. Var hann örlætismaður og gjöfull og höfðinglundaður. Því varð honum peningaskylft svo enn þykist hann þurfa að grésja sér; kallar því á son sinn Ríkarð og segir: „Fari svo að afturkoma mín frestist – sem auðveldlega er við að búast að furstinn uppfinni einhverjar vélar til að tálma för minni – þá skaltu koma á fund minn.“ Karlinn fer nú og fór svo sem hann gat til að för hans til baka dvaldist. Undrast Ríkarður yngri þetta og þykist skilja hann muni ekki ráða vilja sínum, fer því og finnur föður sinn þarna ofan í kerinu; en hvernig sem hann fór að kemur hann ekki karlinum upp úr. Í annan stað sér hann að ekki verður honum burtu komið án þess ekki sjáist ferillinn eftir; hefir því engar sveiflur á hugsun sinni, heldur heggur hann hausinn af karlinum og fer með hann heim til sín og það af peningum sem hann kemst með. Grefur hann nú kollinn af karlinum þar sem honum líkar. Móðir hans varð ákaflega aum yfir missir bónda síns, en Ríkarður þaggar niðrí henni og biður hana bera harm sinn í hljóði til að varast allan grun.

Furstinn unir nú næsta illa við þessi málalok; þykist víst vita að fleiri muni hafa verið í vitorði með þjófnum; munu þeir ekki lengi sita við svo gjört, heldur stela meiru í framtíðinni. Hugsar hann nú upp ráð ef mögulegt væri að hitta þjófinn. Lætur hann nú taka þjófinn og aka í börum fyrir hvers manns dyr og biður líkmenn að taka nákvæmlega eftir hvernig hverjum sem einum bregði við, og segja sér. Hvergi er getið farar þeirra fyrr en þeir koma að dyrum Ríkarðar. Situr hann þar þá úti og er að höggva tré. Í sömu svifum ber kerlingu þar að og hrín upp yfir sig. Í sömu svipan setur Ríkarður öxina í kálfann og særir sig sári miklu svo ákaflega blæðir. Þeir spurðu hvers vegna kerling æpti svona eður bæri hún kennslur á líkamann. „Nei,“ segir Ríkarður; „þegar þér komuð hingað glöptuð þér fyrir mér svo ég gætti illa starfs míns og hjó á fót mér ærna skeinu; nú kom hún í sömu svifum, og fossaði blóðið úr undinni sem þér megið hér sjá, og við það æpti hún.“ Líkmenn létu sér það nægja. Fóru þeir nú heim til höfðingja síns og sögðu honum sem gjörst frá. Þóktu honum þetta ónógar líkur að svo vöxnu máli.

Þessu næst lætur hann hengja kropp hins dauða fyrir utan veitingahús eitt þar sem hann var framan í hvers manns augum, og setti þar tilsjónarmenn yfir að hafa sem nákvæmastar gætur á mönnum er þangað kæmu. Þetta frétti kerling heim til sín. Lætur hún mikið um það framan í honum og biður hann hafa einhver ráð að ná karlinum. Hann tekur fátt undir þetta, en fer þó að heiman litlu síðar og finnur gullsmið einn, kaupir af honum að gylla sig allan utan og svo búnað hestsins; kaupir sér svo nokkra kristallushjálma og kveikir á þeim. En er rökkvað er ríður hann allur ljósum skrýddur, og verpur allt einum loga um hann og hest hans svo líkast var að sjá mesta geislabroti. Sást engin mannsmynd á honum svo þekkjanlegt væri. Ríður hann þannig útbúinn að veitingahúsinu, grípur karlinn og ríður með hann í flughasti til sjávar, bindur stein við hann og fleygir honum í sjóinn, kastar þar öllum búnaði af sér og hestinum og laumast svo heim. Sagt er að vökumenn hafi haldið þetta mundi engill guðs; hafi guði misþóknazt meðferð á karlskepnunni og sent hann.

Ekki er furstinn ánægður með þetta, útgefur því það lagaboð að enginn megi utan lífsstraff nefna ket í heilan mánuð, því síður neyta; lætur samt upp festa alikálf einn í alþjóðlegu húsi og setti tvo vökumenn yfir. Því útgaf hann þetta lagaboð að hann þóktist vita að sá einn mundi hafa stolið frá sér er fás mundi svífast og mundi ef til vill langa í ketbita er það sýndist svo á glámbekk. Þetta lagaboð fréttir ógegnt móðir Ríkarðs, vælir nú framan í syni sínum um ketleysi og segir sig langi í ekkert meira en kálfsket. Ríkarður hastar á hana fyrir þetta og segist sízt geta vorkennt henni þetta. Hún ólmast og amrar því meira, en hann bað hana þegja. Samt fer hann að heiman í höndlunarhús nokkurt og kaupir sér fjórar flöskur af því víni er hann vissi áhrifamest; kemur svo undir nótt að húsi því er kálfskrofið hékk í, kvaddi drengina góðum orðum og bað þá geyma töskuna meðan hann gengi í annað hús erinda sinna, bað þá umfram hvern hlut að forvitnast ekki í töskuna og ítrekaði það nokkrum sinnum; gekk síðan út, en kom brátt aftur og spurði þá um tölu húss þessa – svo sem hann væri ókunnur. Gengu þeir með honum út og sýndu honum töluna. Varaði hann þá enn við að forvitnast í töskuna, hélt svo leið sína. Þessi sífellda viðvörun upp æsti forvitni þeirra svo þeir gættu í tösku hans og fundu ekkert annað en fjórar flöskur, supu á þeim og þókti gott; hættu ekki við þær fyrr en þeir drukku tvær þeirra í botn enda féllu þeir fyrir ofurborð. Í þessum sömu svifum kemur þangað Ríkarður og sér hvernig komið er og þykir nú refur genginn í skor. Er hann nú ekki lengi á sér, grípur töskuna og kálfinn og skundar heim. Verður nú kerling næsta fegin.

Þetta fréttir furstinn um morguninn og þykir ekki úr aka, hugsar enn upp ráð á ný, sendir nú út marga stafkarla um borgina og biður þá koma að hverju húsi og sýna sér að kvöldi. Fara nú beiningamenn á stað og segir ekki frá nema einum þeirra. Karl sá kemur til kerlingar og tekur hún vel erindi hans, en segir það sé ekki hægt, það sé varla orðið volgt í pottinum hjá sér þó hún vildi gefa honum bita úr pottinum. Hann segir sér sé hvergi annt. Bíður hann þar þangað til hún er búin að sjóða. Gefur hún honum hryggjarbein og nokkur rif af síðu. Karl stingur þessu á sig og fer á stað. Skammt í burtu mætir Ríkarður honum og sér að rýkur úr barmi hans, spyr hvort hann hafi fundið móður sína eða hvort hún hafi nokkru vikið honum. Hann segir það vera, lofar þá góðu konu. Ríkarður biður hann sýna sér og gjörir karl það fúslega. Ríkarður segir sig furði það hún hafi getað haft það svo lítið og óverulegt, biður hann koma með sér; hann skuli láta hann fá meira. Karl fylgir honum inn í hús eitt; þar heggur hann höfuð af karli og skilur hann þar eftir með ketið í barminum.

Um kvöldið koma allir stafkarlarnir heim nema einn og þykir fursta allt að sama brunni bera; hugsar sér enn nýtt ráð upp. Býr hann til ágæta veizlu öllum ungum mönnum frá tvítugu allt að fertugsaldri, því hann hélt trautt mundi eldri maður í félagi hafa verið með þjófnum og víst ekki yngri. Skipar hann öllum þessum skara í drykkjustofu eina mikla. Þar voru rekkjur svo margar að nógar voru til handa borðsitjöndum, tveir í hverja. Í þessum skara var og sögukappi vor Ríkarður Ríkarðsson og hugsar að til nokkurs muni þessi ágæta veizla stofnuð og dregur sig mjög í hlé með drykkjuskapinn án þess þó að verða víttur. Um kvöldið verða allir ákaflega drukknir nema Ríkarður og sofnuðu fast. Það sér hann að rekkja auð stendur á miðju gólfi fagurlega skreytt með marglitum tjöldum.

Furstinn átti dóttur eina barna, hina fegurstu mær og kurteisustu. Skipar hann henni í rekkjuna og fær henni með sér smyrslakrús eina. Segist hann víst vita að þjófurinn muni einn í þessum flokki og ráðgerir hann muni fás svífast og þess ekki heldur að fara á vit við stúlkuna; skuli hún þá láta þrjá dropa úr krúsinni drjúpa á andlit honum og muni hann úr því auðþekktur.

Ríkarður hugsar nú á fund við meyna og kærir sig ekki hvað sem á eftir kemur, fer til hennar og gengur það bærilega, því mærin tók móti honum báðum höndum, og dvelur hann þar þá stund er honum líkar. Það finnur hann að eitthvað drýpur á kinn honum; stendur hann upp og gengur að spegli einum. Sér hann þá þrjá dropa á kinn sér og vill ná af, en getur ekki með neinum ráðum. Fer hann nú enn til stúlkunnar og ekki erindisleysu því enn draup á kinn honum, skoðar sig nú í spegli og þykir nú vandast málið. Þriðja sinn fer hann til stúlkunnar og hefir sem nákvæmastar gætur á henni. En er á hann drýpur hið þriðja sinn nær hann krúsinni, fer með hana í burtu glaður í huga. Lætur hann nú jafnmarga dropa drjúpa í andlit hverjum sveini sem hann hefir sjálfur og leggst nú til hvíldar að loknu starfi. Að morgni snemma finnur furstinn dóttur sína og segir hún honum fréttirnar. Gengur hann þá harðla glaður að sveinunum, en hnykkir heldur en ekki við er hann sér alla með depla á andlitinu, gengur að dóttur sinni og segist halda hún hafi ekki verið sveinalaus. Skilur hann nú að ekki muni enn allt bragðalaust, hefir því mál sitt á þennan veg:

„Viss er ég um að einhver af borðsitjöndum hér viðverandi hefir leikið mig mörg ein refsbrögð á nærverandi tíma. Skil ég það að allt mun hinn sami maður vera og það sá drengur að hvorki mér né öðrum mun til ráðandi við hann að tefla í kænsku allri og bragðvísi. Veit ég og að hann man þann leik leikið hafa í nótt. Vil eg því að svo vöxnu máli heita hinum sama dóttur minni og sæma með miklum fjármunum, en gefa honum allt mitt eftir minn dag ef hinn sami gefur sig nú fram og segir mér alla söguna.“

Ríkarður heyrir nú þetta og þenkir með sér hvort til muni ráðandi að gefa sig fram eður ekki; þykja samt loforð hans glæsileg. Sá hann það að margir voru heyrendur loforða hans; annars vegar þekki hann furstann of drenglyndan til að rjúfa særi sín; gengur því fram augljóslega og segir frá brögðum sínum í heyranda hljóði. Undruðust allir slægvizku hans.

Furstinn efndi orð sín og gaf honum dóttur sína og gæddi hann vel að fjármunum og allri auðlegð.