Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Rauðabola

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Rauðabola

Kóngur hefur Sigmundur heitið sem réð fyrir Blálandi. Hann var giftur þá sagan gjörðist. Hann gat son við konu sinni er Sigurður hét; hann var snemma mikill fyrir sér; og liðu svo tólf vetur.

Einu sinni var kóngsson úti staddur og sá nautamann föður síns að hann rak geldinga og tarfa og voru þeir alla vega litir sem von var, því þeir voru nokkur hundruð. Einn rauður tarfur var þar sem tók sig úr og kom til Sigurðar og lét ógna vinalega að honum og gekk það nokkrum sinnum þangað til Sigurður fékk svo mikla ást á nautinu svo hann kemur til föður síns og mælti: „Bónar vil ég biðja og máttu ekki neita henni.“ „Heyra má,“ kvað kóngur. „Ég hef fengið svo mikla ást á einu nauti sem þér eigið að ég verð að þjóna honum.“ Kóngur svarar: „Það get ég ekki fengið af mér, eina barnið sem að ég á, að ég láti það vinna svo auðvirðilegt sem þrælar mínir starfa.“ „Ég gjöri það engu að síður,“ kvað Sigurður. Þá kóngur sér að hann má ekki nema með valdi að snúa syni sínum frá þessu fyrirtæki þá mælti hann: „Ég skal fá handa honum hús sér og svo geturðu fengið vilja þinn.“ Við það varð Sigurður glaður; og tók nú kóngsson við nautinu en faðir hans verður við hann þurrlegur; og nú liðu nokkrar vikur.

Einu sinni einn morgun þá Sigurður ætlar að fara að gefa bola sínum þá segir boli: „Láttu þér ekki bilt við verða þó ég tali.“ Hinn kvað nei við. „Leystu mig þá og farðu mér á bak og hafðu með þér nesti.“ Af því kóngsson þekkti bola dável og hann vissi að hann mundi ekki gjöra sér mein þá fær hann sér nesti og lætur ekki á neinu bera og leysir bola og fer á bak, en boli tekur til fóta og hleypur út úr borginni og verður enginn var við; og nú halda þeir áfram og hvíla sig á nóttunum og er ekki getið að boli hafi talað við hann í þrjá daga; en á fjórða degi áður en þeir fara á stað þá segir boli: „Taktu nú ettir því sem ég segi þér. Nú munum við að miðjum degi koma að stórri borg og mun hún ekki vera minni en borg föður þíns, en það mun þér undarlegt þykja að þú munt ekki heyra til neins manns; en þar skaltu fara af baki og ríður það á lífi okkar beggja ef að þú gjörir ekki það sem ég legg fyrir þig.“ Sigurður kvaðst hlýða mundi hans forsjá; og hér næst halda þeir á stað og líður nú fram að miðjum degi. Þá sér nú Sigurður að turnar borgarinnar eru geysiháir; og nú nálægjast þeir borginni og þykist kóngsson valla hafa séð aðra eins aldingarða eins og í þessu sloti. Og nú koma þeir undir múrana og fer kóngsson af baki og spyr bola hvað hann eigi að gjöra. Boli svarar: „Þú skalt fara inn í þessa borg og þar muntu sjá mörg stór og skrautleg herbergi og skaltu ganga hús úr húsi þangað til þú kemur í hús lítið. Þar er rúm og upp yfir rúminu hanga klæði. Farðu í klæðin; og þegar þú ert kominn í þessi klæði þá ertu búinn að fá sex manna afl. Sverð og skjöld skaltu taka líka og gyrða þig sverðinu; og að því búnu skaltu kalla á hundhræ sem er undir rúminu og fara svo út, en þú verður að muna mig um að snerta ekki á hinum fögru eplum, því það er okkar bani ef að þú gjörir það áður en þú ferð inn í slotið, og aldrei máttu það.“ Nú fer hann inn fyrir girðingar og sér nú hina fögru aldingarða; en samt dettur honum ekki í hug að snerta á neinu og nú gengur hann inn í hin fögru herbergi; og látum hann nú ganga og skemmta sér, en víkjum nú sögunni heim til föður hans.

Strax um daginn var Sigurðar saknað og var farið að leita hans, en hann fannst hvurgi. En nú kom einhvur upp með það að Rauðiboli væri horfinn líka. Það sögðu sumir að þetta hefði verið sjálfur fjandinn sem hefði numið kóngsson á burtu og nú lagðist kóngur í sorg; og verður hann nú að liggja fyrst um sinn, því nú er kóngsson búinn að skoða hin fögru hús og nú finnur hann lítið hús og þekkir nú af tilvísun bola og fer nú inn og sér rúmið og þykir það heldur stórt. Hann stígur upp á rekkjustokkinn og tekur ofan klæðin og fer í og þykist nú vera orðinn mjög sterkur. Nú tekur hann sverðið og skjöldinn og gyrðir sig sverðinu. Að því búnu kallar hann á hundinn, en honum verður bilt við þegar hann sér þá ljótu skepnu, en hann herðir upp hugann og klappar hræinu; og nú fer hann út og þegar hann kom þar sem hin fögru epli [voru] hugsar hann með sér að boli hafi sagt að [hann] mætti kannski snerta á þeim – „þegar ég færi út þegar ég er orðinn svo sterkur; ég þarf ekki að éta það fyrr en ég kem út“. Og nú þrífur hann upp epli og í því bili heyrir hann öskur fyrir attan sig og allt skelfur. Hann sér hvar ógurlegur risi kemur út úr slotinu og kemst hann með nauðung út til bola og nú takast þeir á boli og risi og hundurinn rífur af hinni mestu grimmd. Kóngs[son] var ekki iðjulaus, því hann hjó með sverðinu og nú fer risinn að dofna og loksins gátu þeir drepið hann. Þá segir boli: „Nú sveikstu mig, Sigurður, og hefði ekki hundurinn hjálpað okkur þá hefði risinn drepið okkur.“ Kóngsson kvaðst mundi gá betur að í öðru sinni að hlýða hans ráðum. Og nú halda þeir áfram.

Liðu nú aðrir þrír dagar; og á fjórða degi áður en þeir fóru á stað mælti boli: „Nú mun ég segja þér hvar við verðum í nótt. Við munum nær miðjum degi koma að borg og muntu aldrei hafa séð þvílíka og gef ég ekki um að orðlengja það að þú átt að gjöra það sama, nema undir rúminu er tík og klæðunum fylgja tólf manna afl; og þá þú ert í báðum klæðunum hefurðu átján manna afl.“ En kóngsson hlýddi á með athygli og nú sjá þeir turna borgarinnar og þykist kóngsson aldrei séð hafa slíka borg og nú koma þeir að girðingunum. Fer Sigurður af baki og fer inn og fór á sömu leið og í hinni fyrri, en þegar hann tók eplið þá heyrir hann óttalegt öskur og er næstum liðið yfir hann þegar hann komst út til bola. Var það þá tvíhausaður risi og fer allt að fljúgast á og rífa hundarnir af hinni mestu grimmd og kóngsson hjó títt með sverðunum og var hann nú allsterkur, og með aðstoð bola og dýranna gat Sigurður drepið risann, og var boli mjög móður og mælti: „Mikið breytir þú út af því sem ég legg fyrir þig.“ Kóngsson bað hann fyrirgefa sér og nú hvíla þeir sig um nóttina, og daginn eftir halda þeir áfram og ettir þrjá daga þá mælti boli: „Nú munum við að miðjum degi koma að borg og eru hinar kot hjá henni, og máttu þar ekki út af bregða því sem ég legg fyrir.“ Kóngsson kvaðst muna ettir hinum fyrri risum, og nú sér hann borgina og heldur hann þetta sé Valhöll.

Nú fer hann af baki og inn í borgina og heldur hann sé kominn á ódáinsakur og nú sér hann hin fögru epli og sýnist honum þau svo fögur að hann ætlar að grípa eitt upp, en gáir sín og gengur fram hjá því og í borgina og nú undrast hann mjög að hann heyrir hvurki stun né hósta í svoddan paradís sem þessi borg er. Nú skoðar hann húsin með hinni mestu undrun og nú verður honum reikað lengra inn og þar til hann kemur í hið tiltekna hús, og sér þar rúmið og heldur það sé handa mörgum mönnum. Stígur hann upp á rekkjustokkinn og tekur ofan sverðið og þykist aldrei hafa séð slíkan grip. Hann fer í klæðin og hafði hann þá sextán manna afl og gyrðir sig sverðinu og kallar á það sem er undir rúminu, og kemur þá í ljós ógurlegt dýr sem menn kalla ljón og hafði kóngsson aldrei heyrt getið um það og varð honum bilt við þó hann væri orðinn jötunn að afli. Samt þegar það gjörði honum ekki mein þá klappar hann því; og nú fer hann út og dýrið á ettir og nú hugsar hann ettir ráðum bola, en samt gleymir hann öllu og þrífur upp eplið fagra sem hann var búinn að horfa lengi á. En í því bili heyrir hann öskur og jörðin skelfur, en þó verður honum verra við þegar ljónið öskrar líka ógurlega; sló á hann miklum ótta, en kemst þó út til bola og er hann lítur við sér hann þríhausaðan risa ógurlegan og hann flýgur á bola og ljónið var ekki iðjulaust. En þó hundarnir og ljónið rifu af hinni mestu grimmd þá gátu þau ekki drepið hann, og ekki bitu hann hin snörpu sverð. Loksins sér kóngsson að svo búið má ekki lengi standa og fær sér stórt tré í hönd og ber nú risann af hinni mestu kallmennsku. Og við hans miklu högg og svo læti dýranna fór risinn að dofna og ettir dægur voru dýrin og kóngsson búin að drepa risann, og var boli rifinn og marinn og mjög móður og mælti við kóngsson: „Illa gjörir þú, Sigurður, að hlýða mér ekki.“ Kóngsson bað hann ekki minnast á það og nú hvíla þeir sig í þrjá daga.

Á fjórða degi halda þeir á stað og mælti boli: „Nú mun ég segja þér hvar við komum; [við komum] að kóngsríki og skaltu fara heim, en ég mun verða út á skóg og mínir félagar og skaltu koma þér í mjúkinn hjá kokknum og vera mjög illa til fara og segja þú sért karlsson utan af skóg, og berðu fyrir hann ösku og vatn og vera honum hinn eftirlátasti. Ettir viku skaltu segja mér fréttir.“ Og þar næst skilja þeir.

En nú koma fleiri menn til sögunnar. Fyrir þessari borg réð kóngur sá er Hringur hét, líkur mjög. Hann átti þrjár dætur; hét sú yngsta Ingibjörg, en hinar eru ekki nafngreindar. Æðsti ráðgjafi kóngs hét Rauður, slægur og mjög óvinsæll. Þá kóngsson hafði skilið við dýrin þá sér hann borgina og þykir hún lítils virði hjá hinum dýrðlegu slotum sem ég gat um fyrr. Hann sér að varðmenn standa á vígi borgarinnar og þar kemst enginn [inn] nema hann biðji leyfis. Þegar varðmenn sjá hann hlæja þeir mjög og spurja hvað óhræsi þetta sé. Hann svarar: „Ég er karlsson utan af skógi; lofið mér inn, herrar góðir.“ Þeir svara mjög drembilega: „Öðru eins óhræsi lofum við ekki inn í slíka borg.“ „Allmjög er logið frá ykkur að þið séuð svo lítillátir og gjafmildir við aumingja, og því fór ég hingað, og mun ég snúa hér frá og bera út gestrisni ykkar,“ mælti kóngsson og snýr sér í burtu; en þetta gjörði hann af hrekk. Þegar varðmenn sjá og heyra til hans þá hugsa þeir: „Hann getur máske ent það sem hann lofaði“ – og segja hann skuli koma. Hann lézt varla þiggja það; en þegar þeir voru búnir að ganga ettir honum lengi þá fer hann inn og gefa þeir honum nóg að éta og fer hann að hrósa þeim. Og þegar hann var búinn að fá hjá þeim það sem hann vildi þá kveður hann þá og fer inn í borgina; og finnur hann kokkinn og býður honum að sækja fyrir hann vatn. Honum leizt drengurinn tötralegur, en þó þiggur hann það; og sækir hann vatnið og ber út fyrir hann ösku. Þykir kokknum vænt um hann og segir honum allt sem við ber.

Ettir viku biður Ótryggur karlsson kokkinn að lofa sér út á skóg til að finna foreldra sína. Kokkurinn segir hann verði að koma strax attur. Karlsson lofar því og nú fer hann og finnur dýrin. Fagna þau honum, en þó boli mest og spyr hann frétta, og leysir kóngsson vel af því. Þegar boli er búinn að spurja hann sem hann lysti þá segir hann honum að fara heim, – „en segðu mér fréttir á viku og hálfsmánaðar [fresti] .“ Kóngsson lofar því. Nú fer hann heim; fagnar kokkurinn honum mjög. Nú líða nokkrar vikur og ber ekki til tíðinda.

En nú víkur sögunni til lands sem fornmenn kölluðu Risaland og stóð öllum mönnum hinn mesti ótti af þeim risum sem þaðan komu.

Einu sinni sér karlsson að kokkurinn er kominn í sorgarbúning og allir eru mjög sorgbitnir. Þá segir Ótryggur hvað gangi að honum. Hann svarar: „Mikil tíðindi hef ég að segja. Hér við land er kominn risi og biður elztu dóttir konungs; og er þessi risi ósigrandi og ætlar kóngur að láta hana út á veg, því hann vill ekki láta hann sækja hana heim; en Rauður þykist ætla að frelsa hana; og á morgun verður hún flutt burtu.“ Ótryggur mælti: „Nú er mig farið að klæja og verð ég að fara út á skóg og finna foreldra mína og fá mér leppa.“ Kokkurinn lofaði honum það. Fer hann og finnur hann dýrin. Fagna þau honum vel og segir hann honum fréttirnar. Fer Sigurður í klæðin og gyrðir sig sverðinu og fara til þess staðar sem kóngsdóttir sat grátbólgin á tréstóli, en Rauður ráðgjafi kóngs sat í glersal og skrifaði. Þeir eru í leyni skammt frá. Boli sótti mjög svefn; mælti hann við Sigurð: „Ég ætla að sofna og skaltu vekja mig þegar þú sérð til risans.“ Sofnar boli strax. Þegar Sigurður sér til risans þá vekur hann bola og var hann mjög fastsvæfur; samt gat hann vakið hann, og stökkva á móti risanum og takast þá miklar sviptingar og áflog. Ljónið reif og hundarnir bitu af hinni mestu grimmd, kóngsson hjó hart og títt og fyrir hans stóru högg og aðstoð dýranna drápu þau hann, og lallar boli á skóginn, en kóngsson gekk til kóngsdóttir. Hún fagnar honum vel og bað hann koma heim með sér – „og mun faðir minn launa þér mitt frelsi.“ En kóngsson neitar því. Og þegar hún sér að hún getur ekki komið honum heim þá tók hún gull af hendi sér og hnýtti í hár hans. Síðan kveður hann hana og fer til skógar, en hún sat ettir grátbólgin. Þegar hann var horfinn þá fer Rauður úr glersal sínum og tekur í hönd kóngsdóttir og leiðir hana heim; en þegar þau eru skammt komin mælti Rauður: „Tvo kosti geri ég þér; sá annar að þú sverjir mér að segja að ég hafi frelsað þig, en hinn er sá að ég mun pína þig til dauða.“ Hún [kvaðst] sverja mundi að segja að hann hefði frelsað hana. Halda þau svo áfram þar til þau koma til borgarinnar; og verður mesti fagnaðarfundur með kóngi og Rauði og segist hann hafa frelsað hana. En það þótti kóngi undarlegt að dóttir hans er mjög dauf, en þó samsinnir hún það sem Rauður sagði.

Nú kemur karlsson heim og sér að allt er í uppnámi og spyr kokkinn hvað um sé að vera. Kokkurinn mælti: „Nú hefur margt og mikið skeð síðan þú fórst. Konungsdóttir frelsuð og það hefur gjört Rauður ráðgjafi.“ Nú líða nokkrir dagar.

Einu sinni einn dag sér karlsson að kokkurinn er kominn í sorgarbúning, og spyr hann hvað um sé að vera. Hann mælti: „Í gær fékk kóngur boð frá Risalandi frá bróður risans sem Rauður drap og býður kóngi hólmgöngu og ætlar Rauður að ganga á hólm við risann og á að flytja hana [ᴐ: kóngsdótturina] til sjóar þar sem er von á risanum.“ Þá sagði Ótryggur við kokkinn: „Nú er mig farið að klæja og verður þú að lofa mér að fara út á skóg til foreldra minna til að hafa fataskipti.“ „Þú ert víst mjög lúsugur, en þú verður að fara.“ Þakkar Ótryggur honum fyrir og fer hann þar til hann finnur bola sinn. Fagnar hann honum vel. Segir hann honum fréttirnar. Halda þeir nú á stað þar til sem kóngsdóttir situr og Rauður er skammt frá í glersal að skrifa. Eru þeir skammt frá. Nú mælti boli: „Syfjar mig nú og sækir að mér og skaltu vekja mig þegar þú sérð til risans.“ Sofnar boli. Ettir ofurlitla stund sér kóngsson hvar risinn kemur. Nú fer hann að vekja bola og sefur hann fast. Hann sigar hundunum á hann og rífa þeir í hann svo hann vaknar. Er þá risinn kominn á land. Stökkva þeir nú á móti honum, og rífa dýrin og Sigurður hjó títt með sverðunum, en risinn barði allt frá sér. En af því dýrin voru grimm og Sigurður var mesta tröll að afli þá gátu þau drepið risann; og labba dýrin mjög móð á skóginn, en kóngsson gekk til kóngsdóttur og kyssti á hönd hennar, en hún fór upp um hálsinn á honum og þakkar honum fyrir frelsið og biður hann að koma með sér heim – „því nú sé ég að þú hefur frelsað systur mína, en ekki Rauður, og verður þú að koma heim með mér.“ Kóngsson kvað nei við og kvaddi hana. Hún horfði grátbólgin á ettir honum; og hún tók líka gull af fingri sér og hnýtti í hár hans, því hún þekkti gull systur sinnar. Þegar hann var kominn í hvarf, þá stendur Rauður upp og gef ég ekki um að orðlengja það: hann fór á sömu leið með hana og hina fyrri.

Nú fer Ótryggur karlsson heim í kóngsríki og er þar mikil gleði og glaumur og lætur hann sem hann viti ekki neitt og spyr hvað um sé að vera. Kokkurinn segir: „Rauður er búinn að frelsa kóngsdóttir og drepa risann og nú vill hann fara að gifta sig Ingibjörgu, en hún vill það ekki, því henni þykir undarleg sorg í systrum.

Líða nú nokkrar vikur; vill Rauður gifta sig, en það dregst. Einn dag sér Ótryggur karlsson að kokkurinn er mjög grátbólginn, því hann sá skjaldan aðra en hann, spyr hann hvað að honum gangi. Hann svarar: „Hér við land er kominn ógurlegur risi; hann er frá Risalandi og er faðir þeirra beggja sem Rauður drap og drepur hann hvurt mannsbarn sem hann finnur; og halda menn að Rauður geti ekki frelsað kóng og hans ríki frá þessum ófögnuði. En það ráð leggur Rauður að hann vill fara með Ingibjörgu út á veg og þykist hann drepa hann þar sem hina; og ætlar hann á morgun með Ingibjörgu og syrgja hana allir, en hún sjálf vill ekki fara og segir að Rauður sé það mesta mannleysi; að hann hafi aldrei frelsað systur sínar; og hann geti það eins heima við í borginni. En Rauður fékk svo talið um fyrir kóngi að hann fékk sinn vilja.“ Þegar Ótryggur karlsson heyrir þetta þá fer hann leyfislaust og kvaddi ekki vin sinn, út á skóg og hefur nú miklar fréttir að segja. Fer nú öll hersingin að þeim stað hvar Ingibjörg er og Rauður að skrifa í glersal sínum. Þá syfjar bola og segir hann hann skuli vekja sig – „þegar þú heyrir hans ólæti og skaltu vísa dýrunum á mig; en ef ég get ekki vaknað þá skaltu slá mig með kylfu þinni sem þú ætlar að berja með risann.“ Sofnar boli og þegar hann er sofnaður heyrir hann siguröskur risans. Þetta stóðst ekki ljónið og tekur undir líka, en við það leið yfir Rauð í glersalnum. Fer nú kóngsson að vekja bola og sigar dýrunum á hann og hefur það ekkert að segja. Slær hann með kylfunni í hausinn á bola nokkrum sinnum. Loksins vaknar hann, stekkur upp og ætlar móti risanum. Þá sjá þeir að hann er búinn að taka kóngsdóttir. Elta þau hann öll þar til risinn kemur að sjó og fer á skip og rær í burtu. Fær Sigurður sér skip og hafði dýrin með sér.

Nú eltir hann þar til hann kemur að Risalandi; þar fer hann á land og segir boli honum að fylgja sér. Ganga þeir þar til þeir koma að hól og sagði boli að Sigurður skyldi vefja klæðunum um höfuð sér – „því ég ætla að öskra, því í þessum hól er tarfur svartur í járngrindum og verðum við að drepa hann og rista hann á kviðinn og taka lifandi örn og drepa hana og taka úr henni egg og sprengja á milli augnanna á risanum og verður hann ekki unninn með öðru móti.“ Öskrar Rauðiboli nú og stenzt ljónið það ekki og öskrar líka, og vefur kóngsson klæðin fast; en þá er tekið undir í hólnum óttalega og í því bili kemur út óttalega stórt naut. Takast þar harðar sviptingar; og ettir langa mæðu drápu þeir tarfinn. Risti Sigurður hann á kviðinn og bað boli hann að gjöra það gætilega; og í því bili flýgur örnin úr kviðnum og ætlar kóngsson að grípa hana, en missti hana og flýgur hún burtu. Nú fer allt að elta hana og varð ljónið drjúgast. Elta þeir hana um allt Risaland þar til hún var orðin svo lúin að hún gat ekki lengur flogið. Náði ljónið henni og drap hana. Nú risti kóngsson hana á kviðinn og fór mjög varlega með eggið og fekk bola eggið og gleypti hann það svo það brotnaði ekki. Halda þeir nú á stað þar til þeir koma að hellri og fer Sigurður upp á gluggann og heyrir hann er að kyssa Ingibjörgu. Sækir hann sér vatn og steypir á gluggann. Þá sagði kóngsdóttir: „Lofaðu mér út að taka inn þvottinn; það er komið úr honum.“ Hann batt um hana járnfesti og fer hún út; en henni verður bilt við þegar hún sér ljónið, en það leit til hennar hýrlega svo hún hljóðaði ekki. Fleygir nú Sigurður egginu sem boli skilaði heilu inn um gluggann og kemur það á gagnauga risanum og drepur hann. En þegar Sigurður kom inn þá var hann að ganga attur. Drap þá kóngsson hann út af og tekur kóngsdóttir og stígur á skip með félögum sínum og róa að landi Hrings kóngs; þá er Rauður í glersal sínum. Kveður hann Ingibjörg[u] þegar hún er búin að hnýta gulli í hár hans. Þegar allt er horfið fer Rauður úr glersal sínum, og fór á sömu leið og með hinar fyrri.

En það er frá Sigurði [að segja] að boli segir honum að fara í klæð[in] og hafa utan yfir fjötra sína og fara heim í kóngsríki – „og þegar veizlan stendur sem hæst þá skaltu ganga inn á hallargólfið og kasta af þér tötrunum og spyrja hvurt nokkur þekki þig, og ef þú færð Ingibjörgu þá lofaðu okkur að vera á fótum þínum.“ Hann lofar því. Fer hann nú heim og fagnar kokkurinn honum og spyr hvað hann hafi verið að gjöra. Hann kvaðst hafa verið að jarða foreldra sína. „Það er víst vel gjört,“ mælti kokkurinn. — Nú er Rauður setztur á brúðarbekk hjá Ingibjörgu, en þær systur vilja ekki sjá hann og eykur það kóngi sorg.

Þegar sem hæst stendur veizlan þá gengur kóngsson inn á hallargólfið og hristir af sér tötrana og spyr hvurt nokkur þekki sig. Þá stökkva konungsdætur fram yfir borðið og ryðja öllu um koll og upp um hálsinn á Sigurði og hrópa allar í einu hljóði og segja: „Þetta er okkar lífgjafari.“ Rauður verður svartur sem bik og mælti: „Takið sköss þessi og drepið, því þær ljúga.“ Kóngur bað alla kyrra vera og biður dætur sínar sanna þetta; – „annars fáið þið straff.“ Þær hljóðu[ðu] og sögðu: „Líttu á hringina okkar í hárinu á honum sem við gáfum honum og þú gafst okkur.“ Kóngur sá þetta var satt og bað dætur sínar að segja sannleikann. Hóf Ingibjörg upp söguna og rak öllum í ramma stanz. Var Rauður bundinn, en Sigurður settist á brúðarbekkinn hjá Ingibjörgu og höfðu þær góða matarlyst; en Rauður lá bundinn undir borðum; og var nú gleði mikil. Segir Sigurður við brúðurina: „Við verðum að hafa vænt rúmið okkar, því dýrin sem að þú sást verða að vera í sama rúmi sem við bæði.“ Hún bað hann ráða. Og þegar kvöld er kom[ið] býr Sigurður stóra flatsæng, háttar síðan. Heyra menn hvar dýrin koma og eru mjög óþokkaleg og helzt boli sjálfur. Bauð Sigurði mjög við honum, því hann var aldrei eins óþokkalegur. Sofnar nú allt; en Sigurður vaknar við umbrot að allir hamirnir brölta á gólfinu, en í rúminu tveir kóngssynir og tvær kóngsdætur, fríðar og fallegar. Skipar Sigurður þrælum að brenna hamina, en hann dreypir á kóngabörnin. Sá sem var í tarfslíkinu hét Sigurður og fer hann að tala við nafna sinn. Segist hann vera kóngsson af Indíalandi – „og þetta eru systkini mín og heitir sú sem var í tíkarhamnum Ragnhildur, en ljóns[hamnum] var í Sólbjört yngra systir mín, en bróðir minn heitir Ingvaldur; og eigum við þér mikið að launa. Stjúpa okkar lagði þetta á okkur [að] við kæmustum ekki úr þessum álögum fyrr en við dræpum bræður hennar í slotunum og mann hennar á Risalandi og syni hans, og mundi það seint verða, nema kóngssonur nafni minn hjálpaði til þess; en ég mátti fara frjáls hvurt sem ég vildi, en systkini mín vera geymd hjá bræðrum hennar; því gaztu ekki komizt hjá að snerta á eplunum.“

Var nú aukin veizlan og fékk Sigurður og Ingvaldur systur Ingibjargar og gáfu nafnar kokknum Ragnhildi; en Sólbjört giftist aldrei. Stóð veizlan í tvær vikur. Var Rauður látinn lifa á meðan, en ettir það var hann bundinn á fjórar ótemjur og síðan fæld[ar].

Indíalandsbræður fóru heim og brenndu stjúpu sína. Sigurður fór heim í sitt ríki, en gaf kokknum jarlsnafn og lét hann þjóna sér. Varð hinn mesti fagnaðarfundur þeg[ar] [Sig]urður kom heim. Var faðir hans lifandi og gaf honum ríkið. Lifðu þeir allir vinir nafnar og kokkurinn og Ingvaldur til elli.

Endar hér sagan af Rauðabola.