Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Signýju Vömb

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Signýju Vömb

Það er upphaf þessarar sögu að konungur og drottning réðu fyrir ríki og áttu þau dóttur er Signý hét. Ólst hún upp eins og önnur góð sögubörn og var henni byggð fögur skemma. Þegar hún var vaxin orðin tók móðir hennar sótt og andaðist og harmaði konungur hana mikið og svo dóttir hans og lagðist konungur í rekkju af harmi. Ráðgjafar hans vildu hughreysta hann og réðu honum til að fá sér konu aftur, en hann vildi ekki.

Litlu síðar bar svo til einn blíðan veðurdag að kona er var tígugleg ásýndum gengur inn í höllina og að rekkjunni þar sem kóngur lá. Hún gengur að rekkjustokknum og heilsar konungi kurteislega; tekur konungur kveðju hennar aðeins. Hún tekur þá upp glas úr vasa sínum og hristir og lætur drjúpa einn dropa á varir konungsins. Fellst honum svo vel á bragð dropans að hann biður um meira. Fekk hún honum þá glasið; en þegar hann var búinn að súpa úr glasinu gleymdi hann börnum sínum og reis upp í á móti konunni með fögnuði, spyr hana að ætt og nafni, en hún kvaðst Yrsa heita og vera kóngsdóttir; en það hefði verið slegizt upp á ríki hans með ófriði og hann drepinn, en hún kvaðst hafa flúið undan. En þegar konungur heyrir þetta verður hann inntekinn af ást til hennar. Reis hann þegar úr rekkju og slær upp gleðiveizlu; en í veizlunni biður hann hennar, og hvað sem um það var talað tók hún því. Síðan var búizt við brúðkaupi og boðið fjölda fólks. Er þá sent eftir kóngsdóttir til að sitja brúðkaupið, en hún var ófáanleg til að koma og sáu menn að drottningu þótti miður, en sló því þó ekki út. Var síðan drukkið brúðkaupið með gleði og glaum. Og liðu svo nokkrir tímar þangað til konungur bjó sig í burtu til að heimta skatta af löndum sínum. Beiddi hann þá drottningu að sjá vel um ríkið heima og hét hún honum því.

Einn dag gengur hún til kastala Signýjar, klappar á dyr og biður að ljúka upp. Var Signý treg til, en þorði þó ekki annað. Gengur drottning inn og kastar á hana þessum orðum: „Þú situr þarna, þitt leiða líf, við nógan glaum, en það skal nú ekki lengi vara. Þú vildir ekki sitja brúðkaup mitt og fyrir það sama skaltu verða að vömb sem nýrifin væri úr nauti og ekki skaltu úr þessum álögum komast fyrr en kóngssonur sefur hjá þér.“ En Signý segir: „Á þig legg ég aftur á móti að þú verðir að breima ketti og í þeim álögum skaltu vera þangað til konungurinn kemur heim. Skaltu þá detta niður dauð af hallarburstinni og sýna þig hina sömu sem þú í raun og veru ert.“ Drottning segir að þetta sé heimskuleg ræða og skuli báðar taka aftur, en Signý sagði að hvort tveggja skyldi haldast. Hurfu síðan báðar og þótti mönnum kynlegt, en kött sáu menn sem gekk hljóðandi í hvert hús. Voru gerðir út leitarmenn að leita að drottningu og kóngsdóttur og fannst hvorug.

Liðu nú tímar þar til konungur kemur heim. Gengu menn þá í móti honum og sögðu honum tíðindin og bregður honum kynlega við; en þegar hann kemur heim undir borgina dettur ketta dauð niður af hallarburstinni og þekkir kóngur þar Yrsu drottningu og þykja mönnum þetta allt saman fáheyrð tíðindi, og sezt kóngur um kyrrt í ríki sínu.

Og víkur nú sögunni til Signýjar þar sem hún hvarf og segir ekki af henni fyrr en hún kemur fram í einu landi þar sem réði fyrir ungur konungur er Hálfdán hét; var hann ókvæntur, en móðir hans var í ráðum með honum; en skammt frá kóngsríki voru gömul hjón í koti og höfðu svín að geyma. Einu sinni kom Vömb þar fram og bauð sig til að geyma svínanna og þáðu þau það. Tók Vömb þá til að geyma svínanna og hélt þeim helzt til haga þar sem kóngsmenn héldu sínum hjörðum. Klöguðu menn þetta fyrir kóngi að þessi óvættur væri kominn í landið. Biður hann menn sína fara og drepa hann Gerðu menn þá raun til að afmá þenna óvætt, en náðu ekki, því hún valt svo fljótt. Sögðu menn kóngi svo búið. En næsta dag býr hann sig sjálfur. Sér hann þá hvar Vömb er að veltast og eltir hana. Loksins kemst hann svo nærri henni að hann heggur með öxi í miðja vömbina. verður þá öxin föst í vömbinni og hendur kóngs við axarskaftið. Veltur hún síðan áfram með kóng þar til hann mæðist. Biður hann hana þá að láta sig lausa, en þess var ekki kostur nema hún mætti koma heim um kvöldið og sofa hjá honum; neyðist kóngur til að lofa því. Lætur hún hann þá lausan og öxina.

Fer kóngur þá heim og er mjög dapur. Spyr móðir hans hann hvað hann þjái. Segir hann henni þá í hvert efni komið var. Biður hún kóng að gjöra sig glaðan og efna heit sitt og sagðist hún skyldi vaka og vita hverju fram yndi. Líður nú að kvöldi og gengur konungur til hvílu. Kom þá vömbin heim að hallardyrunum og voru menn kvaddir til að bera hana til hvílu. Féll þá kóngur í óvit er hún var lögð í hvíluna. Skipar drottning þá að læsa herberginu; gengu menn síðan til svefns. Litlu síðar kemur drottning í herbergið. Sér hún þá hvar vambarhamurinn er, en fríð mær liggur í rúminu hjá kóngi, en þau liggja bæði í dái. Tekur hún haminn og brennir, en dreypir síðan á þau bæði svo þau rakna við. Verður kóngur glaður við og biður hana að segja sér upp alla sögu. Var hún fús til þess og biður kóng að láta föður sinn vita hvar hún sé niður komin; lofar hann því. Sendir hann þegar menn á fund föður Signýjar að segja honum tíðindin. Verður hann glaður við er hann heyrir hvar dóttir hans er, fer þegar með sendimönnum og segir ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir finna Hálfdán kóng; verður þar fagnaðarfundur er Signý hittir föður sinn. Hefur Hálfdán kóngur upp bónorð og biður Signýjar sér til handa og var það auðsótt, en faðir Signýjar biður móðir Hálfdanar og var því vel svarað. Var síðan búizt við brúðkaupi og að því enduðu voru menn með gjöfum burtleystir og hélt kóngurinn faðir Signýjar heim með konu sína. En Hálfdán kóngur og Signý sátu eftir og undu vel hag sínum hvorutveggju.

Og lýkur svo þessari sögu.