Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Sigurði Gelli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Sigurði Gelli

Einu sinni var karl og kerling í koti sínu, kóngur og drottning í ríki sínu. Karl og kerling áttu sér son sem hét Sigurður. Kóngur og drottning áttu sér dóttur sem hét Ingibjörg. Þau léku sér saman þegar þau vóru börn og trúlofuðust þá svo enginn vissi. Þegar þau vóru komin til aldurs var byggð skemma handa Ingibjörgu og settist hún þar með mörgum meyjum, en Sigurði voru kenndar íþróttir og varð hann hinn mesti efnismaður og hvurs manns hugljúfi. Eina nótt kom vættur nokkur á glugga í karlskoti og kallaði á Sigurð út. Hann vildi fara, en karl þverbannaði honum það, og fór hann ekki. Þá reiddist vætturin og lagði á Sigurð að hann skyldi verða þvert á móti því sem hann hefði áður verið: hann skyldi verða ljótur eins og ófreskja, hafa bæði lús og geitur og verða svo gírugur að hann yrði aldrei fylltur, sletta sér fram í allra manna mál og spilla öllu og verða hvurjum manni hvumleiður, og í þeim álögum skyldi hann verða þangað til kóngsdóttir kysi hann sér til eiginmanns sem seint mundi verða.

Þetta gekk eftir; Sigurður varð svo ljótur að enginn þekkti hann fyrir sama mann, svo ger að hann varð aldrei fylltur, sletti sér í allra manna mál og spillti öllu. Þar fyrir var hann kallaður Gellir. Hann kom oft í kóngsríkið að sníkja sér mat. Kóngurinn átti naut sem hann hélt mikið upp á. Hann hélt gullsmið sem hann lét búa til gullfesti um hornin á nautinu. Það ber til tíðinda að nautið hverfur. Þess er leitað og finnst það ekki. Kóngur lofaði ógnar miklum launum hvurjum sem uppgötvaði hvar nautið væri niður komið, og kom það fyrir ekkert.

Einu sinni kom Gellir í smiðju gullsmiðsins og bað hann um mat. Hann spurði hvort Gellir vissi nokkuð um nautið kóngsins, lofaði að hann skyldi fá nóg að éta í mánuð ef hann segði sér til þess. „Það er ólíklegt,“ segir Gellir, „að ég viti það betur en þú.“ „Fyrir hvurn mun,“ segir gullsmiður, „segðu mér það ef þú veizt eitthvað um það.“ „Ljáðu mér þá pál og reku,“ segir Gellir. Gullsmiðurinn gjörir það. Gellir fer að bora eitthvað fyrir innan aflinn hjá honum og kemur þar upp úr með hausinn af nautinu með gullfestina um hornin. Þá sagði Gellir: „Nú fer ég með hausinn til kóngsins, þá fæ ég nóg að éta meðan ég lifi.“ „Æ-nei,“ segir gullsmiður, „þá lætur kóngur drepa mig, og er þó sannast að segja að ég er saklaus.“ „Og ætli þú sért ekki saklaus,“ segir Gellir, „ég læt vera þó þú verðir drepinn.“ „Ég skal,“ segir gullsmiður, „gjöra hvað sem þú biður mig ef þú fer ekki með hausinn.“ „Jæja,“ segir Gellir, „þú skalt þá smíða handa mér gullgreiðu svo fallega að önnur eins hafi ekki sézt hér í ríkinu, og vertu búinn að því á þriggja daga fresti.“ „Það er nú ekki mikið,“ segir gullsmiður, „þó ég geri það fyrir þig, Gellir minn.“ Nú fer Gellir, en kemur aftur að þriggja daga fresti og var þá greiðan til. Gellir tekur hana og gengur að skemmuglugga kóngsdóttur og fer að greiða geiturnar. Kóngsdóttir sér þetta út um gluggann og þykir greiðan hæfa sér heldur en honum og sendir meyjar sínar að fala greiðuna. Gellir hélt hún gæti komið sjálf ef hún vildi fá hana. Þær sögðu henni það. Hún ráðgaðist við þær hvurt óhætt mundi vera að fara út til hans. Þær sögðu hann væri meinlaus og væri það víst óhætt. Hún fór út til Gellis og falar greiðuna, sagði hún hæfði sér, en ekki honum; hann skyldi fá nógan mat fyrir. Hann færðist lengi undan; hún var því ákafari. Loksins segir Gellir: „Ég held ég verði að láta þig fá hana, en þá verður þú að taka í höndina á mér.“ „Ætli það sé óhætt, stúlkur?“ segir hún. Þær sögðu það væri óhætt. Hún tók þá í höndina á honum og fékk svo greiðuna og fór inn í skemmuna ánægð, en Gellir stökk til gullsmiðsins og sagði: „Ekki varð mér neitt gagn að þessu, það var narrað út úr mér; ég fer með hausinn til kóngsins.“ „Fyrir hvurn mun,“ segir gullsi, „gjörðu það ekki; ég skal gjöra hvað sem þú biður mig.“ „Jæja,“ segir Gellir, „smíðaðu handa mér svo fallegan gullkamb að hann sambjóði greiðunni, og hafðu hann til að liðnum þrem dögum.“ Gullsmiður játar því og að liðnum þrem dögum fær Gellir kambinn og fer að kemba sér geiturnar við glugga Ingibjargar. Hún kemur út og fer að fala kambinn. Gellir er tregur að láta hann, en segir þó loksins: „Þú verður að fá hann, en ég verð þá að fá að taka á lærinu á þér.“ Hún vissi þá ekki hvað hún skyldi ráða af, en fyrir áeggjan meyja sinna lofaði hún honum það og fékk svo kambinn. En Gellir stökk til gullsmiðsins og segir: „Ekki varð mér þetta að neinu gagni, það var narrað út úr mér.“ „Það gat ég ekki gjört að,“ segir gullsmiður. „Ég sé það,“ segir Gellir, „að ég hefi ekkert gott af hausnum nema ég fari með hann til kóngsins“. „Gjörðu það ekki,“ segir gullsmiður, „þá verð ég drepinn saklaus. Ég skal enn gera hvað sem þú biður mig.“ „Þá skaltu,“ segir Gellir, „smíða handa mér svo fallegan gullstól að annar eins hafi ekki sézt hér í ríkinu.“ Gullsmiður lofar að hafa hann tilbúinn að hálfum mánuði liðnum og það enti hann.

Gellir settist á stólinn við glugga kóngsdótturinnar. Hún kemur út og falar stólinn. Gellir sagði þetta væri nú eini dýrgripurinn sem foreldrar sínir ætti eftir og sagðist ekki mega selja hann. Hún sótti því fastar eftir. Loksins segir Gellir: „Það er rétt ég láti þig fá hann ef ég fæ að liggja á skörinni fyrir framan þig í nótt.“ „Haldið þið það sé óhætt, stúlkur?“ segir Ingibjörg. „Já.“ segja þær, „hann liggur kyrr, strákurinn; hann er meinlaus og náttúrulaus.“ „Það verður þá að vera,“ segir hún, „en liggðu þá kyrr.“ Hann lofaði góðu um það og um kvöldið lagðist hann á skörina.

Þegar allar meyjar eru sofnaðar skríður hann upp í hjá Ingibjörgu. Henni brá ekki svo illa við og fóru þau að tala saman. „Manstu nokkuð eftir Sigurði karlssyni?“ segir Gellir. „Já,“ segir hún, „ég man eftir honum meðan ég lifi.“ „Veiztu hvað af honum er orðið?“ segir Gellir. „Heyrt hefi ég,“ segir hún, „að hann hafi orðið að ófreskju og þú sért það. En úti er um heitorð okkar, því á morgun ætlar faðir minn að stefna á þing öllum ríkishöfðingjum og sonum þeirra. Þeir (synirnir) eiga að slá þrefaldan hring um mig, og ég á að ganga þrisvar um hringinn og kjósa einhvurn þeirra mér til eiginmanns, og sá á að taka við stjórninni, því faðir minn getur ekki lengur stjórnað fyrir elli.“ „Þá mun ég,“ segir Gellir, „standa einhvurstaðar í utasta hringnum, og þá skaltu kjósa mig því þá verð eg almennilegur aftur.“ „Er það þá víst?“ segir hún. „Já, það máttu reiða þig á,“ segir Gellir. „Þá mun ég kjósa þig,“ segir hún. Hann fer nú ofan á skörina aftur og er þar þegar meyjarnar vakna. Þær spyrja Ingibjörgu hvurt hann hafi sýnt nokkra óeirð. Hún sagði það hefði verið öðru nær.

Gellir fer nú heim í karlskot og biður föður sinn að hafa til reiðu í dag um miðjan dag ellefu menn vopnaða ríðandi og vopn og hest handa þeim tólfta. Karl sagði það væri til lítils fyrir hann að biðja um það. Gellir bað hann gjöra það samt. Karl lofaði því, og svo var karl vinsæll að nágrannar hans voru til reiðu þegar hann vildi. Gellir stökk nú í kóngsríkið og voru þá hringarnir settir.

Hann tróð sér inn í utasta hringinn og var honum lofað það til að hlæja að honum. Þegar kóngsdóttirin kom móts við hann í fyrsta sinni roðnaði hún og þagði. Þegar hún kom móts við hann í öðru sinni sagði hún: „Þennan kýs ég mér, faðir.“ „Ég anza engu gamanyrði,“ segir kóngur. Hún kemur til móts við Gellir þriðja sinn og segir: „Þennan kýs ég mér, faðir.“ Þá varð kóngurinn ákaflega reiður og höfðingjarnir og synir þeirra þó enn reiðari og þótti hún hafa smánað sig. Kóngurinn sagði það væri maklegt að þeir dæmdi hvurt straff hún skyldi fá fyrir þetta. Þeir sögðu allir í einu hljóði að hún skyldi brennast á báli. Voru þrælar nú sendir út á skóg að kynda bálið. Aðrir voru sendir með kóngsdóttur og þar á eftir reið kóngurinn og allir höfðingjarnir. Gellir stökk nú heim í kallskot og varð náttúrlegur á leiðinni. Hann tekur vopnin og hestinn og ríður út á skóg og allir þeir tólf. Þeir mæta flokknum og stöðva þá; foringinn kallar til kóngsins: „Hvað á að fara að gera?“ Kóngurinn svaraði með dapri rödd: „Það á að fara að brenna dóttur mína á báli; hún smánaði alla syni ríkishöfðingjanna með því að kjósa ófreskju fremur en þá, og hafa þeir dæmt henni þetta straff.“ „En ætli þú hefðir látið brenna hana, hefði hún kosið mig?“ segir Sigurður. „Það er mikið fjærri,“ segir kóngur, „ég veit ekki hvurn ég hefði tekið fram yfir þig.“ „Hún kaus mig,“ segir Sigurður, „og frelsaði mig úr álögum um leið.“ Höfðingjar báðu kónginn að trúa þessu ekki. Sigurður sagði þeir mætti þá berjast við sig ef þeir vildi ekki sleppa Ingibjörgu. Þeir voru vopnlausir og varð svo að vera sem Sigurður vildi. Kóngurinn varð sárfeginn í huganum, en talaði ekki um það. Nú reið allur hópurinn heim í kóngsríkið, og er slegið upp brúðkaupsveizlu og giftist Sigurður Ingibjörgu. Kóngurinn setur á hann kórónuna og gefur honum ríkið. Þetta urðu höfðingjarnir að horfa á hvort sem þeim líkaði betur eða ver. Í veizlunni sagði Sigurður ævisögu sína, og var það í henni að hann hafði sjálfur stolið nautinu og ráðgert með sjálfum sér fyrir fram hvurnig allt skyldi fara. Borgaði hann nú gullsmiðnum ríflega og gjörði hann ánægðan. Síðan gaf hann öllum mönnum sem í veizlunni voru góðar gjafir og ríkti svo farsæll til ellidaga, og úti er sagan.