Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Sigurði hring og Snata

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Sigurði hring og Snata

Einu sinni var kóngur og drottning og réðu fyrir ríki. Þau áttu tvö börn; hét sonur þeirra Sigurður, en Ingibiörg dóttir. Bæði vóru þau afbragð annarra kóngabarna í þar nærliggjandi löndum. Þó er þess getið að Sigurður væri mjög ágjarn. Hann var fullorðinn og bæði þau er þessi saga gjörðist.

Oft reið Sigurður á skóg með sveinum sínum að veiða dýr og fugla. Einu sinni kom yfir þá þokumyrkur svo þeir villtust hvur frá öðrum. Varð Sigurður einn sér og fór hann lengi villtur þar til hann kom í skógarrjóður eitt nærri sjó. Situr þar í rjóðrinu kona fyrirtaks fríð; hún sat á gullstól og greiddi hár sitt með gullkambi. Hann heilsar henni kurteislega, en hún tók vel kveðju hans. Sigurður spyr hvur hún sé. Hún segir: „Ég er ekkja konungs eins er ég missti fyrir skömmu.“ Þar var hjá henni kista ein furðumikil og stóð opin. Sigurður spyr hvað í henni sé. Hún segir hann megi horfa ofan í hana ef vilji, og gjörir Sigurður það. Sér hann þá ekkert fémætt í kistunni nema á botninum hring einn afar stóran. Sigurði lék ágirnd á hringnum og falar hann af konunni Hún segir hann megi eiga hann ef hann nái honum; en Sigurði fannst lítið til þess að vinna og fer nú að teygja sig ofan í kistuna; virðist honum hún miklu dýpri en honum sýndist áður og er hann nú nær því allur kominn á höfuðið. Veit hann þá ekki fyrri til en konan sem á stólnum sat kemur að og stingur honum alveg ofan í kistuna og læsir aftur; síðan veltir hún kistunni ofan í flæðarmál og hrindir frá landi. Veit nú Sigurður ekki hvað lengi hann er í kistunni eða hvurt hún fer þar til loksins að honum finnst hún standa kyr. Þykist hann nú vita að hún muni einhvurstaðar að landi komin. Leitast hann nú við að ná botninum úr kistunni og það getur hann um síðir. Fer hann nú að litast um og þykist sjá að hann er kominn að meginlandi, en hvurt það var vissi hann ekki. Nú gengur hann upp á land og nokkuð lengi þar til hann sér hjá sér fara kvikindi nokkurt ekki ólíkt hundi að skapnaði, en þó ljótara; hverfur það honum þá. Litlu síðar sér hann risa ógurlegan og ber fundum þeirra saman. Segir þá jötunninn: „Hvurt er sem mér sýnist að Sigurður hringur kóngsson sé hér?“ Hinn kvað það satt vera – „og er þér nær að veita mér lið en að gjöra gys að mér.“ Risinn segir: „Að vísu skal ég þér lið veita og skalt þú koma heim með mér.“ Fara þeir nú unz þeir komu þangað sem jötunninn átti heima. Ekki varð hann var við fleiri menn en risann og kellingu hans. Er hann hjá þeim um nóttina í góðum fagnaði.

Um morguninn segir risinn við kóngsson að hann megi vera hjá þeim til vors ef hann vilji. Kóngsson segist það gjarnan þiggja vilja. Risinn segir: „Hvurt vilt þú heldur fara með mér daglega á dýraveiðar eða vera heima hjá kellingu minni?“ Sigurður segir fýsilegt að fara með honum. Eftir það fara þeir af stað. En um daginn var Sigurður svo seinn að risinn varð annaðhvurt að bíða eftir honum eða bera hann. Leið svo dagur að kveldi. Þá segir risinn við Sigurð: „Það sé ég að okkur er ekki hent að ganga saman og verður þú að gjöra þér að góðu að vera heima hjá kellingu minni. Mátt þú biðja hvurs er þig lystir. Skal ég vinna þér eið að því að gjöra hvurja bón þína sem mér er mögulegt; en þú verður aftur á móti að gjöra einn hlut sem ég bið þig.“ Sigurður segir: „Hvað er það?“ Risinn segir: „Það er að forvitnast aldrei í eldaskála minn.“ „Já, það skal ég gera,“ segir Sigurður, „því á því ríður mér ekkert.“ Að svo mæltu unnu þeir hvör öðrum eið að þessu og fara síðan heim. Var Sigurður nú daglega heima hjá kellingu, en jötunninn á dýraveiðum. Það undraði Sigurð að hann varð þess aldrei var að risakonan færi neitt á flakk og þó vóru þeim bornir beztu réttir daglega og hvað annað í beztu reglu sem gjöra skyldi; en aldrei sá hann neina skepnu lifandi nema risann og kellingu hans. Oft datt honum í hug að líta inn í eldaskálann og hugsaði að ekki þyrfti neinn að verða þess var. Einn dag ræður hann af að hann skuli koma inn í eldhús; en þegar hann kom í dyrnar sér hann eitthvurt kvikindi við eldinn ekki ólíkt því er hann sá á skógnum og fyrr er nefnt. Það stekkur upp og hleypur á móti honum. Rauk þá úr því aska mikil. Sigurður varð hræddur mjög; en það kom fram í eldhúsdyrnar og kallaði eftir Sigurði og sagði: „Kjóstu mig.“ Varð svo ekki meira milli þeirra í það sinn. Þetta varð þrjá daga að Sigurður ætlaði í eldaskálann og fór allt á sömu leið og fyrr er sagt. Líður svo veturinn.

Um vorið segir risinn við kóngsson: „Nú mun að því líða að þú farir héðan og ætla ég að flytja þig burt af þessu landi. Þú skalt nú kjósa þér einhvurn hlut úr eigu minni.“ Nú minntist Sigurður þess með sjálfum sér er kvikindið hafði sagt: „Kjóstu mig“ – og segir við risann: „Ég kýs mér skepnu þá er í eldaskála þínum er.“ Risinn segir: „Nú hefur þú ekki efnt loforð þitt, en þó skalt þú ekki taka gjöld fyrir það; en enginn er sá hlutur í eigu minni er ég vildi síður láta en dýr þetta, því það má heita sem önnur hönd kellingar minnar með allt er vinna þarf. En bæði er það að ég hef lofazt til að gjöra allt sem ég get fyrir þig og líka hitt að við þurfum skamma stund á að halda, því við erum bæði feig; og mátt þú þá eiga það sem fémætt er í híbýlum okkar.“ Skildu þeir svo talið.

Einn dag um sumarið bjuggust þeir kóngsson og risinn til burtferðar; kallaði þá risinn áður á skepnu þá er í eldaskálanum var og sá þá Sigurður eins og honum hafði fyrr sýnzt, að þetta var hundur. Fara þeir svo til strandar. Stóð þar fyrir steinnökkvi kalls og stigu þeir á hann. Þá varð eftir rakkinn og kallaði jötunninn til hans; stökk hann þá út á nökkvann og héldu þeir svo frá landi. Segir ekki af ferð þeirra fyrr en þeir komu að landi. Sneri þá risinn til baka og kvaddi Sigurður hann áður og þakkaði honum áður fyrir allar velgjörðir við sig. Nú veit Sigurður ekki hvurt fara skal og ganga þeir svo nokkra stund rakkinn og hann. Þá segir rakkinn: „Því talarðu ekkert við mig?“ Sigurður segir: „Ég get ekki nefnt þig, því ég veit ekki hvað þú heitir.“ „Nefndu mig Snata Snata,“ segir rakkinn. „Hvurt skulum við þá fara?“ segir kóngsson. Snati segir: „Ég skal ráða ferðum okkar og ætla ég að fara til konungs eins sem ræður fyrir hér nokkuð frá; hann á dóttur eina er Ingibjörg heitir og er hún afbragðs kvenmaður. Þangað förum við og biðjum konung veturvistar og mun hann okkur það veita. Rauður heitir ráðgjafi kóngs; hann er bæði illgjarn og undirförull og skalt þú vara þig á honum.“ Eftir það felldu þeir niður talið. Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir komu til kóngs. Gjörðu þeir nú boð kóngi að þeir bæðu hann veturvistar. Kóngur lét leiða Sigurð til sætis og tóku þeir tal með sér Sigurður og kóngur, en rakkinn Snati lá jafnan við fætur Sigurði. Kóngur segir: „Þú beiðist veturvistar með mér og gjöri ég þér það falt; en einn kost set ég þér eins og öllum sem eru hjá mér veturvistarmenn: Hér vóru meðal fjársjóða ríkisins fimm dýrgripir sem langfeðgar mínir höfðu átt hvur fram af öðrum; þeir vóru: sverð, skjöldur, burtstöng, skikkja og brynja. Þeim fylgdi nú náttúra að meðan þeir vóru við lýði var ríkið frítt við allan ófrið og styrjöld. Nú bar svo til fyrir nokkrum árum að gripir þessir hvurfu og veit enginn hvað af er orðið. Set ég það á við hvurn veturvistarmann er ég tek, að finna og færa mér þessa gripi, og ef einhvur gæti það gifti ég honum dóttur mína, en ef þeir geta það ekki læt ég drepa þá. Af þessu sérð þú hvað fyrir þér liggur sem öðrum, en sjálfráður ert þú að fara í burt að óreyndu.“ Sigurður kvaðst mundi til hætta að vera hvursu sem færi. Fékk kóngur honum nú virðuglegt sæti og herbergi til íbúðar. Líður svo tíminn; var Sigurður hjá kóngi í góðu yfirlæti; en ætíð virtist honum Rauður ráðgjafi hafa illan augastað á sér.

Um veturinn litlu fyrir jól segir Snati eitt sinn við Sigurð: „Gakktu nú fyrir kóng og fáðu orðlof hjá honum til að fara frá hirðinni um jólin.“ Sigurður segist það skyldi gjöra; fer hann á kóngs fund og segist ætla að biðja hann að lofa sér að finna kunningja sína um jólin. Kóngur kvað hann mega fara sinna ferða hvurt er hann vildi, og þakkaði Sigurður honum mikillega slíka góðvild. Nú finnur Sigurður Snata og segir honum leyfi kóngs. Snati lét vel yfir því. Á Þorláksmessu segir Snati við Sigurð: „Farðu nú og útvegaðu þér nokkuð talsvert af salti.“ Sigurður spyr hvað það skyldi. „Þú veizt það síðar,“ segir Snati. Nú fer Sigurður og fær sér stóran poka fullan af salti; finnur hann þá Snata og segir: „Nú er ég búinn að fá nóg salt; en það gagnar okkur lítið, því ég get hvurgi hrært hann.“ Snati segir: „Við skulum koma þangað sem pokinn er;“ – og er þeir koma þar segir Snati: „Nú skalt þú binda pokann á bakið á mér,“ – og gjörði Sigurður það.

Eftir það gekk Snati af stað og segir að Sigurður skuli koma eftir sér. Segir ekki um hvað eða hvursu langt þeir fóru nema þeir komu á aðfangadagskveld að hömrum nokkrum og sáu þar hellir í. Snati segir þeir skuli koma upp á björgin; og er þeir komu þar sjá þeir glugga á berginu. Lætur nú Snati Sigurð taka af sér pokann; fara nú að horfa inn um gluggann og sjá þeir þar undir eld brennandi og pott ógurlega stóran yfir hlóðum; en fjögur flögð sváfu við eldinn og hrutu hátt. Nú tóku þeir saltpokann og sáðu öllu úr honum inn um gluggann og ofan í pottinn. Eftir nokkra stund vaknaði eitt flagðið og fór að smakka á grautnum og segir: „Móðir mín, grauturinn þinn er saltur.“ „Nei, það getur ekki skeð,“ segir kelling. Svo fara hin að smakka á og segja hið sama við kellingu að grauturinn sé saltur. Loksins rís hún sjálf upp og fer að sleikja og segir: „Það er satt, grauturinn er saltur; hann er þó annars dágóður sem vonlegt er, því mjólkin í hann var sókt í tólf kóngaríki.“ Heldur skessan nú áfram að sleikja þar til hana tók heldur að þyrsta og segir þá: „Elsku dóttir mín, sæktu mér nú að drekka.“ Hún segir: „Það gjöri ég ekki nema ég fái skikkjuna góðu.“ „Það verður víst ekki af því,“ segir kelling, „að ég fari að ljá þér slíkan grip sem hún er.“ ,Jæja, drepstu þá, bölvuð dyrgjan,“ segir sú yngri. Samt fór svo að kelling lét undan, gekk í burt og kom aftur með skikkjuna og fékk dóttur sinni, en hún fór í hana, tók síðan kvartilsskjólur og gekk til brunns. Var hún þá sjálf þyrst og lagðist niður að brunninum, en þeir Sigurður og Snati komu að í því og drápu hana í brunninum og tóku af henni skikkjuna; fóru svo aftur upp á gluggann. Nú heyra þeir að kelling segir: „Ekki kemur dóttir mín og fer það sem mig varði að hún mundi ekki hirða um að koma aftur þegar hún var búin að hafa út hjá mér skikkjuna góðu. Heillasonurinn minn, sæktu mér að drekka.“ Hann svarar: „Ekki nema ég fái brynjuna góðu.“ „Brynjuna góðu,“ segir kelling, „það verður ekki samt, því ef þú fær hana ferð þú að leika þér með systur þinni og kemur aldrei aftur.“ „Drepstu þá,“ segir strákur, „einu gildir mig.“ Sá þá kelling að ekki var til góðs að gjöra, fór því og sókti brynjuna og fékk honum, en hann klæddi sig í hana, tók hálftunnuskjólur og gekk til brunns. Var þá fyrir honum sem systur hans að hann þurfti sjálfur að fá sér að drekka; en í því komu þeir að Sigurður og Snati og drápu hann, tóku brynjuna og fóru svo upp á gluggann aftur. Þá segir kelling: „Bölvuð hjúin, þau koma aldrei aftur eins og mig grunaði og þarf ég ekki að vænta þeirra fyrst um sinn.“ En alltaf var hún að éta úr pottinum þar til hún segir: „Heilla-Sámur bóndi minn, sæktu mér nú að drekka, því ég ætla að drepast úr þorsta.“ Hann segir: „Ef ég fæ sverðið góða.“ „Nei það læt ég þig aldrei hafa, því þú svíkur mig eins og krakkarnir og kemur aldrei aftur,“ segir kelling, „eru mér slíkir dýrgripir ekki svo útfalir að ég kasti þeim svo út fyrir ekki neitt.“ Risinn segir: „Drepstu þá, bölvuð dyrgjan; og mátt þú vel fara.“ Kelling segir: „Ég sé að mér er annað hvurt að gjöra að láta undan þér.“ Að svo mæltu fer hún burt og kemur með sverð og fær honum; sýndist þeim lýsa um húsið er það var borið upp. Gyrðir Sámur sig því, tekur tunnuskjólur og fer til brunns. Var það sem fyr að hann þurfti sjálfur að fá sér að drekka; en í því komu þeir að Sigurður og Snati og drápu hann og tóku sverðið og fóru heim á leið; en þegar þeir voru komnir á miðja leið heim að hellirnum þá kom Sámur afturgenginn á eftir þeim og var heldur gustmikill. Snati réðist á móti honum og gat með aðstoð Sigurðar haft hann undir og gekk svo frá honum að hann stóð ekki upp framar.

Svo fara þeir heim að hellirnum og segir Snati: „Nú er ráð að fara inn og finna kellingu.“ Gengu þeir inn og Snati á undan. Þegar þeir koma í eldhúsdyrnar stóð kelling upp og kom á móti þeim; var hún heldur ófrýnileg og segir við Snata: „Ekki skal mig furða þó börn mín og maður hafi ekki komið aftur frá brunninum fyrst þú ert á ferð.“ Snati segir: „Nú er ég kominn að launa þér fyrir forna leikinn, fjandans kindin.“ Réðist nú skessan á Snata, en hann tók grimmlega móti. Var þeirra aðgangur harður, en svo lauk að þeir gátu komið henni niður. Varnaði Snati henni á fætur, en Sigurður jós yfir hana eldinum úr hlóðunum og grautinum úr pottinum þar til hún loksins fór að linast, og um síðir gátu þeir drepið hana og brenndu til kaldra kola. Áttu þeir nú fögrum sigri að hrósa yfir flögðum þessum. Fara þeir nú að leita um hellirinn eftir gripum þeim er vöntuðu, skildinum og burtstönginni. Loksins komu þeir í afhellir einn; sáu þeir að gripirnir voru þar upp í ræfrinu og var hátt upp að þeim. Sigurður segir: „Hvurt ráð höfum við til að ná gripunum?“ Snati segir: „Við skulum hlaða þrep á gólfið, svo fer ég upp á það og þú á bak mér og muntu þá geta prikað þeim ofan.“ Þeir gjörðu þetta; og er skjöldurinn datt ofan söng í honum svo hátt að heyrði í sex kóngaríki. Ekki er getið um að þeir hafi tekið fleira fémætt í hellirnum en gripina. Eftir það fara þeir heim til borgar og finnur Sigurður kóng; fagnar hann hans afturkomu. Líður nú veturinn. Geymdi Sigurður gripina vandlega og lét engan vita neitt um þá eða ferðalag sitt um jólin.

Á sumardaginn fyrsta gengur Sigurður fyrir kóng og þakkar honum veturvistina með mörgum fögrum orðum. Kóngur kvað hana lítils verða, – „en hvað hefur þú hugsað um að leita gripa þeirra er ég ásetti við þig í haust?“ Sigurður kvaðst lítið hafa um það hugsað – gengur þá í burt og sækir gripina og fer með þá til kóngs og fær honum þá og segir: „Ekki veit ég hvurt þetta eru yðar horfnu gripir eða ei.“ Kóngur varð glaður við er hann sá gripina, og sagði: „Mikil gæfa var það ríki voru er þú komst hingað og eru þetta þeir sömu gripir er ég meinta með öllu horfna. Ert þú nú vel kominn að ráðahag við dóttur mína og vona ég þú ílengist hér framvegis.“ Er nú haft miklu meira við Sigurð en áður.

Eitt kvöld um vorið er Sigurður var kominn í herbergi sitt og ætlaði að leggjast til svefns í sæng sína þá segir Snati við hann: „Lof mér að vera í rúmi þínu, en ligg þú á gólfinu.“ Sigurði þótti þetta undarlegt, en lét það þó til leiðast. Um miðnætti vaknar hann við þrusk nokkurt og veit ekki hvað veldur. Bregður hann þá upp ljósi og fer að skyggnast um húsið. Sér hann þá vegsummerki að á þilið fyrir ofan rúmið er komið gat og í rúminu liggur framhaldleggur af manni höggvinn sundur um olboga, og spjót í hendinni. Sigurður sá nú að þetta mundi hafa verið sér ætlað og að Snati hafði forðað honum við líftjóni. Tekur hann nú handlegginn og spjótið úr rúminu og leggst til svefns og sefur til morguns. Daginn eftir kemur það á loft að Sigurður hafi höggvið af Rauð ráðgjafa hönd í olbogabót og liggur hann í sárum. Sigurður fer til kóngs og segir honum hvurs hann hafi orðið var. Er nú Rauður tekinn fyrir; meðgekk hann þá að hann hefði einsett sér að ráða Sigurð af dögum eftir það hann vissi að kóngur ætlaði að gifta honum dóttur sína, því hann kvaðst hafa ætlað sér að fá hana sjálfur og því tekið það til bragðs að gjöra gat á þilið hjá rekkju Sigurðar til að geta þar í gegn myrt hann í sænginni þó sér hefði ekki lukkazt það betur en nú væri fram komið. Eftir það er Rauður tekinn og hengdur á hæsta gálga og fékk hann þannig umbun sinna illra verka.

Eftir þetta fer kóngur að búast við brúðkaupi þeirra Ingibjargar og Sigurðar; er mörgu stórmenni til boðið. Kemur svo fyrsti dagur veizlunnar og fór allt vel fram. Um kvöldið eru þau Sigurður og Ingibjörg leidd til rekkju; en áður var Snati búinn að biðja Sigurð að lofa sér að liggja til fóta þeirra Ingibjargar fyrstu nóttina er þau væru saman. Nú kom Snati þar er þau hvíldu um nóttina og leyfði Sigurður honum upp í rúmið þegar Ingibjörg var sofnuð; en að litlum tíma liðnum verður Sigurður var við ókyrrleika þar er Snati lá. Fer hann nú að gæta að þessu. Sér hann þá að hundshamur liggur á gólfinu, en fríður og fallegur kóngsson í rúminu. Hann brennir haminn, en dreypir á kóngssoninn og þegar hann raknar við spyr Sigurður hann að heiti. Hann svarar: „Ég heiti Hringur og er ég kóngsson; en tröllkonan sem við drápum í hellirnum er við sóttum gripina lagði það á mig að ég skyldi verða að hundi og aldrei úr þeim álögum komast fyrr en ég fengi að sofa á fótum Sigurðar hrings kóngssonar og Ingibjargar kóngsdóttur; en svo það skyldi aldrei verða þá ginnti hún þig er þú fannst hana í rjóðrinu og setti þig í kistuna og hugði hún að það skyldi þinn bani verða.“ Skildu þeir svo talið að því sinni. Er Hringur nú þar við hirðina og segir Sigurður frá hvað á dagana hafði drifið fyrir honum.

Einn dag segir Hringur við Sigurð: „Nú er svo komið að mig fýsir að vitja ríkis míns; en ekki er það svo greitt til aðgöngu. Er faðir minn fyrir löngu dauður, en í ríkið hafa setzt tveir bræður; þeir eru hinir verstu berserkir og bíta þá engin járn. Fylgir þeim hið versta illþýði og hafa þeir kúgað landsfólkið til hlýðni. Nú ætla ég að fá þitt fulltingi til að stökkva óaldarflokki þessum.“ Sigurður kvað það maklegt fyrir sakir vinskapar þeirra. Er nú búinn skipaher mikill og fóru þeir þar með sem foringjar Sigurður og Hringur. Segir ekki af ferð þeirra fyrr en eitt kvöld leggja þeir flotanum að eylandi einu og leggst fólk til náða, en Sigurður gat ekki sofnað og fer á fætur hljóðlega; gengur hann á land einn sinna manna og er nú að hugsa um ferð þeirra. Verður fyrir honum lækur og sezt hann niður í grasið hjá læknum; en er hann hefur þar litla stund verið kemur meybarn og tekur vatn í skjólu skammt fyrir neðan þar er Sigurður sat. Hann tekur gullhring af hendi sér og lætur renna í skjóluna hjá barninu; en honum sýndist það verða mjög glatt við og hljóp með skyndi heim. En að lítilli stundu liðinni kemur dvergur til Sigurðar, heilsar honum og segir: „Vanmáttugur em eg að launa þér fyrir barn mitt; en skyldur er ég að veita þér lið ef ég gæti.“ Sigurður segir: „Þörf er oss nú á góðum ráðum ef við eigum að geta komið fram áformi okkar.“ Dvergurinn segir: „Það legg ég fyrst til með ykkur að þið látið allt lið ykkar og skip heim fara nema hafið eitt eftir, því trautt vinnið þið berserkina með liðsfjölda. Þessu eina skipi skuluð þið sigla að landi því [er] berserkirnir ráða fyrir, og leggja því í leynivog. Er hér svart tjald og skuluð þið tjalda með því yfir skipið og sér það þá enginn. Hér er og sverð og tygilknífur og gef ég þér sverðið, en Hring hnífinn; vona ég hvortveggja bíti á berserkina. Nú er þið eruð að landi komnir skalt þú og Hringur á land ganga; er hér glófar sem þið getið haft á höndum og sjáizt þið þá ekki. Þið skuluð ganga heim til borgar á þeim tíma er þið væntið að berserkirnir og hirðin sé undir borðum og gangið óskelfdir djarflega inn í höllina. Munu berserkirnir auðþekktir frá öðrum; verður þá sinn að vega að hvurum berserknum og það óslælega svo að þeim ríði að fullu; en við því vara ég ykkur að fara sem skjótast út úr höllinni aftur. Væntir mig að ef þið getið fylgt þessum ráðum mínum að duga muni.“ Lauk svo dvergurinn máli sínu, en Sigurður þakkaði honum með mörgum fögrum orðum og gaf honum eignir þær er risinn hafði átt sem Sigurður var fyrr hjá. Kvöddust þeir með miklum virktum og bað hvur vel fyrir öðrum. Fer Sigurður til skipa og varð enginn var við hans ferð. Um morguninn kemur hann að máli við Hring og segir honum frá því er gerzt hafði um nóttina, en hann lætur vel yfir. Láta þeir nú allt liðið fara heim nema eitt skip og fáa menn.

Segir nú ei af ferð þeirra fyrr en þeir komu að landi Hrings og lögðu inn á einn leynivog og tjalda yfir skipinu með tjaldinu frá dverginum. Draga þeir Sigurður og Hringur glófana dvergsnauta á hendur sér og fara svo til lands; hafði Sigurður sverðið, en Hringur tygilknífinn. Þegar þeir nálgast borgina sjá þeir að margt er af mönnum á gangi og biðu því við í leyni þar til þeim virtist flestir inn komnir. Fara þeir þá heim til hallar og ganga inn; sjá þeir að menn sitja undir borðum. Vóru berserkirnir í hásæti og þóttu þeim þeir ærið tröllslegir, en höllin utar frá alskipuð af illþýði því er þeim fylgdi, en landsfólkið er fyrir var hafði flest burt flúið. Nú ganga þeir að þeim bræðrum djarflega og lögðu vopnunum gegnum þá og hnigu þeir dauðir úr hásætinu, en Sigurður og Hringur höfðu sig fram eftir höllinni og út það allra skjótasta. Heyrðu þeir þá ókyrrleika mikinn á eftir sér og fór það í vöxt. Skalf jörðin undir fótum þeim svo þeir urðu að leggjast niður. Hélzt þetta nokkra stund þar til allt varð hljótt og kyrrt. Standa þeir þá á fætur og ganga inn í höllina; sjá þeir að þar eru allir dauðir eða því nær, og hafði það þanneg að borið: Þegar þeir bræður hnigu úr hásætinu sá enginn vegendurna; kenndi hvur öðrum um að hafa drepið þá og eyðilagði hvað annað, og var það ókyrrleiki sá er þeir heyrðu Hringur og Sigurður. Þetta hafði dvergurinn fyrir séð og því varaði hann Sigurð við að dvelja í höllinni eftir það berserkirnir væru dauðir því þá hefðu þeir orðið fyrir handagangi þeirra er inni voru.

Eftir þetta sækja þeir fólk sitt er á skipinu var og fara heim til borgar. Stefnir nú Hringur að sér landslýðnum og urðu allir honum fegnir. Lætur nú Hringur hreinsa höllina og eftir það er slegið upp fagnaðarveizlu og mörgum til boðið. Er nú Hringur til konungs tekinn með samþykki allrar alþýðu. Lýsir hann því yfir að hann ætli með Sigurði heim í hans ríki og setti menn til að gæta landsins þar til hann kæmi aftur. Búa þeir nú ferð sína Sigurður og Hringur og fengu óskabyr þar til þeir komu að höfnum við borg þá er mágur Sigurðar réði fyrir. Er nú bryggjum kastað og ganga þeir Sigurður og Hringur og lið þeirra heim til borgar og urðu allir þeim fegnir, þó einkum kóngur og drottning og Ingibjörg. Eru þeir þar um hríð í góðum fagnaði.

Einn dag segir Sigurður við kóng að sig fýsi að vitja föðurleifðar sinnar og það því heldur sem hann sjálfsagt sé haldinn dauður. Kóngur segir: „Góð þykir mér þín hérvist, en þó má ég ei synja þér þessa.“ Eftir það er búizt við brottferð Sigurðar. Leysti kóngur út mund dóttur sinnar í gulli og gersemum. Kvaddi hvað annað með miklum virktum að skilnaði og hélt svo Sigurður og Hringur og Ingibjörg af stað með fríðu föruneyti. Segir ekki af ferðum þeirra fyr en þeir komu til borgar þeirrar er faðir Sigurðar var í. Varð þar sem nærri má geta hinn mesti fagnaðarfundur, því allir héldu Sigurð fyrir löngu dauðan. Er nú slegið upp hinni dýrðlegustu veizlu og boðið til múg og margmenni. Hafði Sigurður það til skemmtunar að segja frá ferðum sínum og þótti öllum hann ærið hafa framazt í þessari ferð og í miklar hættur komið.

Nú hefur Hringur upp mál sitt og biður Ingibjargar systir Sigurðar sér til handa og var því máli vel svarað. Er nú veizlan aukin að nýju og gjörð að brúðkaupsveizlu; stóð hún í marga daga með prís og sóma; og að veizlunni endaðri eru höfðingjar með gjöfum út leystir. Býr nú Hringur og Ingibjörg ferð sína og vóru þau með góðu föruneyti og fríðum fjárhlutum út leyst. Mæltu þeir Sigurður og Hringur til ævinlegrar vináttu með sér. Byrjaði þeim vel ferðin. Settist Hringur að ríki sínu og stýrði til ellidaga. Sigurður varð konungur eftir föður sinn og þótti hvervetna ágætur maður. Unntust þau Ingibjörg vel og lengi.

Og lýkur hér með þessarri sögu. Endir.