Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Sigurði kóngssyni

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Sigurði kóngssyni

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu son sem hét Sigurður; hann var heldur ungur og þó mannvænn er þessi saga gjörðist. Átti hann kastala út af fyrir sig nálægt konungshöllinni og sat þar með sveinum sínum.

Svo bar við að drottning tók sótt og andaðist. Fráfall hennar olli kóngi svo mikillar sorgar að hann var fyrst varla mönnum sinnandi. Þegar frá leið fór heldur að rétta af honum svo hann fór að ræða við menn.

Einu sinni kom hann að máli við hirðmenn sína og kvað sér vera í hug að kvongast að nýju. Þeir tóku því vel og fýstu hann þess í alla staði. Kjöri svo kóngur þá af hirðmönnum sínum er hann þekkti að hyggindum og trúleik við sig og bað þá fara í land nokkurt er hann tók til og biðja sér til handa dóttur kóngs þess er þar réð fyrir, og ef hann vildi gifta sér dóttur sína skyldu þeir hafa hana heim með sér. Hirðmenn tóku glaðir við erindi þessu og bjuggu sig til ferðar á einu skipi. Þegar þeir voru komnir langt frá landi laust á þoku svo myrkri að þeir vissu ógjörla hvert þeir fóru. Sigldu þeir þó allt að einu unz þokunni fór að létta af. Voru þeir þá komnir nærri landi nokkru er þeim virtist þó fremur eyja en meginland. Með því þeir voru bæði fegnir landssýn og vissu ekki hvar þeir voru við komnir réðu þeir það af að stíga á land og hafa fregnir af eyjarbúum.

Þegar þeir voru komnir á land og höfðu gengið kippkorn frá sjónum heyrðu þeir hörpuhljóm svo fagran að þeir þóttust aldrei hafa heyrt slíkan. Kom hann frá tjaldi einu er stóð á víðum velli er varð fyrir þeim á eynni. Þeir gengu nú að tjaldinu og þagnaði þá hörpuslátturinn er þeir áttu skammt þangað. Þeir gengu að tjaldinu eigi að síður því þar þóttust þeir þó eiga víst að hitta menn fyrir er gætu sagt þeim hvar þeir væru við land komnir. Þegar þeir komu í tjaldið sáu þeir þar konu svo fríða að þeir þóttust aldrei hafa slíka séð. Hún hafði þá lagt frá sér hörpuna og greiddi sér með gullkambi er þeir gengu í tjaldið; engir voru þar menn hjá henni. Hirðmenn kvöddu konu þessa virðulega og tók hún kveðjum þeirra hæversklega. Þeir spurðu hana hvar þeir væru við land komnir og sagði hún þeim af því hið ljósasta og það með að þetta væri eyðieyja. Það þóttust þeir finna á svörum hennar að hún var heldur döpur í bragði. Þeir inntu hana eftir hvernig stæði á því að hún væri þar ein á eyðieyju. Hún kvaðst hafa misst nýgift kóng sinn í styrjöld er hann hefði átt við víkinga sem á land hans sóttu og hefði hún látið trúnaðarmann sinn flytja sig út í ey þessa með því er hún mátti komast með í bráð af eigum sínum er hún hefði frétt fall kóngs í orrustunni; væri hún nú búin að vera þarna einmana um hríð. Þegar hirðmenn heyrðu þetta litu þeir hver til annars, gengu úr tjaldinu um sinn og báru saman ráð sín. Kom þeim það öllum ásamt að kona þessi væri svo fögur, vel viti borin og kurteis að hverjum kóngi væri þar fullkosta er hún væri. Þeir réðu það því með sér að biðja hennar kóngi sínum til handa þó hann hefði ætlazt til að þeir vektu annarstaðar til ráðahags. Eftir það gengu þeir í tjaldið aftur og vöktu máls á um ráðahag sinn. Konan tók því seinlega og þó hæversklega; sagði hún að sér hefði ekki verið það í hug að giftast aftur er hún hefði misst mann sinn; þó sér væri kóngur þeirra lítt kunnur mundi hún ekki teljast undan þar sem líkt stæði á fyrir báðum ef þessi ráðahagur mætti verða þeim til unaðsbóta. Erindisrekar kóngs glöddust við þessi ummæli drottningar og fluttu hana síðan út á skip sitt með öllu því er hún hafði þar umleikis.

Engin tíðindi urðu í ferðum þeirra fyrr en þeir tóku höfn í landi kóngs; var þá sén ferð þeirra frá kóngsaðsetrinu og bjóst hann að fara í móti þeim og heitmey sinni er hann taldi víst að væri í för með þeim. Lét hann því beita fyrir tvo vagna, steig sjálfur í annan, en hinum var ekið tómum til sjávar. Þegar kóngur sá drottningarefni sitt varð hann þegar gagntekinn af ást til hennar og þótti hirðmenn sínir heppilega hafa rekið erindi sitt þótt ekki hefðu þeir hitt þá konu sem hann hafði vísað þeim á. Því næst bauð hann henni til hallar og þeim öllum og ók hún í öðrum vagninum, en hann í hinum.

Eftir þetta lét kóngur búa til veizlu ágætrar og stóð sá undirbúningur í hálfan mánuð; enda var þar boðið til öllu stórmenni úr ríki hans. Áður en veizlan átti að vera gekk kóngur til fundar við son sinn, tjáði honum að nú hefði hann aftur fastnað sér konu og bað hann sitja brúðkaup sitt. Sigurður bað hann ekki orða það við sig því sér væri ekki móðurmissirinn enn úr minni liðinn og við svo búið gekk kóngur þaðan. Síðan fór brúðkaup kóngs fram og voru menn þar út leystir með góðum gjöfum. Eftir það sat kóngur um kyrrt í ríki sínu um hríð og er ekki annars getið en hann yndi vel hag sínum. Einhverju sinni kemur drottning að máli við kóng og spyr hann hversu víðlent ríki hann eigi. Hann segir henni af því hið sannasta. Hún spyr hann því næst um skattheimtu af löndum hans og segist hann ekki um sinn hafa hugsað um það mál enda hafi annað fyrir sig snúizt. Leiðir drottning honum þá fyrir sjónir að svo búið megi ekki standa og hljóti hann að heimta skatta af þegnum sínum sem aðrir kóngar. Kóngur fann að mikið var satt í því og bjóst þegar til skattheimtufarar.

Einhvern góðan veðurdag er kóngur var farinn í skattheimtu fór drottning að breiða út og viðra skrúðklæðnað ýmiskonar. Var þar og með skikkja ein afbragðs falleg og vönduð að sjá. Sigurður kóngsson hafði enn ekki heilsað stjúpu sinni og ekki séð hana; hann sat jafnan í kastala sínum, þreyði allajafna móður sína og hafði sem minnsta samblendni við hirðmenn, en talaði fátt um stjúpu sína er um hana var rætt í eyru hans. Þenna sama dag er nú var getið kemur Sigurður auga á skikkjuna góðu úr kastala sínum og finnst honum sem öðrum mikið um svo kostulegan grip. Líður nú svo nokkur stund að klæðin eru úti og fara menn hans allir úr kastalanum. Verður hann þá ekki fyrr var við en komið er að kastalanum og barið að dyrum; hann lýkur upp og er þar þá komin stjúpa hans. Hún kastar kveðju á hann og mælti af nokkrum móði: „Þó þú leggir fáþykkju á mig, Sigurður, sem þú hefur sýnt í því að þú hefur hvorki heilsað mér né viljað sitja brúðkaup mitt vil ég þó ekki láta það í ríkja með okkur; vil ég nú gefa þér skikkju þessa hina góðu er öllum þykir gersemi í vera; en ger þú það til skaps í móti að þú far í hana og lát mig sjá hversu hún sæmir þér.“ Sigurður svaraði engu, en tók við skikkju sinni, virti hana vandlega fyrir sér, og með því honum þótti hún sem fleirum girndargripur hinn mesti fór hann í hana. Þegar Sigurður er kominn í skikkjuna gengur stjúpa hans að honum með svo tröllslegu útliti að hann þóttist hvorki fyrr né síðar hafa séð slíkt, og mælti: „Nú legg ég það á þig að þú skalt vella allur grár í lúsum meðan þú ert í skikkjunni; skaltu því skipta um nafn og heita Lúsahöttur; aldrei skaltu úr þessum álögum komast né úr skikkjunni fara fyrr en þú hefur sofið hjá kóngsdóttur í þrjár nætur, en það mun seint verða.“ Við þessi orð drottningar brá Sigurði svo sem hún hafði fyrir mælt; en svo var hann hugsjúkur af þessu að hann fékk engu áhrínsorði komið upp, enda dvaldi drottning ekki lengi í kastalanum eftir þetta.

Sigurður fann of glöggt til óskapa sinna til þess að hann gæti haldizt við í kastalanum, enda sá hann að sér mundi þar hvorki fært að vera né nokkur undanlausnarvon frá ánauð sinni. Hann safnar því saman er hann á eigulegast og dýrmætast, en það var gullstóll er gjöra mátti svo lítinn að hafa mátti hann í vasa sínum; annað var gullkambur undur fallegur; fingurgull var hinn þriðji gripur og var af lýsigulli; þurfti þar ekkert ljós er gullið var borið á mannshendi, svo lýsti af því þó níðamyrkur væri, og var það hin mesta gersemi. Þá tók hann og skrúðklæði sín með sér. Allt þetta lætur hann í poka einn og ber hann á bakinu er hann fer úr kastalanum og leggur svo búinn burt frá kóngsaðsetrinu. Nú fer hann svo um hríð að ekkert segir af ferðum hans fyrr en hann kemur á kotbæ í skógi einum. Þar barði hann að dyrum og kom þar út kona öldruð. Hann heilsar henni og biður hana að lofa sér að vera. Hún kvaðst vera treg á að taka slíka óþverra sem hann væri á heimili sitt; en þó verður það af að hún lofar honum að liggja inni. Síðan spyr hún hann að nafni og segist hann heita Lúsahöttur. „Þar fylgir nafn rentu,“ kvað kerling, „og er það vel á komið.“ Um morguninn tók Höttur upp hjá sér gullpening mikinn og gaf kerlingu. Varð hún þá léttbrýn við og kvað honum heimil gisting hjá sér meðan hann vildi. Lúsahöttur var svo hjá kerlingu um hríð svo ekki bar til tíðinda. Hann frétti kerlingu um marga hluti og leysti hún vel úr öllu. Hún sagði honum að kóngur í því landi væri þar skammt frá; hann ætti dóttur eina fríða og væna og vissi hún engan hennar löst nema þann einn að hún væri heldur ágjörn svo að hún vildi nálega eiga allt er hún sæi. Lúsahöttur kvað hana ekki vera verri fyrir það og þótti nú heldur vænkast um hag sinn er hann heyrði þetta; biður hann nú kerlingu vera sér til liðsinnis með fregnir frá kóngi og dóttur hans og hét hún því.

Eitt sinn kemur kerling að máli við Lúsahött og kveðst hafa komizt að því að kóngsdóttir ætli út í skóg að skemmta sér þann dag. Lúsahöttur kvað henni vel fara og bað hana stilla svo til að fundum þeirra bæri saman. Kerling sagði að hann skyldi halda sig í skógarrjóðri einu er hún tók til þar sem hann yrði á vegi fyrir kóngsdóttur. Lúsahöttur fer þangað sem kerling hafði til vísað og hefur með sér gullstólinn. Lúsahöttur sezt nú á stólinn og bíður svo þess að kóngsdóttir kemur með skemmumeyjum sínum í rjóðrið. Hann situr þar grafkyrr er þær koma og lætur sem hann sjái þær ekki. Kóngsdóttur hnykkir fyrst við er hún sér mann í rjóðrinu. En er hún fer betur að líta eftir kemur hún auga á stólinn. Verður henni þá allstarsýnt á hann og getur ekki skilið í því að slíkur óþverri sem moraði allur í lúsum skyldi eiga svo góðan grip. Hana langar og mjög að eiga stólinn og er svo annars hugar af því að hún gáir ekki að skemmta sér. Loksins kallar hún á meyjar sínar og biður þær fara til manns þess og fala að honum stólinn eða láta sér hann eftir. Meyjarnar hlupu til Lúsahattar og skiluðu til hans kveðju kóngsdóttur og vinfengi ef hann vilji láta hana fá stólinn. Lúsahöttur kvað þess enga von að hann fargaði stólnum hvað sem í boði væri nema hún vildi lofa sér að sofa í sama herbergi og hún um nóttina. Við það fóru þær aftur á fund kóngsdóttur og sögðu henni af förum sínum. Kóngsdóttir réðst þá um við meyjar sínar hvort sér mundi ekki hættulaust að leyfa Lúsahetti það og þótti þeim það vera. Fóru svo meyjar kóngsdóttur til Hattar og sögðu honum að hann mætti liggja í skemmunni ef hann kæmi ekki fyrr en dimmt væri orðið og færi áður burt að morgni en birti svo enginn sæi hann. Hann heitir henni góðu um það og fær þeim nú stólinn og þykir kóngsdóttur allvænt um hann.

Um kvöldið kemur Lúsahöttur í skemmu kóngsdóttur og liggur í herbergi hennar um nóttina, en fyrir dag fór hann aftur burt þaðan.

Nú hugsar hann með sér að hann skuli æsa ágirnd hennar aftur þann dag með gullkambinum og vera að kemba af sér varginn með honum er hún komi út á skóginn. Fer hann svo heim í kot til kerlingar og sækir kambinn og fer svo allt sem hinn fyrra dag að kóngsdóttir ágirnist kambinn ekki síður en stólinn. En Lúsahöttur lætur hann ekki fyrr falan en hún lofar honum að hann megi liggja á skörinni fyrir framan rúmið sitt, en þó með þeim skildaga að hann komi í skemmuna og fari þaðan aftur eins og áður. Heitir Höttur henni því og fær henni kambinn; sefur hann svo þá nótt á skörinni fyrir framan rúmstokkinn hjá kóngsdóttur.

Þegar leið að degi fór hann burtu úr skemmunni og hugsar nú mest um að verða laus við álög sín ef hann mætti og verja til þess hringnum góða er hann átti nú einn eftir kostgripa sinna. Fer hann þá og sækir hringinn og er að leika sér að honum um daginn er kóngsdóttir kemur í skógarrjóðrið sama. Vaknar þá skjótt löngun hennar til hringsins og lætur skemmumeyjar sínar leggja fölur á hann. Lúsahöttur kvað þess engan kost að hann lógaði hringnum, slíkum grip, nema kóngsdóttir lofaði sér að sofa hjá sér. Fóru skemmumeyjar við þetta aftur til kóngsdóttur; áttu þær svo það að tala hvort það mundi takandi í mál að leyfa Hetti það, og varð það ofan á að þeim þótti það ótækt því bæði var það svívirða fyrir kóngsdóttur og svo þótti þeim Lúsahöttur svo ófétislegur að slíkt væri ekki takandi í mál. En þó blóðlangaði kóngsdóttur til að eiga hringinn og mundi hún hafa leyft honum að liggja til fóta sinna ef hún hefði þorað að eiga það undir trúmennsku skemmumeyjanna.

Nú líður til þess er kóngur stefnir á fund öllum tiginna manna sonum úr ríki sínu; er sú tilætlun hans með því að dóttir hans skuli sér mann kjósa; því annaðhvort var að fáir höfðu orðið til að biðja hennar eða hún hafði engum tekið er þess leitaði. Nú var það þenna dag er allir skyldu komnir til kóngs er sækja vildu fundinn að þar var fjölmenni fríðra drengja og mannval hið bezta og bauð kóngur þeim öllum til veizlu um kvöldið. Að þeirri veizlu skyldi dóttir hans kjósa sér mann. Lúsahöttur hafði sig þá og á kreik og fór heim að kóngshöll er húma tók og hafði með sér hringinn góða. Hann kom þar í það mund er mönnum var skipað í sæti þar í höllinni. Hann leitar þá lags að komast inn svo lítið bæri á, og þegar hann er þar kominn skríður hann undir hallarbekkjunum þar til hann kemst undir sæti kóngsdóttur; en hún sat í hásæti hjá kónginum föður sínum. Verður hún hans þá skjótt vör og heyrir að hann er að stagast á þessu: „Kjóstu þann sem skríður með skörunum eða ég skal upp ljósta allri þinni skömm.“ Byrjar nú veizlan og skorar kóngur á dóttur sína svo allir heyrðu að kjósa þann af hinum tignu ungu mönnum er henni sé mest að skapi, því til þess hefði hann þeim þangað stefnt og bað hana veita skýr svör máli sínu áður en veizlunni sliti. Kóngsdóttir var mjög fálát meðan hinir mötuðust og snæddi lítið því hún þóttist vita fyrir víst að ef hún kysi einhvern af boðsmönnum mundi Lúsahöttur ekki svífast við að gera uppvísa þá skömm sína að hún hefði haft karlmann tvær nætur í herbergi sínu og sá þá í hendi að miður mætti fara en þó hún yrði mannlaus eftir sem áður. En á hinn bóginn hryllti hana við Lúsahetti þó enginn af þeim er inni voru þekkti hann né hefði veitt því eftirtekt að hann var þar. Þá kemur henni og í hug hringurinn góði svo hún ræður það með sjálfri sér úr því vondu væri úr að ráða að hún skuli meta virðingu sína mest af öllu, því þá fái hún hringinn um leið, og kjósa þann sem Höttur til tók.

Þegar langt var liðið á nótt fram býður kóngur dóttur sinni að gjöra bert fyrir öllum hvern hún kjósi sér fyrir mann. Hún sagði þá með skjálfandi röddu: „Ég kýs þann sem skríður á skörunum.“ Kóngur hélt fyrst hún væri ekki með öllu viti; því meðan menn sátu undir borðum hafði hann orðið var við lurfu þá er lá undir hásætinu. Hann innti því til hins sama við dóttur sína. En þá var hún einurðarbetri og tók skýrt upp aftur sömu orð sem fyrr: „Ég kýs þann sem skríður með skörunum.“ Varð þá kóngur svo æfur að hann hótaði að láta drepa hana að morgni þar sem hún hefði gabbað sig, en gjört gys að öllum gestum sínum. Skipar hann henni svo í skemmu sína svo að hún geti hugsað um mál sitt til morguns. Fer kóngsdóttir svo þangað.

Nú er að segja af Lúsahetti að þegar þetta uppnám varð í höllinni hefur hann sig þaðan á burt og gengur til skemmu kóngsdóttur. Kemur hann þangað jafnsnemma og hún og skýzt hann svo inn. Kemst hann þá í svefnherbergi kóngsdóttur og fær það nú af henni með því hann gefur henni hringinn að hún lofar honum að hírast til fóta sinna um nóttina því hún kvaðst héðan af ekki hafa til fríðs að vanda þar sem hún mundi verða drepin að morgni og gefur hann henni þá hringinn góða.

Um morguninn vaknar kóngsdóttir snemma til að hugsa um hagi sína. En þá bregður henni heldur í brún er hún sá mann undur fríðan og tígulegan liggja til fóta sinna, en lúsahaminn allan á gólfinu fyrir framan rúmið. Klæðist hún þá skjótt og kallar á skemmumeyjar sínar og skipar þeim að brenna haminn hið skjótasta, en hún vekur manninn sjálf. Segir hann henni þá upp alla sögu hverra manna hann sé og að álög stjúpu sinnar hafi valdið öllum þessum ósköpum og þakkar henni með fögrum orðum fyrir lausn sína, en segir hann þá að ekki sé víst að hún þurfi illa að una þó hún hafi kosið sig því hann segist vera albúinn að reyna hverja íþrótt til kapps við þá alla er kóngur hafi til sín boðað. Við það verður kóngsdóttir allglöð. Síðan lætur hann sækja poka sína í kotið til kerlingar og tekur hann þar úr kónglegan skrúða og klæðist í, kveður síðan kóngsdóttur og biður hana vera áhyggjulausa um hag sinn; gengur hann svo fyrir kóng. Kóngur tekur honum vel og spyr hverra manna hann væri. Hann sagði til hið sanna. Kvaðst hann vera þar kominn til að reyna íþróttir sínar við tignarmenn kóngs og lét kóngur það eftir honum. Fór þá svo um daginn er hinir ungu menn reyndu afl sitt og íþróttir að Sigurður kóngsson bar hvorutveggja langt af þeim öllum. Kóngi þótti þetta hin mesta skemmtun og öllum er horfðu á leiki þeirra.

Að leikunum enduðum hóf Sigurður bónorð sitt við kóng til dóttur hans og var það auðsótt við hann sjálfan, en hann kvaðst bera nokkurn kvíðboga fyrir því hvernig dóttir sín tæki þeim málum. Sigurður kvaðst ekki óttast það því hún hefði sjálf kosið sig til manns kvöldinu áður. Varð þá kóngur harðla glaður og lét sækja dóttur sína. Sagði hann henni þá að hún ætti þar enn biðli að svara sem Sigurður var. Kóngsdóttir tók því allshugar fegin og fóru svo festar fram. Jók þá kóngur veizluna og hélt Sigurður brúðkaup sitt til kóngsdóttur og voru allir að veizlunni lokinni leystir út með góðum gjöfum Eftir það fór Sigurður heim til föður síns með konu sína og hafði með sér herlið mikið og fjárhlut nógan. Þegar hann kom að kóngsaðsetunni þekkti hann þar ekki þriðja hvern mann, en það frétti hann að faðir sinn væri dauður; hafði seinni kona hans ráðið honum bana og drepið alla þá er hans máli fylgdu, en skipað aftur í borgina illþýði einu tröllauknu eins og hún var. Lét Sigurður þá veita aðgang að borginni og tók hana með herskildi. Þar með náði hann drottningu og mörgu af óþjóðalýð þeim er hún hafði dregið þangað, og lét hann drepa það allt eða stegla, en stjúpu sína lét hann berja grjóti í hel. Eftir það settist hann að ríkjum með drottningu sinni.

„Unnust þau bæði vel og lengi,
áttu börn og buru“ o. s. frv.