Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Sigurði karlssyni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Sigurði karlssyni

Það var einu sinni kóngur og drottning [sem] réðu fyrir ríki; þau áttu eina dóttur sem Ingibjörg hét. Kall og kelling voru þar í garðshorni; þau áttu einn son sem hét Sigurður. Kóngur vildi nú öngvum manni gifta dóttur sína. Þess vegna lét hann orðfleytt eftir sér fara að hann gæfi hana öngum nema þeim sem segði sér þá sögu sem hann tryði ekki. Bæði kóngasynir og fleiri menn af aðli sem höfðu hug á Ingibjörgu fóru nú að gjöra sér ferðir þangað og reyna að segja kóngi sögur, en hann lét sem hann tryði þeim öllum hvað óáheyrileg lygi sem það var.

Einu sinni bar svo til að Sigurður kallsson gerði sér ferð heim í kóngsríki, gengur inn fyrir kóng og spyr hvört hann vilji ekki að hann segi honum sögu. „Jú, það vil ég,“ segir kóngur. „Jæja, það var þá einn góðan veðurdag,“ segir kallsson, „að ég byrjaði langa reisu. En á veginum kom yfir mig þoka svo ég villtist. Ég gekk lengi eitthvað í vitleysu, þangað til ég vissi ekki fyrri til en ég var kominn að einum herragarði eða kóngssloti. Þar sá ég öngvan mann og allt var þar kyrrt og þegjandi. Þetta þókti mér undarlegt.“ „Já, já, hvað nú meira? Öllu kann ég þessu vel að trúa,“ segir kóngur. „Ég gekk þarna inn og kom í eina mikla og víða höll,“ segir kallsson; „þar var allt svo dimmleitt inni og óskemmtilegt. Ég vildi komast út aftur, en gat það ekki því ég var villtur.“ „Já, já,“ segir kóngur, „hvað nú meira? Öllu kann ég þessu vel að trúa.“ „Ég ráfaði þar lengi aftur og fram í ráðleysu þangað til ég kom í einn afkima,“ segir kallsson; „þar rak ég mig óvart á kapalrass.“ „Já, já, hvað nú meira? Öllu kann ég þessu vel að trúa,“ segir kóngur. „Ég fór þar inn í rassinn,“ segir Sigurður, „og sá þar þá hirð kóngs og riddaralið, vagna og ýmislegt fleira.“ „Já, já, hvað nú meira? Öllu kann ég þessu vel að trúa,“ segir kóngur. „Þarna heyrði ég nógan glaum og danslæti,“ segir kallsson; „ég sá þar líka framdan hörpuslátt og fleiri hljóðfæra söng. Þar sá ég ráðgjafa og drottningu kóngs og hann sjálfan.“ „Já, já,“ segir kóngur, „öllu kann ég þessu vel að trúa; en hvaða kóngur atli þetta hafi verið?“ „Það voru þér; þér sátu þar innstir, herra minn,“ segir kallsson. „Því lýgurðu, strákurinn þinn, aldrei var ég þar,“ segir kóngur. Nú varð kóngur móti vilja sínum að gefa Sigurði Ingibjörgu dóttur sína, tók hann því heim til sín og kenndi honum, gaf honum svo hálft ríkið við sig meðan hann lifði, en allt eftir sinn dag. En Sigurður stjórnaði ríki sínu viturlega og veitti kalli og kellingu í garðshorni ærlegt uppheldi þeirra lífstíð.