Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Sigurði slagbelg

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Sagan af Sigurði slagbelg

Svo er sagt að í fyrndinni hafi venð konungur nokkur ríkur sem átti tvo sonu og dóttur eina. Hún var bæði vitur og vel að sér, en þeir feðgar voru allir heldur óvitrir, en ákaflega fégjarnir. Konungur var þá aldurhniginn og börn hans þroskuð er þessi saga gjörðist. Þess er getið að karl og kerling bjuggu í koti einu hjá konungsborginni. Þau vóru fátæk og aldurhnigin; þeirra son hét Sigurður. Hann var snemma efnilegur, manna vitrastur og smiður mikill; hann gjörði sér smiðju og smíðaði ýmsa hluti og græddi fé mikið. Hann bjó með móður sinni eftir lát föður síns og græddist vel fé. Konungssynir öfunduðu það mjög að Sigurður græddi miklu meira fé en þeir og voru þeir þó glöggir til fjárins. Þeir voru mjög jafnaldra við Sigurð og lékust þeir við í æsku; var þó fátt milli þeirra því konungssynir voru dramblátir og óvægnir, en Sigurði þótti gaman að leika á þá með ráðum og nýtti sér heimsku þeirra.

Frá því er að segja að konungssynir tóku það ráð að brenna smiðju Sigurðar til að hnekkja gróðri hans. Það gjörðu þeir eina nótt og var Sigurður þá ekki heima. Þegar hann kom heim sá hann að smiðjan var brunnin til ösku og þótti honum það hinn mesti skaði. Það fréttir hann að konungssynir hafa ollað brennunni og hyggst hann muni launa þeim það með tíð. Það ráð tekur Sigurður að hann fyllir sekki tvo af ösku og bindur í reipi og lætur á hest og ferðast síðan út á skóg. Um kvöldið er myrkt var orðið kemur hann að bæ nokkrum á skóginum. Þar átti konungur bú og varðveitti ráðsmaður og ráðskona. Geymdi ráðsmaðurinn mikið af gulli og dýrgripum konungs er hann vildi ei að almenningur vissi af, því bær þessi var mjög einn sér á skóginum. Þar biður nú Sigurður gistingar og er því játað því hann lézt vera konungs sendimaður og hafa meðferðis gripi þá er öngvir væri slíkir í öllum heimi, en kvaðst ekki mega sýna þá nokkrum manni og bað ráðsmanninn sjá svo um að enginn snerti baggana. Því hétu allir þeir sem inni vóru, en ráðskonan var í eldaskála og heyrði tal Sigurðar; hún var forvitin mjög og gengur þegar til bagganna, leysir annan og hvelfir úr honum, en á var stormur veðurs og hvarf askan öll út í loftið. Þá reiddist hún og hugðist ekki skyldi undan láta og leysir hinn annan sekkinn og hvelfir úr. Fer það á hina sömu leið að askan hvarf jafnskjótt í vindinn. Ráðskonan fer nú inn og kallar á ráðsmanninn og segir honum slys sitt. Hann kvað það illa orðið – „og munum við fyrir þetta lífinu týna,“ segir hann. Hún mælti: „Fyllum aftur sekkina með dýrmæta gripi og gullpeninga því nóg er hér af slíku.“ Það varð nú ráð þeirra og bundu þau baggana sem áður. Um morguninn býst Sigurður burt og hefur farið sem hann vildi, en hann lét sem hann vissi það ekki, kvaddi þau ráðsmann og ráðskonu og fer leiðar sinnar heim aftur. Byggir hann nú að nýju smiðju sína og græðir nú engu minna en áður og er nú orðinn mesti auðmaður.

Þegar konungssynir vita að Sigurður hefur byggt nýja smiðju og er orðinn auðugri en áður þeir brenndu smiðju hans þá fara þeir til hans og spyrja hvursu hann hefur grætt þetta mikla fé er nú á hann. Sigurður kvaðst hafa selt öskuna úr smiðju sinni er hún brann og fengið fyrir jafnvægi hennar af gulli. Þeir spyrja: „Hvar fékkstu slík kaup?“ Hann segir þeim það sem honum sýnist. Þeir urðu allkátir við þetta, fóru heim og þökkuðu Sigurði söguna. Töluðu þeir um það á leiðinni hvurnig þeir skyldu að fara að fá sama happakaup. Það kom þeim ásamt að þeir skyldu brenna smiðju fyrir gullsmið konungs og svo gjörðu þeir. Klyfja þeir síðan marga hesta af ösku og ferðast þangað sem Sigurður lézt farið hafa; bjóða þeir þar ösku fyrir jafnvægi hennar af gulli, en er menn heyrðu þessi boð gjörðu menn að því óp mikið og háð. Fengu konungssynir þar hina mestu svívirðing og fóru við það heim og undu illa við sína ferð.

Ekki leið langt áður þeir fóru að finna Sigurð og ætla þeir nú að borga honum gabbið. Sigurður sá ferð þeirra áður þeir komu. Hann tekur pyngju fulla af gullpeningum og gengur í hesthús sitt; þar var inni hryssa er hann átti. Hann kastar nú pyngjunni í gólfið og tínir síðan aftur gullpeningana úr saurnum. Þá koma konungssynir þar og eru stuttar kveðjur þeirra. Segja þeir að Sigurður hafi svikið sig og væri slíkt hefndavert. Sigurður mælti: „Þér hafið sagt mönnum frá að það væri aska sem þér vilduð selja.“ Þeir kváðu svo verið hafa. Hann mælti: „Þér áttuð að segja það væri frá goðunum; þér gjaldið í þessu heimsku ykkar.“ Þeir mæltu þá: „Hvurt ertu að tína gull úr taðinu? Teður merin gulli?“ Hann kvað svo vera. Þeir biðja hann selja sér merina; hann kvaðst ófús til þess; þeir buðu honum fyrir hana fé mikið og lét hann þá til leiðast um síðir. Þeir spyrja hvursu þeir skyldu höndla með hana; hann mælti: „Látið hana inn í hesthús og gefið ekki hey og vitjið hennar svo eftir hálfan mánuð, og mun þá mikil hrúga hjá henni verða.“ Þeir fara nú heim með merina og láta í hesthús sem Sigurður sagði og gáfu ekkert. Sigurður fékk borgunina um kvöldið. Leið nú vika og þá gægjast konungssynir í hesthúsdyrnar og sjá að merin liggur. Nú líður önnur vika; þá fara þeir að vitja um hryssu sína og ætla að grípa gull nóg, en hún var þá dauð og taðhrúga hjá henni. Þetta þykir þeim illur prettur og fara nú til Sigurðar; hann sér ferð þeirra og tekur smjörstykki og ber út í tún, leggst niður að þúfu einni og slær smjörið út um þúfuna með hnalli. Koma konungssynir nú til hans og sögðu að hann sviki þá á hryssunni. Hann mælti: „Þið hafið gætt hennar fyrr en liðinn var hálfur mánuður; “ þeir kváðu svo vera. Hann sagði að þá væri von að náttúran hefði horfið frá henni og kvað þá sjálfa því valda. þeir spurðu þá því þúfan væri smjör eitt; hann sagði að sú náttúra fylgdi hnalli þessum að þá verða þúfur að smjöri ef þær eru barðar með honum. Þeir báðu hann selja sér hnallinn; hann kvaðst ófús til að ónýta svo gripi sína. „Mun hnallurinn fara sem hryssan,“ segir hann, „að þér munuð gjöra hann ónýtan með heimsku ykkar.“ Þeir kváðu það ekki skyldi verða og svo kemur að Sigurður selur þeim hnallinn fyrir ærna peninga. Þeir fara með hann heim og taka að berja þúfurnar og verða þær að flagi, en ekki smjöri, og er þeir fundu Sigurð sögðu þeir honum að hnallurinn hefði verið svikinn og báðu hann skila peningunum aftur. Þá svarar Sigurður: „Þér hafið farið með hvíldum að berja?“ Þeir kváðu svo verið hafa; hann mælti: „Von var að náttúran hvyrfi þá frá hnallinum og fór þetta sem ég gat til þá þér föluðuð hann.“ Þeir fóru við það heim aftur.

Þess er getið að konungssynir áttu fóstru eina; hún var vitur og þá gömul. Þeir segja henni af viðskiptum þeirra Sigurðar og spurðu hana ráða. Hún kvað þeim ráðlegast að eiga ekki við Sigurð, kvað þá ekki mundu sækja sigur til hans. Þeir sinntu því ekki, gengu til föður síns og báðu hann láta drepa Sigurð. Konungur kvað þess kost og kveður þegar alla hirðmenn sína til ferðar með sér og fara þeir til karlskots. Sigurður er úti og þekkir för konungs; hann gengur inn og mælir við móður sína: „Nú kemur konungur hingað. Skaltu nú búa þig sem bezt og prýða með öllu móti. Seztú síðan á mitt gólf, en ég mun hlaða tötrum að þér. Þegar konungur kemur að glugganum mun ég segja við þig að nú ætli ég að láta þig kasta ellibelgnum; mun ég þá taka belg með vindi og slá þig með og skaltu þá láta fallast út af á gólfið. Þá mun ég segja: „Stattu upp, kerling, og hristu þig.“ Þú skalt gjöra það og munu tötrarnir falla af þér og mun konungi sýnast þú unglegri eftir en áður“; og er konungur kom að glugg þeim er var á svefnhúsinu framanverðu heyrir hann að sagt er inni: „Nú ætla ég að láta þig kasta ellibelgnum, móðir mín.“ Konungur hljóp þegar inn og kallar til Sigurðar og mælti: „Það vil ég sjá hvursu þú lætur móður þína kasta ellibelgnum og skaltu líf hafa ef þú sýnir mér það, en áður ætlaði ég að láta drepa þig.“ Sigurður kvaðst ekki vita hvað hann hefði til dauða unnið, en kvað konung vel mega sjá hvursu hann færi að því og nú gjörir hann eftir því sem hann gjörði áður ráð fyrir og fyrr er frá sagt. Konungi þótti mikils um þetta vert og mælti: „Þú skalt héðan í frá heita Sigurður slagbelgur og hafðu höfuðið í nafnfesti því að öðrum kosti hefðir þú misst það.“ Eftir það fer konungur til manna sinna og segir þeim hvað hann hafði séð, kvað sér forvitni á að reyna þetta á kerlingu nokkurri. Synir hans mæltu: „Það vildum vér að fóstra okkar kastaði ellibelgnum.“ Hann kvað hana þá skyldi fyrir því verða; ganga nú heim og til herbergis kerlingar. Konungur mælti við hana: „Seztu á gólfið; nú skaltu kasta ellibelgnum.“ Hún gjörir svo og tekur konungur þá belg og lætur í steina og slær á vanga kerlingar mikið högg og fellur hún þegar í rot. Konungur mælti: „Stattu upp, kerling, og hristu þig.“ Hún gegndi því ekki og lá kyrr sem von var. Konungur tekur hana þá og finnur að hún er dauð; verður hann þá reiður og mælti: „Enn hefur Sigurður svikið oss og skal ei langt líða áður ég læt drepa hann.“

Litlu síðar lét konungur slátra nauti feitu og stóð hann þar hjá sjálfur. Þá kemur Sigurður þar; konungur mælti: „Þú hefur svikið mig og dó sú kerling sem ég vildi láta kasta ellibelgnum.“ Sigurður mælti: „Hvort höfðu þér, herra, steina í belgnum?“ Hann sagði að svo var: Sigurður mælti: „Ég hafði vind og ætlaði ég þér sæjuð það.“ Konungur kvaðst það ekki séð hafa. „Ekki má skulda mig fyrir slíkt,“ segir Sigurður; konungur kvað það satt vera. Sigurður mælti þá aftur: „Það er erindi mitt hingað, herra, að biðja yður að gefa mér garnir nauts þessa.“ Konungur spyr hvað hann vill gjöra við þær; hann segir: „Ég hengi þær í eldhús hálfan mánuð, annan hálfan mánuð hengi ég þær yfir rekkju mína, síðan sker ég gat á þá lykkju sem niður snýr og set í pípu og drekk úr görnunum á morgni fastandi; þá veit ég síðan alla hluti, bæði í jörð og á.“ Konungur bað gefa honum hálfar garnirnar; hann bað enn að mega fá þær allar, en konungur kvaðst mundi hafa hálfar handa sér. Sigurður fer nú burt með sinn hluta og gjörir við hann slíkt er honum sýnist, en konungur fór með sinn hluta eftir því sem Sigurður hafði gjört ráð fyrir og áður er sagt. Að mánuði liðnum drekkur konungur úr görnunum einn morgun fastandi og þó honum þætti það eigi bragðgott þótti honum það tilvinnandi, en er hann var búinn var hann engu vitrari en áður, heldur gjörði honum svo illt að hann lagðist í rekkju og dó litlu eftir og var heygður að fornum sið. Þá tóku synir hans ríkið undir sig og létu systur sína ekki hafa af því; undi hún því lítt og var fá til þeirra.

Nú kenndu konungssynir Sigurði um dauða föður síns og vildu hefna hans, fóru því einn dag til kotsins og voru grimmir í geði. Sigurður var þá ekki heima, en móðir hans vildi ekki segja þeim hvar hann var. Þá tóku þeir hana og hálsbrutu og lét hún líf sitt. Þeir fóru síðan heim og undu vel sinni ferð, þóttust nú hafa gjört Sigurði þá skapraun að ekki væri þeim jafnmikil í dauða föður síns. Nú kemur Sigurður heim og finnur móður sína drepna; þykist hann vita hvurjir ollað hafa. Tekur hann nú líkið, þvær það og smyr og býr í skrautlegan búning, söðlar hest og setur hana þar upp á og leiðir hann út á skóg. Þar mætir hann nautahirði konungssona; flykkjast nautin að hestinum að skoða hann, en hann hljóp upp við og féll kerling þá úr söðlinum. Sigurður gekk að henni, hljóðaði upp og mælti við nautahirðinn: „Mikið slys hefur þig hent er þú rakst naut þessi að mér og fældu þau hestinn, en konungsdóttir sat á honum og féll hún af baki og hálsbrotnaði. Far nú strax burt og forða þér ef þú vilt lífi halda.“ Hann tók þegar á rás burt þaðan, en Sigurður jarðar móður sína og rekur heim með sér nautin eftir það. Frétta nú konungssynir að Sigurður hefur nýlega fengið naut mörg; þeir fara að finna hann og spyrja hvar hann hefði fengið naut þau er menn segði að hann hefði nýfengið. Sigurður kvaðst hafa keypt þau fyrir lík móður sinnar. Þeir spyrja hvur því keypti; hann sagði slíkt er honum sýndist, nefndi þar til konung nokkurn er réði næsta ríki. Þeir fara þá heim aftur og töluðu um á leiðinni að þeir mundu taka það til bragðs að drepa móður sína og selja líkam hennar fyrir naut, kváðu hana orðna ærið gamla. Þeir gjöra nú svo og kæfa drottningu í laug, fara síðan með lík hennar til konungs þess er Sigurður þóttist hafa selt móður sína. Þeir bjóða honum líkið fyrir naut, en er konungur vissi hvurnig á stóð, að þeir höfðu drepið móður sína og buðu honum lík hennar, þá varð hann reiður mjög og mælti: „Ætlið þið níðingarnir að ég muni vera mannæta, og bæta því á glæp yðar að smána mig? Væri maklegt þér væruð drepnir, en fyrir vináttu sakir við föður yðar mun það fyrir farast að sinni, og verðið á burt sem skjótast, illmennin!“ Þeir fara þegar burt og verður ekki af kveðjum; koma þeir heim aftur með ósæmd og undu við hið versta.

Meðan konungssynir vóru í ferð þessari gekk Sigurður til tals við konungsdóttur og tjáir fyrir henni ójafnan og illsku bræðra hennar. Hún bað hann leggja sér ráð til að rétta hluta sinn; hann bað hana hafa ró um hríð, „og munu þeir bræður eiga skammt eftir ólifað,“ segir hann. Skilja þau nú talið og geðjaðist hvoru vel að öðru.

Þegar konungssynir eru heim komnir fara þeir þegar til Sigurðar og er þess ei getið að þeir skiptust orðum við; þeir tóku hann og létu í sekk, báru hann fram á sjávarhamra, ráku þar niður hæl og hengdu sekkinn fram af berginu og mæltu: „Hér skal kveljast úr þér lífið sem maklegt er.“ Þeir fóru eftir það heimleiðis og er þeir voru burt farnir tekur Sigurður hörpu litla úr vasa sínum og syngur á hana í pokanum. Þar bar að sauðahirðir konungssona; hann kallar til Sigurðar og spyr hvað hann gjörði þar; hann mælti: „Lát mig vera! Hér syng ég til að draga að mér gull sem í hamrinum er.“ Þá dró sauðahirðir hann upp og rekur hann úr sekknum og tekur af honum hörpuna. Sigurður varðist því lítt. Fer nú hirðirinn í sekkinn og lætur veltast ofan fyrir og tekur að syngja, en ekki dróst gull að honum sem hann ætlaði og iðraðist hann þá fljótræðis síns, en mátti nú ekki upp aftur komast. Sigurður tekur sauðina og rekur þá heim með sér og á leiðinni sér hann að konungssynir snúa aftur fram á bergið og draga upp hælinn og láta sekkinn ofan falla í sjóinn. Hafði þeim komið í hug að Sigurður mundi finna ráð nokkuð til burtkomu og þótti vissara að kasta honum ofan og var það nú um seinan þó þeir gætti þess ekki; fara þeir nú heim og eru allkátir. Sigurður sér för þeirra og leggur hann sig þá í læk einn og gjörist alvotur, rekur síðan sauðina á leið fyrir konungssyni. Þeir ganga til hans og undrast er þeir sjá Sigurð lifanda; hann mælti: „Vel gjörðu þér að kasta mér ofan af hömrunum; þar er undir hellir mikill, fullur af sauðfé og þaðan rak ég þenna hóp; galt ég þess að ég var einn því miklu meira var þar eftir.“ Þeir báðu hann fylgja sér fram á hamrana, létust mundu sækja það er eftir væri. Hann bað þá ekki taka það fé, lézt mundu kalla það sína eign og sækja smám saman. Þeir mæltu: „Þú skalt fylgja oss fram á hamarinn hvurt þú vilt eður ekki, eða vér drepum þig því féð skulu vér hafa.“ Hann kvað þá mundi verða að ráða; gengur hann fram á bergið með þeim; þá mælti hinn yngri til hins eldra: „Ég mun fara fyrst ofan og kalla til þín ef jafnmikið fé er þar og Sigurður hefur sagt.“ Hann játti því og hrindir hann honum ofan. Þegar hann kom á flugið varð hann hræddur mjög og öskraði ógurlega. Þá mælti Sigurður: „Hátt kallar hann nú.“ Konungsson kvað svo vera og hleypur hann þegar eftir bróður sínum og létu þeir þar líf sitt báðir í hinum sama stað og þeir drápu sauðamann er þeir ætluðu Sigurð vera.

Sigurður fer nú heim til konungsdóttur og segir henni hvar þá er komið; hún lét ekki illa yfir því. Sigurður hóf þá upp orð sín og bað hennar; hún tók því vel og er þegar gjört brullaup þeirra með miklum sóma, og síðan er Sigurður til konungs tekinn yfir allt ríkið og ríkti síðan vel og lengi með drottningu sinni og var ávallt kallaður vitur konungur. Lýkur þar þessari sögu.