Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Skyrpokalat

Úr Wikiheimild

Einu sinni var konungur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttur, og karl og kerling í koti sínu; þau áttu sér þrjá syni. Voru tveir þeirra uppáhald foreldra sinna, skutu dýr og fugla og veiddu í sjó og vötnum og fluttu heim til foreldra sinna, en hinn þriðji lá í eldaskála og mætti oft ákúrum af föður sínum og bræðrum. En móðir hans hélt svolítið í hemilinn á honum og veitti honum mat eftir föngum; en getið er þess meðal annars er hann fekk hafi hann fengið skyr í sekk. Hafði hann allan gang á að koma því að sér, saug það og át. Þetta þókti bræðrum hans hlægilegt og kölluðu hann Skyrpokalat; og því nafni hélt hann meðal alþýðu manna. Samt óx hann upp og varð ærið vaxtarmikill og lá um þveran skálann. Fór svo fram unz hann var fullþroska að aldri.

Einu sinni kemur móðir hans að máli við hann og bað hann nú rísa úr fleti sínu og dusta af sér öskuna, fara heldur til veiða með bræðrum sínum. Reis hann nú upp og var ærið ósýnilegur, heimtaði nú vað og önnur veiðarfæri og fór einn sér á báti. Reri hann nú ærið langt undan landi og renndi nú vöðum. En er hann hafði lengi keipað finnur hann að þyngist drátturinn. Dregur hann nú allt upp að borði. Er það þá stúlka ein á önglinum. Innbyrðir hann hana, en hún beiddi hann að sleppa sér niður þar sem hann dró hana upp, en hann vill ekki. Bauð hún honum þá að gefa honum gull það er hún bar á hendi. Sagði hún honum það hefði þær náttúrur að sá mætti ekki á sundi mæðast né í eldi brenna og ei hungur granda er það bæri á hendi. Þar með gæfi hún honum þrjár óskir ef hann sleppti sér. Lofar hann nú að sleppa henni ef hún léti þetta rætast og segði hún sér hvað hún hefði verið að gjöra. Hún sagðist hafa verið að gjöra að skjóli á strompi móður sinnar. Sleppir hann nú jómfrúnni og rær að landi. Ekki er getið um fleiri sæferðir hans að svo stöddu máli.

Eftir þetta kemur hann að máli við móður sína og bað hana fá sér kufl einn til yfirhafnar og vopn nokkurt í höndina því hann segist nú vilja skoða heiðalöndin er lægju fyrir ofan byggð alla. Fór hún nú í kistu sína og tekur þar upp loðkápu mikla og spjót eitt allt ryðgað. Kvað hún afa sinn hafa borið hvort tveggja og gæfusamt þókt vera. Slær hann nú spjótinu við stein; hrundi þá ryðið utan af því og var spegilfagurt.

Eftir þetta var hann oft í burtu viku og hálfan mánuð. Vissu menn ógjörla hvað gjörðist í ferðum hans, en þess er getið að hann kom einu sinni þar, að tröllkarl og skessa áttu ójafna leiki saman; drap hann þussann, en bjargaði skessunni. Þakkaði hún honum með virktum lífgjöfina og að skilnaði gaf hún honum hring með þeirri náttúru að hver sú kona festi ást á honum er hann vildi ef hringurinn var á hönd henni dreginn. Óskaði nú karlsson sér að vera kominn í skemmu konungsdóttur. Hvarf hann þangað samstundis. Komst hann á ræður við konungsdóttur og dró hringinn á hönd henni. Vaknaði þegar ást hennar á karlssyni og leyfði hún honum að liggja í skemmu sinni um nóttina. Óskaði hann sér að komast í rekkju kóngsdóttur og hvarf hann þangað og hvíldi hjá henni um nóttina. Um morguninn árla fór hann burt úr skemmunni og dvaldi nú heima um hríð hjá föður sínum. Samt hélt hann teknum hætti upp um heiðagöngur sínar.

Einhverju sinni kom hann að skála einum og var hurð hnigin á klofa. Hratt hann upp hurðunni og sá þar inni tólf rekkjur ákaflega stórar. Eldur var þar í skálanum og skíðahlaði mikill, en í öðrum enda skálans var vöruhlaði mikill. Tendrar hann nú eldinn og bíður skálabúa. Að áliðnum degi komu skálabúar heim. Er þar ekki að sökum að spyrja; sækja þeir allir að karlssyni, en hann sneri baki að skálanum og lét hann gæta sín bakatil. Lauk svo þeirra viðskiptum að hann drap alla skálabúa nema einn; það var höfðingi skálabúa; hafði sá háls og herðar yfir þá alla. Nú sækjast þeir í ákafa. Ræðst Skyrpokalatur á skálabúa og keyrði hann niður fall mikið. Bað hann karlsson um líf. Lengi dvaldi karlsson í skálanum hjá honum. Bauðst skálabúi að fylgja honum, en hann bað hann dvelja við skálann um hríð, en leggja niður ránskap allan.

Nú víkur sögunni til kóngsdóttur. Varð hún barnshafandi og að réttum tíma liðnum fæddi hún sveinbarn. Þetta barst til konungs og varð hann æfareiður. Gekk hann fast á konungsdóttur, en hún vildi ekki til barnsfaðernis segja. Var það ráðs tekið af konungi að stefna saman öllum landslýð og skyldi þar allir koma, höfðingjar og frjálsir menn, þý og þrælar, og skyldi sá heita faðir að barni kóngsdóttur er það væri líkast. Var öllum landslýð í sveitir skipað eftir tign þeirra, en konungsdóttir var í miðjum hring og spurði kóngur hana við hvern hring hvort sá og sá væri barnsfaðir hennar og neitaði hún stöðugt og loksins var enginn eftir á þinginu. Leitaði konungur eftir hvers vant væri og sögðu kunnugir menn Skyrpokalats vant; Var nú eftir honum sent. En er kóngsdóttir var að spurð um Skyrpokalat þagði hún. Varð konungur þá svo reiður að hann skipaði að færa þau bæði með barninu í flæðisker eitt, bjargarlaus og illa sett að klæðum. En er þau voru þar komin bar konungsdóttir sig mjög önkvunarlega, en karlsson bað hana huggast; sagði hann eitthvað mundi enn gott til leggjast. Óskaði hann þess nú fyrst og fremst að til þeirra væri kominn konungsbörnum hæfandi klæðnaður og vopn; þar með nokkur hjálp önnur. Litlu seinna kemur róandi bátur að skerinu; var þar þá komin stúlka hans. Færði hún þeim bæði fæði og klæði og flutti þau bæði til lands og reri svo til hafs aftur. Fór hann nú með konungsdóttur og barn sitt heim til föður síns og bað henni virkta hjá móður sinni, og vísaði [hún] honum til skálans til féfanga, en hann snéri aftur á fund félaga síns skálabúans. Fóru þeir leiðar sinnar og komu sér í sveit með víkingum. Varð karlsson forstjóri víkinga, en skálabúi stafnbúi hans. Herjuðu þeir nú. Kom svo langt hernaði þeirra að þeir unnu heilt konungsríki og settust þar að. Gjörðist hann þar konungur yfir, en gjörði skálabúa að jalli sínum. Safnaði hann nú liði miklu og ætlaði eftir barnsmóður sinni. En er hann kom þar að landi var þar fyrir her óvægur af víkingasolli. Höfðu þeir herjað á ríki konungs og tekið hann til fanga; sat hann nú í fjötrum í herbúðum þeirra. En er Skyrpokalatur konungur frétti tíðindi þessi af landsmönnum fer hann til fundar við víkinga og leggur til orustu við þá. Varð þar bardagi mikill og vann Skyrpokalatur konungur þar sigur mikinn. Leysti hann nú konung úr fjötrum og hóf hann í hásæti. Beiddi hann nú dóttur hans segjandi honum upp alla sögu sína. Varð konungur næsta auðmjúkur og gaf ljúflega jáyrði sitt þar til. Bauð hann konungi heim í ríki sitt til að sitja brúðkaup sitt. Reis þar upp hin fegursta veizla. Unnust þau vel og lengi og ríktu til ellidaga og áttu bæði sonu og dætur. – Og ekki kann eg þessa lokalygi lengur.