Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Surtlu í Blálandseyjum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Surtlu í Blálandseyjum

Einu sinni var kóngur og drottning; þau áttu einn son sem Sigurður hét og dóttur, sem Ingibjörg hét. Börn þessi voru enn ung þegar þessi saga gerðist, en þó komin vel á legg.

Nokkru síðar tók drottning þunga sótt og af því hana grunaði að sú mundi verða sín síðasta kallar hún börn sín fyrir sig; gefur hún þá Ingibjörgu belti og segir að því fylgi sú náttúra að hún verði aldrei svöng meðan hún hafi beltið utan um sig. En Sigurði gefur hún hníf og segir að hann bíti bæði stál og steina og hvað sem hann beiti honum á. Síðan kveður hún börnin og biður þeim virkta. Skömmu seinna deyr drottning og verður öllum mikið um það, en mest kóngi og börnum þeirra. Var hún svo grafin og búið vel um leiði hennar og sat kóngur þar löngum á daginn og syrgði hana. Einn dag þegar hann sat á leiði drottningar kemur til hans maður og kona skrautleg mjög, og var konan nokkuð alvarleg ásýndar. Þau heilsa kóngi kurteislega og tekur hann því og spyr þau að heiti. Hún segist heita Goðrún, en hann Rauður og séu þau systkin. Þau spyrja hvað hann hafist þar að svo einmana. Kóngur segir sem var. Goðrún segir að það sé ráðlegast fyrir hann að hyggja af hörmum sínum, hún hafi og ekki alls fyrir löngu misst mann sinn og kóng og hafi sér ekki hent hugarvílið.

Það finnur kóngur að kona þessi er greind og stillileg og hugsar að sér væri það mikil unaðsbót ef hann fengi hennar; hann ræður það því af að biðja hennar og tók hún því ekki mjög fjarri, en vék þó þeim málum til Rauðs bróður síns. En Rauður fýsti hana að taka bónorði kóngs. Tekst svo sá ráðahagur og drekkur kóngur brullaup sitt til hennar, en gerir Rauð að ráðgjafa sínum. Lítið var þeim Sigurði og Ingibjörgu um þessa ráðabreytni föður síns og ekki sátu þau brúðkaup hans, en minnst var þeim þó um stjúpu sína.

Skömmu síðar býst kóngur í burtu að heimta skatta af löndum sínum; þau urðu þess áskynja Sigurður og Ingibjörg og beiddu hann að lofa sér með honum, og var rétt komið að honum að leyfa þeim það þegar Goðrún kemst að því og segir við kóng að því sé ekki gegnandi að hafa börnin með sér í þá ferð, allra sízt Ingibjörgu, en það sé lítill vegur með Sigurð og þó lítt fært. Verður það svo af að kóngur lofar hvorugu barninu með sér; en Rauður fer með honum. Þegar kóngur er ferðbúinn fylgir drottning honum til skips og börnin með henni. Þegar skipið leggur frá landi horfa þau drottning lengi á eftir því og þegar það var nærri horfið sjónum segir Goðrún við þau Sigurð að þau skuli ganga upp á höfða sem þar lá fram í sjóinn skammt frá, því þaðan sjái þau lengur til skipsins. Þau gera nú svo og þegar skipið er horfið alveg ganga þau ofan að sjó og með honum þangað til þau komu í vík eina og var þar fyrir kista; hún var úr steini og opin. Drottning segir þeim að skoða hvað í kistunni sé; en hún var há og stór og sýndist börnunum gull glóa á kistubotninum.[1] Þegar börnin fóru að teygja sig ofan í hana vita þau ekki fyrri til en stjúpa þeirra hrindir þeim ofan í kistuna, skellir henni aftur, ýtir henni á flot og segir: „Sigldu nú til Surtlu systur minnar í Blálandseyjar.“ Kistan tekur þá til rásar og finna systkinin það að hún fer óðfluga. Skiptast þau þá um beltið, að spenna því um sig svo að þau yrðu ekki hungurmorða.

Loksins finna þau að kistan staðnæmist; fer þá Sigurður til og tálgar svo stórt gat á hana með hníf sínum að hann gat séð út og að þau eru komin að landi á sléttri sjávarströnd undir hömrum nokkrum. Hann víkkar nú gatið þangað til hann kemst út, en Ingibjörg ekki því það stóð á herðunum á henni. Sigurður skilur systur sína eftir í kistunni á meðan hann fer að reyna hvort hann kæmist ekki fyrir hamrana svo hann gæti kynnt sér land þetta. Hann gengur nú lengi þangað til hann kemst upp á hamrana; sér hann þá helli stóran og í honum skessu. Hún reri fram í gráðið og fálmaði fram höndunum á víxl og var að tauta fyrir munni sér að senn kæmu kóngsbörnin sem hún Goðrún systir sín hefði heitið sér. Hún sat flötum beinum beggja vegna við hlóðin og hafði hóbandið upp um hálsinn og pott fullan milli fótanna og sauð ket í honum. Það þóttist Sigurður sjá að skessan væri blind; því fór hann inn í hellinn, laumaðist að pottinum og færði upp nokkur stykki. Sá hann þá að sumt var sauðaket, en sumt manna, og því hleypti hann aftur ofan í pottinn, en sauðaketið færði hann systur sinni og borðuðu þau það með góðri lyst enda voru þau orðin matar þurfar. Ingibjörg spurði Sigurð hvar hann hefði fengið ketið, en hann sagðist ekki mega segja henni það. Hún fór því betur að honum þangað til hann sagði henni það, en þó með því skilyrði að hún beiddi sig ekki um neitt meira, og hét Ingibjörg því. En þegar hann hafði sagt henni frá skessunni og öllu háttalagi hennar bað hún Sigurð enn betur og jarganlegar að lofa sér að fara með honum og sjá skessuna svona á sig komna. Sigurður sagðist ekki bera það við, því undireins og hún sæi hana mundi hún flissa og skella upp yfir sig; því Ingibjörg var fram úr öllu lagi hláturmild. En hún lofaði Sigurði öllu fögru og þar með því að sér skyldi ekki stökkva bros ef hann vildi nú gera þetta fyrir sig. Fór þá svo fyrir langt nauð úr Ingibjörgu að hann lofaði henni með sér daginn eftir og víkkaði nú opið á kistunni svo að hún komst út.

Síðan fara þau til hellisins og var Surtla þá eins á sig komin og daginn áður og var að telja sér tölur yfir kóngsbörnunum sem henni þótti seinka. Ekki voru þau systkin fyrr komin á hellisgluggann og búin að koma auga á kerlingu en Ingibjörg skellir upp úr og skessan rýkur upp til handa og fóta og segir að það hafi alténd legið að að Goðrún systir sín myndi ekki gleyma sér; því nú séu kóngsbörnin komin, óræstin þau arna. Hleypur hún svo út úr hellinum og fálmar þau uppi. Tekur hún þau nú og setur bæði í einn afhelli og byrgir traustlega aftur svo ekki var að hugsa til að þau kæmist þar út. Skessan ætlaði að ala þau þar nokkra stund áður en hún slátraði þeim; gaf hún þeim því bæði nóg og gott viðurværi inn um gat á hurðinni, en skipaði þeim að rétta út um gatið litlu fingurnar og beit hún í þá til að vita hvort þau fitnuðu. En Sigurður tálgaði til leggi úr sauðarbeinum þeim sem þau borðuðu og smeygði þeim upp á fingurna svo að skessan beit í þá og þótti þau seint fitna.

Sigurð grunaði að einhvern tíma mundi þó koma að því að skessan trénaðist upp á að ala þau og mundi hún þegar minnst varði taka þau til slátrunar. Hann tók sig því til og tálgaði hellisbergið uppi yfir afhellinum með hnífnum sínum og ætlaði að gera þar gat á. Losaði hann þá stundum stór stykki úr berginu svo skessan heyrði fallið þegar þau duttu niður á hellisgólfið. Kom hún þá að gatinu og spurði hvern þremilinn þau væru nú að hafast að. En þau svöruðu: „Við vorum að brjóta beinin úr ketinu sem þú gafst okkur, fóstra.“ Lét Surtla sér þar með sagt og fékkst ekki um þó hún heyrði lítinn skruðning eða hark til þeirra í afhellinum. Loksins kom að því að þau komu gatinu á hellisbergið og komust þar út. En Surtla heyrði þá venju meira þrusk þar inni svo hún fór inn í afhellinn og fálmaði fyrir sér; strauk hún þá um iljarnar á Ingibjörgu þegar hún var að hverfa upp úr gatinu. Þá varð kerlu heldur illt við, æddi út og fór að leita og stefndi í áttina þangað sem hún heyrði skóhljóð þeirra systkina; þau gengu sem tæpast á hömrunum og á einum stað þar sem sjór féll í berg veltu þau ofan stórum steini svo af því varð dynkur mikill, en þau viku sér heldur til hliðar og héldu niðri í sér andanum. Þegar Surtla heyrði dynkinn hugsaði hún að þau hefðu fleygt sér fram af og drepið sig og skyldi hún þá hafa þau dauð í soðið þó hún hefði ekki fengið þau lifandi. Fór hún því fram af björgunum þar sem hún heyrði að dynkurinn varð; en þar var hærra niður og verra undir en hún hugði því þar var hengiflug og urðargrjót undir þar sem sjórinn gekk upp í bergið svo að hún marði sig til dauðs þegar hún kom niður. Kóngsbörnin þökkuðu þá sínum sæla lífgjöf sína þegar skessan var dauð, fóru heim í hellinn og könnuðu hann. Fundu þau þar bæði nógar vistir og margt fémætt og í afhelli einum stúlku komna í opinn dauðann af hor og hungri. Hún sat á stóli með krásadisk í keltu sinni, en stóð með fætur í vatni og hárið bundið um stólbrúðirnar. Sigurður losar hana sem fljótast og var svo af henni dregið að hún gat varla svarað þeim. Hún sagðist heita Hildur og vera kóngsdóttir; hefði Rauður bróðir þeirra systra numið sig þangað og ætlað að þröngva sér til að eiga sig, en hún hefði ekki viljað það með nokkru móti og því hefðu þau lagt þessar pyntingar á sig. Hresstu nú kóngsbörnin hana við og dvöldu svo þar í hellinum nokkra stund.

Á hverjum degi voru þau á vaðbergi að vita hvort þau sæju ekki skip sigla þar fyrir. En lengi áttu þau þess að bíða; þó kom að því um síðir að þau sáu skip, gerðu þau þá bál mikið svo að sást af skipinu. En svo vildi heppilega til að á þessu skipi var kóngurinn faðir þeirra Sigurðar og Ingibjargar. Kóngur segir þegar hann sér vitann kyntan á landi að þar muni einhverjir vera nauðulega staddir sem vilji hafa tal af þeim og sé bezt að beita undir landið og skjóta báti. Rauður ráðgjafi aftók það og bað kóng ekki gera þá heimsku því þar væri engin mannabyggð og hefðu þó fáir aftur komið sem lent hefðu við Blálandseyjar til þessa. Kóngur réð þó meira en Rauður; var svo skotið báti og fór kóngur í hann með nokkra menn og til lands. Þar urðu heldur en ekki fagnaðarfundir þegar kóngur hitti þar börn sín og sögðu systkinin honum allt af létta, hvernig stjúpu sinni hefði farizt við þau og hvernig þeim hefði vegnað síðan og eins um Hildi. Kóngur tók þau öll með sér og það sem fémætt var í hellinum. Þegar hann kom út til skipsins aftur breiddi hann rautt klæði yfir Hildi og börn sín í bátnum svo engum sást ofaukið í honum og kom þeim svo ekkert bar á í afvikið herbergi í skipinu og lét Rauð ekkert vita af þeim; en þegar kóngur hitti Rauð kvaðst hann einkis hafa orðið vísari á landi, svo líkt hefði farið og hann hefði sagt nema hann væri heill aftur kominn. Síðan siglir kóngur heim.

Það er nú af Goðrúnu drottningu að segja að hún kom ekki heim fyrr en um nóttina eftir að hún hafði fylgt kónginum til skips; sagði hún að dýr hefðu ráðizt á sig og kóngsbörnin á leiðinni og hefðu þau drepið börnin, en hún hefði getað forðað sér og náð líkömum þerra öllum rifnum og tættum um nóttina og hefði hún svo lagt þau til og líkbúið þau. Bað hún nú þá beztu smiði sem föng voru á að fá að búa til kistur að þeim svo prýðilegar sem auðið væri; því sér væri annt um að þau fengi kónglega greftrun þó svona mæðulega hefði til tekizt. Voru smíðaðar kistur að þeim allar greyptar með gulli og silfri svo enginn þóttist hafa séð slíka viðhöfn. Drottning baukaði ein við að kistuleggja börnin og síðan voru þau grafin með kónglegri viðhöfn.

Nú líður og bíður þangað til menn sjá sigling kóngs; fer þá drottning til strandar og fagnar honum, en var þó mjög sorgbitin. Kóngur tekur henni vel og spyr hvað að henni gangi og hvar börnin sín séu. Hún segir að það sé saga að segja frá því og segir honum svo frá öllu hinu sama og hún hafði fyrr sagt borgarmönnum um barnamissinn og sagði hún að það eitt gleddi sig að þau hefðu fengið svo heiðarlegan gröft sem kóngsbörnum hæfði eins og borgarlýðurinn gæti borið sér vitni um. Kóngur lézt verða hryggur við þessa fregn, en sagðist þó vilja sá líkin; en Goðrún latti þess á allar lundir því þau væru nú orðin öll afskræmd og rotin og lítil huggun í því fyrir kóng. Þegar þau komu heim lét kóngur þegar grafa upp líkin og sá að vel hafði verið um þau búið. Síðan lét hann opna kisturnar og fann í annari hund, en í hinni tík, vafin í dýrðlegustu líkblæjum Kóngur spurði hvort þetta væru börnin sín. En við það fóru þau systkin Goðrún og Rauður að sortna í framan, en hún svaraði engu. Sagðist kóngur þá skyldi sýna henni börn sín og liti þau öðruvísi út; lét hann svo sækja þau Sigurð, Ingibjörgu og Hildi til skipsins og lét þau segja frá öllum aðförum drottningar við þau og Rauðs við Hildi svo allur borgarmúgurinn heyrði. Færðust þau Goðrún og Rauður þá í tröllshaminn og urðu ógurlega stór og illileg. Lét kóngur svo taka þau og urðu margir að ráðast á þau áður en þeim varð komið í bönd. Síðan voru þau sett aftan í ótemjur sem slitu þau sundur lim frá lim. Gekk svo Sigurður að eiga Hildi og varð kóngur eftir föður sinn; en Ingibjörg giftist kóngssyni úr öðru landi.

Og lýkur svo þessari sögu.


  1. Sbr. Völundarkviðu, 19. og 21. erindi.