Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Tistram og Ísoddu
Sagan af Tistram og Ísoddu
Það er upphaf þessarar sögu að konungur og drottning réðu fyrir ríki og áttu einn son sem hét Tistram. Hann var enn barn þegar hér segir frá. Einn dag óku þau kóngur og drottning sér til skemmtunar niður við sjó. Þau komu þar að sem á rann til sjóar. Sér drottning þar í viki einu við bakkann að kistill flýtur. Hún skipar einum manni sínum að rétta sér kistilinn; hann gjörir það. Drottning lýkur upp og sér þar fagran dúkstranga. Hún leysir til og er þá rauður silkidúkur innan undir og ungbarn í; það var meybarn undurfagurt. Drottning gladdist af fundinum og kvaðst mundi taka barnið í dótturstað og ala upp með syni sínum. Konungur leyfði það. Þessa ungu mey nefndu þau Ísoddu. Nú voru þau alin upp saman Tistram og Ísodda og kenndar allar listir sem menn þekktu þar í landi. Þau konungur unnu þeim ákaflega og sjálf unnust börnin hugástum. Kóngur lét byggja þeim sterkan og skrautlegan kastala. Þar bjuggu þau og héldu sveina og meyjar.
Nú liðu fram stundir þangað til þau voru orðin fullorðin. Þá tók drottning sótt sem leiddi hana til bana. Áður en hún andaðist talaði hún við börn sín og sagði: „Eftir dauða minn mun konungur fá sér aðra konu og kvíði ég hún verði ykkur vond. Þið skuluð vera í kastalanum og koma ekki á hennar fund og lofa henni ekki að koma til ykkar.“ Síðan kvaddi hún þau, en þau grétu og fóru heim til sín. Þegar drottning var fallin frá lagðist konungur í rekkju af harmi og sinnti ekki ríkisstjórn. Þótti mönnum hans þetta mikið mein, gengu á tal við hann og báðu hann hyggja af harmi og fá sér aðra drottningu; kváðust mundi útvega honum þá konu sem engu væri ófríðari eða síður að sér en sú er hann missti. Konungur tók lítt á þessu, en lét þó um síðir teljast. Þegar sendimenn hans fóru af stað bað hann þá varast að taka sér konu af eyjum eða annesjum. Þeir lofuðu því og sigldu síðan af stað. Nú héldu þeir lengi áfram og sáu ekki land þangað til þeir sigldu að einni eyju. Þar vildu þeir ekki á land fara, en veður var svo hvasst og illt að þeir urðu að varpa akkerum undir eynni. Tvisvar reyndu þeir að komast þaðan, en rákust jafnóðum undir eyna. Þá gengu þeir á land og heyrðu undurfagran hljóðfæraslátt. Þeir gengu á hljóminn unz þeir komu í fagurt rjóður. Þar sat kona á stól, dáfögur og skrautbúin og söng á hörpu. Hjá henni sat ung mær, yfrið fríð. Konungsmenn heilsuðu þeim og spurðu hverjar þær væri. Hin eldri varð fyrir svörum: „Ég var drottning í einu ríki, en þetta er dóttir mín. Víkingar komu og herjuðu land mitt. Konungur minn lagði til bardaga við þá og féll þar með liði sínu; en ég flýði hingað með dóttur mína.“ Konungsmönnum leizt yfrið vel á drottningu og sögðust vilja færa hana konungi sínum sem væri ekkjumaður og bæta svo úr raunum beggja. Hún kvaðst ekki hafa ætlað að giftast eftir mann sinn. En þeir lögðu að henni og fór hún þá með þeim. Heimferðin gekk greitt og vel. Þegar sást til skipsins reis konungur úr rekkju og gekk til sjávar móti þeim. Þegar hann sá drottningarefnið felldi hann þegar mikla ást til hennar og leiddi heim í höll sína. Nú var búizt til veizlu og drakk konungur brullup sitt. Þá spurði drottning hvort konungur ætti engin börn. „Ég á son og dóttur,“ sagði hann, „og máttu ei misvirða að þau eru ekki hér því þau syrgja alla daga móður sína.“ Drottning lét ekki á sér finna að henni mislíkaði og var nú haldið fram veizlunni að lokum. Aldrei komu þau Tistram til hallar og drottning hafði enn ekki séð þau.
Eitt sinn kemur hún að máli við konung og spyr hvort hann hafi tekið skatta af löndum sínum um sinn. „Nei,“ segir hann, „það hefi ég ei gjört síðan ég missti konu mína.“ „Þá mun nú kominn tími til þess,“ sagði hún; „skaltu nú fara til skattheimtunnar og hafa son þinn með þér svo hann verði kunnugur í ríkinu og sjái siðu annara manna; er það ekki hæfilegt að hann byrgi sig alla daga inn í kastala.“ Konungur fellst á þetta og segir syni sínum. Hann tók því vel, en segir Ísodd megi þá fara með sér. Ekki þótti drottningu það hæfa að hún færi í þvílíka hrakninga og varð svo að vera að Ísodda var eftir heima. Áður þeir feðgar fóru gerði drottning sig blíða við Tistram og mælti til vináttu; sagði ei hæfa þau forðuðust hvort annað – „og drekk nú sáttabikar okkar“. Tistram gjörði það, en þetta var óminnisveig og gleymdi Tistram Ísoddu og öllu sem áður hafði komið fram við hann. Eftir þetta fóru þeir feðgar af stað. Skömmu seinna gekk drottning að kastalanum og klappaði á dyrnar. Ísodda spyr hver þar væri. Drottning segir til sín og biður hana ljúka upp, en hún færðist undan. Þá gerði drottning sig mjög blíða og bað hana láta þetta eftir sér; – „vil ég við göngum út í dag – því veður er fagurt – og skemmtum okkur og dóttir mín með okkur. Skulum við fella niður alla misþykkju og vil ég vera þér góð stjúpa.“ Ísodda lét teljast og lauk upp kastalanum, gekk síðan út með drottningu og tók með sér tvær skemmumeyjar sem hétu Ey og Mey. Nú gengu þær allar lengi og skemmtu sér þangað til þær komu á fagran hól. „Hér skulum við setjast niður og hvíla okkur,“ segir drottning. Þær Ísodda og meyjar hennar settust saman á sæti sem var á hólnum, en drottning á annað og dóttir hennar; hún hét Laufey. Þegar þær höfðu setið þar um stund og talazt við fór sæti þeirra Ísoddar að síga niður og í sama bragði hröpuðu þær ofan í djúpa gryfju sem enginn maður gat komizt upp úr. Hafði drottning látið grafa hana, refta yfir og þekja. En meðan þær sátu togaði hún undan eitthvað sem uppi hélt svo allt steyptist niður. Þegar þær Ísodda voru komnar í gröfina sáu þær dauðann vísan. Hún hafði haft með sér tvær brauðkökur og skæri sín. Þegar þær hungraði gaf hún meyjum sínum af kökunum, en neytti sjálf lítils. En er þær höfðu gist nokkra daga í gröfinni dóu skemmumeyjarnar, en Ísodda var mjög máttfarin. Þegar þær Ey og Mey voru orðnar stirðar reisti Ísodda þær upp við vegginn í gröfinni, klifraði upp á axlir þeim, gjörði sér spor með skærunum og hætti ekki fyrr en hún komst upp. Þá gekk hún þaðan og í skóg skammt frá borginni. Þar fann hún kot eitt og bjó þar kall og kelling. Hún bað þau taka sig og kvaðst mundi sauma fyrir þau svo þau gæti selt vinnu sína. Þau tóku þessu vel og varð hún hjá þeim. Ísodda hafði gjört sér stakk af næfrum og sagði þeim kalli að hún héti Næfrakolla og væri kallsdóttir. Þau fengu nú nóg til að sauma úr borginni handa Næfrakollu og varð mikil hjálp að verkum hennar. Ísodda sat oft úti við sauma.
Nú víkur sögunni til drottningar. Þóttist hún hafa komið miklu áleiðis að ráða Ísoddu af dögum því hún vildi Tistram gengi að eiga Laufey dóttur sína. Lét nú drottning rífa niður hina gömlu borg og brenna, en byggja aftur aðra miklu skrautlegri. Nokkru eftir þetta kom Tistram heim, en faðir hans aldrei síðan. Höfðu þeir orðið viðskila í hafi og ætluðu menn að skip konungs hefði farizt. En það hafði verið ráð drottningar að sinn væri á hverju skipi og Tistram stýrði sínu. Drottning fagnaði Tistram með öllum virktum og bað hann ganga til hallar og sjá hvort hún hefði ei fegrazt síðan hann fór. Tistram kvað svo vera, en mundi þó ekki eftir hinni eldri. Ekki leið á löngu áður drottning fór að ráða honum að kvongast og taka við ríkinu, því faðir hans mundi vera dauður. Tistram tók því vel og bauð hún honum Laufey dóttur sína, en hún var hin fegursta ásýndum. Þetta líkaði konungssyni, en sagðist þó verða að vita fyrst hversu vel Laufey væri að sér og skyldi hún sauma sér öll klæði til brúðkaupsins. Drottning tók þessu vel, en komst þó í vandræði því dóttir hennar kunni ekki að taka nálspor. En hún vissi að Næfrakolla kallsdóttir saumaði allra kvenna bezt; því gekk hún út í skóginn og fann hana þar sem hún sat úti og saumaði. Nú biður drottning hana að sauma konungssyni tignarklæði; hafi hann sett þetta á dóttur sína, en hún kunni ei þessa list, en hafi tamið sér margar aðrar. Kallsdóttir tók vel máli drottningar og var henni flutt efnið í klæðin. Þegar þeim var lokið færði drottning þau Tistram og spurði hvornig honum líkaði. Hann lét vel yfir. „Nú muntu þá ganga að eiga dóttur mína,“ sagði hún. „Já,“ sagði hann, „en áður skal hún ríða út með mér þrjá daga; vil ég sjá hversu hún kann að ríða og verður hún að sitja jafnvel hest sinn og ég.“ Ekki mælti drottning móti þessu, en vissi þó að Laufey hafði aldrei komið á hestbak. Hún hugsar með sér: „Eins og kallsdóttir kann vel að sauma getur verið hún kunni vel að ríða;“ fer út til hennar og spyr hvort hún kunni vel hesti að ríða. „Það kann ég,“ sagði kallsdóttir. „Þá bið ég þig að ríða til kapps við Tistram konungsson í stað dóttur minnar sem ekki kann að sitja á hesti, en ég mun búa þig búnaði hennar. Þó verðurðu að muna mig um það að tala aldrei orð við Tistram meðan þið eruð saman.“ Þessu lofar Næfrakolla. Daginn eftir var hún færð í skart Laufeyjar og fenginn ágætur hestur. Reið hún nú út með Tistram. Þau riðu víða um daginn og varð hún jafnan fremri. Seint um daginn reið hún á hólinn þar sem gryfjan var og mælti þá þetta fyrir munni sér:
- „Hér er Ey mín og Mey mín,
- stakk ég skærum mínum í vegg
- og tyllti mér á tá
- og svo komst ég dauðanum frá.“
Tistram var hóti seinni á hólinn og heyrði óljóst hvað Laufey hans sagði. „Hvað sagðirðu?“ segir hann. „Ekki neitt,“ svaraði hún og reið svo þaðan.
Daginn eftir riðu þau út eins og fyrra daginn. Þegar þau voru þar sem gamla borgin hafði staðið sagði hún:
- „Hér galaði gaukur,
- hér glóaði laukur,
- hér bjó Hrísi konungur, faðir þinn.“
„Hvað sagðirðu nú?“ sagði Tistram. „Ekki neitt,“ sagði hún og reið þaðan.
Þriðja dag riðu þau enn og um fagran skóg skammt frá borginni. Eitt sinn riðu þau hjá fögrum lundi. Þá sagði hún:
- „Fagur er sá lundurinn
- þar Tistram og Ísodda bundu sína trú
- og vel mun hann halda hana nú.“
Tistram spurði enn hvað hún segði, en hún svaraði sama og áður og reið þaðan og til borgar. Nú spyr drottning Tistram hvornig honum líkaði reiðlist dóttur sinnar. „Vel,“ sagði hann, „og kann ég ei betur að ríða.“ „Þá muntu vilja láta stofna til brúðkaupsins,“ segir hún. Hann játaði því. Drottning var hin kátasta, bauð múg og margmenni til veizlunnar og sparaði ekki til. Brúðurin var skrautbúin og hin glaðasta. Þegar veizlunni var lokið og brúðhjónin skyldi ganga í eina sæng þá háttar Tistram fyrr, en þegar hún vildi stíga upp í sængina sagði hann: „Nei, þú mátt ei hátta hjá mér nema þú segir mér áður hvað þú talaðir fyrsta daginn við riðum út á hólnum.“ Drottning var inni í salnum og sagði: „Við verðum að ganga út snöggvast.“ Ísodda hafði verið boðin í veizluna því hún hafði hjálpað drottningu svo mikið. Nú finnur drottning hana, byrstir sig og segir: „Þú hefir talað eitthvað við Tistram fyrsta daginn þið riðuð út, ólukkukindin þín.“ „Nei,“ sagði hún, „en ég talaði fyrir munni mér fá orð.“ „Hvað var það?“ sagði drottning. „Ég sagði:
- ,Hér er Ey mín og Mey mín;
- stakk ég skærum mínum í vegg
- og tyllti mér á tá
- og svo komst ég dauðanum frá'.“
„Á, sagðirðu það?“ segir drottning, gengur svo og segir dóttur sinni, en hún fer og segir Tistram. Þá vill hún nú fara upp í sængina, en hann aftraði og sagði: „Áður verðurðu að segja mér hvað þú talaðir annan daginn sem við riðum út. „Þá verðum við að ganga út,“ sagði drottning, fer enn og finnur Næfrakollu, ávítar hana fyrir mælgina og biður hana segja sér hvað hún hafi talað. „Ekki talaði ég orð við Tistram,“ sagði hún, „en þetta mælti ég fyrir munni mér:
- ,Hér galaði gaukur,
- hér glóaði laukur;
- hér bjó Hrísi kóngur, faðir þinn'.“
„Á, sagðirðu það?“ segir drottning, segir dóttur sinni þetta, en hún segir Tistram og vill nú komast upp í rúmið. Hann varnaði þess enn og sagði hún skyldi áður segja sér hvað hún talaði þriðja daginn hjá lundinum fagra. Drottning sagði: „Þá verðum við enn að ganga út.“ Hún ávítar enn Næfrakollu, en biður hana þó segja sér hvað hún talaði. „Ég sagði við sjálfa mig,“ segir Ísodda:
- „,Fagur er sá lundurinn
- er Tistram og Ísodda bundu sína trú
- og vel mun hann halda hana nú'.“
„Á, sagðirðu það?“ segir drottning og segir Laufey þetta, en hún aftur Tistram og vildi nú loksins fá að leggjast niður í hvíluna. En Tistram reis upp, barði þrjú högg á þilið hjá rúminu, en við það spruttu þar upp leynidyr og hlupu fram vopnaðir hermenn. Þeir tóku drottningu og dóttur hennar, en þeim var hverft við og breyttust harla mjög, urðu að hinum verstu flögðum og vörðu sig. Hermenn höfðu þær niður um síðir, drógu belgi á höfuð þeim, börðu grjóti og brenndu síðan. Eftir þetta upphlaup lét Tistram leiða Næfrakollu inn til sín. Þekkti hann þar Ísoddu því nú minntist hann hins umliðna, enda hafði hann áður rankað við sér þegar hann heyrði orð hennar. Lét hann hana nú ganga í sæng hjá sér, og sagði hvort öðru raunir sínar. Eftir [þetta] tók Tistram við ríki föður síns og stýrði því til elli. Unnust þau Ísodda heitt og undu sem bezt hag sínum meðan þau lifðu. Lúkum vér svo þessari sögu.