Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Tungla

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Tungla

Það er upphaf þessarar sögu að kóngur og drottning réðu fyrir ríki og áttu ekki barn. Liðu svo langar stundir. Þó var það um síðir að drottning varð ólétt. Lagði hún svo fyrir áður léttari varð að fæddi hún sveinbarn skyldi bera það út, en ala upp ef meybarn yrði. Þetta líkaði kóngi illa.

Leið svo fram þar til drottning varð léttari og fæddi piltbarn. Var hann vatni ausinn og nefndur Sigurður. Drottning skipaði að bera hann frá augum sér, en kóngur fékk honum fóstru. Eftir þetta sýktist drottning og dó, en áður það varð bað hún lofa sér að sjá barnið. Það var gjört. Hélt hún á því litla stund þar til barnið æpti mjög. Lét hún það svo frá sér, en það linnti ekki af hljóðum. Svo dó hún og var heygð að fornum sið. Harmaði kóngur hana mjög. Jók það mjög á harm hans að heyra til barnsins. Lét hann því búa til jarðhús út á skógi, lét þar í barnið og fékk til tvær fóstrur er sjá skyldi um það, önnur um daga, en hin um nætur. En þá vika var frá liðin hljóp önnur fóstran burtu, sagðist valla drepast yfir barni þessu, en hin sagði: „Ég skal deyja yfir honum, aumingjanum.“

Kóngur syrgði drottningu sína lengi. Menn hans vildu hugga hann og buðu að útvega honum drottningarefni aftur. Hann tók því vel, fékk þeim skip og menn og bað þá taka hana hvörki af eyjum né útskögum og hvörgi nema úr kóngsríki. Þeir héldu svo í haf og sigldu þann dag allan til kvelds. Lá þá land fyrir stafni; köstuðu þeir þar akkeri og gengu á land. Þetta var eyja ein. Þeir gengu lengi eftir henni unz dimmt var orðið; þá sáu þeir koma á móti sér eins og tvö hálf tungl. En þá þetta kom nær sáu þeir að þetta var maður, ekki mjög hár, en undra digur; en augu hans voru þessi tungl sem þeir sáu. Þeir kvöddu hann og spurðu að heiti, en hann kvaðst Tungli heita. Þeir báðu hann um gisting. Hann kvað þeim hana heimila og fylgdi til húsa sinna sem þar voru skammt burtu. Hann spurði að eyrendum þeirra. Þeir sögðu sem var. Hann fylgdi þeim svo inn. Þar sáu þeir engan mann utan eina konu sem bar þeim mat og fylgdi til hvílu, og Tungla. Snemma um morguninn risu þeir upp og til ferða í sólbjörtu veðri. Getur ekki um ferðir þeirra fyrr en um kveldið. Voru þeir þá komnir að sömu eyjunni. Þar kom Tungli móti þeim. Þeir báðu hann um gisting og sögðust ekki vita hvörjum brögðum þeir væru beittir að vera þangað komnir. Hann kallaði þá lygara og drottinssvikara; þeir mundu frekar húsgangar en sendimenn kóngs. Gistu þeir samt hjá honum og þáðu beina af sömu konu og fyrri. Daginn eftir sigldu þeir frá eyjunni á haf út og lentu þriðja kvöldið á sama staðnum. Fundu þeir strax Tungla sem hrakyrti þá enn meir en áður; samt gistu þeir hjá honum og voru að hugsa um erindagjörðir sínar og ófarir, litu til konunnar sem bjó þeim rúmin, og leizt vel á hana; fóru að gæta að þá hún var sofnuð, hvört hún væri eins fríð sofandi sem vakandi. Sáu þeir þá engin lýti á henni nema bláan blett millum brjóstanna. Sváfu þeir svo af nóttina og voru snemma á fótum, fundu Tungla úti og spurðu hann að hvört það væri dóttir hans sem þjónaði í húsinu. „Nei,“ segir hann, „ekki er hún mín dóttir, en eins er mér um hana hugað.“ Þeir sögðu sér væri ónýtt að byrja ferð frá eyju þessari, það væri fullreynt, ekki svo þeir kæmust erindislaust heim aftur, og spurðu Tungla hvört hann mundi ekki lofa stúlku þessari með þeim. Tungli veitti þeim vond orð og sagði ekki væri kóngsríki hjá sér, en það mætti hann segja þeim að valla fengju þeir, þótt víða leituðu, vænni konu. Bjó hann þó ferð hennar með þeim.

Getur ekki um ferðir þeirra fyrr en heim komu; gengu fyrir kóng og kvöddu hann virðuglega, sögðust komnir með drottningarefni. Kóngur varð glaður við og gekk til skipa að sjá hana; gekk að henni og sló hana snoppung. Hún settist niður og fór að gráta. Hann vildi hugga hana og leiddi hana sér við hlið heim til borgar. Reis þar strax upp virðugleg veizla og gekk kóngur að ekta hana. Stóð veizlan yfir með mestu rausn og blóma.

Fyrstu nóttina sem þau voru saman spurði drottning hann að hvört hann hefði ekkert barn átt. Hann sagði sem var. Hún spurði hvört fóstra þess hefði nokkurs notið af veizlunni. Kóngur kvaðst ekki vita það. Strax morguninn eftir bjó drottning sig til ferða og lét segja sér til vegar að jarðhúsinu og gekk inn, heilsaði fóstrunni sem var hnuggin mjög, úrkula vonar að sér yrði færður matur. Drottning kvaðst hafa hraðað sér að finna hana, hún skyldi nú fara að fá sér hressingu; hún skyldi sjá um barnið á meðan. Kelling sagðist það ekki gjöra, hún gjörði ekki annað við það en hún dræpi það. „Láttu ekki svona,“ kvað drottning. Tók hún þá við barninu, en kelling fekk sér mat. Drottning fór höndum um barnið og fann að hampur var bundinn utan um það sem kominn [var] inn að lífhimnunni. Hún gat með skærum klippt hampinn og þá þagnaði barnið. Kelling fleygði þá diskinum og sagði að sig hefði grunað að hún mundi drepa barnið og var óðamála. Drottning sagði að það hefði sofnað, dreypti á það og sýndi henni hvað að því hefði gengið. Fór svo drottning heim með það og ól upp þar til hann var þriggja ára.

Þá var það einu sinni að hann bað drottningu um [fylgdarmenn] með sér út á skóg. Drottning lét honum til fylgdar þrjá menn og sagði það riði á lífi þeirra létu þeir ganga að barninu. Um kveldið komu þeir heim, en barnið ekki. Henni varð bilt við, fór strax út á skóg að haug móður hans. Sá hún þá að hún var að þjarma barninu. Drottning náði því úr klóm hennar og fór heim með [það]. Leið svo þar til hann var sex ára; bað hann drottningu þá eitt sinn að lofa sér út á skóg og ljá sér fylgd. Hún lét sex menn fara með honum. Komu þeir heim sem fyrri, en hann ekki. Náði drottning honum enn frá móðir hans. Þá hann var níu ára fekk hann með sér níu menn og fór á sömu leið og fyrri að drottning hjálpaði honum. Nú leið og beið þar til Sigurður var fimmtán ára. Þá var það eitthvört sinn að drottning fór að viðra úr kistu sinni og neðst af botni kistunnar tók hún skyrtu og gætti Sigurður að því að tár runnu eftir kinnum hennar. Hann gekk að henni og bað hana segja sér hvað að henni gengi. Hún sagði hann gæti ekki bætt úr því. En hann gekk því fastar á hana, sagði það riði á lífi hennar dyldi hún sig þessa, svo hún sagði honum að faðir sinn hefði átt skyrtuna, en tröll hefðu rænt hann, sig og systir sína Hildi, en Tungli fóstri sinn hefði náð sér og fóstrað sig; systir sín Hildur væri í tröllahöndum, hart haldin, bundin á hárinu og að öllu illa útleikin. Sigurður bauðst til að ná henni, en hún kvað það mundi ekki hans færi nema ef Tungli fóstri sinn veitti honum lið til þess, en [Sigurður] kvaðst fara mundi hvað sem fyrir lægi. Bjó drottning þess vegna skip á laun við kóng, skrifaði Tungla bréf og fól honum Sigurð á hendur til ráða og liðsinnis. Getur ekki um ferð hans fyrr en hann kom á fund Tungla. Bar hann honum bréf drottningar með kærri kveðju hennar. Hann tók vel við Sigurði, sagði hann dveldi hjá sér að sinni, en lét menn hans fara heim aftur.

Einhvörju sinni kom Tungli á tal við Sigurð og sagði: „Veit ég hvað þú hefir í huga, að ná Hildi systir drottningar úr tröllahöndum; en það auðnast þér ekki nema mín ráð komi til sem ég vil til leggja vegna fóstru minnar. Þú skalt,“ segir hann, „ganga héðan að sjó ofan og með sjávarströndinni þar til þú sérð hellir; þá mun bráðum koma á móti þér tröllkona ferleg og skellihlæja þá hún sér þig. Hún mun segja: „Nú er Sigurður kóngsson kominn að biðja mín.“ Þú skalt segja að svo sé; en hún mun segja að þú munir verða nokkuð til að vinna. Þú skalt segja þú viljir flest til þess vinna að ná ástum hennar.“

Eftir þetta var það snemma morguns góðan veðurdag að Sigurður bjóst að heiman. Tungli gekk til hans og sagði: „Þrautir munu fyrir þig lagðar áður [þú] nær Hildi úr tröllahöndum, en nefndu nafn mitt liggi þér lítið á.“ Síðan fór Sigurður leiðar sinnar með sjó unz hann sá hellir og tröllkonan kom móti honum og skellihló sem Tungli sagði fyrir. Hún segir: „Þú munt, Sigurður kóngsson, kominn að biðja mín.“ Hann kvað svo vera. „Þú munt nokkuð verða til að vinna,“ segir hún. „Allt vil ég til vinna ástar þinnar,“ segir hann. Hún segir: „Þú skalt sópa hellir minn og finna svuntuhnapp minn.“ Sigurður gjörði þetta, sópaði hellinn og fann völustall úr hesti, en svuntuhnappinn ekki. Hann þóktist í vandræðum og sagði: „Nú vildi ég Tungli fóstri fóstru minnar væri hér kominn.“ Þá heyrði hann sagt: „Ég er hér og hvað viltu mér?“ Var þá Tungli kominn. „Hvað skipaði skessan þér að vinna?“ segir hann. „Sópa hellir sinn og finna svuntuhnapp sinn,“ segir Sigurður, „en ég fann þetta“ – og sýndi honum völustallinn. „Þetta er hnappur hennar,“ sagði Tungli, „og hann skaltu rétta að henni.“ „Leysa skaltu Hildi á hvörjum degi,“ segir Tungli, „og næra, en binda aftur á kveldum.“ Eftir þetta hvarf Tungli burtu.

Um kvöldið kom skessan, hafði bjarndýr á baki, en í fyrir fuglakippu, og var stórstíg mjög; kallaði til Sigurðar og spurði hvört búið væri það sem hún hefði skipað honum að gjöra. Hann rétti að henni völustallinn, sagðist hafa fundið þetta. Hún kvað það hnapp sinn og sagði vel af hendi leyst.

Daginn eftir skipaði hún honum að viðra fiður úr sæng sinni, og vantaði eina fjöður riði á lífi hans. Sigurður kvað það vanda mikinn. Um morguninn tók hann sængina sem var honum fullþung byrði, breiddi allt fiðrið og sat hjá bingnum lengi og hugsar með sér að nú mundi hann ekki þurfa Tungla við; en í því kom hvirfilbylur sem feykti í loft upp öllu fiðrinu, svo ekki var ein fjöður eftir. Þarna var hann ráðþrota. „Hvenær mun mér liggja meira á þér, Tungli fóstri fóstru minnar?“ Þá var sagt á bak við hann: „Ég er hér og hvað viltu mér? Þú hélzt að þú mundir ekki þurfa mín við,“ segir hann. Blístraði hann þá í allar áttir; komu þá fjaðrirnar saman. Hann sagði Sigurði að allar væri nú fjaðrirnar komnar, nema þrjár vantaði – „og eru tvær á haug móður þinnar, en ein í nös skessunnar. Skal ég sækja þær sem eru hjá móður þinni; en þegar hún segir að eina vanti fjöðrina gríptu þá fljótt upp í nös henni og taktu fjöðrina.“ Þetta fór sem Tungli sagði. Hann þreif fjöðrina úr nös hennar og sagði: „Hérna er hún.“ „Nú ertu ekki einn í verki,“ segir tröllkonan. „Einn er ég, segir hann, „og enginn í mér.

Morguninn eftir var kelling snemma á fótum, vakti Sigurð og skipaði honum að sækja tafl. Hann spurði hvört sækja skyldi. Hún bað hann segja sér það sjálfan. Sigurður sagði nú við sjálfan sig: „Nú vildi ég Tungli fóstri fóstru minnar væri kominn.“ Í því heyrir hann að sagt er: „Ég er hér og hvað viltu mér?“ Var þar Tungli og spurði hann hvað hún hefði nú skipað honum. „Að sækja tafl,“ segir Sigurður. „Það grunaði mig,“ segir Tungli; „það er stórvirki mikið,“ segir hann, „og ekki auðgjört; það er geymt hjá mörgum flögðum yzt við heimsskaut. Samt mun ég reyna að hjálpa þér; en verði ég ekki kominn um náttmál í kveld skaltu forða þér, því þá mun ég ekki aftur koma.“ Nú leið dagurinn að náttmálum. Þá sá Sigurður hvar Tungli kom illa útleikinn, rifinn og táinn, marinn og blár, en sagðist þó mundi lifa. „Taktu nú við taflinu,“ segir Tungli, „og varð mér fullerfitt að ná því sem þú munt sjá. Nú skaltu fá henni það og segja að nú þykist þú vel kominn að ráðahag við hana. Hún mun segja að svo sé. Hún mun segja að þá muni bezt að efna til veizlu og bjóða; en þú skalt segja að bezt muni að bjóða engum. Hún mun fallast á það, því hún er nízk og mun horfa í kostnaðinn; en veita skaltu henni sem bezt, en varast að drekka sjálfur.“ Síðan hvarf Tungli.

Um kveldið kom kelling heim og hafði þunga byrði. Sigurður gekk til hennar, rétti henni taflið og sagðist nú þykjast vel kominn að ráðahag við hana. Hún kvað það vera – „en einn munt þú ei unnið hafa þetta.“ „Einn er ég og enginn í mér,“ segir hann. „Bezt mun þá,“ segir kelling, „að efna til brúðkaupsveizlu og bjóða stórmennum.“ „Bezt mun engum að bjóða,“ segir Sigurður. „Satt er það,“ segir kelling.

Strax um kveldið tóku þau að drekka. Sigurður veitti henni óspart. Þetta gekk þar til hún fleygðist upp í flet sitt og hraut ógurlega svo allt skalf undir. Samt, eins og Tungli lagði fyrir, fór hann upp fyrir hana, en gat valla við haldizt fyrir hrút hennar og umbrotum; sagði því við sjálfan sig: „Nú vildi ég Tungli fóstri fóstru minnar væri kominn.“ Strax var hann þar kominn. Hann sá skálm eina biturlega hanga yfir rúminu. Tungli seildist eftir henni, fletti ofan af henni sem hann sá öll var loðin og einn bláan blett sá hann undir hendi hennar snöggan; þar stakk hann skálminni svo í beði stóð. Hún brauzt um með óhljóðum fram úr fletinu ofan á hellisgólfið; þetta gekk lengi, unz af henni dró. Brenndu þeir hana svo á björtu báli og tóku allt fémætt sem var í hellinum, gengu til Hildar og sögðu henni tíðindin um dauða skessunnar, við hvað hún gladdist.

Síðan fóru þau öll úr hellinum heim til Tungla. Hann sagði við Sigurð: „Ekki mun tjá að tefja fyrir þig, því nú á að brenna fóstru þína fyrir það að hún hefur aldrei viljað segja hvað af þér hafi orðið.“ Honum varð bilt við, lét strax búa skip. Létu þau svo í haf, en Tungli blés á eftir svo það fór sem fugl fljúgandi unz það kom í höfn þá sem Sigurður lagði [úr] fyrrum. Þau gengu svo á land og sáu bál mikið og mannfjölda í sorgarbúningi fara frá borginni. Sigurður flýtti ferð sinni og spurði hvað þetta þýddi. Honum var sagt sem var að brenna ætti drottningu fyrir það hún hefði dulið fyrir öllum hvað af kóngssyni hefði orðið. Hann gekk fyrir föður sinn, sagðist nú kominn með heilu og höldnu og bað að hætta illvirki þessu; átaldi mjög föður sinn fyrir óhæfu þessa, að brenna drottninguna. Þar varð mesti fagnaðarfundur og reis upp dýrðleg veizla sem stóð yfir í hálfan mánuð og að þeirri veizlu fekk Sigurður Hildar og tók ríkið eftir föður sinn.

Og lýkur svo þessari sögu.