Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Vilfríði og Völu systur hennar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Vilfríði og Völu systur hennar

Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu og áttu tvær dætur er hétu Vala og Vilfríður. Foreldrar þeirra unnu mikið Völu, en minna Vilfríði, en hún var svo fögur að hún bar af öllum meyjum. Þær uxu báðar upp í föðurgarði og fékk Vilfríður almennings lof, en Vala þótti ódæl og lyndislík foreldrum sínum. Af því Vilfríður var fríðari og betur þokkuð en Vala var hún kölluð Vilfríður Völufegri, en það líkaði foreldrum hennar mjög illa. Þegar Vilfríður var tólf vetra fer kerling móðir hennar með hana langt út á skóg eða eyðimörk; sezt hún þar undir stein og læzt fara að sofa og segir Vilfríði að fara að sofa líka. En þegar Vilfríður var sofnuð stingur kerling henni svefnþorn og skilur hana þar eftir, en fer sjálf heim og þykist vel hafa komið árum sínum fyrir borð, að hafa þannig komið Vilfríði frá svo að hún yrði eigi framar tekin fram yfir Völu.

Vilfríður sefur nú allan daginn undir steininum, en um kvöldið koma tveir dvergar sem áttu þar heima. Þeir undruðust mikið er þeir sáu hana svona, fundu svefnþorninn og vöktu hana. Hún varð hrædd er hún vaknaði, og fór að gráta. Þeir spurðu hana hvað að henni gengi og sagði hún að móðir sín hefði skilið sig þarna eftir sofandi. Þeir biðja hana að hætta að gráta því hún sé laus við móður sína sem sé hið mesta flagð og hafi ætlað að drepa hana, en nú skuli hún búa í steininum hjá þeim. Hún þiggur það og fer með þeim inn í steininn og er þar hjá þeim heilt ár í bezta yfirlæti. Aldrei voru þeir heima á daginn, en þeir bönnuðu Vilfríði stranglega að lofa nokkrum inn í steininn, því móðir hennar mundi sitja á svikráðum við hana. Veitti heldur eigi af því, því þegar ár var liðið dettur kerlingu í hug hvort Vilfríður muni eigi geta hafa komizt af í skóginum. Tekur hún þá galdraspegil sem hún átti og segir:

„Segðu mér það glerið mitt núna,
gullinu búna,
hvort Vilfríður Völufegri lifir eður ei.“

Þá svarar spegillinn:

„Vel lifir Vilfríður Völufegri,
flest verður henni að gleði,
en fátt að meini;
ala hana tveir dvergar í steini.“

Þá varð kelling svo reið að hún kastar speglinum í stein og brýtur hann, en hann skreið saman aftur.

Nú fer kelling að leita Vilfríðar og finnur steininn, en dvergar höfðu séð til ferða hennar um morguninn og bönnuðu Vilfríði harðlega að hleypa nokkrum manni inn þann dag. Hún kvaðst skyldu gæta þess. Þegar þeir voru nýfarnir kom kelling að steininum; sér hún þá dóttur sína sitja þar veglega búna og heilsar hún henni þá mjög blíðlega. Segir hún að sig hafi iðrað þess hvað illa hún hafi breytt við Vilfríði áður og kveðst því vera komin til að biðja hana að fyrirgefa sér það og sættast við sig aftur og biður hana að ljúka nú upp steininum. Vilfríður kvaðst fyrirgefa henni, en sagðist ekki mega ljúka upp; en eigi hætti kelling fyr en Vilfríður lauk upp fyrir henni, og var þá kominn miður dagur. Þá tekur kelling upp hjá sér (einn) gullskó og setur upp á fótinn á Vilfríði, gengur svo út og segir: „Herðist að og herðist að, þangað til sundur fer.“ Nú fer skórinn að kreppa og var Vilfríður nær dauða en lífi þegar dvergarnir komu um kvöldið, og fóturinn nærri af. Þeir áttu gull nokkurt í hirzlum sínum er þeir lögðu við skóinn, og sprakk hann þá utan af fætinum, en þeir græddu hann aftur, og er hún nú hjá þeim annað ár og lærir allar kvenlegar listir og unir sér vel, en þeir voru aldrei heima nema á næturnar, en eigi mátti hún ljúka upp á daginn.

Þegar ár var liðið tekur kerling aftur spegil sinn og spyr hann:

„Segðu mér það glerið mitt núna,
gullinu búna,
hvort Vilfríður Völufegri lifir eður ei –“

og fór það allt á sömu leið og fyrsta sinn nema kelling varð að bíða lengur við steininn áður Vilfríður lyki upp, og þegar hún komst inn batt hún gullbelti um Vilfríði og mælti sem áður: „Herðist að og herðist að, þangað til í sundur fer.“ Nærri var Vilfríður dauð þegar þeir komu, en gullið sprengdi beltið.

Líður nú enn eitt ár og tekur svo kerling spegilinn og spyr:

„Segðu mér það glerið mitt núna,
gullinu búna,
hvort Vilfríður Völufegri lifir eður ei.“

Glerið svarar að vanda:

„Vel lifir Vilfríður Völufegri,
flest verður henni að gleði,
en fátt að meini;
ala hana tveir dvergar í steini.“

Þá varð kelling svo ill að hún grýtti speglinum í stein og sagði: „Legg ég á og mæli ég um að þú rennir aldrei saman aftur,“ – og það varð eigi heldur.

Nú fer kelling enn til steinsins og voru dvergarnir búnir að sjá komu hennar fyrir og sögðu Vilfríði að ef hún hleypti nú kellingu inn þyrfti hún engrar hjálpar að vænta af sinni hendi. Þegar þeir voru farnir kemur kelling og var aldrei blíðari en þá og stendur hún nú til kvölds, þá lauk Vilfríður upp, því hún hélt að dvergarnir mundu vera rétt komnir og gat eigi lengur varizt kynngjum kellingar. Setur kelling hana þá á gullstól og leggur á hana að hún verði föst við stólinn og losni eigi fyrr en hún fái mannhjálp, sem seint muni verða. Ber hún síðan stólinn ofan til strandar og kastar honum langt út á sjó. Í því sama siglir kóngssonur þar fram hjá á fögru skipi; sér hann þetta og lætur í mesta flýti draga stólinn upp á skipið og losnar Vilfríður þá strax. Segir hún kóngssyni allt af högum sínum er hún vissi. Kóngssonur siglir með hana heim í ríki föður síns og setur hana í kastala hjá Ingibjörgu systur sinni, og var hún þar í þrjú ár; þá lézt hinn gamli konungur og sonur hans tók ríki og gekk að eiga Vilfríði. Takast nú með þeim góðar ástir og drottning varð vel þokkuð og vinsæl hjá hverjum manni. Barst lof hennar einnig til foreldra hennar gömlu og líkar þeim allilla því þau þóttust vita að drottning mundi engin önnur vera en Vilfríður Völufegri dóttir þeirra.

Nú býr kall sig að heiman, kemur sér á skip og siglir þangað er drottning var. Nefnist hann þar Rauður og kveðst vera læknir og gengur fyrir konung og biðst veturvistar. Konungur veitir það fúslega og hefur Rauð í hávegum því drottning var ólétt orðin og þóttist konungur þurfa læknis við.

Nú líður að því að drottning skyldi fæða og býðst Rauður að vera hjá henni, en vill ekki hafa neinn annan nærri og varð svo að vera. Er hann svo einn inn í læstu herbergi með henni þegar hún elur barnið; var það sveinn mjög fríður. Karl Rauður bregður hnífi og sker hann á háls, en leggur þagnargull undir tungu drottningar. Í sama bili og kallinn skar barnið hvarf það úr höndum hans svo að hann vissi eigi hvað af því varð, en hann sagði að drottning væri mannæta og hefði étið það, og réð til að láta drepa hana, en það vildi konungur eigi, en þó líkaði honum og hirðinni þetta mjög illa. Drottning varð ólétt í annað sinn og ól þá meybarn, en í þriðja sinn sveinbarn aftur og fór allt öldungis eins og fyrri. Nú þótti konungi ófært að láta þetta viðgangast lengur og er hún dæmd til dauða, en hún gat ekki talað, því þagnargullið var undir tungunni, og var veiðimaður sendur með hana út á skóg til að drepa hana, en Rauður bað veiðimanninn að færa sér aftur blóð hennar í horni er hann sendi með honum, lokk úr hári hennar og tunguna úr henni. Maðurinn fann lamb út í skóginum og drepur hann það, en skilur drottningu eftir. Hann færir Rauði blóðið og hitt er hann bað um; smakkar Rauður á og segir: „Dauft dóttur blóð.“

Drottning sat nú ein úti í skóginum og kemur þá dvergur til hennar og segir: „Leggðu hönd á dyrgju mína.“ Drottning fer með dvergnum og hjálpar dyrgjunni, en af því hún gat ekki talað fór dvergurinn að skoða upp í hana, fann þagnargullið og tók það burt, og fékk hún þá málið. Dvergur segir að hún megi kjósa hvaða laun sem hún vilji. Þar stóð út í horni ljótt skrímsli og hékk hringur úr rauðagulli upp yfir. Heyrir drottning að skrímslið er að tauta: „Kjóstu mig og hringinn rauða,“ – og gerir drottning það. Skrímslið býður drottningu að koma henni í sátt við konung aftur og fer með hana heim til konungssetursins og í kastalann til Ingibjargar þar sem drottning hafði áður verið, og leggja þær drottning og Ingibjörg og skrímslið ráð sín saman.

Nú er efnt til veizlu og Rauði boðið og konungi, og er Rauður settur á stólinn sem átti að drepa drottningu á fyrri og um háls hans var settur hringurinn rauði sem drottning fékk með skrímslinu og átti það allt að vera í heiðursskyni. Þegar Rauður var orðinn ölvaður er hann beðinn að segja ævisögu sína og stendur skrímslið fyrir aftan stólinn meðan hann segir söguna, og þegar Rauður hikar sér eða sleppir nokkru segir skrímslið: „Hertu að hringur og krepptu að stóll svo að höfuðið fjúki af og rassinn.“ Og þegar hann var búinn að segja frá hvernig hann fór með drottningu kreppti hringurinn að, svo að af fauk höfuðið, og svo kemur skrímslið með drottningu og öll börnin, og hafði það bjargað þeim frá Rauði og brugðið handleggnum fyrir þegar hann atlaði að skera þau. Voru þau nú væn og gjörvulig. Skrímslið bað um að sofa á fótum þeirra drottningar og konungs í þrjár nætur og varð það þá að fögrum konungssyni sem átti Ingibjörgu og varð konungur eftir mág sinn sem lifði vel og lengi og þau öll, en það er að segja af kellingu móður Vilfríðar drottningar og Völu systur hennar að þær urðu svo gramar yfir gæfu hennar að þær hengdu sig – og lýkur með því sögunni.