Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af dýrinu arga á fjallinu Gargó

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af dýrinu arga á fjallinu Gargó

Lúðvík hefur konungur heitið; hann réði fyrir Saxlandi. Hann átti eina dóttur er Elín hét, vitra og væna, fríða og fallega. Þess er getið að Lúðvík kóngur hafði mikla löngun til að verða gamall. Þar var í borg hans stjörnufróður maður og sagði hann mönnum forlög sín af himintungla gangi. Einu sinni var Lúðvík kóngur á gangi um kvöldtíma út um stræti borgarinnar. Kemur hann þá þar sem stjörnuspekingurinn liggur og horfir upp í loftið. Kóngur spyr hann að hvað hann sé að gjöra hér. Stjörnuspekingurinn svarar: „Ég er að aðgæta loftið og stjörnurnar.“ Kóngur segir: „Geturðu þá sagt mér af vizku þinni hvað ég á langt eftir ólifað?“ Spekingurinn segir: „Já, það get ég ef ég vildi gjöra það.“ Kóngur segir: „Þú mátt segja mér það ef [þú] veizt.“ Spekingurinn segir: „Ég get sagt þér það að þú lifir þangað til þú sérð fyrsta dótturson þinn, en þó þú sjáir önnur börn hennar gjörir ekkert.“ Kóngur fór burt og hló við hugur hugsandi sér að dóttir sín skuli aldrei son eiga. Eftir þetta lætur hann byggja rambyggilegan kastala eða skemmu og setur þangað dóttur sína og fáar þjónustustúlkur, lætur flytja þangað vist og vín sem þeim nægði langan tíma, lætur loka skemmunni og hafði vindauga á þakinu sem hann fór á þegar hann vildi tala við dóttur sína og þóttist nú vera búinn að stía dóttur sinni frá allri umgengni við kallmenn.

Langt frá konungsaðsetrinu var gömul hertogaekkja með syni sínum ógiftum mannvænlegum; hún var forn í skapi og margkunnandi.

Nú víkur sögunni til Lúðvíks kóngs að hann þurfti eitt sinn að fara að taka skatta og skyldur af löndum sínum og ætlaði að vera burtu þrjú ár. En áður hann fór af stað lét hann samankalla alla kallmenn þar í nánd og tók af þeim eiða að reyna ekkert til að komast í kastalann til dóttur sinnar meðan hann væri í burtu. Að því búnu fór kóngur leiðar sinnar og segir ekki af ferðum hans, en víkur sögunni til Elínar þar sem hún er innisperrt í kastala sínum og unir heldur illa hag sínum.

Það var einn dag að maður kom á gluggann þar sem kóngur var vanur að tala inn um við dóttur sína. Þessi maður segir við kóngsdóttur: „Þykir þér ekki leiðinlegt að vera hér?“ „Jú,“ segir hún, „en ég má nú hafa það eins og stendur.“ Í þessum svifum valt inn um glugginn eldhnöttur og ofan á loftið þar sem hún stóð. Henni varð hverft við, en bráðum breytti þetta mynd sinni og þar stóð hjá henni fríður og velbúinn maður með gullhlað um enni. Hann heilsar kóngsdóttur. Hún spyr hvur hann sé. Hann segir henni það og var þar þá kominn hertogasonurinn sem fyrr er um getið og hefur líklega notið ráða móður sinnar til þessa bragðs. Hann segir kóngsdóttur að hann geti ekki farið út fyrr en að ári liðnu á sömu stund og hann kom inn. Segir ekki af því meir nema hann er þar í kastalanum árshringinn í góðu yfirlæti, og að þeim tíma liðnum fer hann út með sama hætti og hann kom inn og þótti þeim mikið fyrir að skilja. Er ekki getið um hann fyrst, en kóngsdóttir fer að þykkna undir belti og svo kemur að því að hún elur sveinbarn frítt og fagurt og nefnir það Kastó. Líður nú tíminn þar til kóngur kemur heim. Fer hann þá það fyrsta til kastalans og á gluggann, ætlar að fara að tala við dóttur sína, en þá heyrist honum hann heyra barn ganga um þiljuna og þar næst heyrir hann barnsgrát. Honum verður illt við og skyndar sem hraðast til hallarinnar og sendir menn í kastalann til að grennslast eftir hvurt dóttir hans muni eiga barnið. Þeir fara og segja kóngi að hann sé nú orðinn afi og dóttir hans sé búin að eiga son. Kóngur skipar þegar hann heyrir þetta að taka dóttur sína og son hennar og setja hvurtveggja út á áralausan bát og hrinda honum á sjó út. Þeir fara til kastalans, taka kóngsdóttur og son hennar og fara með – fékk hún naumast tíma til að taka með sér lítið eitt af fötum og næringu – þau og láta á bát áralausan og hrinda frá landi. Rekur bátinn til hafs; hrekst hann lengi um sjóinn þar til ógnarlegt hvassveður kemur svo kóngsdóttir hélt að bátnum mundi hvolfa þá og þá og þau týnast. Tók hún það þá til bragðs að hún batt bandi um þau bæði svo þau skyldu verða til samans lífs og liðin. Þanneg veltist báturinn í stórsjónum þar til loksins að honum kastar upp að landi og brotnar þar við fjörugrjótið, en þau skolast upp í þarabrúkið og liggja þar svo sem í dái.

Fyrir þessu landi réði konungur sá er Hinrik hét. Hann var ungur og ókvongaður er þessi saga gjörðist. Hann hafði þann sið að láta menn sína ganga oft á reka og [það] gerði hann um þessar mundir. Koma mennirnir þar nálægt sem þau mæðgin liggja í þaranum og var kóngsdóttir þá farin að rakna við. En þegar hún sá mennina koma vildi hún ekki þeir fyndu þau og gróf sig og hann ofan í þarann. En þegar mennirnir koma þar að þá segir einn: „Hvaða hrúga er þetta?“ og setti í hana fótinn. En þá sáu þeir á fat undir þaranum og ruskuðu til. Undraði þá ekki alllítið að finna þar lifandi kvenmann með barni. Spyrja þeir hana hvur hún sé og hvaðan aðkomin, en hún sagði allt lítið frá því. Fara þeir með hana og færa Hinrik kóngi. Hann lætur gjöra við hana sem bezt kann verða, og þegar frá leið fór kóngur að spurja hana um hagi sína og segir hún honum það í fám orðum. En þegar kóngur heyrir ættgöfgi hennar, en hún yfirburða fríð, þá fór honum að leika hugur á henni og fer að biðla til hennar, en hún tók því mjög fjærri. Líður svo tíminn að kóngur er að ala málum á þessu og spyr hana eitt sinn að af hverjum orsökum það sé að hún taki svo þvert af um ráðahaginn þar sem hann sé henni þó samboðinn að tign. Hún svarar: „Það er fyrst að ég hafði hugsað að giftast ekki svo bráðum og annað það ef við giftustum og ættum börn þá er ég hrædd um að þú hefðir son minn út undan, og það félli mér þungt.“ Kóngur segir að hún skyldi ekki þurfa að óttast fyrir því að hann gjörði nokkru verr við Kastó en þó þau ættu börn. Er það ekki að orðlengja að hún lofar honum eiginorði og þau giftast. Líða so fram stundir þar til drottning elur sveinbarn og er það Kastus nefnt. Vex hann upp og er efnilegur. Og að liðnum tíma fæðir drottning meybarn og er hún kölluð Jóhanna. Vaxa þau nú öll þrjú systkinin upp.

Nú víkur sögunni til hertogasonar að hann frétti allt um athæfi Lúðvíks kóngs við dóttur sína. Þykir honum nú súrt í brotið að vita ekki af því fyrr en eftir á og segir við móður sína: „Hvar varstu nú með galdra þína að segja mér ekki þetta fyrirfram?“ Kelling lætur sem sér hafi verið nokkurn veginn sama hvað um kóngsdóttur leið. Honum mislíkaði þetta við móður sína og vill feginn hefna sín á einhvurn hátt. Hjá henni var þjónustustúlka frændkona hennar og búin að vera lengi hjá kellingu og henni mjög kær. Sonur hennar hélt móður sinni stríð í ef hann kæmist yfir stúlkuna, og svo fer að hún verður ólétt eftir hann, en það fór öðruvísi en hann ætlaði því kelling snéri allri hefndinni á stúlkuna og lagði á hana að hún skyldi hverfa upp á fjallið Gargó og verða þar að óargadýri og á því skyldi hvurt hár verða að eiturbroddum og hvur maður sem snerti það skyldi deyja og hvur sem heyrði hljóð þess skyldi deyja og hvur sem liti það með beru auga skyldi deyja. Og úr þessum álögum átti hún ekki að komast nema ef einhvur kæmist að því og gæti drepið það, sem hún sagði að seint mundi verða. Hertogasonur varð svo mæddur og óánægður af því að stúlkan skyldi hljóta þetta af sér og svo aðrar raunir hans að hann vildi firrast að vera hjá öðrum mönnum og leigði sér hús út á skóg og varð þar einsetumaður. Margir urðu til að reyna til að frelsa dýrið úr ánauðinni, en þeir komust ekki lengra en þar til þeir heyrðu hljóð dýrsins og dóu þar.

Líða svo stundir, en sögunni víkur aftur til Hinriks kóngs og Elínar drottningar að þau stjórna ríki sínu með mestu eining og ánægju og verður ekki til tíðinda. Það var einn dag að þeir bræður voru að leika sér saman; var Kastó þá fimmtán vetra, en Kastus tólf. Fer svo að Kastus þykir við bróður sinn og leitast við að gjöra honum illt, en hinn var eldri og sterkari og lá við að fara illa með bróður sinn. Hinrik kóngur sá á leik sveinanna og reiðist því að sonur sinn skuli lúta í lægra hald[i] fyrir Kastó og segir við hann með reiði mikilli: „Þú hinn illi þræll, þér þykir frægð að því að fara illa með bróður þinn, nú skal ég fá þér ofurlítið annað að starfa. Farðu nú og dreptu dýrið arga á fjallinu Gargó og skaltu útlægur af mínu ríki þar til þú hefur fært mér höfuð þess.“ Kastó svarar engu, en gengur til móður sinnar og segir henni þetta. Hún segir nú sé að því komið er sig hafi snemma grunað að Hinrik kóngur mundi honum illur reynast – „og er þetta fullkomin forsending. Nú skaltu,“ segir hún, „koma þér í skip með mönnum sem fara til Saxlands og er þú kemur þar ganga á skóg einn,“ er hún nefnir. „Þar muntu finna hús lítið og snoturt. Þar skaltu ganga inn og muntu sjá þar einn kallmann. Skalt þú heilsa honum og nefna hann föður þinn, en ef hann spyr eftir hvað þú hafir til sanninda að þú sért hans son þá er hér gullhringur er þú skalt fá honum og segðu hann sé frá móður þinni og væntir mig að hann þræti þá ekki fyrir faðerni þitt.“

Síðan býr drottning hann til ferðar það sem hún gat og skilja þau með harmi miklum; eins þótti þeim Kastus og Jóhönnu mikið fyrir burtför hans. Er ekki getið um ferð hans fyrr en hann kemur að húsinu á skóginum. Hann gengur inn og sér mann sitja við borð og er að lesa í bók. Hann heilsar honum og kallar föður sinn. Hinn tekur kveðju hans, en segir: „Hefurðu nokkra sönnun fyrir að ég sé faðir þinn?“ „Já,“ segir Kastó, „hér er gullhringur er móðir mín bað mig að fá þér og sagði þú mundir þekkja hann.“ Hertogasonurinn segir þá: „Það mun satt vera að þú sért minn sonur.“ Síðan spyr hann Kastó um móður hans og ferðalag hans. Kastó segir honum allt af létta um forsending þá er Hinrik sendi hann og biður nú föður sinn að leggja sér góð ráð til framkvæmdar verki því er honum var á hendur falið. Hertogasonurinn segir: „Ég er ekki í færum til að hjálpa þér neitt, en þó skaltu vera hjá mér í viku.“ Er Kastó þar hjá föður sínum þenna tíma, en að honum liðnum segir faðir hans við hann: „Nú skulum við fara; ætla ég að fylgja þér heim undir garð móður minnar og skaltu þá fara að ráðum mínum því ekki muntu vinna dýrið arga nema ef þú gætir fengið hennar fylgi, en til þess mun ráð þurfa.“ Svo fara þeir frá húsinu að kvöldi dags og ganga þar til þeir eru komnir heim undir garð kellingar. Segir þá hertogasonur að hann muni ekki fara lengra og gefur honum sverð; það var hinn bezti gripur. Biður hann vel fyrir syni sínum og segir að á því ríði honum að hann nái kellingu í rúmi og skuli í engu víkja af ráðum sínum. Að svo mæltu kveðjast þeir og fer hertogasonur á skóginn, en Kastó heim til bæjarins og gengur eftir tilvísan föður síns í loft það er amma hans svaf í, hratt upp hurðinni og var þá nærri að hann yrði of seinn því kelling var að fara í skyrtuna. Hann heilsar upp á hana með ömmu nafni og gengur að henni með nakið sverðið og setur fyrir brjóst kellingu og segir: „Nú skal ég reka þig í gegn nema þú lofir mér að gefa mér ráð þau sem mér dugi til að vinna dýrið arga á fjallinu Gargó.“ Kelling segir: „Lofaðu mér fyrst að klæða mig.“ Kastó segir: „Annaðhvert drep ég þig undireins eða þú skalt lofa mér þessu er ég bað þig.“ Kelling sá að þá var ekki til góðs að gjöra og lofar að leggja til það sem í sínu valdi stæði að hann kæmi fram fyrirætlun sinni. Eftir það klæðist kelling og er Kastó hin bezta. Er hann hjá ömmu sinni í hálfan mánuð í góðu yfirlæti. En þá segir kelling við hann einn dag: „Nú er þér, held ég, orðið mál að hugsa til ferða og eru hér þá fyrst dúkar tveir og áttu að taka annan og vefja um höfuð þér þegar þú kemur nálægt fjallinu Gargó svo þú heyrir ekki hljóð dýrsins og sjáir það ekki með berum augum því gler eru fyrir augunum fest í dúkinn. Hinn dúkinn áttu að hafa til að vefja um hausinn svo hann sjáist ekki þó þú komir með hann til manna. Líka eru hér járnhanzkar er þú átt að hafa á höndum þegar þú höndlar eitthvað með hausinn. Einnig eru hér járnskór og áttu að láta þá á fætur þér þegar þú ert búinn að drepa dýrið og troða hausinn svo gaddarnir bælist er út úr hausnum eru. En dugi þessi útbúnaður ekki þá kann ég þér ei ráð að leggja, en verði þér auðið afturkomu þá skaltu koma hér til mín.“ Hann lofar því, en við þessu hafði faðir hans varað hann og sagt að þá bón kellingar skyldi hann sízt gjöra því henni mundi engan veginn gott til ganga.

Með áðursögðum útbúnað fór Kastó leiðar sinnar og að öllu eins og amma hans hafði fyrir lagt, komst til dýrsins og hjó af því höfuðið, tróð hausinn og vafði hann innan í þar til ætluðum dúk, hélt svo til baka aftur með hann án þess hann vissi hvert halda skyldi, því til ömmu sinnar vildi hann ekki koma. Gengur hann þar til hann sér stórvaxinn mann koma á móti sér. Þeir finnast, verður stutt um kveðjur og ræðst sá aðkomni (sem raunar var stigamaður) á Kastó og verður hann orkuvana fyrir þræl þessum. Hann hafði kastað hausnum þar þegar þeir réðust á, en allt í einu fellur stigamaður og Kastó á hann ofan og gætir þá að því að maðurinn er dauður með sama. Hann undraðist hvursu það mátti verða. Sér hann þá að stigamaður hafði stigið á hausinn og gaddur gengið í gegnum dúkinn og í fótinn á honum og það drepið hann. Kastó treður nú hausinn að nýju og heldur svo áfram ferð sinni þar til hann sér fyrir sér borg mikla; hann stefnir þangað, og er hann kemur þar er honum sagt að þetta sé konungs aðsetur. Hefur það líklega verið skattgildur kóngur undir Lúðvík kóng. Hann biður að skila til kóngs að hann beiðist veturvistar. Kóngur segir honum sé það velkomið; svo finnur hann kóng. Hann var maður við aldur. Kóngur segir það sé ekki verunni nær þó hann fái þar að vera, – „því þau undur eru hér að ekki má neinn maður vera óhultur um líf sitt. Ég er,“ segir kóngur, „tvígiftur; átti ég með fyrri drottningu minni tvö börn, son og dóttur; hét sonur minn Ermanus en Anna dóttir, og voru þau bæði efnileg. Lét ég byggja þeim kastala út á skógi. Svo tók drottning mín sótt þá er hana leiddi til bana, en ég fékk aftur ókennda konu sem hér kom með dóttur sína. Lét ég dóttur hennar í kastalann til barna minna, en ég átti móður hennar og er hún mér hin elskulegasta. En skömmu eftir að ég átti seinni konu mína þá fóru að hverfa menn og hefur það alltaf aukizt til þessa tíma, en nú fyrir skömmu hvarf Ermanus son minn og finnst hvergi, en um sömu mundir kom illhveli hér á höfnina og svelgir það hvert skip sem kemur út úr landsteinum. Má svo að orði kveða að hér sé enginn óhræddur um líf sitt.“ Skilja þeir svo talið. Er Kastó þar í góðu yfirlæti af kóngi og þykir honum vænt um Kastó, en drottning var heldur fá við hann og hafði oft orð um að kóngur skyldi gera sér svo dátt við þenna ókennda mann, – „og munum við eitthvað illt af honum hljóta“. En kóngur gaf öngan gaum orðum hennar.

Einu sinni fór Kastó út að kastala þar sem Anna var og dóttir drottningar. Var Anna mjög sorgbitin eftir bróður sinn. Kastó kemur sér á tal við hana og tekur hún því vel. Berst það í ræðu um mannahvarfið sem var í borginni og svo um hvarf kóngssonar, og segir Kastó: „Gaman væri að vita orsök hluta þessara.“ Anna segir: „Ég gæti sagt þér það ef eg vissa að þú gætir bætt úr því, en það er víst ekki auðgert.“ Kastó segir: „Engu spillir þó ég heyri það.“ Anna segir: „Það er þá fyrst að drottningin stjúpa mín er hið argasta flagð og það þóttustum við systkinin vita strax er hún kom og hirtum því ekki um að vera í brúðkaupi föðurs okkar og hennar, en dóttir hennar sem hér er hjá mér í kastalanum er allvænn kvenmaður. Einu sinni kom stjúpa mín hér í kastalann og gerði sig blíða við okkur, vildi hún fá bróður minn til fylgilags og fór þar um mörgum orðum, en bróðir minn reiddist og laust hana kinnhest. Varð hún þá ófrýnleg og sagði að þetta skyldi hann fá borgað og lagði á hann skyldi verða að undra-illhveli og vera á höfninni og svelgja hvert skip sem kæmi út úr höfninni og ekki komast úr þeim álögum nema ef einhvur væri svo hugaður að þegar hvalurinn kæmi og ætlaði að gleypa skipið að hann stykki í öllum herklæðum í gin hvalsins, en þó átti hann ekki að saka er þetta gjörði. En mannhvarfið er af því að drottningin á bróður og býr hann í hellir einum og stelur hann fólkinu eftir undirlagi systur sinnar.“ Kastó segir: „Vel segir þú.“

Eftir það fer Kastó heim til borgar. Litlu síðar segir hann við kóng einu sinni þegar þeir voru að tala um undur þessi hvurt það muni ekki geta skeð að drottning hans sé völd að þessu. Kóngur þykktist við og segir drottning sé of væn til þess að ætla henni svo illt. Skildu þeir talið. Hér eftir var það einn dag að Kastó segist hafa gaman af að þeir kóngur og hann og fleiri fari fram á höfnina sér til skemmtunar. Kóngur segir ekki ríði á því, en þó verður það fyrir umtölur Kastó, og þegar þeir koma fram á höfnina fer Kastó í öllum herklæðum fram í skut skipsins. Kóngur var hræddur og biður þá að fara ekki langt frá landi, en Kastó skipar þeim að fara beint frá landi; og þegar komið var út fyrir höfnina kom hvalurinn með miklum boðaföllum og að skipinu, en í því hann ætlaði að gleypa skipið hleypur Kastó í gin hans og fer hvalurinn í kaf með það. Kóngur segir: „Nú fór sá maður er ég unni einna mest og róið nú til lands það fljótasta.“ En þegar þeir komu að fjörunni þá stóð þar Ermanus og Kastó báðir heilir á hófi. Kóngur verður yfirmáta feginn og spyr með hvurjum hætti þeir séu hér komnir. Ermanus segir honum allt af létta um álögin og segir það muni vera bezt að afmá stjúpu sína sem fyrst. Kóngur játar því. Fer hann til hallar, en þeir Ermanus og Kastó dyljast. Kóngur segir við drottningu að hún skuli búa til veizlu. Hún játar því og þegar veizlan er búin býður kóngur múg og margmenni og skipar mönnum í sæti; setur hann drottningu sér til annarrar handar, en lætur vera autt tveggja manna rúm við hina hlið sér. Drottning spyr hvurjir þar eigi að sitja. Kóngur segir að veturvistarmaður sinn og einhvur annar er hann nefnir eigi að sitja þar. En þegar hæst stendur veizlan kemur Ermanus og Kastó alvopnaðir í höllina. Þegar drottning sér Ermanus bregður henni heldur í brún og ætlar að standa upp, en Ermanus gengur að henni og rekur sverðið í gegnum hana. Dettur hún þar dauð með það; er hennar illur skrokkur brenndur og að veizlunni endaðri fer Kastó og Ermanus með lið til hellirsins og drápu jötuninn og eftir þessi stórvirki unnin sátu þeir með yndi og ánægju það sem eftir var vetrar. En um vorið fær kóngur Kastó skip og lið og heldur hann með hausinn áleiðis til lands Hinriks kóngs. Og þegar hann kemur við landið fer hann það fljótasta svo engin fregn fer af, til borgarinnar sem Hinrik sat í.

Nú víkur sögunni til Lúðvíks kóngs að hann frétti af gifting dóttur sinnar og svo það er hann gladdi meira, sem var að Kastó hefði verið sendur forsending og væri því að álíta að hann mundi ei aftur koma. Lætur því kóngur búa skrautlegan skipaflota og ætlar að sigla skemmtiferð til Hinriks kóngs. Getur ekki um ferð hans fyrr en hann kemur til borgar Hinriks kóngs og tekur hann móti honum tveim höndum og lætur búa virðuglega veizlu, en svo var Elín drottning og þau systkin hrygg eftir burtferð Kastó að ekki fékkst af þeim að sitja að veizlunni með kóngunum. Þó eftir miklar umtölur varð það úr að drottning og systkinin fara til veizlunnar og var nú glaumur og gleði í höllinni. En þegar hæst stóð hófið var hrundið upp dyrum hallarinnar og gengur Kastó þar inn og heilsar móður sinni og systkinum sem urðu yfirmáta glöð við hans heimkomu, og svo öðrum út í frá. En kóngunum, einkum Lúðvík, þótti heldur miður er hann sá dótturson sinn. Kastó segir við Hinrik: „Nú er ég kominn með það sem ég var eftir sendur, og ráðlegg ég þeim sem lifa vilja að fara úr höllinni áður ég tek hausinn upp.“ Móðir hans, systkin og flest af fólki fór úr höllinni, en kóngarnir og nokkrir aðrir sögðu sig mundi ekki saka þó þeir sæju dýrshaus. Rakti þá Kastó dúkinn af hausnum og sendir á borðið fyrir kóngana og segir að Hinrik skuli nú taka við hausnum. En þeim brá svo við og öllum sem í höllinni voru að þeir duttu dauðir niður. En að því búnu tók Kastó hausinn og gróf í jörð niður. Síðan lætur hann ryðja höllina og heygja kóngana að fornum sið og var erfi drukkið, en að því enduðu lætur hann búa skipaflota og siglir með systkin sín og móður til Saxlands og finnur föður sinn, en þá var amma hans dauð. Þaðan fór hann til konungsins föður Ermanusar og bað Önnu dóttur hans, en Ermanus bað Jóhönnu systur hans og Kastus bað stjúpdóttur kóngs, en þau áttust Elín drottning og hertogasonur. Er Kastó til konungs tekinn yfir Saxland og gaf hann foreldrum sínum bezta hertogadæmi er til var í landinu. Kastus tók ríki föður síns og Ermanus ríki föður síns. Var öllum brúðkaupunum slegið saman og stóð veizlan marga daga. En að veizlunni endaðri skiptust þeir á gjöfum og skildu með mestu vináttu og fór hvur heim til síns ríkis og héldu vináttu til dauðadags og unntust vel og lengi. Og lýkur hér þessari sögu.