Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af hestinum Gullskó og sverðinu Gullfjöður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af hestinum Gullskó og sverðinu Gullfjöður

Það var einu sinni kóngur og drottning sem réðu fyrir ríki sínu. Þau áttu tvö börn, son og dóttir; hét sonurinn Hringur, en dóttirin Ingibjörg; hún var sjö vetra, en Hringur þriggja er saga þessi gjörðist. Konungur unni mikið drottningu sinni.

Einu sinni tekur drottning sótt og liggur mjög þungt. Konungur sat jafnan yfir henni og var mjög dapur og sorgbitinn. Einu [sinni] segir drottning við mann sinn að hún mundi ekki taka fleiri sóttir og muni þessi sótt leiða sig til bana. Konungur varð mjög dapur við þessi tíðindi og skömmu seinna kallar drottning börn sín og biður fyrir þeim og andast síðan. Konungur lét gjöra heiðarlega útför hennar, en var eftir það svo sorgbitinn að hann sinnti ekkert ríkisstjórn, en sat jafnan á haugi drottningar hvörn dag.

Ráðgjafar konungs sáu að þannin búið mátti ekki standa og réðu hinum æðsta ráðgjafa hans til að leiða konungi fyrir sjónir að svo mátti ekki standa að hann ekkert sinnti ríkisstjórn. Þeir vissu að hann trúði þessum ráðgjafa sínum vel og mundi því helzt láta að orðum hans. Hann gekk fyrir konung sem sat á haugi drottningar sinnar og kvaddi hann. Konungur tók því og spurði hann hvað hann vildi við sig tala. Ráðgjafinn svaraði: „Það er erindi mitt hingað, herra konungur, að segja yður og leiða yður fyrir sjónir að þér ómögulega megið láta dauða drottningar svo mikið fá á yður að þér ekki sinnið ríkisstjórn; þér vitið líka að þér með þessari aðferð yðar getið þó ómögulega grátið hana úr helju og er yður því miklu konunglegra að hætta að syrgja hana og biðja yður annarar konu, og má vel vera að þér með því móti fáið gleymt hörmum yðar; og getið þér nær þér viljið gjört út menn og skip að leita yður kvonfangs ef svo er að engin er í ríki yðar eftir geði yðar.“ – Konungur lét sefast við þessar fortölur ráðgjafans og mælti: „Ég sé að þú talar mikið skynsamlega viðvíkjandi þessu og sé ég að konunglegra er að hætta að syrgja og leita sér heldur kvonfangs að nýju, en engin er sú í mínu ríki að mér geðjist; en ég vil láta gjöra út bæði skip og menn að leita mér kvonfangs og kjöri ég þig til að vera formann þeirrar ferðar, því þá alla tíð sem ég hef kynnzt þér hefur þú verið mér jafnan trúr og auðsveipur.“ – Lætur nú konungur útbúa þrjú skip og var ráðgjafinn sem fyrr er nefndur fyrir þeim; þeir létu í haf og sigldu víða og komu víða við lönd og fann ráðgjafinn hvörgi konu þá er honum þókti samboðin konungi sínum.

Einhvörju sinni var það að þeir létu frá landi nokkru og höfðu skammt farið er yfir þá féll þoka mikil svo þeir ekkert sáu, og komust þeir í hafvillur svo þeir villtust margar vikur svo að þeir ekkert vissu hvað þeir fóru. Einn góðan veðurdag sáu þeir land fyrir stafni og var það eyland mikið. Þeir sigldu undir það og vörpuðu þar atkerum og skutu báti fyrir borð og gengu á land og sáu að landið var mjög fagurt, alvaxið skógi og grasi. Þeir gengu lengra upp á landið; og er þeir höfðu ekki lengi gengið sáu þeir tjald eitt mikið og frítt og var víða gulli saumað; þar heyrðu þeir fagran hörpuslátt svo þeir þóktust aldrei fyrri þvílíkan heyrt hafa. Þeir gengu þangað og er þá vantaði skammt þangað hætti hörpuslátturinn; en er þeir komu að tjaldinu sáu þeir að þar inni sátu fjórar meyjar yndislega fríðar og var ein þeirra mjög skrautlega búin með gullkeðju um hálsinn og hélt á gullinni hörpu. Sú er fremst var við dyrnar var grátþrútin og veitti ráðgjafinn henni helzt eftirtekt. Þegar þeir komu að tjaldinu bauð kona sú sem þeirra var skrautlegust að klæðum þeim inn; þeir þágu það og spurði hún þá hvaðan þeir kæmu og hvort þeir ætluðu. Þeir sögðu af hið ljósasta og sagði ráðgjafinn henni að þessi ferð hefði verið í þeim tilgangi að leita kvonfangs handa konungi þeirra, en hann sagðist hvörgi hafa fundið konu þá er honum þækti kóngi sínum hæfa þangað til hann [hafi] komið þangað til þeirra. Hún svaraði: „Þar eð þér hafið gefið mér að skilja að yður sýnist við vera hæfar handa konungi yðar skal yður heimilt að velja hvörja okkar er þér viljið.“ Hann þakkaði henni orð sín og virti þær allar vandlega fyrir sér og mælti síðan: „Ég vel þá þessa sem næst er dyrunum.“ Það sá hann er hann hafði þetta mælt að á konu þá er við hann hafði talað kom ógurlegur reiðisvipur, en hún svaraði þó að hann skyldi þó taka þá er hann hefði valið, og héti hún Signý. Síðan tók Signý að búa sig til ferðar með þeim og tók hún með sér hörpu þá er ráðgjafinn hafði séð. Síðan héldu þau til skipa og var Signý hin kátasta og sá þá ráðgjafinn að hún var hin fríðasta mær og þægileg og kurteis í viðmóti.

Segir nú ekki af ferð þeirra fyrr en þeir koma í ríki konungs síns; en er kóngur sér ferð þeirra lætur hann aka sér til strandar í fögrum vagni og vonar að þeir muni hafa fengið konuna handa sér. Þegar konungur sá hana felldi hann óðara ástarhug til hennar og vildi þegar giftast henni, en hún bað hann að hann leyfði það að þau væru [ógift] þrjá hina fyrstu vetur og lét kóngur það eftir henni. Tók hún nú samt við ríkisstjórn með kóngi og geðjaðist hún hvörjum manni vel; einkanlega varð Hringur kóngsson mjög elskur að henni og gat hvörgi unað nema hjá henni.

Signý kemur nú einn dag að máli við kóng og biður hann veita sér eina bón sína. Konungur spyr hvör hún sé. Hún svarar að það sé að láta byggja sér skemmu eina mikla og vandaða og hafa húsgögn að því skapi; eitt rúm vildi [hún] að væri í henni. Konungur lét þetta eftir henni og var skemman búin mánuði fyrir jól. Signý sagðist vilja vera þar í skemmunni og bað konung að láta færa þangað borð og vistir og vín og eitt rautt hrútlamb í herbergi það sem sæng hennar var búin. Hann lét [þetta] eftir henni. Aðfangadagskvöld jóla fór hún til skemmunnar; en er Hringur kóngsson varð þess var að Signý ætlaði að færa sig í skemmuna vildi hann ómögulega annað en vera þar hjá henni, en hún sagði honum að hann mundi kannske eitthvað illt af því hljóta; en hann lét ekki af að biðja hana, og á endanum lét hún til leiðast fyrir bænastað hans, en lagði honum þó fyrir að láta ekkert á sér bera hvað sem hann sæi eða heyrði; hann lofaði því. Fóru þau síðan til skemmunnar og tók Signý sér sæti í herbergi því sem hún [ætlaði] að sofa í um nóttina. Þegar þau höfðu setið þar nokkurn tíma sagði hún að mál væri komið að hátta. Afklæddist hún síðan og fer upp í sængina og lætur Hring leggjast fyrir ofan sig og endurnýjar við hann að láta ekki á sér bera og segja engum frá því er fyrir hann kynni að bera um nóttina. Líður nú fram að miðnætti. Nú heyra þau dunur og dynki svo allt gengur undir og þar næst er skemmunni hrundið upp og kemur inn afar stór tröllkona og segir: „Heil, Signý systir.“ Hún svarar: „Heil sértu sjálf.“ „Munur er á ævi okkar,“ sagði tröllkonan; „þú étur kónglegar vistir og drekkur kónglegt vín og sefur í kónglegri sæng, en við lifum á fjöruskröpunum.“ Signý svaraði: „Et þú matinn, drekk þú vínið, eigðu lambið.“ Þá svarar tröllkonan: „Hvað er þarna fyrir ofan þig?“ „Það er ekkert,“ svaraði Signý. Hin svaraði: „Heldur þú ég viti það ekki; það er hann Hringur kóngsson með bölv... forvitnina að vita hvað við tölum saman.“ Signý svaraði: „Óhrædd er ég um það að hann segir ekki frá því, því hann er fámálugur.“ „Forvitnin kemur honum þó til ills,“ sagði tröllkonan. Síðan tók hún til matar og lauk; síðan tók hún lambið og gekk út og sagði: „Bezti matur mér var borinn, bezti drykkur mér var borinn, bezta lambið mér var gefið. Stór er ég, en stærri kemur eftir mig.“ Síðan hvarf hún. Morguninn eftir fór Signý til konungs og lét ekki á neinu bera og lagði ríkt á við Hring að þegja yfir því sem fyrir hann hafði borið, og hélt hann það vel. Leið nú svo fram til næstu jóla að ekki bar til tíðinda.

Þegar leið að hinum næstu jólum beiddi Signý konung að láta búa skemmu sína á sama hátt sem hið fyrra árið, en hafa það að öllu betra; hann lét það eftir henni. Vildi Hringur ómögulega annað en vera hjá henni og fyrir bænastað hans lét hún það eftir honum, en lagði þó ríkt á við hann að vera þagmælskur um það er fyrir hann kynni að bera; hann lofaði því. Er nú ekki að orðlengja það að allt fór á sömu leið og hið fyrra árið. Leið nú til þriðju jóla svo ekki bar til tíðinda.

Þegar leið að hinum þriðju jólum beiddi Signý konung að viðhafa sama viðbúnað á skemmu sinni, en láta það vera allt vandaðra en fyrri; hann gjörði það. Kom nú að aðfangadag jóla; og um kvöldið færir Signý sig í skemmuna. Hringur kóngsson vildi vera hjá henni, en hún sagði honum að varla gæti hjá því farið að hann hefði eitthvað illt af því og sagði að hún mundi ekki leyfa honum það. Hann lagði því fastara að henni, og á endanum sagði hún að hann mætti þá kenna sjálfum sér um ef illt hlytist af þessu og lét það eftir honum. Þegar þau komu til skemmu tók hún eina þilju úr veggnum baka til við sængina og sagði honum að þar yrði hann að vera um nóttina og mundi þó óvíst hvört duga mundi. Síðan lét hún þiljuna í aftur og afklæddist síðan og lagðist í sængina. Líður þangað til um miðnætti; heyrast þá dunur miklar og dynkir, ennþá meiri og ógurlegri en hin fyrri. Þar næst er skemmunni hrundið upp harðlega og inn kemur tröllkona há og hin ógurlegasta ásýndum og segir: „Heil, Signý systir.“ Hún svarar: „Heil sértu sjálf.“ „Ólík er ævi okkar systranna; þú étur kónglega rétti og drekkur kónglegt vín og sefur í kónglegri sæng, en við lifum á fjöruskröpunum.“ Hún svaraði sem fyrri: „Et þú matinn,“ o. s. frv., en hún anzar því ekki, en segir: „Hvað er þarna fyrir ofan þig?“ Signý svarar: „Það er ekkert.“ Hún svarar: „Heldurðu ég viti það ekki; það er hann Hringur kóngsson með bölv... forvitnina til að vita hvað við systurnar tölum saman, og hann skal líka komast að fullkeyptu fyrir forvitni sína. Mæli ég um og legg ég á að Ingibjörg systir hans skal verða að svartri tík, hvít aftan í róunni, en hann skal öngan frið hafa fyrri en hann kemur á hestinum Gullskó með sverðið Gullfjöður og höggur aftan af róunni á henni, og skal hún þá leysast úr álögum sínum.“ Síðan fór hún burt og þáði ekkert og vildi ekkert þiggja, en var hin reiðasta. Signý sneri nú máli sínu til Hrings og sagði honum að nú væri það fram komið sem hún hefði sagt honum og gæti hann þar um engum kennt nema sjálfum sér og hlyti hann nú að leysa systir sína úr álögum hennar, og skyldi hún þar allt sitt til leggja að þessu yrði framgengt, en sagði þó að hjálp sín mundi verða ónóg til þess nema hún nyti systra sinna að með það og yrði hann því fyrst að finna þær og fylgja ráðum þeirra í öllu. Daginn eftir fóru þau til hallarinnar og fréttu þau þá að Ingibjörg kóngsdóttir var horfin og hafði konungur látið leita hennar, en hún fannst hvörgi og var konungur mjög hryggur út af hvarfi dóttir sinnar, en Signý hughreysti hann og sagði honum að ekki væri konungslegt að leggjast í sorg og segði sér svo líka hugur um að hann mundi eiga eftir að sjá hana heila á hófi. Konungur lét sefast við þessar fortölur hennar.

Skömmu seinna kemur Signý að máli við Hring og segir við hann að nú muni kominn tími til að reyna að koma fram ætlun hans og segir að hann verði þá þegar að búa sig til ferðar. Hann gjörir sem hún bauð; og þegar hann er ferðbúinn fær Signý honum hnoða og segir hann skuli láta [það] renna undan sér og fylgja því; þar næst fær hún honum gullhringa þrjá og var einn þeirra langmestur og fagrastur. „Þennan hring,“ mælti hún, „skalt þú færa systur minni þeirri er þú seinast kemur til, og er allt undir því komið að hún hjálpi þér.“ Síðan leggur Hringur á stað. Þegar konungur heyrði að sonur hans var horfinn varð hann mjög hryggur og lét leita hans, en það kom fyrir ekki. Signý hughreysti hann og sagði honum að sér segði svo hugur um að konungur mundi aftur sjá hann heilan og ósjúkan. Konungur lét sefast við þetta, og leið svo fram um hríð og lét konungur búast við brúðkaupi sínu og bauð þar til öllu stórmenni ríkisins og var veizlan haldin með vegsemd og heiðri og skorti þar ekkert er til þurfti að hafa og hugurinn girntist, og lifði konungur ánægður með konu sinni.

Nú er að segja frá Hringi kóngssyni; hann heldur eftir hnoðanu og segir ekki af ferðum hans fyrri en hann einn dag sér fram undan sér háa hamra og rennur hnoðað þangað og að einstigi einu; þar rennur það upp þar til það staðnæmist við hellismunna. Hringur tekur það og stingur á sig og gengur síðan inn í hellinn; þar sér hann að eldur logar á skíðum, ket í potti, kökur á eldi og fuglakippu fyrir framan. Hann sezt þar niður við eldinn og steikir kökurnar, sýður ketið og færir það síðan upp. Líður nú fram að dagsetri; þá heyrir hann dunur miklar og dynki og þar næst kemur inn tröllkona og segir: „Fussum svei, mannaþefur í helli mínum; hér er einhvör kominn. Heill sértu, Hringur kóngsson.“ Hann hleypur upp og kyssir hana og fær henni hringinn og segir að Signý systir hennar biðji að heilsa henni og segir henni þar með að hann muni þurfa fulltingi hennar til að geta komið fram áformi sínu. Hún varð glöð við er hann fékk henni hringinn, og sagði: „Eitthvað þykir [systur] minni nú við liggja, því aldrei gat ég fengið þennan hring hjá henni meðan við vorum saman, og skal þér öll hjálp mín til reiðu.“ Hann er þar um nóttina. Daginn eftir fylgir tröllkonan honum á veg og biður hann fara og fljótt aftur koma. Síðan tekur hann hnoðað og rennur það undan honum þangað til hann kemur að stórum helli og fór það allt á sömu leið.

Að kvöldi hins þriðja dags kemur hann að stórum helli og fer þar inn og var þar eins og í hinum. Nú líður að dagsetri og heyrir hann þá ógurlegar dunur og dynki svo allt gengur undir; þar næst kemur inn afar stór tröllkona og kastar ofan af sér stórri fuglakippu og segir: „Fussum svei, mannaþefur í helli mínum; hér er einhvör kominn. Heill sértu, Hringur kóngsson. Nú liggur þú ekki fyrir ofan sængina hennar Signýjar systir.“ Hann hleypur á móti henni og kyssir hana og afhendir henni hringinn. Hún brosti og mælti: „Eitthvað þykir nú systir vorri á liggja; þennan hring fékk ég aldrei hjá henni meðan við vorum saman.“ Hann sagði henni orðsending systur hennar, bað hana ásjár; hún sagði það til reiðu. Síðan fylgdi hún honum í afhellir einn og var tjaldað innan með hinum fagrasta hallarskrúða, og var þar uppbúið rúm og háttaði hann þar og svaf vært þar til um morguninn. Þá kemur tröllkonan og segir honum að mál muni komið að hugsa til ferðar; býst hann nú skjótt og fylgir skessan honum á leið; og er þau [höfðu] gengið um tíma mælti hún að þau skyldu hvílast. Hún mælti þá: „Hér munum við nú skiljast og skal ég segja þér hvörnin þú skalt haga þér. Skammt héðan er hellir sem skessa sú býr í sem hefur að geyma gripi þá sem þú átt að ná. Skessa þessi á tvo syni unga sem hjá henni eru. Ég skal nú kenna þér ráð þau sem ég álít að helzt dugi til að ná gripum þessum,“ mælti skessan. Síðan fékk hún honum hnoða og sagði hann skyldi fylgja því og mundi það renna undan honum til hellisins – „og er þú kemur að hellisdyrunum skaltu taka hnoðað og segja: „Verði ég að fló;“ síðan skalt þú skríða inn í hellinn og mun skessan þá verða við eld og sveinar hennar og skaltu skríða undir föt hennar“ – og sagði hún honum greinilega hvörnin hann skyldi fara að; síðan mundi hún standa upp og segja að hún muni bráðum ala barn og mundi hann þá detta niður undan henni, – „en henni mun þykja þú fríðari en synir sínir og mun henni því þykja svo vænt um þig og hjúkra þér sem bezt. Tröllabörn eru vön að tala þegar þau eru þriggja nátta og það muntu einnin gjöra; en þegar skessan er búin að vera svo lengi heima mun hún þurfa að fara á veiðar og lætur hún þá syni sína gæta þín á meðan hún er í burtu; en þá verður þú að ná gripunum og skaltu fara þannin að því: Strákar þessir eru mjög órafullir og munu þeir biðja þig að leyfa sér að fara út úr hellirnum og það skaltu leyfa þeim. Þegar þeir eru komnir út skaltu fara á fætur og ganga innar eftir hellinum þar til þú kemur að vatni og er hólmi í vatninu; þar liggur fugl á eggi; þar er bátur við vatnið og á honum verður þú að fara fram í hólmann, taka fuglinn sem liggur á egginu og snúa hann úr hálsliðnum, en geyma vandlega eggið. Síðan skaltu fara aftur í rúm þitt og hljóða sem mest þú getur og munu þá strákarnir koma inn og leita allra bragða að hugga þig og segja þér hvað þú viljir til þess að þagna og lát þú þá telja upp þar til þeir bjóða þér að sýna þér hestinn og herklæðin. Þú skalt biðja þá að lofa þér að setjast á bak hestinum og gyrða þig sverðinu og ríða til og frá fyrir utan hellinn; en þegar þú hefur fengið herklæðin skaltu sem skjótast halda í burt og láta hnoðað renna undan þér, en á leiðinni muntu mæta skessunni og skaltu þá kasta egginu milli augna hennar og mun hún þá detta dauð niður, því þetta er fjöregg hennar. Síðan heldur þú hingað til mín.“

Síðan skildu þau og fór allt eftir því sem hún hafði kennt honum ráð til, og kom hann að áliðnum degi fram á björg þau sem voru uppi yfir hellri hennar, því aðra leið gat hann ekki farið, en hann gat ekki ímyndað sér að þar væri hægt að koma hestinum; en eftir lítinn tíma kom skessan og tók hann með hesti og herklæðum og flutti hann í hellir sinn. Daginn eftir fylgdi hún honum á leið og bað hann heilan fara. Síðan kom hann að kvöldi þess dags til hinnar skessunnar og tók hún honum með sama móti og hin og var hann hjá henni um nóttina. Daginn eftir kom hann að hömrunum til hinnar skessunnar og fylgdi hún honum á leið og bað hann vel fara og gá að tíkinni þegar hann kæmi í kóngsríkið; síðan skildu þau.

Síðan heldur Hringur heim og er hann ríður heim að höllinni kemur systir hans með hinum öðrum hundum og er hún kemur að hestinum höggur Hringur til hennar og aftan af rófunni á henni og skríður [hún] úr hamnum; síðan tekur hann haminn og brennir, en tekur hana upp í söðulinn og ríður síðan til borgarinnar. Er nú konungi sagt og fer hann út á móti börnum sínum og verða þar miklir fagnaðarfundir. Síðan segir drottning upp alla sögu og þar með að hún hefði verið hjá þessum systrum sínum áður en hún kom til konungs og voru þær allar tröllkonur eins og foreldrar þeirra, – „en faðir minn nam burtu kóngsdrottning eina og með henni átti hann mig“.

Unnust þau nú kóngur og drottning vel og lengi og áttu börn og buru o. s. frv. Hringur lagðist í hernað er hann var fimmtán vetra og þókti hinn mesti hreystimaður og giftist síðan og lét af hernaði, en Ingibjörg kóngsdóttir giftist ríkum kóngssyni.

Og er svo ekki þessi saga lengri.