Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af ríka biskupnum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af ríka biskupnum

Á fyrri tímum ríkti einn biskup furðu ríkur og eru frásagnir manna að hann hafi rakað saman auðæfum með réttu og röngu. Hann fékk sér ágæta frú af dýrum ættum. Þau unntust með mestu kærleikum. Þau áttu saman tvö börn; hét sonur þeirra Marteinn, en dóttir Matthildur. Strax í ungdæmi sínu vóru þau hugþekk hvurjum manni. Þá þau höfðu aldur til var Marteinn settur í skóla, en hún til allra kvenlegra lista sem einn kvenmann mátti prýða. En frá Marteini er það að segja að þá hann var í skólann kominn var hann mjög námfús og fljótur til mennta. Meðal skólabræðra hans var einn stúdent er Jón hét, sonur eins fátæks prests, vel gáfaður og þótti hinn vænsti maður. Þeir unntust mikið Marteinn og Jón og skildu aldrei, hvurki í svefni né vöku, og so liðu fram stundir að ekkert bar til tíðinda þar til Jón átti kort ár eftir að útenda skólann; þá missti hann föður sinn og voru eigur hans þá ekki meiri en þær hrykki í skuldirnar, og varð so Jón að gefa tapt skólann og skildu þeir Marteinn með miklum söknuði og hétu hvur öðrum tryggðum. En að ári liðnu býr Jón sig til ferða að finna Martein og verður þar mikill fagnaðarfundur og spyr Marteinn Jón tíðinda og hvurnin honum líði, en Jón lætur lítið yfir og segir að hann hafi þekkt sig að því að hann hafi enginn handverksmaður verið og megi því so að því kveða að hann hafi ekki í sig að éta. Marteinn segir það fari illa, „og er það nú mitt ráð,“ segir hann, „að við förum til fundar við föður minn, því nú er nýfallizt til eitt prestakall í umdæmi hans, og vita hvurt honum þóknast ekki að veita þér það.“ Jón segir það muni ekki duga, – „þar ég er fátækur og þar til ekki útskrifaður úr skólanum, en þú þekkir föður þinn að hann veitir þeim fljótast brauðin sem geta borið í hann mesta peningana.“ Marteinn segir að ekki dugi ófreistað og skuli þeir fara. Búast þeir síðan í skyndi og getur ekki um ferðir þeirra þar til þeir eru komnir skammt frá biskupsgarðinum, þá biður Marteinn Jón að bíða sín þar litla stund því hann atli að skreppa heim og finna föður sinn og vita hvurnin á honum liggi. Að litlum tíma liðnum kemur Marteinn aftur með stórt pakkfet undir hendinni skrifað utan á þrjú hundruð rd. og fær Jóni og segist hafa tekið þetta frá föður sínum og segir það sé ekki so sem þeim sé stolið frá honum þegar hann fái þá strax aftur fyrir ekkert. Ganga síðan heim og sjá öngvan á flakki, ganga því inn og til stofu og er þar biskup fyrir. Fagnar hann vel syni sínum, en Jóni allt minna. Ganga þeir síðan til sætis og er borin fyrir þá kostuleg fæða og nóg vín. En um kvöldið gengur Marteinn fyrir föður sinn og mælti að í ferð með sér hafi slegizt sinn skólabróðir þess erindis að sækja um það tiltekna prestakall er til væri fallið í umdæminu hans, „og þekki ég hann að því að öngvir munu honum fremri hvurki að lærdómi eða öðru sem um það sækja.“ Biskup tekur sein[t] máli [hans] og kvaðst ekki mundi trúa sögusögn hans eins, – „og mun ég verða sjálfur að prófa hvurt so er sem þú segir.“ Í því vék Jón sér að borðinu með peningapakkfetið og sagðist hafa atlað að sýna honum þetta lítilræði ef hann atlaði að gera so vel og verða við beiðni sinni. Biskup lítur á og mælti að það væri sjálfsagt að hann veitti honum brauðið því það mundi sannast sem sonur sinn segði af bæði lærdómi hans og mannprýði. Dveljast þeir þar so nokkra daga og er Jón vígður og líkar biskupi hann vel að öllu. Að so búnu búast þeir til ferða og skilja við biskup með mestu virðingu. Þegar þeir voru nokkuð á leið komnir segir Marteinn við Jón: „Nú sástu það vinur hvurt þú fórst so búinn.“ Jón svarar: „Hvurjum skal ég þakka nema dyggðaríki þínu í þessu sem öllu öðru við mig?“ Halda þeir svo áfram, Marteinn í skólann, en Jón heim til sín, og skiljast með mestu kærleikum. En af Jóni er það að segja að hann stundar vel verk sitt og þótti hinn bezti prestur og líða svo fram stundir að ekkert bar til tíðinda.

Nú tók Jóni að finnast langir tímarnir að hann gat ekki fundið Martein, tók því upp á sig reisu til hans og þá þeir finnast verður þar mikill fagnaðarfundur, þar hvur fagnar öðrum og segja hvur öðrum hvað á dagana hafi drifið síðan þeir skildu seinast. Meðal annars spyr Marteinn Jón hvurnin því sé varið hann fari ekki að gifta sig. Jón segir það komi nú sitthvað til þess, – „og er það fyrsta að þær sem ég vil þær liggja ekki lausar fyrir mér, en hinar sem ég kynni að fá snýr ekki hugur minn til.“ Marteinn segir það ímyndun sína að það muni þær einu sem hann girnist að þær muni vera fullsæmdar af honum og biður hann framtelja hvurjar séu. En Jón fer undan því og vill það ei gjöra. En Marteinn sækir því fastara á og segir hann skuli framtelja þær. Jón segir: „Þar ég sé alvöru þína í þessu þá hlýt ég að segja þér hið sanna, það er engin utan systir þín.“ „Systir mín?“ segir Marteinn, „það er ljótt að heyra. Það er þér af því að segja að fyrir skömmum tíma er til föður míns kominn nývígður stúdent af háskólanum sterkríkur og furðu nízkur og föður mínum næsta líkur þess erindis að fá systur minnar og var það mál auðsókt og ákveðin brúðkaupsstefna innan fárra daga og er ég nú ferðbúinn til veizlunnar og þyki mér fundir okkar verða stuttir ef við skulum sona skilja; því bið ég þig vegna vinfengis okkar að þú farir með mér.“ Jón segist hvurgi fara. Marteinn segist ekki trúa því; hann virði sig ekki so mikils og skuli hann fara sem áður. Þá Jón sér alvöru hans í þessu þá sér hann að hann skuli ráða. Búa þeir so ferð sína með mesta hraða, en áður en þeir reisa á stað þá gengur Marteinn að kistu er þar stóð hjá þeim, lýkur henni upp og tekur þar upp gamlan prestsbúning mjög fornan og biður Jón að klæðast í. Að því búnu tekur hann blæju og þenur fyrir andlit honum. Dregur hann svo upp spegil og sýnir honum. Sér hann þá að brugðið er yfirlit sínum, því þar var hann orðinn svo elliligur eins og hann skyldi um sjötugt vera, með góðmótlegu yfirbragði.

Að þessu öllu búnu halda þeir á stað og ekkert sagt af ferðum þeirra fyrr en þeir koma á biskupssetrið. Gengur Marteinn í stofu og er þar margt manna fyrir. Var honum þar vel fagnað og boðið til sætis. Marteinn þekkist það, en segir að úti standi einn gráhærður öldungur er í ferð sína hafi slegizt, hvurt ekki ætti að bjóða honum inn. Biskup segir það sjálfsagt og sendir mann sem fljótast eftir hönum. Er hann leiddur til stofu; var honum þar sæmilega fagnað og settur á hinn æðra bekk. Er þar gleði og glaumur nógur og veitt hið kappsamlegasta, og segir Marteinn að bezt sé að drekka vel í kvöld, en minna á morgun, og var so gjört og gjörast menn ölvaðir mjög og hefur Marteinn það fyrir borðræðu að laspra til prestum og segir þá í öngvu nýta, því þeir gæti ekki so mikið sem tekið saman eina litla ræðu so vel fari. Mágsefni hans heyrir ræðu hans og segir hann ljúga því, þeir gæti langtum meira. Verður því mesta deila og kappskraf. Marteinn segir þeir gæti ekki so mikið sem tekið saman eina hjónavígslu so vel fari. Hinn segir það lygi, því hann, sá vesalasti, gæti hann það og skuli veðja þar upp á hundrað dölum. Marteinn kveðst skuli veðja öðrum hundrað að hann gæti það ekki og mætti skjótt reyna hvurt eigi væri so og mætti taka einhvurjar persónur að láta hann reyna sig á. Í þeim töluðum orðum víkur Marteinn sér að gamla prestinum og spyr hann að hvurt hann gilti ekki eina fuglinn þó hann þeytti út hjónavígslu „yfir yður og henni systur minni.“ Hinn svarar lágt að ekki skipti hann sér af því. Hinn tekur strax til ræðu sinnar og er ekki frá henni sagt hvurnin hún hafi verið nema þegar hann var búinn að gefa þau saman spyr hann Martein að hvurnin honum hafi geðjazt að og hvurt hann gæti nokkuð sett út á hana. Hann kvað það fjærri og sagði hann mundi vera með þeim skástu. „Þá á ég hjá þér veðféð.“ Marteinn sagðist yfirunninn í þeirra viðræðum og sé því sjálfsagt hann láti það, gengur burt og kemur aftur að lítillri stundu og færir honum veðféð og er so kyrrt um stund. Að litlum tíma liðnum spyr Marteinn hvurt ekki muni mál að fylgja brúðhjónunum til sængur „Brúðhjónunum?“ segir hinn, „ég meinti það væri gaman.“ Marteinn segir það fjærri og segist lýsa því undir þá votta sem hér hafi verið viðstaddir að þau skuli vera ektahjón á meðan þau lifi bæði. Við þau orð [er] sagt að brúðurinni hafi brugðið, því henni hafi þókt brúðguminn heldur ellilegur. En Marteinn víkur sér að honum og rífur himnuna frá andlitinu á honum og kenndu þar allir sr. Jón. Við það brá biðlinum so að hann rauk á dyr og sást þar aldrei meir. En af biskupi er það að segja að þá hann sá hvurnin komið var varð hann ævareiður. En Marteinn biður föður sinn að vera góðan, því hann hafi nógu lengi haldið áfram í því að halda með skálkinum; hefði hann ríkur verið og sé honum mál að hætta því, – „því vellærður og dyggðaríkur maður, þó fátækur sé, er miklu fremri hinum sem ríkir eru og það vanta.“ Við þær fortölur sefaðist hann og lýsti ánægju sinni yfir öllu er að framan er téð. Er so aukin veizlan og boðið til fjölda manna, en að henni endaðri heldur hvur heim til sín, en biskup greiðir fram heimanmund dóttur sinnar og var það býsna mikið fé. Búast þau so til heimferðar og kveðja biskup með mestu virðingu og óska hvurir öðrum lukku og halda síðan af stað. En á leiðinni segir Marteinn til sr. Jóns að ekki hafi hann farið so búinn. Sr. Jón svarar: „Þínu dyggðaríki á ég það að þakka sem allt annað.“ Halda svo áfram leið sinni þar til þau koma heim og er þeim þar vel fagnað og þykir öllum sr. Jón hafa aflað mikils í ferð þessari. Setjast þau nú að búi sínu og þóknast hvurjum manni vel. Marteinn dvelur þar lítinn tíma og býst svo til heimferðar. Fylgja hjón honum áleiðis, skiljast síðan með mestu kærleikum og heita hvurir öðrum tryggð og hollustu hvað þeir héldu á meðan þeir lifðu báðir – og ljúkum vér so þessari sögu.