Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af skraddaranum og kóngsdótturinni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af skraddaranum og kóngsdótturinni

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu sér eina dóttur. Þegar hún kom til aldurs lét faðir hennar gjöra kastala handa henni og fór hún í hann með mörgum meyjum, en geldingar voru settir til að vakta kastalann. Það var alræmt að ekki þyrfti kóngur að vera hræddur um að nokkur kæmist yfir dóttur hans því það væri öllum ómögulegt. Tveir bræður voru þar í landi. Annar var smáfelldur og nettur eins og fríðasta mey og svo góður skraddari að engin stúlka komst til jafns við hann að sauma. Hann sagði einu sinni við bróður sinn að sér þætti furða ef sér tækist ekki að komast yfir kóngsdótturina. Bróðir hans sagði að honum mundi ekki takast það. Þeir veðjuðu um það.

Nú tekur skraddarinn á sig kvenmannsbúning og fer að reisa um landið og reyna sig við saumakonur og hefir ávallt betur. Hann kemur í kóngsríkið og fær leyfi að finna kóngsdóttur. Hún tók þessari stúlku vel og reyndu þær sig og var nærri með þeim. Kóngsdóttir tók þessa mey til sín og var hún hjá henni í kastalanum um tíma. Þá varð hún óglöð. Kóngsdóttir spurði hvað að henni gengi. Hún sagði það væri kallmannsleysi. „Það dugar ekki að tala um það,“ segir kóngsdóttir, „við verðum allar að sætta okkur við það, hvurnig sem okkur líkar.“ „Ég sé ráð til að bæta úr því.“ segir aðkomustúlkan, „við skulum allar leggjast á bæn og biðja þess að skipti um hjá einhvurri okkar.“ Þær eru fúsar á það og þegar þær hafa legið um stund segir aðkomustúlkan: „Vel er beðið, það er skipt um hjá mér.“ Kóngsdóttir lét vel yfir því og lá hann hjá henni fyrstu nóttina og svo sína nótt hjá hvurri. Seinustu nóttina strauk hann burt og stal um leið skikkju kóngsdóttur og sínum grip frá hvurri af meyjunum. (Sumir segja hann hafi legið sömu nóttina hjá öllum og strokið svo fyrir daginn). Geldingarnir leyfðu stúlkunni að fara þangað sem hún vildi, því þá grunaði ekkert, en til hennar fréttist ekki upp frá þeim degi.

Nú varð kóngsdóttirin þunguð og allar hennar meyjar, og á sínum tíma fæða þær allar börn. Kóngur spurði um faðerni barnanna. Þær sögðu honum þá upp alla sögu. Kóngi féll þetta ofur þungt og það þótti honum verst að dóttir hans gat ekki feðrað barnið sem hún hafði átt. Hann tók það til bragðs að hann lét boð ganga út um allt ríki sitt að hvur sem gæti sannað að hann væri faðir allra þessara barna skyldi fá dóttur sína, hálft ríkið og allt eftir sinn dag. Hann stefndi þing og lét það standa í þrjá daga; á þeim átti sönnunin að koma. Kóngsdóttir og meyjar hennar stóðu í hóp á þinginu og var sleginn um þær hringur. Þær áttu að virða fyrir sér hvurn þann sem þar væri eða gengi hjá. Margir reyndu til að ná í fyrirheitið, en þeir gátu ekki sannað neitt, og var kóngur orðinn svo gramur gabbi þeirra að enginn þorði að reyna það framar. Seint á þriðja deginum kom maður hlaupandi á þingið. Hann hafði böggul í hendi. Hann hljóp beint að mannhringnum og henti sig yfir hann, fletti sundur bögglinum og tók þar úr skikkju kóngsdóttur og gripina hinna, og þekktu þær það, hvur sitt. Síðan sagði hann kóngi alla sögu og bar honum saman við þær. Kóngi þótti hann vera vitur og ráðugur og gifti honum dóttur sína, gaf honum hálft ríkið, og allt fékk hann það eftir hans dag og ríkti með drottningu sinni farsæll til ellidaga, og er svo sagan á enda.