Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sex bræðra saga

Úr Wikiheimild

Einu sinni voru kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu sex dætur sem eigi er nefnt hvað hétu. Kóngur átti bróðir einn sem bjó nærri garði kóngs. Þessi bróðir kóngs var kvongaður og var kona hans mjög nízk. Einu sinni sagði hún við mann sinn það væri aumt að vera hér svo nærri kóngi og líða þar átroðning af ferðamönnum sem heimsæktu kóng; – „við skulum reyna,“ sagði hún, „að leita okkur annars bústaðar, einkanlega þar sem fábýlt er, og væri ráðlegast að leita sér afdala því alstaðar er nokkur ánauð. Því vil ég nú að þú farir og leitir þér að bústað og það helzt langt frá öllum mannabyggðum.“ Bóndinn lét til leiðast og fór af stað og gekk nú mjög lengi yfir fjöll og dali. Loksins kom hann í dal einn er honum leizt mjög vel á sig í; þar voru skógar og mjög grasauðugar hlíðar og tjörn ein í miðjum dalnum. Hér ásetti hann sér að setjast að og setti vandlega á sig leiðina þangað. Síðan heldur hann heim og segir konu sinni frá ferð sinni og leizt henni vel á. Nú tóku þau sig upp eina nótt og fluttu með sér það sem þau sízt máttu án vera. Þau héldu nú sömu leið og hann hafði áður farið. Loks komu þau í dalinn og þar hjuggu þau upp skógartré og byggðu sér bæ. Veiði var mikil í tjörn þeirri er var í dalnum og lifðu þau nokkuð á henni og svo á fé því er þau gátu flutt með sér þá er þau fóru heiman.

Nú líða mörg ár og var mjög títt rætt um í sveitinni hvað af þeim hefði orðið. Og þá er kóngur frétti hvarf bróður síns lét hann leita hans með múg og margmenni um fjöll og firnindi, en eigi fannst hann hvernig sem leitað var.

Nú er að segja frá þeim dalhjónum; þau eignuðust sex syni og með því að þar var eigi um presta að gjöra þá hlutu þeir að vera óskírðir. Nú ólust þeir upp í dalnum og þá er sá elzti var tuttugu vetra og höfðu þeir eigi lært neitt og vissu eigi neitt nema gæta hjarðar föður síns og högga upp skóg.

Einu sinni voru þeir allir úti á víðavangi í heiðskíru veðri og gættu hjarðar föður síns. Þá sagði einn af bræðrunum: „Víst hljóta að vera til fleiri menn en við, því einhvern faðir á okkar faðir og einhverja móðir, og eins móðir okkar.“ Hinir bræðurnir féllust á það og kom þeim saman um að spyrja foreldra sína að því þá er þeir kæmu heim. Nú hittu þeir móðir sína sem var ein heima og spurðu þeir hana að því sem þeir höfðu talað um. Hún sagði þeim að eigi væru fleiri menn til í heiminum en þau því hún og faðir þeirra væru sprottin af eikum þar í dalnum. Þetta sögðu þeir væri víst ekki satt og spurðu þeir hana hvað faðir þeirra væri að gjöra þá hann færi í burt, en hún sagði að hann væri að veiða fugla. Þeir létu það vera svo, en ráðgerðu sín á milli að komast betur eftir þessu. Nú þá er sá tími var kominn sem þeir héldu að faðir sinn kæmi tóku þeir yngsta bróðurinn og létu hann undir sæng á rúmi því er foreldrar þeirra sváfu í. Og litlu eftir kom faðir þeirra og fór hann þá að tala við konu sína, en rak bræðurna út eins og hann var vanur þá er hann hafði verið í burtu. Hann fór nú að tala við konu sína ýmislegt og sagði henni margt úr sveitinni og þar með að bróðir sinn hefði tekið mjög vel á móti sér þótt hann væri angráður af hvarfi dætra sinna. Eigi heyrði sonur þeirra sem lá undir sænginni meira því þau fóru þá í burtu. Nú skreið yngsti bróðirinn undan sænginni og sagði bræðrum sínum frá samtali foreldra sinna. Nú gjörðust þeir uppvægir og sögðu foreldrum sínum að þeir færu og leituðu að öðru fólki, því þeir sögðust vera vissir um að eins margir menn væru til og stjörnurnar á himnum. Þeir heimtuðu nú útbúnað hjá móðir sinni og sögðust fara á stað hvað sem hún segði. Þá er hún nú sá að eigi dugði að aftra bræðrunum þessa bjó hún þá út með nesti og klæðnað og fylgdi þeim síðan út á skóg. En áður en hún skildi við þá fékk hún þeim hnoða og sagði þeim að hann skyldi leiðbeina þeim. Einum af bræðrunum gaf hún sverð og mælti svo fyrir að hvergi skyldi staðar nema; og einum fékk hún skel með tveimur spýtum í og hafði hún þá náttúru þá er hún var látin á vatn að hún varð að skipi og stækkaði eftir því sem við þurfti; og einum gaf hún léreftspoka með eins konar dufti í og sagði að ef þeir þyrftu að kveikja ljós þá þyrftu þeir eigi annað en strá á skarið úr pokanum og myndi þá duga. Síðan skildi hún við þá og bað þá vel fara.

Nú er það að segja af bræðrum að þeir ferðuðust lengi þar til þeir komu að háum garði sem þeir gátu hvergi komizt yfir, en það var skíðgarður kóngs. Þeir gengu nokkra stund með honum og sáu loksins dyr, en gátu eigi komizt þar inn, því þær voru læstar og maður á rauðum klæðum stóð við þær. Bræðurnir beiddu hann að lofa sér inn, en hann spurði þá að heiti og hvar þeir ættu heima, en þeir gátu eigi svarað honum neinu upp á það. Þeir spurðu hvað hann héti, en hann kvaðst Rauður heita og vera ráðgjafi kóngs. Bræðurnir gengu síðan burt frá hliðinu og hugsuðu sitt ráð og kom þeim saman um að nefnast því nafni sem hver af þeim væri hneigðastur fyrir að gjöra og nefndu sig því þannig: Velhöggandi, Velvakandi, Velsyngjandi, Velklifrandi, Veldreymandi og Velsofandi. Síðan gengu þeir aftur að hliðinu og beiddu Rauð að lofa sér inn, en hann neitaði því. Þá tóku þeir til sinna ráða og klifraði Velklifrandi upp á skíðgarðinn og rétti Velhöggandi taug og dró hann þannig upp og lét hann síga hinumegin niður af og gekk hann að Rauð og hjó af honum höfuðið. Síðan opnaði hann hliðið og gengu þeir bræður heim að höll kóngs og fundu þeir þar margt manna. En með því þeir voru nú mjög fáfróðir hentu margir gaman að heimsku þeirra. Loksins frétti kóngur af þessum mönnum og skipaði hann að láta þá koma fyrir sig. Nú er þeir komu fyrir kóng voru þeir heldur ósiðlegir því eigi heilsuðu þeir honum og hlógu margir að heimsku þeirra. Kóngur sagði að þeir skyldu vera þar hjá sér um hríð þar til hann gæti vitað hvernig á þeim stæði. En eigi leið á löngu þar til hann komst að því og lét hann þá vera hjá sér og lét hann kenna þeim margt, enda leizt honum vel á þá bræður.

Nú er leið að næstu jólum gjörðist kóngur mjög hljóður. Spurðu þeir þá hvað hljóðleika hans orsakaði og sagði hann þeim að hann hefði átt sex dætur og hefði ein þeirra horfið á hverri jólanóttu svo nú væri eigi eftir nema ein; og sagðist hann þó hafa fengið þá mestu menn úr ríki sínu til að vaka yfir skemmu dætra sinna þá nótt, en eigi hefði það verið að neinu liði, því þeir hefðu engir getað ráðið sér fyrir svefni þá er fram á nóttina kom og á meðan hefðu dætur sínar verið numdar á burtu. Þá er bræðurnir heyrðu þetta báðu þeir konung að lofa sér að vaka yfir þeirri dótturinni sem eftir væri, og leyfði hann þeim það.

Nú kom jólanóttin og var þá kóngur mjög hryggur. Hann fór á aðfangadagskveldið til skemmu dóttir sinnar og var þar þar til bræðurnir komu. Var nú kóngsdóttir þar í öllum sínum skrúða og ætlaði hún að vaka um nóttina ef unnt væri, en faðir hennar fór í höll sína með hryggum huga og ætlaði að hann mundi sjá dóttir sína í síðasta sinni. Nú líður fram undir miðnætti og fór þá bræðurna að syfja, enda var kóngsdóttir sofnuð. Velsyngjandi fór þá að syngja og Velhöggandi að brýna sverðið sem móðir hans hafði gefið honum; en Velvakandi varð eigi syfjaður því hann var svo góður að vaka. Nú sofnuðu allir nema þessir þrír bræður, þeir vöktu; og þá er þeir höfðu vakað nokkra stund heyrðu þeir mikla dynki úti svo jörðin skalf við, og því næst var brotinn glugginn upp yfir þar sem kóngsdóttir svaf, og ljósið slökkt. En Velhöggandi stráði á skarið úr poka þeim er móðir hans hafði gefið honum, og kviknaði það jafnskjótt aftur. Þetta gekk nokkurn tíma þar til grá hönd, loðin og óskaplega stór, sem hélt um stóran járnkrók kom inn um gluggann og krækti undir belti kóngsdóttur. En þá er Velhöggandi sá þetta vildi hann reyna bitið í sverði sínu og hjó hann höndina af við olboga, en þessi vættur rak ógurlegt hljóð upp og fór.

Nú vaknar kóngsdóttir og þeir bræður og vöktu þau af til dags. Kom þá kóngur mjög hryggur í skemmu dóttir sinnar og ætlaði hana horfna sem hinar systur hennar. Gjörðist nú mikill fögnuður í höllinni. Nú sögðust bræðurnir vilja leita hinna dætranna, en kóngur sagðist ekki vilja stofna þeim í þá hættu; en það kom ekki að haldi. Kóngur fékk þeim nú hin beztu sverð sem hann átti og lögðu þeir nú á stað. Þeir gengu lengi og röktu alltaf blóðslóð er þeir ætluðu að væri eftir þann er hafði heimsókt kóngsdóttur. Þá er þeir nú höfðu gengið lengi komu þeir að móðu einni; þar sáu þeir blóðferilinn út í. Settu þeir nú skel sína á móðuna og varð hún að nógu stórri ferju handa þeim öllum og komust þeir þannig yfir um; og strax fundu þeir blóðslóðina frá móðunni. Þeir gengu enn lengi þar til þeir komu á græna völlu. Þar sáu þeir í fjarlægð nokkra menn og heyrðu mikinn hlátur og hávaða. En er þeir komu nær sáu þeir að þetta vóru eigi menn heldur trölldrengir og voru þeir að leika sér á völlunum; en þá er þeir sáu til bræðranna tóku þeir að hlaupa sem fætur toguðu og hurfu úr augsýn þeirra. Samt halda þeir bræður áfram ferð sinni unz þeir koma að afar háum klettum, og er þeir höfðu gengið um hríð fram með þeim sjá þeir hellir langt upp í bjarginu og fram undan stóran skála og var tóg á milli skálans og bergsins og á það voru föt hengd til þerris. Þessi föt virtist þeim vera lík þeim sem kóngsdóttir hafði haft þá er þeir vöktu yfir henni nema hvað þau voru litdaufari. Nú sjá þeir engin ráð til að komast upp í hellirinn þar til Velklifrandi loksins gat klifrað upp á bergið og tók hann þá sand og sagði þeim sem niðri voru að drepa strax ef einhver kæmi út. Síðan fer hann á glugga á hellirnum og stráir þar sandi og heyrir hann að einhverjum er með þrumandi rödd skipað að fara og taka inn föt kóngsdætra; og síðan kemur út tröllstrákur og bana þeir honum þegar. Og þangað til er hann að strá á gluggann að þeir höfðu komið út sex og voru þeir allir drepnir. Að lokum þegar hann ennþá stráði á sandi heyrði hann ógurlegar dunur og kom þá út mjög stór tröllkona og hafði stóran vönd, en eigi tók hún eftir þeim bræðrum fyr en hún sá lík sona sinna og vildi hún þá í hellirinn, en þeir bræður vörnuðu henni það og eigi bitu nein vopn á hana nema vopn Velhögganda, en að lokum urðu þeir henni þó yfirsterkari og drápu hana.

Nú voru þeir mjög dasaðir af þessu stríði, og þá er þeir höfðu hvílt sig um stund tók Velklifrandi að klifra í bergið og náði loksins að komast upp og rétti hann þá bræðrum sínum taug og halaði þá alla upp á bergið. Og þá er þeir voru allir uppi á berginu heyrðu þeir miklar stunur í hellirnum, og er þeir komu inn sjá þeir ógurlegan tröllmann liggjandi á palli og mikla blóðtjörn hjá honum og hafði verið högginn handleggur hans af við olboga. Nú högga þeir hann til dauðs og draga hann út úr hellirnum og fleygja honum ofan fyrir bergið. Þeir könnuðu nú hellirinn og fundu þeir þar margt fémætt. Loksins komu þeir að hurð einni er var af járni gjörð og var hún mjög rammgjör; samt gátu þeir með löngum tíma brotið hana upp og sáu þeir að í því húsi sátu fimm meyjar og var hár þeirra bundið um járnslár er lágu þvert yfir húsið, en hendur þeirra voru bundnar á bak aftur og voru föt full með krásum í knjám þeim. Þeir losuðu þær og voru sumar af þeim mjög máttvana. Þær sögðu að karl og kerling hefðu ætlað að neyða sig til að eiga sonu sína og hefðu þau kvalið sig af því þær hefðu neitað því. Þeir biðu nú nokkurn tíma og er þær voru orðnar hressar þá fóru þeir með þær heim til konungsins föður þeirra og varð þar mikill fagnaðarfundur og gaf hann þeim bræðrum dætur sínar og hálft ríki sitt og sóttu þeir karl og kerlingu í dalinn og sátu þau brúðkaup sona sinna sem konungur hélt með mikilli virðing og skemmtun og voru allir leystir út með stórgjöfum sem þar voru, en bræðurnir stýrðu allir hálfu ríkinu meðan konungur lifði, en öllu eftir hans dag.