Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sextán barna saga

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í garðshorni. Kóngur og drottning voru barnlaus og þótti konungi það illa og kenndi það drottningu sinni og lagði óvild á hana fyrir þá skuld.

Eitt sinn lét konungur það uppskátt að hann ætlaði að fara úr landi og kvaðst mundi láta drepa drottningu ef hún væri ekki búin að ala barn þegar hann kæmi aftur og síðan bjóst hann brott. En er hann var farinn gekk drottning út á skóg í raunum sínum og hitti þar karlinn úr garðshorni. Hann spurði hana hvað [að] henni gengi. Hún sagði honum hversu konungi hefði farið orð við hana. Karl spurði hana hvert hún vildi hann veitti henni lið; hún játti því. Hann fékk henni þá dúk og sagði henni að liggja á honum þangað til hún væri búin að eiga sextán börn og þá skyldi hún skila sér dúknum aftur. Drottning varð mjög glöð við þetta og fór svo heim. Ekki leið langt um áður hún ól börn tvö. Síðan kom kóngur heim og varð mjög glaður við þau umskipti er orðin voru á högum drottningar. Alls átti drottning átta sveinbörn og jafnmargar meyjar. Drottning mundi aldrei til að skila dúknum karlinum í garðshorni, og einhverju sinni bar svo við að öll börnin hvurfu á náttarþeli; var þeirra víða leitað og fundust hvergi. Aflaði það kóngi og drottningu mikillar hryggðar. Konungur lagði nú í vanda sinn að taka ókunna menn til vetrarvistar og áskildi það við þá að þeir skyldu segja sér á sumardaginn fyrsta hvað börnin sín hefðu að eta og drekka, en dræpir skyldu þeir ef þeir gætu ekki svarað því. Komu nú margir vetrarvistarmenn og voru þeir allir drepnir því þeir sögðu allir að þau lifðu á vatni og grasi.

Nálægt kóngsríkinu bjuggu hjón í garðshorni og áttu son er Sigmundur hét. Hann tók sig upp og fór til kóngs og baðst vetrarvistar. Konungur hafði sama skilyrði við hann og þá sem áður höfðu beiðzt vetrarvistar. Um veturinn hafði Sigmundur þann starfa á hendi að gæta einn sauðfjár kóngs. Einu sinni fór hann með fjárhirði konungs um sumarmálaleytið út á skóg; hann sá þar karl einn sem var að lemja sextán dýr með svipu. Sigmundur kallaði til hans og bað hann sleppa dýrunum, en hann gegndi ekki. Sigmundur tók það til bragðs að hann fleygði í karlinn gullhring er móðir hans hafði gefið honum. Sleppti hann þá dýrunum og hljóp í burt því hann þóttist þá hafa launað það að dúk hans var ei aftur skilað. Dýrin hlupu þótt karl hætti að lemja þau, en Sigmundur elti unz hann kom í dal einn; þar sá hann hús og sextán nakin börn sem hlupu út og inn þangað til myrkt var orðið. Þá fór Sigmundur að húsinu og sá sextán dýrshami fyrir utan húsdyrnar, en sextán börn sváfu þar inni. Hann brenndi hamina, dreypti á börnin og tók vín og brauð er þar var, lét vínið í horn, en brauðið í vandlaup og hafði hjá sér svo börnin vissu ekki. Svo vakti hann börnin um morguninn og fóru þau í klæði er þar höfðu verið geymd. Börnin sögðu Sigmundi að kerling ein í garðshorni hefði lagt á þau að þau skyldi vera í dýrsham svo þau fyndi ekki til barsmíðar karlsins. Að því búnu fór Sigmundur með leynd með þau heim í ríkið og lét þau alast þar upp þangað til á sumardaginn fyrsta. Þá kallaði kóngur hann fyrir sig og spurði hvað börnin sín hefðu að eta og drekka. Sigmundur fekk kóngi brauðið og vínið og sagði þau æti það og drykki. Kóngur trúði þessari sögn og varð glaður við og lofaði Sigmundi að gefa honum elztu dótturina er Ingibjörg hét ef hann fyndi börnin. Þá fór Sigmundur á stað, fann börnin og sagði Ingibjörgu heitorð föður hennar. Hún anzaði engu, en grét. Síðan fór hann með þeim til kóngshallar og var þá slegið upp mikilli fagnaðarveizlu. Kóngur sagði Ingibjörgu það sama sem hann hafði talað við Sigmund, en hún kvaðst ekki vilja það, því það stæði svo á högum sínum að hún mátti ekki giftast. Kóngur gekk fast á hana hver orsök til þess væri, en hún vildi ekki segja, en bað að frestað yrði gifting sinni að minnsta kosti. Fékk hún mann og sendi hann með bréf og hnoða í annað land til unnusta síns er hún hafði heyrt væri orðinn giftur. Maðurinn fór þegar og segir ekki frá ferðum hans fyrr en hann kom í hús eitt. Þar sá hann konu sitja á gullstól og var hún að kemba sveinbarni með gullkambi. Maður lá í rekkju þar hjá og fekk hann honum bréfið, en er hann hafði lesið það fekk hann honum hnoðann. Þegar hann braut upp hnoðann kom sú umbreyting á konuna og sveininn að þau fylltu upp í allt húsið, en maðurinn sá er í rekkju hafði legið reis á fætur og fór út um útidyr og lagði síðan eld í húsið og brann það til ösku með því er inni var. Síðan fylgdist hann með sendimanni heim í kóngsríkið þar sem Ingibjörg var, og bað hennar og gekk síðan að eiga hana, en Sigmundur fékk þá er henni stóð næst. – Og lýkur þá sögunni, en þessi hjón hvorutveggju unnust hugástum og áttu mörg börn.