Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurðar saga forvitna

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sigurðar saga forvitna

Svo hefur þessa sögu að í fyrndinni réði ríki nokkru ágætur konungur sem átti við drottningu sinni son þann er Sigurður hét. Hann var hinn efnilegasti og þá 12-14 vetra er þessi saga gjörðist. Þá varð það til tíðinda að drottning tók sótt og andaðist. Varð hún mjög harmdauð öllum borgarlýð. Syrgði konungur hana svo mjög að hann gætti ekki ríkisstjórnarinnar og þótti ríkishöfðingjunum það mikið mein.

Nokkru áður en drottning andaðist hafði sú kona komið til borgarinnar er Ólöf hét. Hún var vitur og kurteis og gazt mönnum vel að henni. Réðu höfðingjar konungi að hann skyldi hyggja af harminum og biðja Ólafar, og tekur hann það ráð. Hún tók því vel og gengur konungur að eiga hana. Varð hún brátt vinsæl af almenningi því hún var rausnarsöm. Unni konungur henni mikið, en Sigurður son hans þó engu minna. Innan skamms tíma varð drottning þunguð, og er tími kom til að hún yrði léttari mælti hún við konung: „Nú vil ég, herra, biðja yður þeirrar bænar sem mér þykir mikið undir að þér látið eftir mér, og er hún sú að þér látið slátra feitum sauð og sjóða af honum kjötið, láta í trog og setja hér hjá mér. Síðan bið ég yður að láta alla menn frá mér fara svo ég sé ein meðan ég fæði barnið.“ Þetta þótti konungi kynlegt, en af því hann unni mjög drottningu lét hann það eftir henni. Þegar kjöttrogið var inn komið fór konungur út og bað allt fólk fylgja sér. Því hlýddu allir utan Sigurður son hans. Ólöf bað hann fara sem aðra. Hann kvaðst ekki frá henni fara, kvaðst vilja vita ef til nýlundu yrði, lézt og ekki þora að skilja hana eina eftir, því henni gæti orðið eitthvað að grandi. Hún bað hann ráða og ábyrgjast sjálfan. Tók hún þá fjöl úr veggþili fyrir ofan rekkju sína og lét Sigurð koma þar inn í, rak síðan fjölina fyrir aftur, en Sigurður gat þó séð út um rifu er var á þilinu. Eftir litla stund kom undirgangur mikill og gekk inn í höllina tröllkona allófrýnleg. Hún ávarpar drottningu þannig: „Heil og sæl, Ólöf systir.“ Ólöf svarar: „Kom þú sæl, Skinnhetta systir.“ „Maður er hjá þér,“ segir Skinnhetta. Ólöf kvað það ekki vera. Skinnhetta mælti: „Við skulum ekki þræta um það.“ „Farðu,“ segir Ólöf, „að troginu og éttu úr því.“ Hún gjörir svo og mælti er hún lauk úr troginu: „Miklu var þetta betra en slorið úr sjónum sem ég verð að éta.“ Síðan fæðir Ólöf barnið og tók Skinnhetta við því. Allt fór það vel og skipulega og er Skinnhetta hafði búið um barnið og móður þess sem henni sýndist kvaddi hún Ólöfu og fór burt. Þakkaði Ólöf henni fyrir þarkomuna. Nú fer Sigurður úr þilinu og þykir ekki hafa verið hættulegt fyri sig. Síðan kemur konungur og þykir vel að allt er í góðu standi, barnið efnilegt og drottning hress. Ekkert sér hann til nýlundu borið hafa utan að slátrið var burt úr troginu. Hann spyr drottningu hvur það hefði etið. Hún kvaðst það gjört hafa. Konungur lét það svo vera. Engum manni sagði Sigurður frá þessum atburði.

Þar kom að drottning skyldi ala barn annað sinn. Bað hún þá konung ens sama og fyrr, en bað hann nú láta velja betri sauð og sjóða innyflin með. Þegar það var búið fóru allir frá henni nema Sigurður og lét hún hann í sama stað og áður. Nú kemur inn tröllkona öllu ljótari en hin og mælir: „Heil og sæl, Ólöf systir.“ Hún svarar: „Kom þú sæl, Skinnvefja systir,“ og þarf ekki að orðlengja það að allt fór sem hið fyrra sinn. Engum manni sagði Sigurður frá þessu, og spurðu þó margir hvurs hann yrði var, bæði faðir hans og aðrir. Hann kvað ekkert til nýlundu orðið hafa.

Hið þriðja sinn kenndi drottning jóðsóttar og biður hún konung enn hins sama. Bað hann nú láta taka sinn bezta sauð og slátra, sjóða kroppinn, innyflin og sviðin og setja hjá sér í trogi, og var það gjört. Síðan fóru allir burt nema Sigurður. Ólöf bað hann nú víst fara, „því nú get ég ekki leynt þér,“ segir hún, „en ég vil ekki þú hljótir illt af mér“. Hann kvaðst hvurgi fara. „Muntu nú,“ segir hann, „eiga von á nokkru kynlegu og vil ég víst vita hvað það er.“ Hún lætur hann þá enn í sama stað og fyrr, en kvað það þó lítt til gagns mundi verða. Að stundu liðinni heyrir hann brak og bresti og þótti jörðin skjálfa við. Kom þá inn tröllkona svo ljót og illileg að aldrei hafði hann slíka ófreskju séð. Hún segir: „Heil og sæl, Ólöf systir.“ „Kom þú sæl, Járnnefja systir,“ mælti Ólöf. „Maður er hjá þér,“ segir Járnnefja. Ólöf neitaði því. „Það skal ég sýna þér,“ segir hún, lýstur úr þiljuna og þrífur Sigurð út og kastar honum á gólfið, slær á herðar honum og mælti við hann um leið: „Sigurður forvitni, hafðu hvurgi eirð né ró fyrr en þú hefur náð sverðinu Gunnloga og hestinum Gullskó.“ Ólöf tók til orða: „Farðu að troginu og éttu úr því.“ Hún gjörir svo, etur það allt og segir síðan: „Mikið er þetta betra en slorið úr sjónum sem ég má éta.“ Eftir það tekur hún við barninu og býr vel um, fer burt síðan. Ólöf þakkar henni þarkomuna og kveðjast þær vel.

Nú gengur Sigurður til drottningar og mælti: „Hvað leggur þú til ráðs með mér. Ég hefi ekki eirð né ró, svo langar mig til að ná sverðinu Gunnloga og hestinum Gullskó.“ „Þar er óhægt til úrræða,“ segir hún; „þó er hér rautt hnoða er þú skalt láta renna fyrir þér, fylg þú því og muntu í kvöld koma til Skinnhettu systur minnar. Hér er gullhringur sem þú skalt gefa henni. Hefir hana lengi langað til að eiga hann. Bið hana síðan ásjár og mun hún leggja það til er henni þykir ráðlegast. Far nú vel og heill.“ Hann fer þegar af stað og gengur sem hnoðað rennur fyrir þar til um kvöldið að hann kemur að helli Skinnhettu. Þar fer hann inn og sér ekki kvikt inni. Snýr hann þá út aftur, en þá mætir Skinnhetta honum í dyrum. Kemur hún frá sjó með stampa tvo fulla af slori. Sigurður heilsar á hana. Hún tekur því stuttlega. Hann kastar þá til hennar hringnum og bað hana þiggja. Hún gladdist við og þakkaði honum og kvaðst skyldug til að veita honum lið ef hann þyrfti. Hann segir henni þá hvurnig á ferð hans stóð. Þá mælti hún: „Þá mun ég lítið geta hjálpað þér, en vertu þó hjá mér í nótt.“ Það þá hann. Um morguninn hefir Skinnhetta leitt heim gráan hest og gefur Sigurði hann og mælti: „Ríddu honum í dag hvurt sem hann vill fara. Í kvöld muntu koma til Skinnvefju systur minnar. Gefðu henni hestinn því hún hefir lengi viljað eignast hann. Bið hana ásjár og vit hvursu fer.“ Hann þakkar henni og ríður af stað. Segir ekki af ferð hans fyrr en hann kemur að helli Skinnvefju. Kom hún þá frá sjó með tvo slorstampa. Sigurður heilsar henni og stígur þegar af baki hestinum og bað hana þiggja hann. „Hvurju skal ég launa þér þessa gjöf?“ segir hún. Hann segir henni erindi sitt; hún mælti: „Lítið má ég hjálpa þér, en vertu þó hjá mér í nótt.“ Þar var hann um nóttina. Að morgni fær Skinnvefja honum rautt hnoða og bréf er hún hefir skrifað og mælti: „Eltu hnoðað og fáðu bréfið hvurjum sem þú finnur fyrst.“ Hann fer af stað og eltir hnoðað mestan hlut dags. Að kvöldi kemur hann að helli og fer þar inn. Honum bregður mjög við er hann sér Járnnefju sitja þar, herðir þó upp hugann og kastar bréfinu í kjöltu hennar. Hún tók við því og las það, blés við og mælti: „Þú mátt vera hér í nótt ef þú vilt,“ og var hann þar þá nótt þó honum þætti óálitlegt þar að vera. Að morgni vekur Járnnefja hann í dögun og mælti: „Mál er upp að rísa ef þú ætlar að ná sverðinu Gunnloga og hestinum Gullskó. Er hér hnoða er þú skalt elta í dag og stanza ekki fyrr en það stanzar. Þá muntu kominn að helli einum. Far þú upp á hellismæninn og leggst við strompinn. Þann helli byggir risi mikill. Hann á dætur tvær og unnir hann annari mikið, en hinni ekkert. Hann mun verða að sjóða graut. Þegar hann fer að smakka á í katlinum skaltu sálda niður í hann um strompinn dufti úr posa þessum,“ segir hún og fær honum posann. „Þá mun karli þykja grauturinn saltur,“ segir hún, „og mun hann biðja betri dóttur sína að sækja fyrir sig vatn. Þá skaltu sæta lagi og hræða hana til að hjálpa þér.“ Sigurður fer nú af stað og fylgir hnoðanu. Hann hélt í endann, og fór það svo hart að hann varð jafnan að hlaupa, og er á leið daginn tók hann að þreytast, settist niður og vildi hvílast, en hnoðað kippti í og hlaut hann áfram að halda. Þegar mjög svo var dimmt orðið um kvöldið kom hann að helli miklum og rauk þar mjög. Hann gengur upp að strompinum og leggst þar og hvílist. Hann sér þar risa sitja við eld. Stóð betri dóttir hans hjá honum, en hin lá úti í horni. Ekki leið langt áður karl tekur lokið af katlinum og fær sér ádrepu: Þá sáir Sigurður úr posanum ofan yfir ketilinn og ausuna. Karl tók til orða: „Grauturinn er of saltur. Gjörðu svo vel, betri dóttir mín, og far eftir vatni að deyfa hann.“ Hún svarar: „Ljá mér þá lýsigullsteininn, faðir, því myrkt er úti.“ Hann gjörir það og fer hún til vatnsins. Sigurður sér glætu af steininum og hleypur eftir henni, og þegar risadóttir sökkti í brunninn þrífur Sigurður hana og rekur undir sig og mælti: „Hjálpa þú mér að ná sverðinu Gunnloga og hestinum Gullskó eða ég drep þig.“ Hún var hrædd og mælti: „Gef mér líf, ég skal hjálpa þér til þess sem þú baðst.“ Hann lét hana þá upp standa. Hún mælti: „Vertu svo lítill sem ég vil.“ Þá varð hann svo lítill að hún lét hann í vasa sinn og fór heim síðan og æpti mjög er hún kom í dyrnar, og kvaðst hafa dottið og lærbrotnað. Risinn mælti: „Það fór illa, dóttir mín, að þú slysaðist núna því ég ætla til þings á morgun, og vildi ég þú hefðir getað farið með mér því ávallt ber ég hærra hlut á þingi ef þú ert með, en lægra hlut ef verri dóttir mín er með mér, þó nú verði svo að vera.“ Líður nú nóttin. Að morgni fer risinn til þings með verri dóttur sína. Áður hann fór mælti hann: „Berðu þig að, betri dóttir mín, að dragast á fætur í dag þó þú sért lasin og vatna hestinum Gullskó og hinum öðrum hestum mínum.“ Hún hét að leita við það. Þau risinn fara síðan leiðar sinnar, en er þau voru burt farin tekur risadóttir Sigurð úr vasa sínum og mælti „Vertu nú svo stór sem þér er lagið“. Hann tók þegar vöxt sinn aftur. Hún mælti: „Kom þú nú með mér til hestanna.“ Þau ganga að húsi nokkru; hún lýkur því upp og gengur inn. Sigurður fer eftir henni og sér þar hesta marga. Einn var miklu mestur og fríðastur, glófextur og hvítur upp að hófskeggi á öllum fótum. „Þar er hesturinn Gullskór,“ mælti risadóttir, „tak þú hann nú.“ Sigurður lézt ekki þora nærri að koma og lét sem hann hefði aldrei fyrri hest séð og mælti: „Ekki hugsaði ég að hesturinn Gullskór mundi vera svona.“ Hún hló að, rak út hestana og setti Sigurð á bak Gullskó. Hann kastaði sér ofan aftur og kvað ófært þar að sitja. Vatnar hún nú hestunum og lætur þá inn aftur og byrgir, gengur síðan í hellinn og kallar Sigurð með sér í afhelli lítinn. Þar lýkur hún upp kistu og tekur þar upp úr margar gersemar í gulli, klæðum og ýmsum dýrgripum. Á botninum er aflangur stokkur. Honum lýkur hún upp og tekur þar úr sverðið í umgjörðinni og fær Sigurði og mælti: „Þar er sverðið Gunnlogi.“ Hann tekur við því og mælti: „Er það svona? Ég hugsaði það væri öðruvísi.“ Hún hló að honum og kvað hann fífl vera. Í því lýkur hann upp handraða kistunnar og sér þar stokk og spyr hvað í honum sé. Hún varaðist hann ekki og lauk upp stokknum. Þar eru egg þrjú. Hún mælti: „Þetta eru fjöregg vor systra og föður vors. Ef eggin eru sprengd í ennum vorum, þá deyjum við þegar, en áður deyjum við ekki.“ Sigurður mælti: „Nú mun faðir þinn sjá athæfi þitt af fjölkynngi sinni og drepa þig þá hann kemur.“ Henni brá mjög við þessi orð og mælti: „Það er satt; hvað er til ráða?“ Hann svarar: „Stöndum bæði í hellisdyrum og haf þú egg systur þinnar, en ég egg föður þíns og sendum í enni þeirra er þau koma.“ Hún kvað það eitt ráð vera. Þau ganga nú út í dyr með eggin, og þegar kemur risinn allillilegur á svip og dóttir hans með honum. Þau Sigurður kasta eggjunum og jafnskjótt falla þau risinn dauð niður. Þau Sigurður snúa þá aftur í afhellinn. Þrífur risadóttir þá sverðið Gunnloga, tók til að bregða því og mælti: „Nú hefi ég efnt orð mín að láta þig ná Gunnloga og Gullskó, og fyri það hefi ég orðið orsök í dauða föður míns og systur og þess hlýt ég að hefna.“ Sigurður varð þá fljótur til úrræða, þrífur eggið og sendir í enni hennar; fellur hún þá dauð niður. Nú tekur Sigurður allt fémætt er hann finnur, og bindur í klyfjar, tekur hestana og hefir nú fullt vit á að brúka þá. Söðlar hann Gullskó, en leggur reiðing á hina aðra og lætur á klyfjarnar, stígur á bak Gullskó og fer af stað.

Segir ekki af ferð hans þar til hann kemur til Járnnefju; það var síð dags. Hún bauð honum að vera þar um nóttina og þá hann það. Hún kvað svo til ætlað að hann hvíldi hjá sér um nóttina. Honum brá svo við það að aldrei þóttist hann jafn-vant við kominn, svo þótti honum kerling viðbjóðsleg, en þó varð hún að ráða, og hvíldi hann hjá henni. Þegar hann vaknaði um morguninn, þótti honum undarlega við bregða. Lá þá fögur jómfrú hjá honum, en tröllkonuhamurinn fyri neðan rekkjustokk. Sigurður fer á fætur og tekur haminn, fær sér eld og brennir hann til ösku. Eftir það gekk hann til meyjarinnar og var hún hress. Hann spyr hvurju þetta sætir. Hún kvað það litlu varða, bað hann búast burt sem skjótast. Hann gjörir það og fer hún með honum. Þau koma um kvöldið til Skinnvefju og eru þar þá nótt. Hvílir Sigurður hjá Skinnvefju og fer henni sem hinni, að hún var fríð yngismey að morgni og tröllkonuhamurinn á gólfi. Tók Sigurður hann og brenndi. Fóru þau síðan öll af stað og voru næstu nótt hjá Skinnhettu. Þar fór enn á sömu leið og fyrr. Allar þóttu honum meyjarnar fríðar, en sú var þó fegurst sem áður var ljótust. Og að morgni er þau voru af stað farin tók hún til orða: „Nú vil ég, Sigurður, segja þér það er þú spurðir mig hinn fyrsta morgun, og er það frá því að segja að faðir minn var konungur og átti dætur fjórar. Hétu þær Ingibjörg, Sigríður, Signý og Ólöf. Hún var elzt og hafði numið fleira en þær, og voru þær þó kallaðar vel að sér. Risinn er þú hefir drepið beiddi Ingibjargar. Konungur neitaði honum. Þá reiddist risinn og hjó konung banahögg, lagði það síðan á dætur hans hinar yngri þrjár að þær skyldi verða sem systur sínar Járnnefja, Skinnvefja og Skinnhetta. Þær skyldu lifa af slori úr sjónum og í þeim nauðum skyldu þær verða og ekki úr komast fyrr en nokkur konungsson hefði náð sverðinu Gunnloga og hestinum Gullskó og sofið um nótt hjá hvurri þeirra. Því lagði hann ekki á Ólöfu að hún gat varizt með kunnáttu sinni. Hún flýði úr landinu og giftist föður þínum, en landið er í víkinga höndum. Er ég nú hin sama Ingibjörg, og hér eru systur mínar, Sigríður sem nefndist Skinnvefja, og Signý Skinnhetta. Hefir þú nú frelst oss úr álögum og lýkur þar sögu minni.“ Sigurður þakkar henni söguna.

Segir nú ekki af ferð þeirra fyrr en þau koma heim til borgar þar er faðir Sigurðar réði fyrir. Hann fagnar honum vel og þykir hann frægðarför farið hafa er hann hafði sagt honum alla söguna, en Ólöf fagnaði þó miklu meir er hún sá systur sínar heilar og úr álögunum komnar. Þakkaði hún það Sigurði með fögrum orðum og bað hann kjósa þau laun er hann vildi helzt og hún kynni að veita. Hann kvaðst engin laun hafa vilja utan hann fengi Ingibjörgu til ekta. Ólöf kvað hann þess verðugan. Hefur Sigurður þá upp orð sín og biður Ingibjargar. Var það auðsótt og er þegar slegið upp brullupsveizlu, og fær Sigurður Ingibjargar. Að þessari sömu veizlu giftust þær báðar, Sigríður og Signý, hinum æðstu ríkishöfðingjum konungs. Þegar veizlan þraut gaf Sigurður öllum mönnum góðar gjafir. Eftir það fékk hann hjá föður sínum herskip og lið og siglir úr landi með konu sína, en kvaddi áður vel föður sinn og Ólöfu. Hann kom þar að landi sem víkingar sátu yfir föðurleifð Ingibjargar. Átti Sigurður orustu við þá og hafði sigur, en víkingar féllu. Var Sigurður síðan tekinn til konungs yfir landið og ríkti hann þar með drottningu sinni til ellidaga og þótti jafnan ágætur konungur. Og lýkur svo þessari frásögu.