Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður Karlsson og bræður hans

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sigurður karlsson og bræður hans

Það var einu sinni bóndi og kona sem áttu sér þrjá syni. Tveir þeir eldri vóru í miklum metum hjá foreldrum sinum, en sá yngsti var hafður út undan; sá hét Sigurður. Eitt sinn kom sú fýsn inn hjá þeim eldri að þá langaði til að sigla. Var það fljótt til reiðu hjá foreldrum þeirra. Þá langaði Sigurð mikið til að fara með, en það fékk hann ekki. Svo sigldu þeir, en hann var kjur heima.

Nokkru seinna bað hann foreldra sína að lofa sér að fara fótgangandi að skoða sig um í landinu og fær hann það. Þá kom móðir hans og fékk honum sax mikið og fagurt og sagðist halda að það mundi duga honum nokkuð því henni þótti alténd eins vænt um hann eins og hina bræðurnar. Og svo fer hann og gengur lengi þangað til hann kemur að mikið háu fjalli og löngu svo hann sér hvurgi fyrir endann á því. Hann stendur lengi við að hugsa sig um hvurt hann eigi að voga að fara upp á fjallið. En eftir langa umhugsun fer hann upp á fjallið og gengur allan þann dag, en um kvöldið sezt hann að. Þá sýnist honum að hann muni vera kominn upp í mitt fjallið. Um morguninn heldur hann á stað og gengur allan þann dag til kvölds. Þegar hann sezt að þá er hann kominn upp á fjallsbrúnina og svo sefur hann af um nóttina og heldur áfram ferðinni að morgni. En um miðjan dag sér hann hinumegin fjallsins að þar er sléttur dalur og fallegur og hann sér að fjallið er miklu betra yfirferðar þarna megin en hinumegin og svo heldur hann áfram. En á fjórða degi kemst hann ofan í dalinn. Þá er hann orðinn örmagna af þreytu og hungri því hann hafði lítið nesti að heiman. Þá heyrir hann allt í einu mikinn hörpuslátt. Hann gengur á hljóðið þangað til hann kemur að stórum helli; hann gengur inn í hann og sér þar mikið fallega stúlku. Hún spyr hvaða maður hann sé; [hann] segir henni það. Hún spyr hvað hann sé að fara; hann segist vera að skoða sig um í veröldinni. Hann spyr hvaða stúlka þetta sé; hún segist vera kóngsdóttir og sér hafi verið stolið; hún segir að hér sé tröllkall og ef það vilji til að einhvur komi hér þá sé hann drepinn, og biður hann auðmjúklega að fara burt, en hann vill ekki. Hún biður hann því betur, en það kemur ekki upp á neitt. Hún segir að kallinn eigi tvo hauka og alténd þegar einhver komi þá fari þeir að gala og ólmast. Hún segir að hún verði að fela hann. Hún stendur upp og tekur opinn stólinn og segir honum að fara ofan í hann; hún segir að hann hafi verið smíðaður heima hjá sér og stolið með sér. Og svo fer hann í stólinn og [hún] skellir í lás. Að litlum tíma liðnum heyrist brak mikið og brestir. Svo kemur kall og spyr hvur sé kominn. Hún segir það sé enginn kominn. Hann spyr því haukarnir láti svona. Það segist hún ekki vita. Hann segir að það sé þó einhvur kominn. Hún segir hann megi leita. Hann fer þá til, en finnur ekki. Hann segir að það sé þá ekki nema vitleysa. Svo tekur hann fuglakippu og fer að snæða og gefur henni með sér. Þegar hann er búinn fer hann að sofa og hrýtur mikið og svo leggst hún til hvílu. Um morguninn rís risi upp og segir sér sé mál að fara á skóg. Svo rífur hann í sig og segir hún megi eiga það sem eftir sé og svo fer hann. Þá rís Sigurður upp úr stólnum. Hún gefur honum með sér af leifum kalls.

Svo fara þau að skrafa saman. Hún segist hafa gleymt að spurja hann að heiti; hann segist heita Sigurður. Hann spyr hvað hún heiti; hún segist heita Blástjarna. Svo tala þau margt saman. Meðal annars segir hún að kall eigi mikið gull og silfur, en það sé ein kista sem hann vilji aldrei sýna sér í. Sigurður [segir] að hún skuli taka vel á móti honum í kvöld og segja að sig langaði mikið til að verða konan hans; hann muni taka því vel. Þá skuli hún biðja hann að lofa sér að sjá í kistuna. Hún segist muni reyna. En um kvöldið áður en karl kemur þá lætur hún hann fara í stólinn. Svo kemur karl. Þá taka haukarnir til að ólmast og gala og láta nú verr en hitt kvöldið. Tröllkarl spyr hvurt enginn sé kominn. Blástjarna segir nei og er nú svo blíð að kall verður hissa og hefði hoppað upp í skýin hefði hann getað. Hún segir að hann hafi aldrei trúað sér fyrir lyklum að hirzlum sínum. Hún segir að hann þurfi ekki að vera svona tortrygginn við sig. Hann segir það sé satt. Hún segir sér þætti bezt ef hún gæti orðið konan hans. Hann segir að sér þætti það nú bezt líka. Hann tekur svo upp lyklakippu og fær henni, en tekur einn af. Hún spyr hvað hann ætli að gjöra við þennan lykil; hann segir það sé lykillinn að ruslakistu sinni. Hún biður hann að lofa sér að sjá í hana; hann segir að það sé ekkert í henni. Hún segist ekkert taka með augunum. Hann segir það sé satt og fer með hana að kistunni og lýkur henni upp; þar er mikið af járnarusli. Þá tekur karl upp kistil og þar upp úr dúk. Hann rekur hann í sundur þangað til hún sér helblátt egg. Karl segir að þetta sé fjöreggið sitt og ef því sé hent á milli augnanna á sér þá deyi hann. Svo lætur hann niður hjá sér aftur. Hann segist ætla að segja henni dálítið. Hann segist vera að leika sér að því að kvelja tvo menn sem hafi orðið fyrir skipbroti hjarna um daginn. Já, hún segir það sé nú mikið góð skemmtun; honum sé bezt að halda því áfram. Hann segist ætla að gera það meðan þeir geti lifað. Svo fer karl að sofa og Blástjarna líka. En eins og hann var vanur þá fer karl á skóg að morgni, en Blástjarna fer til Sigurðar og vekur hann og segir honum allt. Hann rís upp og gengur þangað sem kistan er og ber hana alla þangað til hún hrekkur upp. Svo tekur hann eggið, en það var eitrað svo hann mátti ekki snerta það. Svo bíða þau til kvölds þangað til karl kemur. Þá fer Blástjarna að fagna honum, en Sigurður laumast á eftir. Þegar karl ætlar að beygja sig ofan að henni til að kyssa hana, þá hendir Sigurður egginu á milli augnanna á honum. Svo dettur hann niður, en þau draga hann út og brenna. En daginn eftir fer Sigurður að vitja um mennina. Það eru þá bræður hans. Hann kemur þeim svo heim. Svo lífgar hann þá við. Þegar þeir eru orðnir fullhressir þá halda þeir heim. En Sigurður fékk sér far með skipi og færði konungi Blástjörnu, en hann gaf honum hana í fundalaun. Svo unntist það allt saman vel og lengi.