Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður blindi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sigurður blindi

Eitt sinn var konungur og drottning sem réðu fyrir ríki; þau áttu eina dóttur barna. Í sama mund bjó þar kall og kelling í garðshorni; þau áttu einn son sem hét Sigurður. Hann var snemma efnilegur og gáfupiltur svo kall kom honum í skóla. Þar lærði Sigurður margs konar listir og svo nam hann þar fugla- og dýramál. Þegar hann var kominn heim þótti föður hans ekkert til hans koma og þótti ekki á sjá að hann væri nokkru meiri maður en áður. Var honum nú ótamari vinnan svo kall fekk andstyggð á honum.

Einn dag voru þeir feðgar út á skógi. Þá settist þar lóa á kvist og söng. „Hvað segir lóan?“ segir kall. „Það má ég ekki segja,“ segir Sigurður. „Það skaltu segja,“ segir kall og býst til að berja son sinn. Sigurður fór lengi undan, en þó sagði hann um síðir: „Lóan segir sá tími muni koma að þú verðir eins hræddur við mig eins og ég sé nú við þig.“ Þá reiddist kallinn meira og sagði: „Við því skal ég gjöra að það verði ekki,“ tekur kvist og stingur bæði augun úr syni sínum. Síðan æðir kall heim og skilur Sigurð eftir. Hann þoldi ekki við í augunum og lá um stund kveinandi. Þá fer hann á fætur og stefnir beint frá því sem hann ætlaði stefna mundi vera heim. Hann rólar lengi unz hann rekur sig á hávan vegg. Hann þreifar fyrir sér og finnur að er múr. Kemur honum til hugar það sé borgarmúrinn og rekur sig lengi fram með honum þar til hann kemur að hliði. Þar leggst hann niður og þolir ekki við í augunum. Þá heyrir hann hrafna krunka og eru tveir. Heyrir hann annar segir: „Hver liggur þar, faðir minn?“ „Það er Sigurður kallsson og hefir faðir hans blindað hann,“ segir hinn eldri hrafninn. „Æ!“ segir hinn, „er ekki kostur að lækna hann?“ „Kostur er á því,“ segir eldri krummi; „þegar hann kemur inn fyrir borgarhliðið verður fyrir honum stigi. Þar skal hann ganga upp. Þar er aldingarður og brunnur í garðinum. Skal hann þvo augun úr brunninum, leita svo þar um kring og mun hann finna grös sem bæta honum sjónleysið ef hann leggur þau við.“

Þegar Sigurður heyrir þetta stendur hann upp og gengur inn um hliðið. Hann finnur stigann, gengur upp og finnur brunninn. Þar þvær hann augun, og dregur skjótt úr allan verk. Nú þreifar hann eftir grösunum og finnur þau, leggur við augun og finnst sér öllum létta. Þarna dvelur Sigurður þrjá daga og hefir nú fengið sjón sína. Þá gengur hann ofan stigann og á fund konungs. Hann heilsar honum og biður hann veturvistar. Konungur spyr hver hann sé. Hann segir eins og er. Nú er Sigurði vísað til sætis með hirðinni á óæðra bekk. Konungur var mjög dapur um þessar mundir og heyrir Sigurður það sé af því að dóttir hans er þunglega veik og getur enginn bætt henni. Það verður brátt kunnugt að Sigurður er vel að sér.

Eitt sinn kemur konungur að máli við hann og segir: „Þú munt ekki geta lagt neitt til ráða um sjúkleik dóttur minnar? Hefi ég sent eftir læknum víða um lönd og vinnst þeim ekki að bæta henni.“ Sigurður segir sér muni ekki vinnast að finna þau ráð sem dugi; – „þó mun ég leita við,“ segir hann. Eftir þetta gengur Sigurður út og reikar undir borgarmúra. Þar gengur hann og hugsar um sjúkleik konungsdóttur. Þá heyrir hann hvar tveir hrafnar tala saman; það var faðir og sonur. Sonurinn segir: „Hvað mun valda sjúkdómi konungsdóttur?“ „Það veldur,“ segir hinn eldri, „að hún var drambsfull og fyrirleit fátæka. Vildi hún ei þiggja sakramenti af presti sínum og er þessi sjúkdómur hegning fyrir dramb hennar.“ „Hvað liggur þá til bóta?“ segir hinn yngri. „Að hún auðmýki sig,“ segir hinn, „taki sakramenti og betrist.“ Þegar Sigurður heyrir þetta gengur hann til konungs og spyr hvort hann megi sjá dóttur hans. „Heimilt er þér það,“ segir konungur og vísar Sigurði leið til kastalans. Hann fylgir honum inn í salinn til dóttur sinnar og er þar fjölmennt af læknum og þernum konungsdóttur, en hún var sjálf þunglega veik. Sigurður heilsar henni og spyr hvort ekki megi allir ganga burtu litla stund. Hún leyfði það. Þá fer Sigurður að tala við hana og spyr hvort hún hafi ei verið drambsöm og neitað að þiggja sakramenti. Henni bregður við orð hans, en játar þó að þetta sé sem hann spyrji. Þá ræður hann henni að láta kalla prestinn og óska af honum sakramentis, auðmýkja sig og sleppa öllu drambi – „og mun þér þá batna“. Síðan gengur hann frá henni. Eftir þetta sendir hún eftir presti og biður þjónustu. Hann tekur því vel. Svo biður hún hann fyrirgefn- ingar, lofar betrun og meðtekur sakramentið. Eftir þetta batnar henni daglega. Konungur varð mjög glaður og þakkar Sigurði hjálpina.

Þegar líður fram til jóla ógladdist konungur og allur borgarlýður. Sigurður spyr hvað því valdi. „Veiztu það ekki,“ segja menn, „að hér horfir til vandræða; vatn er þegar á þrotum.“ „Hvað veldur?“ segir hann. „Veiztu ekki,“ segja þeir, „að hér fæst ekki vatn og er það sótt tvisvar á ári í annað land, en nú er hávetur og hættulegt að ná vatninu?“ „Hafa brunnar verið grafnir?“ segir Sigurður. „Oft hefir það verið reynt,“ segja þeir, „og hefir aldrei hjálpað.“ „Það furðar mig,“ segir Sigurður; og skilja þeir talið. Fyrsta dag jóla gengur konungur og öll hirðin í kirkju. Sigurður gengur út um hámessu. Þá heyrir hann gjálfur mikið og ólæti. Sér hann hvar hundar margir eru skammt þaðan á háum hól, gelta og góla og rífa upp jörðina. Þá heyrir hann hundarnir segja: „Heimskur er konungur að grafa hér ei til vatns, er nóg er undir.“ Nú gengur Sigurður aftur í kirkju. Eftir messu biður Sigurður konung ljá sér graftól og menn svo marga sem hann vilji; – „vil ég grafa til vatns“. „Það mun þér ekki takast,“ segir konungur; „þó skal þig hvorki skorta liðið né tólin.“ Eftir þetta fer Sigurður og lætur grafa ofan í hólinn. Þegar niður er komið um þrjátíu palla koma þeir að járnhurð. Þeir opna hana og grafa enn þrjátíu palla og koma að silfurhurð. Þaðan grafa þeir enn þrjátíu palla og finna gullhurð. Þá heyra þeir nið mikinn og þá hurðin er opnuð sjá þeir þar fossandi á með bezta vatni. Konungur varð yfrið glaður þegar hann heyrði þetta, lætur kalla Sigurð fyrir sig og segir: „Þú hefir gjört oss mikið gagn – læknað dóttur mína og bætt úr vatnsleysinu sem var mínu ríki hinn skaðlegasti hlutur og kostaði mig svo mikið. Ég get ekki boðið þér önnur laun fyrir hjálp þína en gifta þér dóttur mína og gefa þér ríkið hálft meðan ég lifi og allt eftir minn dag.“ Sigurður þakkaði konungi þessi boð og var nú efnað til veizlu. Sigurður biður konung leyfa sér að bjóða fátækum hjónum skammt þaðan sem hann hafi komið til eitt sinn og hafi gjört sér gott. „Heimilt er þér það,“ segir konungur. Þá lét Sigurður sækja foreldra sína og bjóða í veizluna. Þau urðu forviða er þau heyrðu þetta, bjuggust sem skjótast og héldu til veizlunnar. Þeim var vísað á óæðra bekk og bornir fyrir þau margir réttir. En með því þeim þótti maturinn yfrið góður snæddu þau óspart hina beztu rétti og vildu gjarna hafa lokið öllu. En er þau þraut erindið stundu þau og kölluðu mein að magaleysi. Um kvöldið var þeim fylgt í fagran sal og vísað til hvílu. Þau furðaði öll hvað mikið var við þau haft. Þegar þau höfðu sofið litla stund vaknar kall og segir sér sé órótt og verði hann að komast út nema næturgagn sé þar svo dugi. Hann sér leirskál mikla hjá rúminu, ætlar hafi verið sett þar í gáleysi og setur upp á hillu. Nú vill hann komast út og á salerni, en þess var ekki kostur. Honum verður það nú til ráða að hann fer í salarhornið og léttir þar á sér. En svo var komið um sjúkleik hjónanna af veizluátinu að svefnherbergið ataðist víða og svo rúmið hið sama.

Nú kemur morgunn og er þá gengið framan að dyrunum og lokið upp. Þar kemur þá Sigurður og fussar mjög, segir illan þef í húsinu og spyr hvað valdi. Hjónin skulfu af hræðslu og svöruðu engu orði. Þá segir Sigurður: „Þið þekkið mig ekki. Ég er nú Sigurður sonur ykkar og ætla ég nú komi fram það sem lóan sagði og sértu nú ekki óhræddari við mig, faðir minn, en ég var við þig forðum.“ Kall var mjög auðmjúkur og bað son sinn fyrirgefa sér. Hann lofaði því, lét hreinsa salinn og færa foreldrum sínum góð klæði. Síðan sagði hann konungi að þar væri komnir foreldrar sínir og vildi hann þau væri hjá sér. Konungur leyfði það. Síðan lifðu þau kall og kelling í sæld hjá syni sínum til elli. Hann varð hinn mesti hamingjumaður og stýrði lengi ríki sínu.