Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður kóngsson
Sigurður kóngsson
Einu sinni var kóngur og drottning sem réðu fyrir ríki. Þau áttu fjórar dætur; allar voru þær vænar; unni konungur mest yngstu dóttur sinni.
Á einum degi reið konungur á dýraveiðar með mönnum sínum og varð fyrir þeim hjartarkolla ein sem þeir eltu; gekk svo lengi dags, og urðu allir menn konungs eftir af honum því hann hafði fráastan hestinn. Eltir nú konungur einn dýrið þangað til hann var kominn langt inn í skóg; missir nú konungur sjónar á dýrinu og fór nú einsamall villtur í skóginum. Þegar kveld var komið kom hann loks að einu húsi; þar var hurð í hálfa gátt. Konungur gekk þar inn og hitti fyrir sér eitt herbergi; var þar ljós á borði og vistir og vín. Eitt rúm var þar upp búið, en engan mann sér hann, og lá hundur mórauður á gólfinu. Konungur gekk út aftur og hittir fyrir sér opið hesthús fyrir einn hest og nóg fóður í stalli; lét hann þar inn hest sinn og gekk aftur til herbergis og beið þess lengi að húsráðandinn kæmi, en þegar leið undir miðnætti og enginn kom gjörir konungur sig heimakominn, tók til kveldverðar og háttaði. Konungur sofnar fljótt og vaknaði ekki aftur fyrr en dagur var; rís hann þá úr rekkju og sér enn engan mann, en nógar voru enn vistir og vín á borði og mórauði hundurinn lá á gólfinu. Konungur gekk út og vitjaði um hest sinn; hafði hann og nóg fóður. Fór konungur þá og tók sér morgunverð og síðan tók hann hest sinn og reið leiðar sinnar. Þegar hann hafði riðið um stund kom hann á einn hól; kom mórauði hundurinn eftir honum og náði honum þar og var mjög grimmlegur. Hundurinn segir að konungur sé óþakklátur; hafi hann hýst konung í nótt, veitt honum vistir og vín, rúm til að sofa í og gefið fóður hesti hans, en konungur hafi farið á stað án þess einu sinni að þakka sér fyrir; segist hann nú muni þegar í stað rífa hann til bana nema því aðeins að hann heiti sér því sem fyrst mæti honum þegar hann komi heim til sín. Konungur lofar þessu til að leysa líf sitt og kvaðst Móri mundi vitja þess á þriggja daga fresti. Hélt konungur svo heimleiðis.
Nú er að segja frá því að allir urðu mjög áhyggjufullir í höll konungs er hann kom ekki heim um kvöldið, en mest féllst yngstu dóttir hans um það. Hún fer um morguninn upp í turn einn í borginni og horfði þaðan hvert hún sæi ekki föður sinn koma og þegar hún leit hann komandi veginn hljóp hún út í móti honum til að fagna honum. Konungur varð hryggur við er hann mætti dóttur sinni; fóru þau svo heim til hallar og urðu allir honum fegnir. Þegar konungur var setztur undir borð segir hann frá ferðum sínum og hvert heit honum var á hendi, en að hann mundi það aldrei gjöra að láta dóttur sína.
Nú leið til þriðja dags, þá er drepið á hallardyr; maður er sendur til dyra og þegar hann kemur aftur kvaðst hann engan séð hafa nema mórauðan hund. Vissu menn þá hvað vera mundi og vill konungsdóttir fara, en konungur sagði að það skyldi aldrei verða. Var þá þerna send til dyra og er hún kom mælti hundurinn: „Ertu mér send?“ Þernan þagði; hundurinn lét hana fara þegar á bak sér og rann á burt út á skóg. Hann nam staðar á hól einum og lét hana fara af hrygg sér. Þá segir hann: „Hvað mun nú framorðið?“ Hún segir að það veit hún ekki, en muni þó vera í það mund sem hún sé vön að ræsta höll konungs. „Ertu þá ekki konungsdóttir?“ segir hann; hún kvað nei við Þá reif hundurinn hana til bana.
Daginn eftir var enn drepið á hallardyr og gekk maður til dyra. Þegar hann kemur aftur segir hann að úti sé hundurinn mórauði og sé hann mjög illúðlegur. Skilja menn þá hvað í efni muni vera og vill konungsdóttir fara, en konungur bannar það; er nú send út önnur þerna. Þegar hún kemur að hundinum spyr hann: „Ertu mér send?“ Hún þagði. Móri lét hana fara á bak sér og rann á stað, en þegar hann kom á hólinn hristir hann hana af sér og spyr: „Hvað mun nú framorðið?“ Hún segir að það muni í það mund sem hún sé vön að bera á konungsborð. „Ertu þá ekki kóngsdóttir?“ segir hann. Hún segir nei – og reif hann hana til bana.
Hinn næsta dag var enn drepið á hallardyr og var maður út sendur; hann kemur strax aftur og segir að úti sé enn hundur mórauður og nú sé hann hvað grimmlegastur. Vill konungsdóttir þá enn fara, en konungur vill ekki. Hún kvað sér ekki annað kærara vera en að leysa líf hans og fór samt. Þegar hún kemur út fyrir hallardyr þar sem hundurinn var, þá segir hann: „Ertu mér send?“ Hún segir já. Hann lætur hana setjast á hrygg sér og rann á stað. Þegar hann er kominn út á skóg og að hól þeim sem áður er nefndur hristi hann hana af sér og mælti: „Hvað mun nú framorðið?“ Hún kvaðst ætla að væri í það mund sem hún væri vön að ganga í höll föður síns. „Þú ert þá konungsdóttir,“ segir hann. Hún segir já. Lætur hann hana þá aftur fara á hrygg sér og ber hana unz þau komu að húsi einu. Þar fer hundurinn inn með kóngsdóttir. Segir hann að þar eigi hún að búa; var þar inni borð og stóll og eitt rúm – og allir hlutir voru þar sem hún með þurfti og það sem henni mátti til skemmtunar vera. Átti hún þar öllu ein að ráða.
Liðu nú fram stundir; sá hún aldrei neinn mann, en á hverri nóttu svaf maður í rúminu hjá henni. Hundurinn Móri hélt þar til kvöld og morgna, en oft var hann burtu um daga. Nú verður konungsdóttir þunguð. Einu sinni segir Móri við hana að nú sé þar komið að hún muni fæða og muni barnið verða tekið frá henni. Hann biður hana berast það af sem bezt hún geti og tárfella ekki; því það varði sig miklu; en fari svo hún megi ekki af berast án þess hún felli tár, þá fær hann henni dúk og biður hana láta tárin falla í hann. Eftir það gekk hann burt. Elur nú kóngsdóttir barn. Það var meybarn dáfrítt; hún laugar það og reifar, leggur síðan hjá sér í rúminu og hallast ofan að því biðjandi; ber þá skugga á glugga hússins og í því flýgur inn gammur einn og tók barnið í klær sér og flaug á burt. Sárt varð konungsdóttir um missi sinn, þó grét hún ekki. Móri kom inn til hennar og var vingjarnlegur. Hann færir henni gullkamb og sagði hún skyldi eiga hann fyrir stöðuglyndi sitt.
Nú líður tíminn, þá segir Móri einu sinni að nú sé konungsson einn kominn til föður hennar og hafi beðið elztu systur hennar og sé nú brúðkaup þeirra fyrir hendi. Hann spyr hana hvert hún vili vera í brúðkaupi systir sinnar og vill hún það. Ber hann hana þá á hól þann sem fyrri er nefndur og segir henni leið heim til hallar föður hennar. Hann gefur henni tvennan kvenskrúða og segir að hún muni gefa annan systur sinni til að vera í á hennar heiðursdegi, en annan skuli hún sjálf eiga. Að skilnaði biður hann hana að segja ekkert um hagi sína og vera ekki burtu nema í þrjá daga og koma þá aftur á þann sama hól. Nú kemur kóngsdóttir heim og er henni vel fagnað. Sat hún þar í brúðkaupi systur sinnar og gaf henni skrúðann sem þótti hinn bezti. Ekki vildi hún, þó hún oft væri um spurð, segja neitt um hagi sína nema sér liði vel. Fór hún til baka á þriðja degi og þegar hún kom á hólinn var hundurinn Móri þar fyrir. Flutti hann hana heim til húss síns.
Líða nú tímar enn og verður kóngsdóttir þunguð í annað sinn; segir þá hundurinn Móri enn við hana að nú muni hún fæða og barnið verða sem fyrr tekið frá henni; biður hann hana enn að berast vel af og ef verða mætti tárfella ekki; ríði sér það á miklu. Þó skuli hún klútinn við hafa sem hann áður fekk henni, muni henni nú öllu þyngra finnast um barnmissirinn; síðan gekk hann burt. Kóngsdóttir elur barnið; það var meybarn dáfrítt. Hún laugar það og reifar og leggur svo í rúmið fyrir framan sig og hallast að því með viðkvæmri móðurást. Í því bili sér hún að skugga ber á húsgluggann og þykist vita hvað valda muni. Snýr hún sér þá til veggjar því hún treystist ekki til að horfa á þegar barnið væri tekið. Gammurinn kom inn og greip barnið í klær sér og flaug með það í burtu; ekki tárfelldi kóngsdóttir að heldur. Þegar hundurinn Móri kom var hann enn vingjarnlegur og færir hann kóngsdóttur hálsfesti af gulli, setta gimsteinum, og segir að hún skuli eiga hana fyrir staðfestu sína.
Líða nú enn tímar, þá segir Móri henni að nú sé kominn til föður hennar annar kóngsson og ætli að eiga hina aðra systir hennar og megi hún fara í brúðkaup hennar ef hún það vili, og þáði hún það. Hann gefur henni og skrúða góðan handa þessari systir sinni og sjálfri henni annan og fylgir henni á hólinn, biður hana að vera ekki lengur en þrjá daga burtu og ekki segja neitt um hagi sína. Fer nú kóngsdóttir heim og er henni vel fagnað sem fyrri. Hún situr brúðkaup systur sinnar og gefur henni skrúðann. Ekkert segir hún af högum sínum nema sér líði vel og að þrem dögum liðnum fer hún aftur á hólinn; er þar hundurinn Móri og fagnar henni og flytur hana heim í hús sitt.
Líða nú enn tímar og verður kóngsdóttir þunguð hið þriðja sinn og þegar að því var komið að hún skyldi fæða segir hundurinn Móri að nú komi að því að hún muni verða léttari og enn verði þetta barn frá henni tekið. Biður hann hana eins og fyrr að berast vel af og tárast ekki, en nú muni henni mest um finnast, og skuli hún því þess vel gæta ef hún tárfelli að láta falla í klútinn því sér ríði það á miklu. Hann gengur burtu. Ól nú kóngsdóttir barnið, það var fagurt sveinbarn. Hún laugar það og reifar og leggur í rúmið hjá sér og minnist við það með mikilli ást; þá sér hún að skugga ber fyrir gluggann og snýr hún sér þá frá barninu og heldur klútnum fyrir ásjónu sér; í því kemur sami gammurinn og grípur barnið í klær sér og flaug burtu. Hraut þá kóngsdóttir eitt tár sem hagl væri af auga og féll í horn klútsins, en hún hnýtti á. Eftir það kom hundurinn Móri inn vinalegur eins og fyrr, en þó eins og óglaðari. Hann segir að nú tókst miður til en hann vildi. Hann gefur henni nú spegil einn, hann var í gulli greyptur, og segir hún skuli eiga fyrir þolgæði sitt.
Nokkru seinna segir hann henni að nú ætli kóngsson einn að giftast þriðju systur hennar og megi hún einnig fara í brúðkaup hennar, og gefur hann henni enn tvo kvenskrúða, annan handa systir hennar og hinn skyldi hún sjálf eiga. Fylgir hann henni svo á hólinn og bað hana enn að muna sig um að segja ekkert um hagi sína og koma aftur eftir þrjá daga. Hún fer heim og var vel fagnað; gefur hún systur sinni skrúðann til að klæðast í á hennar heiðursdegi; hinum klæddist hún sjálf. Dvaldi hún þar í þrjá daga, en ekki sagði hún annað af högum sínum en að sér liði vel. Þegar hún fór á stað gekk drottningin móðir hennar á veg með henni og leitar hún þá fast á hana um það hvað um hagi hennar væri. Þá sagði hún henni það eitt að maður svæfi hjá sér hverja nótt, en hún hefði aldrei séð hann. Drottning gaf henni þá stein einn og sagði að þegar maður sá væri sofnaður hjá henni skyldi hún bregða steininum yfir andlit honum og gæti hún þá séð hann. Síðan kvöddust þær.
Þegar kóngsdóttir kom að hólnum var þar hundurinn Móri og tók við henni og flutti hana heim með sér.
Nóttina eftir þegar maður sá var sofnaður sem hvíldi hjá henni brá hún þegar yfir hann steininum og sá hann var ungur og mjög fríður sýnum, en í sama bili vaknaði hann og varð mjög hryggur við; segir hann að þetta var hið mesta óhapp og muni þau þess seint bætur bíða, því nú hljóti þau að skilja og líklega aldrei aftur mega sjást. Segir hann henni þá að hann sé kóngssonur og heiti Sigurður, hafi drottningin móðir sín dáið og faðir sinn borið þungan harm eftir hana. Einu sinni hafi hann gengið með föður sínum út á skóg honum til skemmtunar og þar hafi þeir hitt eitt silkitjald sem tvær konur sátu inn í, önnur roskin, en hin ung, og var sú eldri mjög sorgbitin. Hann segir að báðar hafi sýnzt dáfríðar og hafi faðir sinn spurt þær um hagi þeirra. Hafi sú eldri sagt að hún væri drottning konungs nokkurs og væri þar með sér dóttir sín; hefði óvinir herjað á ríki manns síns og hann fallið í bardaga, en hún þá flúið úr landi með dóttur sinni og væru þær nú þar komnar. Nú segir hann að faðir sinn hafi séð aumur á þeim og boðið þeim heim til hallar, og litlu síðar hafi hann gengið að eiga þá eldri konuna. Kveðst hann hafa haft ímugust á stjúpu sinni og aldrei viljað aðhyllast hana, en hún keppt eftir að hann gengi að eiga dóttur sína. Um þær mundir hafi faðir sinn farið að heiman til að heimta skatta af öðrum löndum sínum og þá hafi stjúpa sín komið til sín og skorað fast á sig um að eiga dóttur sína, en hann hafi neitað því þverlega. Þessu hafi hún reiðzt mjög og því lagt á sig að hann skyldi hverfa út á skóga og verða að mórauðum hundi hvern dag, en halda sinni mynd á nóttunni, og skyldu þessi álög vara í tíu ár; þá skyldi hann aftur hljóta heim að hverfa og eiga dóttur sína ef honum þætti svo betra en nú að eiga hana viljugur, nema hann fengi einhverja hina vænstu konungsdóttir til að vera hjá sér og ætti með henni þrjú börn án þess hún nokkurn tíma sæi hann eða reyndi til að hlaupast á burt frá honum, og skyldu þó öll börn hennar verða tekin frá henni strax eftir fæðinguna; en ef hún þá felldi tár mundi það verða vagl á auga barna hennar sem ekki yrði af hreinsaður nema með tárum þeim sem hún felldi. Eftir þetta segist hann hafa horfið í þetta hús þar sem hann sé nú staddur og hafi nú aðeins eftir verið einn mánuður þangað til hann hefði getað leystst úr þessum þungu álögum, en nú hlyti hann að yfirgefa hana og hverfa heim í borg föður síns og það sem hræðilegast væri, ganga að því að eiga dóttur stjúpu sinnar. Mundi þess nú engin von að hún gæti frelsað sig frá þessum bágu kjörum hvað fegin sem hún vildi. Þó segir hann henni að hann eigi þrjá föðurbræður sem allir hafi lagt sín vegna í sölurnar bústað sinn, auð og metorð og hafi tveir þeirra flutt sig nær sér og búi í fátæklegum kofum; hafi þeir þetta upp tekið til að forðast stjúpu sína, en veita sér lið, og þeir séu þeir einu sem hafi lagt sér allt til sem hann hafi haft sér til uppeldis og ánægju meðan á þessum álögum hafi staðið. Sá þeirra sem nær sér búi hafi og einmitt verið í líki hjartarkollu þeirrar sem teygði föður hennar út á skóginn til hans; þeir einir geti og helzt leyst vandræði hennar nú og skuli hún fara frá húsinu sínu meðfram læk þeim sem þar renni, og þá verði fyrir henni kofi annars föðurbróður síns.
Hann biður hana að geyma vandlega dúk þann sem tárið féll í og ekki við sig skilja og ekki skuli hún láta gripi þá sem hann gaf henni nema henni liggi mikið á. Síðan gaf hann henni gullsjóð mikinn og bað hana vera örláta á fénu við [föður]bræður sína ef hún hitti þá, því þeir væru fátækir mjög. Þá hvarf hann, en hún var ein eftir í húsinu með þungum harmi. Hún býr sig þá strax á stað og gengur meðfram læknum sem hann vísaði henni til, og að kveldi kom hún að koti einu. Karl einn fátæklega búinn með síðan hött á höfði stóð þar úti fyrir dyrum. Hún heilsar honum, en hann tók lítið kveðju hennar; hún bað hann gistingar, en hann sagði sér væri lítið um gesti, enda mundu lítil höpp af henni standa. Hún bað hann því betur og miðlaði honum allmiklu gulli úr sjóði sínum; varð hann þá léttbrýnni og lét gistinguna heimila; var kóngsdóttir þar um nóttina. Hún segir nú karlinum allt um sína hagi og bað hann leggja sér lið, að hún gæti aftur náð fundi konungssonar, en hann kvað það torvelt mundu og ekki gæti hann það, en nær væri um að bróðir sinn gæti og byggi hann þar alllangt í burtu undir fjallshlíð þessari sömu, og kvaðst hann vilja vísa henni leið þangað.
Morgninum eftir fór hún á stað frá kotinu og hélt leiðar sinnar meðfram fjallshlíð einni; sagði karlinn henni að þá hitti hún fyrir sér kot bróður síns, og um þetta kveld kom hún að koti einu og drap á dyr; þar kom út karl einn svipmikill og ófrýnn; hann var á svörtum kufli og hafði barðamikinn hatt á höfði. Kóngsdóttir bað hann gistingar; en hann sagði að sá mundi ekki betri kost hafa er henni léði hús því lítil heill mundi henni fylgja. Hún bað hann þó ljá sér húsaskjól næturlangt og gaf honum ómælt gull úr sjóði sínum; blíðkaðist þá karlinn og fylgdi henni inn. Þar sat kona á palli; hún var góðlátleg og sat undir barni í reifum, en tvö börn önnur léku sér á gólfinu. Hún tók vel móti kóngsdóttur, bauð henni sæti og var málhreif við hana. Fóru þær að minnast á börnin sem konungsdóttir þótti yfrið fríð. Þótti konunni það mein að sveinn sá er hún hélt á hefði vagl á öðru auga, en hún vissi ekki hvert á því mundi bót ráðin. Konungsdóttir kvað það mikið mein um svo frítt barn. Þær létu svo tal sitt niður detta og bað konan að kóngsdóttir gætti sveinsins meðan hún færi að niðriverkum sínum, og varð það svo; konan fór ofan að matreiða handa gesti sínum. Þegar konungsdóttir var ein orðin og hélt á sveininum hugkvæmdist henni hvert ekki mundi sú náttúra fylgja tári sínu sem í klútnum geymdist að það eyddi vagli af auga öðrum börnum en sínu. Leysti hún þá til knýtilskautans og brá dúkhorninu á auga barnsins, en vaglinn rann þegar af. Þegar konan kom inn og sá þennan atburð varð hún yfirmáta glöð og þakkaði kóngsdóttur fyrir góðverk hennar. Síðan bar hún henni mat. Var kóngsdóttir þar þá nótt; sagði hún þá karlinum upp alla raunasögu sína eins og þá var komið. Karlinn var henni nú blíður í ávarpi og sagði sér rynni mjög til rifja raunir hennar, en torvelt mundi að bæta úr þeim; væri nú og svo naumur tíminn að kóngssonur hennar ætlaði að halda brúðkaup sitt á morgun með dóttur stjúpu sinnar, en þangað væri löng leið kringum fjall eitt mikið og kæmi hún um seinan ef sá vegur væri farinn, en til væri þó skemmri leið yfir fjallið og mætti fara á einum degi,en það mætti heita ófæra sökum töfra drottningarinnar sem vildi tefja komu hennar. Þó kvaðst hann mundi til freista að hjálpa henni svo hún kæmist þá hina styttri leiðina yfir fjallið. Fylgir hann henni nú að fjallinu og áður hún ræðst til uppgöngu útbýr hann hana á knjám og olbogum með broddfærum svo hún gæti skriðið brattann sem einnig var háll sem gler, og hann vafði dúk um höfuð hennar svo að hún ekki skyldi heyra og ærast af undrum þeim sem henni mundu mæta vegna töfranna. Hann segir og að aldrei megi hún aftur líta. Hinumegin við fjallið sagði hann að byggi vinur sinn, þar skyldi hún gista og fá hjá honum fylgd til konungsgarðs, en hann kvaðst mundi til sjá með henni að drottning þekkti hana ekki.
Nú kveður kóngsdóttir karlinn og fer yfir fjallið eins og hann segir henni; leit hún aldrei aftur á allri leiðinni og æðraðist ekki þó hún heyrði undur mikil og óhljóð, enda hlífði henni höfuðdúkurinn. Að kveldi kom hún að kotinu til vinar karlsins; var það snotur bær en lítill; fekk hún þar góðan beina og gisti þar um nóttina. Hún bað bónda fylgja sér til kóngshallar og sagði hann að það væri sér hægt er hann sjálfur færi þangað því þá væri brúðkaup kóngssonar. Þegar þau komu heim til kóngshallar var þar mikið um dýrðir er kóngsson hélt brullaup sitt. Kóngsdóttir gekk til hallardyra; sá hún þar kóng og drottningu í hásæti og kóngsson og stjúpmóðurdóttir hans í öðru; þar var gleðibragð mikið á öllum nema kóngssyni, hann var dapur mjög. Enginn þekkti kóngsdóttur og ekki kóngssonurinn. Var hún þar allan daginn og horfði á unz brúðhjónin voru leidd í svefnkastala. Var nú kóngsdóttir mjög hugsjúk og örvænti þegar um sitt mál; þó datt henni ráð í hug að aldrei mundi sér eins liggja á að nota gripi sína. Tunglskin var á og tók hún til að kemba hár sitt með gullkambinum úti fyrir glugganum á svefnherbergi brúðhjónanna, og varð brúðurinni litið þangað sem hún var og sá hún gullkambinn og bað hana skipta við sig á sínum, því hún sá að hinn mundi meira gersemi. Konungsdóttir neitaði því. Brúðurin bað hana þá selja sér því hann sæmdi sér betur en einni kotastelpu. Kóngsdóttir kvaðst ekki selja. Brúðurin spyr hvert hún geri hann ekki falan fyrir neitt; hin kvað hann aðeins falan að hún mætti sofa hjá brúðgumanum þá nótt og keyptu þær því. Brúðurin gaf þá kóngssyni svefndrykk og lét síðan kóngsdóttir fara inn til hans; var hún hjá honum alla þá nótt og fekk aldrei vakið hann. Hafði hún og margar harmatölur við hann, en hann rumskaðist aldrei unz brúðurin kom um morguninn og sagði henni að verða á burt, en vakti hann síðan. Kóngsdóttir var þennan dag öllu hryggari en áður, hélt þó til oft í höllinni og sá hverju fram fór og þekktist hún ekki.
Þegar brúðhjónin voru gengin til svefnhúss þetta kvöld gjörði hún enn tilraun að ginna brúðurina með hálsmeni sínu og fór allt á millum þeirra sem hið fyrra sinn, og hafði nú kóngsdóttir látið tvo gripina af hendi, en fékk ekki vakið kóngsson um nóttina; barst hún nú mjög aumkunarlega af og barmaði sér á alla vega yfir mótlæti sínu og varð að skilja svo búin við hann um morguninn. En brúðurin gekk inn til konungssonar og fóru þau til hallarinnar. Um daginn var kóngsdóttir það hin mesta raun að sjá og horfa á hvernig allt fór fram.
Þennan dag var það einu sinni að hinn þriðji [föður]bróðir konungssonar sem áður er nefndur kom einslega að máli við hann, en hann bjó í þessari borg og átti svefnherbergi næst við svefnhús brúðhjónanna. Hann spyr bróðurson sinn hver sú kona sé sem hjá honum vaki um nætur og barmi sér svo aumkunarlega; segir hann það sé einhvern veginn með undarlegu móti. Kóngsson segir að hann viti þar enga konu aðra en sína. Hinn spyr hví hún harmi svo; kóngsson kvaðst ekki vita því hann svæfi alla nótt. Hinn spyr hvað því mundi valda að hann svæfi svo fast eða hvert kona hans gæfi honum drykk nokkurn á kveldin; hann kvað svo vera. Föðurbróðir konungssonar segir að hann skuli nú í kveld láta þann drykk falla í klæði sín og látast svo sofna og vita hvert hann verði nokkurs vísari. Leið nú dagur til kvelds og barst kóngsdóttir varla af fyrir hryggð þó hún leyndi sér, og um kveldið þegar brúðhjón voru komin í svefnhús var hún enn úti fyrir glugg og hélt þar spegli sínum og fór um það sem fyrr að brúðurin ágirntist hann mjög og keyptu þær því loksins að kóngsdóttir mætti sofa hjá brúðgumanum þá nótt fyrir hann. Gaf brúður þá kóngssyni svefndrykkinn, en hann lét sem hann drykki, en reyndar felldi hann drykkinn niður og lézt svo sofna. Konungsdóttir fór þá í hvíluna hjá honum og reyndi að vekja hann, en hann lézt enn sofa; telur hún honum nú upp allar æviraunir sínar og barmaði sér mjög, bað hann muna samveru þeirra og bænheyra sig er hún hafði svo harmþrungin leitað hans, hefði hún nú og þegar látið alla gripi þá sem hann gaf henni, til þess að ná fundi hans. Sakir töfra stjúpu sinnar var kóngssonur nær því eins og hann dreymdi vakandi þessa viðburði, en loksins kom þar að hann kannaðist við konungsdóttur og varð þá fögnuður þeirra óumræðilegur. Huggaði hann nú konungsdóttir eins og hann gat og sagði að nú mundi þó rakna fram úr raunum þeirra. Skyldi hún nú, segir hann, fara um morguninn þegar brúðurin kæmi og í hús föðurbróður síns sem þar væri rétt hjá, en hann kvaðst mundu láta sem hann svæfi.
Þegar brúðurin kom um morguninn rak hún hana á burtu og fór síðan að vekja brúðguma sinn og svo gengu þau til hallar. Þegar mest var gleði í höllinni þennan dag og allir sátu við drykkju, konungur og drottning voru í hásæti og brúðhjónin í öðru, gengu þrír menn í höllina; voru þar komnir allir þrír bræður konungs. Einn þeirra bar tvö stúlkubörn á handlegg sér og leiddi konu við aðra hönd; hún hélt á ungbarni, hinir tveir héldu hver á kefli. Þeir numu allir staðar fyrir hásæti konungssonar. Sá sem konuna leiddi spyr þá kóngsson hvert hann ekki kannist við þessa konu og börn þau þrjú er henni heyrðu til. Hann kvaðst kenna mundi. Skiptu þær mæðgur þá mjög litum og urðu að bragði heldur stórvaxnar og ætluðu þegar að mæla eitthvað, en þeir kóngsbræðurnir sem á keflunum héldu brugðu þeim þegar í gin þeim, en sextán menn sem þeir höfðu látið leynast undir borðum hlupu jafnsnemma upp og gripu átta hvorja þeirra og lögðu í bönd. Konungi fannst mjög um þessa atburði, en er hann sá hverra ætta þær mæðgurnar voru þótti honum allt vel ráðast og fagnaði nú syni sínum og konungsdóttur.
Var þá þegar sent eftir konunginum föður hennar og drottningu hans og drukkið brullaup þeirra kóngssonar og konungsdóttur með miklum fögnuði. Skömmu seinna andaðist konungurinn faðir hans og var þá konungsson til konungs tekinn yfir allt landið. Ríkti hann með drottningu sinni vel og lengi og unnust þau hugástum. Föðurbræður sína gjörði hann alla að jörlum í ríki sínu og voru þeir stjórnsamir og góðir höfðingjar og efldu mjög ríki konungsins og héldu vináttu við hann meðan þeir lifðu.