Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður kóngsson og Helga karlsdóttir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sigurður kóngsson og Helga karlsdóttir

Einu sinni var kóngur og drottning er réðu fyrir ríki. Þau áttu sér einn son; hann hét Sigurður. Hann var snemma gjörvuglegur og vel á sig kominn um allt. Hann hafði og ástríki mikið af foreldrum sínum svo að þau máttu ekki móti honum láta.

Kot eitt lítið var þar skammt frá konungsbænum; það hét í Garðshorni. Þar bjuggu karl og kerling. Þau áttu sér eina dóttur barna, Helgu að nafni. Hún var fríð sýnum og vel viti borin. Mjög var jafnt á komið um aldur með henni og Sigurði kóngssyni og léku þau saman barnleikum. Varð því kærra með þeim sem þau eldust meir og þar kom að þau felldu ástarhug hvort til annars þó að leynt færi. Voru þau nú nær frumvaxta er hér var komið sögunni.

Sigurður kóngsson nam allar íþróttir þær er ungum mönnum voru tíðar og tignum mönnum hæfðu. Hann fór oft á skóg að dýraveiðum; og einhvern dag er hann hafði farið á skóg að skemmta sér kemur hann eigi aftur að kveldi. Er hans þá leita farið og finnst hann hvergi. Varð þeim kóngi og drottningu þetta mikill harmur; létu þau leita hans af múg og margmenni um allt ríki sitt, en það kom fyrir ekki og þóttist engi vita hvað af kóngssyni mundi orðið. Gáfu menn þá upp leitina um síðir. Mikið þótti Helgu karlsdóttur hvarf kóngssonar eigi síður en öðrum. Undi hún sér nú lítt og neytti nálega hvorki svefns né matar fyrir sorg og söknuði. Og einhvern dag kemur hún að máli við foreldra sína og segist munu fara að leita kóngssonar og eigi aftur koma fyr en hún sé vís orðin hvar hann sé niðurkominn. Þau karl og kerling freista á allar lundir að telja dóttur sína af þessu fyrirtæki; tjá þau og tína fyrir henni hver háski henni sé búinn ef hún hætti sér þannig einsömul á skóga og óbyggðir í opið gin villidýra og í tröllahendur, enda sé þess engi líkindi að henni muni takast að finna kóngsson, slíkt sem búið sé að leita hans, en miklu líkast að hún fari sömu förina sem hann ef hún láti ei af þessu óráði. Helga svarar og segir að ekki muni tjá að letja sig, því hún sé alráðin þessarar farar hversu sem til takist.

Ömmu átti Helga sér fróða og forna í skapi; hún hafði og fóstrað hana. Kerling hafði setið þegjandi hjá þessari ræðu hér til; en sem hún hefir heyrt ályktarorð Helgu kallar hún hana til sín og fær henni bandhnykil rauðan og segir að hún skuli jafnan fara þar eftir sem hnoðað renni undan og hafa þar náttból er það nemi staðar; vænti sig þess að það muni finna leið til Sigurðar kóngssonar ef hann sé á lífi. Helga tekur við hnoðanu og þakkar fóstru sinni vel. Eftir það kveður hún kerlingu og foreldra sína og heldur síðan til skógar; lætur hún hnoðað renna undan sér og fylgir því hvert sem það veltur. Þannig gengur hún í þrjá daga, en hvílir sig um nætur þar sem hnoðað nemur staðar, en það var jafnan í einhverju fylgsni. Að kvöldi hins þriðja dags kemur hún loks að einum miklum helli; þar veltur hnoðað inn, en hún gengur eftir. Þar sér hún inni ýmisleg amboð og þar á meðal ketil furðumikinn og svo aðra katla minni. Hinn mikli ketillinn stóð á hlóðum og voru þau svo víð á allan veg að þar gat vel falizt maður undir. Þangað veltur hnoðað og nemur stað í hlóðunum. Kemur Helgu nú til hugar að sér muni ráðlegra að verða eigi þegar fyrir augum hellisbúa er hann komi heim; skríður hún því eftir hnoðanu inn í hlóðin og hvílist þar um hríð. Og sem hún hefir búizt þar um fyrir stundu þá heyrir hún út dunur miklar sem þungt sé stigið til jarðar. Því næst kemur inn kona, harðla tröllsleg og stórskorin; sýndist Helgu hún hið mesta flagð. Hún hafði fuglakippu á baki. Hún kastar niður byrðinni og skyggnist um í hellinum og fussar við. Því næst býr hún sér kvöldverð og snæðir lyst sína; tekur síðan mat sem handa einum manni og fer innar í hellinn. Sér Helga að hún lýkur þar upp hurðu; var þar afhellir í bergið. Þar fer skessan inn og heyrir þá Helga að hún segir: „Heill og sæll, Sigurður minn. Hefir nokkur komið hér í dag?“ Sigurður kveðst einskis hafa orðið var. Skessa mælti: „Víst hygg ég að hér hafi einhver komið, því mér finnst mannaþefur í helli mínum og er mér grunur á að sá muni dyljast hér enn er komið hefir; en svo er nú sem allt sé í þoku fyrir augum mér og fæ ég ógjörla séð hvað fyrir er. Eða viltu nú, Sigurður minn, verða við bæn minni þeirri er ég hefi oft beðið þig?“ Sigurður kvað sér það fjarri skapi. Skessa mælti: „Þá mun ég drepa þig nema þú hafir gert vilja minn áður þriði dagur kemur.“ Hann segir að það muni á hennar valdi og kveðst heldur dauða kjósa en samþykkjast svo illum kosti. Eftir það skilja þau talið. Lýkur nú skessa aftur afhellinn og tekur síðan á sig náðir. Um morguninn hefir hún upp hið sama kalls við Sigurð, en hann hefir lík svör og fyrri. Síðan fer skessa í burt og er úti þann dag allan.

Þegar hún er farin skreiðist Helga á kreik og lýkur upp afhellinum; er þess ei getið hvernig hún fékk því orkað. Sér hún þar þá fyrir vin sinn Sigurð kóngsson. Verður þar mikill fagnaðarfundur með þeim. Kveðst Helga vera þar komin að leita hans og frelsa hann ef hamingjan vili lofa. Hún spyr nú Sigurð eftir hver sú bæn sé er skessan sé að neyða hann um. Hann segir það sé eiginorð og vili hún hann játi sér því og hóti sér dauða ella; en hann kveðst fyr skuli lífið láta en ganga að eiga slíka ófreskju. Helga segir þó líkast þar sem hann sé nú þannig kominn á vald skessunni að hann hljóti að gera henni þess nokkurn kost. Segir hún honum síðan hverju hann skuli fram fara, og skilja þau nú talið að sinni, en Helga fer aftur í fylgsni sitt undir katlinum. Um kvöldið kemur tröllskessan heim. Snæðir hún kvöldverð sinn og gengur því næst í afhellinn til Sigurðar og ber honum mat sem hið fyrra kvöldið. Spyr hún hann enn hvort engi hafi þar komið í dag; hann svarar sem fyr að hann hafi við engan orðið var. Þetta þykir skessu undarlegt; kveðst enn kenna mannaþef í hellinum og ætli hún víst að einhver dylist hér nálægt; sé sér og grunur á að gestur sá hafi inn komizt í afhellinn til Sigurðar og muni hann dylja hins sanna þó hún fái þetta eigi glöggt séð sakir huldu þeirrar er yfir liggi. Sigurður synjar þessa með öllu, enda segir hann eigi auðhlaupið inn til sín að læstri hurðu. Skessa fellir nú þessa ræðu, en spyr Sigurð hvað nú líði um bæn sína hvort hann vili enn eigi eiga sig. Sigurður segir það sé hvort tveggja að sér sé næsta óljúft að ganga að eiga hana slíkt flagð sem hún sé, enda virðist sér þeim ekki hent að binda saman lag sitt þar sem hvorugt þeirra eigi neitt og ekki sé til viðurlífis þeim nema það eitt sem hún veiði hvern daginn. „Ekki nema það!“ segir skessa; „en það er ekki víst að ég sé jafnsnauð sem þú ætlar; og sé ekki annað í vegi þá skal ég sýna þér reytur mínar; eða hvað heldurðu sé í kistunum þeim arna?“ Hún bendir honum á þrjár kistur sem þar stóðu. Hann kvaðst það eigi vita og bað hana sýna sér. Hún lýkur nú upp kistunum og sér þá Sigurður að tvær þeirra eru fullar af gulli og silfri, en í hinni þriðju eru ýmsir fágætir dýrgripir. Þar á meðal var rúm eitt lítið af skæru gulli; annar gripur var klæði, blátt að lit og alsett gullnu letri; hinn þriði var hallur einn fáránlegur og fylgdi þar með stálbroddur. Hallurinn var þrílitur; var ein röndin hvít, önnur rauð, en hin þriðja gul. Skessan mælti: „Sú er náttúra þessara gripa að gullrúmið má láta verða svo stórt sem henta þykir; á klæðinu má lesa sig í loft upp og fljúga hvert á land sem maður vill; en ef maður tekur hallinn og pjakkar broddinum í hvítu röndina þá kemur þegar slík kafaldshríð að ekki má í móti sjá; sé pjakkað í rauðu röndina þá kemur eldhríð svo ekki vætta fær staðizt; en ef hin gula röndin er pjökkuð þá kemur jafnskjótt hiti og sólskin.“ Sigurður lét sér mikið um finnast auðæfi þessi og einkum gripina. Lézt hann nú eigi lengur mundi mæla móti því að eiga skessuna ef það sé alvara hennar þar sem hún eigi alls kosti við sig og hafi þess utan slíka fullsælu fjár að þeim megi vel endast báðum og þá dýrgripi að slíkir munu hvergi finnast í heimi. Skessan verður nú harðla glöð við þetta og kveðst nú þegar að morgni vilja fara og bjóða vinum sínum í brúðkaup þeirra, en læzt þó fyrst verða að búa til veizlunnar og muni nú eigi af veita að matbúa í stóra katlinum. Sigurður lætur sér þetta vel líka og segist albúinn að annast um matreiðsluna eftir forsögn hennar svo hún þurfi ei að tefjast við það. Þetta þykir henni óskaráð. Taka þau nú á sig náðir og líður af nóttin.

Um morguninn er skessa árla á fótum og býst til ferðar. Segir hún áður Sigurði allt fyrir um tilbúning veizlunnar. Eftir það skálmar hún á stað og er skjótt úr augsýn. Þegar skessan er horfin hafa þau Sigurður og Helga sig á kreik. Tekur Sigurður nú hallinn og broddinn, fer út í hellisdyrnar og pjakkar þar sem mest má hann, ýmist í hina hvítu rönd eða í hina rauðu. Brestur þá þegar á hin grimmasta kafaldshríð með eldingum og gneistaflugi svo hvergi sér frá sér. Þessari lotu heldur Sigurður allan daginn og nóttina eftir; en sem birtir af degi skiptir hann um og pjakkar í gulu röndina. Hverfur þá jafnskjótt hríðin og kemur gott veður með hita og sólskini. Fara þau Helga nú út og skyggnast um. Sjá þau þá vegsummerki að skammt frá hellinum liggur tröllskessan dauð, unnusta Sigurðar, og umhverfis hana mikill fjöldi annara trölla; hafði hríðin banað þeim öllum. Þau Sigurður taka sér nú eld og kynda mikið bál, draga síðan flögðin þar á og brenna þau upp að köldum kolum. Eftir það taka þau klæðið góða og breiða niður, bera síðan á það gull allt og silfur og dýrgripi, það er í kistunum var. Því næst setjast þau bæði á klæðið og fljúga nú með allan þenna auð heim í kóngsríkið þangað sem faðir Sigurðar réði fyrir. Verða þar nú svo miklir fagnaðarfundir að ei má greina. Þykjast þau kóngur og drottning hafa heimtan son sinn úr helju. Er nú slegið upp fagnaðarveizlu og boðið til öllum beztu mönnum í ríkinu. Segir þá Sigurður upp alla sögu hvað yfir sig hafi liðið og hvernig Helga karlsdóttir hafi frelsað sig úr tröllahöndum. Beiðist hann nú samþykkis foreldra sinna að hann megi ganga að eiga hana og launa henni þannig lífgjöf og frelsi. Var það mál auðsótt af þeirra hendi. Er nú aukin veizlan og drukkið brúðkaup þeirra Sigurðar og Helgu; var þar veizla hin bezta með glaumi og gleði og að henni endaðri voru boðsmenn út leystir með virðulegum gjöfum.

Setjast nú ungu hjónin um kyrrt og tókust brátt með þeim góðar ástir. Að lyktum erfði Sigurður ríkið eftir föður sinn og stýrði því lengi síðan með Helgu drottningu sinni. – Og kann ég svo ekki þessa sögu lengri.