Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður kóngssonur, Helga og Hringjandi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sigurður kóngssonur, Helga og Hringjandi

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í koti sínu. Kóngur átti son sem Sigurður hét, en bóndi átti dóttir er hét Helga. Sigurður og Helga áttu að gæta hjarðar kóngs og skyldu þau drepin ef þau sofnuðu frá verki sínu.

Einn dag er þau sátu hjá fénu tók Sigurð kóngsson ákaflega að syfja og svo fór að hann sofnaði. En er hann var sofnaður fór Helgu og að syfja og hún sofnaði einnig. Skömmu síðar vaknar Helga; er þá Sigurður kóngsson allur á burt. Hún verður hrygg og veit ei hvað hún skal til bragðs taka. Fer hún heim til foreldra sinna og segir þeim hvar komið sé. Þau segja að hún skuli fara til kóngs og segja honum upp alla söguna. En hún vill það ekki og segist vilja leita því dauðinn væri sér svo vís hvort eð væri. Varð það og að hún fór á stað. Kom hún loks að koti einu. Þar stóð úti maður. Hún spyr hann hvort hann viti hvað orðið sé af Sigurði, en hann kvað nei við, en bað hana koma inn og taka á konu sinni – „því hún má eigi fæða,“ sagði hann, „nema mennsk kona hjálpi henni.“ Helga kvaðst þeim störfum óvanin, en þó fór hún inn og hjálpaði konunni. Spurði hún þá aftur manninn – hann hét Hringjandi – hvort hann ekki vissi hvar Sigurður kóngssonur væri. Hann kvaðst vita hvar hann væri, en sagði að örðugt væri að komast að honum. Hann sagði henni [að] fyrir ofan vatn nokkurt þar langt frá væru björg og á þeim væri Sigurður kóngssonur hjá skessu einni. Síðan gaf hann henni bát er hún gæti gjört svo stóran og lítinn er hún vildi og öxi er hún skyldi höggva sig upp klettana með og sagði að hún skyldi nefna sig ef mikið lægi við. Síðan fór hún á stað, kom að vatninu og komst yfir á bátnum, hjó sig síðan neðan klettana og er hún var þar komin sá hún hellir. Hún fór þangað og inn og sá þar Sigurð kóngsson í bæli einu sofandi; gekk hún að honum og vildi vekja hann, en gat ekki. Stakk hún sér þá milli stafs og veggjar. Um kveldið kom kerling ein heim ógurleg og vekur Sigurð, en ekki heyrði Helga hvað þau töluðust við. Um morguninn svæfði hún hann aftur og fór svo á stað. Helga fór þá fram úr fylgsni sínu og vildi vekja Sigurð, en gat ekki; fór síðan aftur í felur sínar og beið þess að skessan kæmi heim. Þegar skessan kom inn heyrði Helga hana segja: „Syngi, syngi svanur minn. Sigurður kóngsson vakni.“ Um morguninn er kerling fór af stað heyrir Helga hana segja: „Syngi, syngi svanur minn. Sigurður kóngsson sofni.“ Þegar kerling er á burt farin fer Helga fram og gengur að Sigurði og segir: „Syngi, syngi svanur minn. Sigurður kóngsson vakni“ – og vaknaði þá Sigurður strax. Segir hann henni að skessan vilji neyða sig til að eiga sig og segi við sig er hún komi heim á kveldin og er hún fari á morgnana: „Viltu drekka með mér? Viltu borða með mér? Viltu sofa hjá mér?“ En hann sagðist ávallt neita. „Nú skulum við þegar á stað,“ segir Helga. En Sigurður segist muni bíða til morguns; skuli hann í kveld er hún komi heim lofa henni öllu fögru og segja henni að fá sér alla lykla og skuli hann taka til matinn, en hún skuli sækja boðsfólkið; og nú skuli Helga svæfa sig aftur og gjörir hún það. Þegar kerling kemur heim vekur hún Sigurð og hefur upp við hann sömu orð og hún var vön. Hann svarar öllu fögru og segir henni að skilja sig eftir vakandi á morgun og fá sér alla lykla svo hann geti náð út matnum, en hún skuli sækja boðsfólkið. Þetta gjörir kerling. En er hún er farin á stað lýkur Sigurður upp öllum kistum hennar og tekur úr þeim allt eigulegt og hjálpaði Helga honum. Settu þau bátinn á vatnið og báru allt í hann. En er [þau] voru komin ofan í bátinn kom skessan fram á björgin og hafði með sér marga þríhöfðaða þursa. Stökk hún í vatnið og synti eftir þeim. Gat hún náð í borðstokkinn og ætlaði að hvölfa undir þeim. Datt þá Helgu Hringjandi í hug og hún sagði: „Nær skyldi mér liggja meir á Hringjanda mínum en nú?“ Var hann þá þegar kominn þar og hjó hann klóna af skessunni. Síðan fóru þau Sigurður og Helga heim til kóngs; varð mikill fagnaðarfundur og þau giftust.