Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður karlsson

Úr Wikiheimild

Einu sinni voru konungur og drottning í ríki sínu. Þau áttu eina dóttur sem hét Ingibjörg. Konungur var stórauðugur, en ekki stórvitur eins og þú munt fá að heyra. Um sama leyti og hér segir frá bjó kall og kelling í garðshorni og áttu einn son sem hét Sigurður. Þau voru svo fátæk að þau áttu ekki annað að lifa af en eina kú; en hún var afbragðs góð svo allar kýr konungs sem voru margar mjólkuðu ekki meira. Konungur öfundaði kall af kúnni og bað hann selja sér eða skipta við sig á öllum sínum kúm. „Það má ég ekki,“ sagði kall, „ég get ekki heyjað nema fyrir einni kú og annað hefi ég ekki að lifa af og dýraveiðum mínum.“ Konungi gramdist þetta, en varð þó að hafa svo búið. Skömmu eftir þetta dó kall. Þá hugsaði konungur hann mundi geta náð kúnni, fer til Sigurðar og biður um kúna, en hann neitar. Konungur hótaði honum hörðu, en það bætti ekki úr. Nú skilja þeir að sinni.

Skömmu eftir þetta bar það til eitt kvöld þá Sigurður kom af skógi að hann [fann] kú sína drepna. Ekki lét hann sér bregða við þetta, fló belg af kúnni og hirti slátrið. Daginn eftir gekk hann með kýrbelginn til sjávar og fyllti af gulum sandi, batt fyrir og færði út á ferju. Kaupskip lágu við land og réri Sigurður til þeirra. Hann býður kaupmönnum að kaupa af sér gullsand; það vildu þeir fegnir. Selur hann þeim þá belginn, en þeir gefa við gylltan stól, fögur kvenklæði og marga góða gripi. Með þetta fer Sigurður heim til sín. Daginn eftir breiðir hann þessa fögru gripi sína upp á kofa sinn móti konungsríki. En með því sólskin var sér konungur glóa á gersemin, gengur niður í garðshorn og spyr Sigurð hvornig hann hafi fengið alla þessa dýrgripi. Hann segir kaupmenn hafi gefið sér þá alla fyrir kýrhúðina sína. „Nógar á ég kýr,“ segir konungur, „og skal ég fá margfalt meira.“ Sama dag lætur konungur slátra öllum kúm sínum og sendir hirðmenn sína með húðirnar út á skip. Þeir bjóða kaupmönnum bjórana, en þeir hlógu að og sögðust ei kaupa húðir því nóg væri af slíku í sínu landi. Sneru þá hirðmenn sneyptir heim aftur og þótti konungi ferð þeirra hin versta. Daginn eftir finnur hann Sigurð og segir hann hafi gabbað sig og skuli hann launa honum það einhvern tíma. Litlu seinna en þetta var kemur Sigurður eitt kvöld af skógi. Finnur hann þá móður sína dauða í eldhúsi hryggbrotna um hlóðasteininn. Hann lætur sér ekki bilt við verða, tekur hana og færir úr lörfunum, þvær vandlega og klæðir [í] fötin góðu sem kaupmenn gáfu honum. Síðan fer hann með hana fram á sjávarkletta þar sem hafskip lá undir, setur hana á gullstólinn góða niður á bergið og kallar út á skipið. Kaupmenn útlendir voru á því. Hann spyr þá hvort þeir vilji ekki kaupa systur sína sem siti þar á stólnum. Þeir sáu að konan var prúðbúin og stóllinn sem hún sat á sem gull. Því hugsuðu þeir þetta væri einhver hefðarmey og kváðust gjarna vilja kaupa, en þeir vissi ei hvernig þeir gæti náð meyjunni. Sigurður sagði þeir skyldi leggja skipinu sem næst hamrinum og fella svo tré af því á klettinn. Þeir gjörðu þetta og gekk einn af kaupmönnum upp. Sigurður tók upp stólinn með konunni á og rétti kaupmanni, en hratt á eftir svo allt hrökk út af trénu og niður í sjó. Kaupmanni var bjargað, en meyjan drukknaði og stóllinn sökk. Nú varð Sigurður bálreiður og sagði kaupmenn yrði að bæta sér þetta er þeir hefði nú drepið systur sína og sökkt gullstólnum. Þeir sögðust mundi gefa honum stórfé ef hann léti sér það lynda því þetta hefði farið stórilla. Nú gáfu þeir Sigurði of fjár í gulli, silfri og gersemum. Að þessu búnu fór hann heim til sín. Daginn eftir breiðir hann út á kofann allar gersemar sínar móti kóngsríki og skein sólin á. Þegar konungur sér þetta kemur hann á fund Sigurðar og spyr hvaðan honum hafi komið allt þetta fé. Hann segir að móðir sín hafi dáið skyndilega, en hann hafi fært kaupmönnum líkið og hafi þeir gefið sér þetta fyrir. „Nóg á ég kvenfólk,“ sagði konungur, „og skal ég láta ráð þitt mér að kenningu verða.“ Daginn eftir lét konungur taka af lífi margar konur sem hann átti vald yfir og sendir með líkin til kaupmanna. En er þeir sáu svo mörg lík flutt út á skip sitt urðu þeir sem að gjalti og spurðu hverju það sætti að menn færðu slíka vöru til sín, urðu óvægir og ráku konungsmenn aftur í land með skrokkana og veittu þeim mörg ill orð og hæðileg. Þegar konungur fekk að vita þetta varð hann ævareiður, sendi eftir Sigurði og sagðist nú láta drepa hann; – „hefur hann gabbað mig svívirðilega“. Nú lætur hann fjóra hirðmenn fara með strák og skipar þeim að binda stein um háls honum og kasta í tjörnina botnlausu. Hún var langt frá borginni og fóru nú hirðmenn með Sigurð af stað þangað. Á leiðinni biður hann þá lofa sér að ganga lítið eitt afsíðis nauðsynja sinna; – „getið þér haft gætur á mér og mun ég ekki hlaupa úr höndum yðar.“ Þeir létu þetta eftir honum. En þegar hann var kominn fáa faðma frá þeim brá hann við og hljóp í skóginn. Þeir hlupu þegar á eftir og leituðu hans, en fundu aldrei. Þá tóku þeir ráð sín saman að dylja þetta slys sitt, en segja konungi að þeir hefði drekkt Sigurði. Þetta gjörðu þeir og þakkaði konungur þeim handarvikið. Nú lætur hann fara niður í garðshorn og leita að gersemum Sigurðar, en enginn fann neitt. Þótti konungi það næsta illt. Eftir þetta liðu tvö ár og varð ekkert vart við Sigurð. Þá ber það til eitt sinn að maður kemur nærri höll konungs tigulega búinn og rekur undan sér mikinn fjárhnapp. Þessi maður gengur fyrir konung og heilsar honum. Konungur tekur vel kveðju hans og spyr hver hann sé. Hann segir: „Þekktuð þér mig fyrir tveim árum; ég er Sigurður kallsson sem þér létuð drekkja í tjörninni botnlausu. En það fór ei sem þér ætluðuð. Ég leið ofan eftir lengi og lengi þangað til ég kom loks á græna völlu. Þar var hið fegursta land og fjöldi fjár. Þar voru og alls konar aldini dýrmæt og fagrir skógar. Í þessu fagra landi hefi ég nú verið tvö ár, en ég vildi láta yður vita hversu þar er allt fegra og auðugra en hér og til sannindamerkis tók ég með mér tvö hundruð af undirheimafénu; en ég átti svo erfitt að koma því upp, því ég var hundlaus. Hefi ég verið að smáflytja það bæði þessi ár.“ Þetta þótti konungi furðuleg saga og fýsti mjög að skoða þenna nýja heim og afla sér þar fjár; – „mun ég fara sjálfur með Rauð ráðgjafa minn og nokkra hirðmenn. Þá skal ei heldur gleyma að hafa dýrhundinn minn.“ Þegar drottning heyrði þetta vildi hún fara með þeim. Sigurður bauðst til að fylgja öllu ofan eftir. Síðan var farið út að tjörninni með langan kaðal. Sigurður batt þungan stein í annan endann, því næst konung og drottningu og svo hvern af öðrum; en sjálfur sagðist [hann] mundi verða á eftir við seinni kaðalendann. Nú var öllu hleypt niður og sleppti Sigurður þá kaðlinum. Nú gengur hann heim í konungsríki og finnur Ingibjörgu. Gjörir hann henni tvo kosti, að eiga sig eða hann láti hana fara sömu leið og föður hennar; segist vera búinn að drekkja honum og öllu hyski hans sem fór með honum. Hún kaus heldur að eiga Sigurð. Þá segir hann henni að hann hafi falið í jarðhúsi allan auð sinn áður en faðir hennar lét taka hann; – „þá slapp ég og frá hirðmönnum föður þíns sem áttu að drekkja mér. Fór ég síðan víða um land og keypti fé fyrir silfur mitt og gull. Nú hefi ég seinast gabbað föður þinn svo að ég gat drekkt honum og Rauði ráðgjafa. Tel ég að ég hafi nú hefnt móður minnar og föður sem faðir þinn lét bæði drepa.“ Síðan gekk Sigurður að eiga Ingibjörgu og tók við ríkinu. Var hann þar konungur til elli og stýrði viturlega. Þau Ingibjörg unnust allvel – og lýkur svo þessari sögu.