Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður karlsson og kóngssynir í álögum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sigurður Karlsson og kóngssynir í álögum

Einu sinni réði kóngur og drottning fyrir ríki og áttu sér fjóra sonu og eina dóttir. Þar bjuggu skammt frá kall og kelling í garðshorni og áttu þrjá sonu; hét hinn yngsti Sigurður. Þau höfðu hann út undan og létu hann liggja í öskustónni, en þókti mikið vænt um hina báða sonu sína.

Það var einn tíma að drottning tók sótt og andaðist. Varð hún harmdauð því hún var kvenna vænst og góðhjörtuð og eins var kóngsdóttir skapi farin. Þá lét konungur búa til skemmu út frá borginni handa börnum sínum og fékk þeim þénara til að þjóna þeim. Að þremur árum liðnum fóru menn konungs að vekja máls á því að hann skyldi fara útvega sér konu og staðfesta ráð sitt. Konungur tók því vel og lét útbúa skip til ferðar þeirrar og sendi sína hollustumenn á skipinu að biðja sér konu, en bað þá að taka hana hvorki af eyjum eða útskerjum.

Nú lögðu þeir í haf og mættu veðrum og villum þar til þeir komu að eyju einni. Gengu þeir þar á land. Komu þeir þar sem skógur var, en í einu rjóðri í skóginum sáu þeir dægilega konu sitja á gullstóli og kembdi sér með gullkambi og var að gráta. Þeir spurja hana því hún væri þar, so væn og dægileg kona. Hún svaraði að kóngurinn sinn hefði verið drepinn í stríði. Þeir spurðu hana hvort hún mundi vilja fara með þeim og giftast konungi sínum. Hún kvað það næst þegar hann hefði misst drottninguna, en hún kónginn, að þau tækju saman. Fóru þau til skips og héldu heimleiðis; þá birti upp þokunni.

Þegar þeir komu heim tók konungur með hinni mestu viðhöfn móti henni og leiddi hana til hallar. Fór so fram þangað til þau giftust. Var þá boðið fjölda fólks, en börn konungs komu ekki til veizlunnar. Kvað drottning það nokkuð undarlegt að börn hans skyldu ekki koma til veizlunnar og þau skyldu aldrei hafa virt sig þess að láta sig sjá sig. Konungur sagði þeim væri illt og væru líka óvön samkvæmi. Drottning sagði það mundi heldur vera hitt að þau forsmáðu sig og fyrirlitu.

Nokkru eftir veizluna spurði drottning kóng hvað langt væri síðan að hann hefði tekið skatt af löndum sínum. Kóngur kvað langt síðan. Hún kvað honum betra að fara til þess. Konungur bjó sig þegar til ferðar og fór síðan af stað að taka skatta og skyldur af löndum sínum. Þegar að konungur var farinn fór drottning til skemmu stjúpbarna sinna og bað þau að ljúka upp, en piltarnir vildu ekki gjöra það hvornig sem hún hótaði þeim hörðu þangað til hún blés í skráargatið og laukst þá upp hurðin. Þá mælti hún með mikilli reiði: „Legg ég á og mæli ég að þið skuluð verða að nautum og aldrei komast úr þeim álögum fyrr en maður gefur ukkur þá fæðu sem þið viljið éta og mun það seint verða.“ Þeir mæltu: „Leggjum við á þig og mælum við að þú skalt verða að flagði og hafa annan fótinn á skemmu þessari en hinn á múrveggnum og skal logandi bál kyndast upp undir þig þangað til við erum komnir úr álögunum; þá skaltu detta ofan í bálið og drepast.“ Hún sagði: „Haldist hvorugt!“ Þeir sögðu: „Haldist hvurtveggja!“ Urðu þeir þá að nautum og höfðu náttstað í kofa langt frá borginni, en á morgnana hvurfu þeir út á skóg, en hún varð að flagði yfir hinu brennandi báli. Kóngsdóttir komst frítt því hún hafði ekki heyrt á tal þeirra drottningar og kóngssona.

Þegar konungur kom heim og heyrði þessi tíðindi þókti honum illt að vita sonu sína í þessari ánauð; hét því hverjum þeim ríkinu og dóttir sinni sem leystu þá úr ánauð þessari, en hét þeim öllum dauða sem ekki gætu það en reyndu þó til þess. Gáfu sig nú margir til og misstu því lífið að þeir gátu það ekki.

Nú kemur elzti sonur þeirra karls og kerlingar í garðshorni að máli við foreldra sína og kvaðst vilja reyna hvort hann gæti ekki náð ríkinu og konungsdóttur með því að leysa þá bræður úr ánauðinni; en þau löttu hann þess og sögðu að þau mættu ekki missa hann ef hann kynni að missa lífið eins og aðrir sem það hefðu reynt, en það tjáði ekki; kvaðst hann mundi fá heldur ríkið og kóngsdóttur. Fer hann nú og kemur að máli við konung og segir honum fyrirætlan sína. Konungur segir hann muni hafa heyrt hvað við lægi sem væri að missa lífið. Hinn kvaðst það ekki hræðast. Fer hann nú snemma morguninn eftir og til nautahússins; eru þau þá að standa upp. Fer hann nú með þeim og út á skóginn þangað til hann sér hvar maður er að högga við. Hann kallar til hans og segir: „Kondu til mín og hjálpaðu mér að gjöra til kola því í kvöld skal ég fá þér það sem nautin vilja éta.“ Fór hann nú til hans og dugði hið bezta hann gat, en nautin runnu út á skóg. Þá kvöld var komið komu nautin aftur. Fær þá kolamaður honum heyvindil og vatnskrús og þakkar honum fyrir tilhjálpina. Fer hann nú heim til konungs og færir honum þetta. Morguninn eftir fara þeir snemma til nautanna; eru þau þá að standa upp. Réttir konungur að þeim heyvöndinn og vatnskrúsina, en þau vildu ekki éta né drekka. Lét konungur nú drepa hann þegar þeir komu heim. Eftir þetta kemur annar sonur þeirra í garðshorni að máli við foreldra sína um þetta efni; en þau löttu hann til ferðarinnar, en hann hafði hug á kóngsdóttir og vildi því ekki annað en fara. Þarf ei orðlengja það að allt fór eins fyrir honum og hinum fyrri bróður.

Nú þegar Sigurður frétti allt þetta reis hann upp úr öskustónni og bað foreldra sína um fararleyfi að frelsa kóngssonu úr ánauðinni. Þau kváðust verða fegin að hann yrði drepinn so hann væri ekki þeim til leiðinda því hann mundi ekki bera til þess meira vit eða gæfu en hinir bræðurnir. Ráku þau hann nú af stað. Kemur hann nú til kóngs og segir honum fyrirætlan sína. Kóngur ræður honum frá því og segist ekki vilja láta drepa eins vænan mann og hann sé. Hann fer nú samt og til nautahúsins; þá vóru þau að standa upp. Hann fer út á eftir þeim og leggur höndina á hrygginn á minnsta nautinu því það gekk seinast. Fara nú nautin út á skóginn. Þá sér hann mann í skógnum er kallar til hans og segir: „Brenndu með mér kol í dag; í kvöld skal ég fá þér það sem nautin vilja éta og drekka.“ „Nei,“ segir Sigurður, „ég verð að fylgja nautunum.“ Var hinn alltaf að kalla, en hann gegndi ekki, heldur fór með nautunum og hélt hendinni á hryggnum á litla nautinu. Að stundu liðinni heyrði hann óhljóð og bresti í skógnum. Urðu þá nautin hrædd og fóru að hlaupa so hann hafði valla eftir þeim; þó sleppti hann aldrei hendinni af litla nautinu. Nú minnkuðu þessi óhljóð, en nautin runnu alltaf eftir skógnum þar til þau komu að elfu; þar köstuðu þau sér út í, en litla nautið stóð við eins og það vildi hann færi upp á sig. Fór hann nú upp á nautið, en það synti með hann og yfrum. So runnu þau þangað til þau komu að einu húsi. Þar fóru þau inn, en hann var úti og heyrði umbrot í húsinu. Gekk hann þá inn og sá hvar fjórir sveinar dægilegir voru inni, en nautahamirnir á gólfinu. Þeir settust við borð sem í húsinu var og fóru að éta og gáfu honum sinn brauðbitann hver og sinn víndropann hver. Hann lét brauðið í klút, en vínið í krukku og stakk á sig. Síðan fóru nautin í burtu og syntu með hann yfir elfuna og hann hélt alltaf hendinni á hryggnum á litla nautinu þangað til að þau komu heim. Sá hann ekkert þá til kolamannsins[1] eða að nokkur hrísla hefði verið tekin upp. Fór hann nú heim til konungs og sýndi honum. Þeir fóru nú um morguninn til nautahússins og fékk nú konungur nautunum brauðið og vínið hvert þau átu strax. Fóru þeir nú út á meðan þeir voru að brjótast úr hömunum. Að því búnu komu þeir inn og sáu hvar þeir lágu sem dauðir á gólfinu. Sendi þá konungur Sigurð heim til dóttur sinnar að biðja hana að koma þangað með vínflösku til að dreypa á þá. Að því búnu röknuðu þeir við og héldu síðan öll heim til hallar. Datt þá drottningin ofan í bálið og brann upp til kaldra kola. Konungur sló þá upp mikilli veizlu og gifti síðan Sigurði dóttur sína og gaf honum hálft ríkið og allt eftir sinn dag. Sigurður tók foreldra sína til sín. Þau Sigurður og kóngsdóttir unntu hvort öðru og [voru] elskuð af öllum undirsátum þeirra og dóu í góðri elli. – Og nú kann ég ekki þessa sögu lengri.

  1. Það átti að vera fjandinn að tilhlutan drottningar að villa nautamennina. [Hdr.]