Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sigurður og Ingibjörg

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sigurður og Ingibjörg

Það var einu sinni kóngur og drottning réðu fyrir ríki, áttu sér eina dóttir sem hét Ingibjörg. Og karl bjó þar skammt frá er átti son sem Sigurður hét. Þau ólust nú upp þar til þau voru tíu vetra gömul og voru þau saman á leikum daglega og gátu ekki skilið.

Einu sinni kemur Ingibjörg að máli við föður sinn og biður hann að láta byggja þeim Sigurði kastala og var það gjört. Skömmu síðar andaðist drottning og lagðist konungur í sorg eftir hana og lá ár. Einu sinni koma ráðgjafar hans að máli við hann og bjóða honum að útvega honum drottningu og þáði hann það, en bað þá að taka hana hvurki af eyjum né annnesjum. Þeir lofa því og fara síðan á stað og lentu í hafmyrkur svo þeir vissu ei hvað þeir fóru þar til þeir komu að einni eyju og gengu þar á land. Þeir heyra mikið fagran söng og ganga á hljóðið þar til þeir koma í eitt rjóður. Þar sjá þeir eina konu hvar hún er að spila á hljóðfæri. Þeir heilsa henni og spurja hana að heiti og kvaðst hún heita Gríma og hafa verið drottning, en her hafi komið og drepið konung og hafi hún þá flúið á þessa eyju. Þeir biðja hana að fara með sér og eiga konung sinn; og héldu þau á stað og birti þá upp þokunni og segir ekki af ferðum þeirra fyr en þau koma að landi konungs og kom hann móti þeim í gullvagni og eftir mánuð giftust þau og líður fyrsti veizludagur. Annan veizludag segir drottning við konung hvurt hann eigi engin börn og kvaðst konungur eiga eitt barn og væri það stúlka og héti Ingibjörg og hjá henni væri jafnaldri hennar og héti Sigurður og væri karlsson. Liðu nú stundir svo ekki ber til tíðinda.

Eitt sinn kemur drottning að máli við konung og spyr hvurt hann hafi tekið skatt af löndum sínum síðan hann hafi misst drottningu sína og kvað hann það ekki verið hafa og segir hún það mál vera. Býst nú konungur til ferðar. En fyrsta dag eftir fer drottning til kastala kóngsdóttir og var Sigurður hjá henni. Biður drottning við þau að þau skuli ganga með sér til skemmtunar, og fara þau á stað þar til þau koma á sjávarströnd. Sjá þau þar kistu eina mjög stóra. Fer drottning þar ofan í og segir hún þá við þau að þau skuli fara bæði. Skellti hún þá í lás og segir: „Legg ég á og mæli ég um að kista þessi stanzi ei fyr en við björg Blákápu systir minnar.“ Vissu þau nú ekki fyr en kistan rakst á land. Skömmu síðar kemur tröllið og varð mjög glöð er hún fann sendinguna, en sagði að það væri ekkert matartap í þeim og sagðist verða að hafa þau hjá geitum sínum. Eftir hálfan mánuð fór hún að taka á þeim og kvaðst mundi verða að ala þau annan hálfa mánuðinn. Þegar hann var liðinn fór hún að vita um þau og fannst henni mál að fara að steikja þau. Daginn eftir tók Sigurður hafur og kiðu og slátraði, fló af þeim belgi og fóru þau svo í þá. En þegar kerling fór að telja út kiðurnar og ætlaði að fara að taka þau þá voru þau sloppin út og hafði hann náð sverði kerlingar sem hangdi fyrir utan hellirsdyrnar. En þegar hún atlaði að ná því hjó hann hana banahögg og brenndu þau skrokkinn; og liðu svo þrír dagar.

Fjórða daginn koma þau út og sjá skip. Fóru þau þá að kalla. En þegar þau fundu skipbúa voru það sendimenn frá föður hennar að leita að henni. Fóru þeir síðan heim með hana. En þegar hún kom heim var verið að kynda bál til að brenna föður hennar. Skipaði hún að hætta við það og lét taka drottninguna og brenna. Fóru þau síðan heim. Skömmu síðar kom Sigurður og bað Ingibjargar; en konungur sagði það skyldi aldrei verða. En skömmu síðar andaðist konungur. Fékk þá Sigurður Ingibjörgu og varð konungur. Ríkti hann þar til elli og er mikil ættin af honum komin.

Lýkur hér sögu Sigurðar [og Ingibjargar].