Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Smjörkvartilið

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni kóngur og drottning [sem] réðu fyrir ríki; þau áttu eina dóttur sem Ingibjörg hét. Kall og kelling bjuggu þar í garðshorni; þess er ekki getið að þau ættu neitt barn, en voru fátæk og áttu litla matbjörg. Samt áttu þau eitt kvartil fullt af smjöri sem kall hafði undir sinni hendi og ætlaði að geyma til seinni tíma nauðþurftar. En kellingartötrið var oft svöng og langaði til að taka sér smjörbita úr kvartilinu, en fékk aldrei færi á því vegna kallsins. Hún hugsaði því einu sinni að reyna til með einhvörjum ráðum að ná í það og var nú lengi að velta fyrir sér í huga sínum að hafa þau sem hyggilegust svo kall skyldi ekki taka smjörið til vara. Um síðir dettur kellingu gott ráð í hug, að henni finnst, því hún var lagleg yfirsetukona.

Einn góðan veðurdag sem oftar fór nú kallinn á skóg og hafði kellingu sína með sér eins og hann var vanur. Þegar hann var búinn að höggva stundarkorn þá gellur kelling upp og segir: „Á-á, á-á! Hvað vilji þið mér?“ „Hvað er þetta?“ segir kall. „Og það er verið að kalla á mig úr kóngsríki til [að] sitja þar yfir einhvörri,“ segir kelling. „Jæja, þér er þá bezt að fara,“ segir kall. Nú þóktist kelling vel hafa komið ár sinni fyrir borð og hugsar sér nú að brúka þetta óskaráð oftar. Nú flýtti hún sér heim í garðshorn, leysir sem fljótast ofan af kvartilinu og rífur smjörið ofan í sig eftir vild sinni. Svo tók hún líka nokkuð meira handa sér að éta seinna og nú var komið spannar borð á kvartilið. Um kvöldið læzt nú kelling koma heim úr kóngsríki. Kall spyr yfir hvörri hún hafi þar setið. „Ég sat yfir drottningunni kóngsins,“ segir kelling. „Hvað heitir barnið?“ segir kall. „Spönn heitir spök mey,“ segir kelling. Kallinn trúði nú þessu. Annan daginn fór nú kall á skóg með kellingu sína og þegar þau eru búin að dvelja þar dálitla stund þá segir kelling: „Á-á, á-á! Hvað vilji þið mér?“ „Hvað er þetta?“ segir kall. „Það er verið að kalla á mig úr kóngsríki til að sitja yfir kóngsdótturinni,“ segir kelling. „Jæja, þér er þá bezt að fara,“ segir kall. Nú fer kelling og tölti heim í garðshorn og reif smjörið upp úr kvartilinu ofan undir spons. Um kvöldið þegar hún lézt vera komin heim aftur þá spurði nú kall hana hvað barnið heiti. „Spons heitir spakur sveinn,“ segir kelling. „Nú er heima,“ segir kall. Eftir þetta einn góðan veðurdag fóru þau kall og kelling á skóg. Þá eftir lítinn tíma liðinn kallar kelling upp og segir: „Á-á, á-á! Hvað vilji þið mér?“ „Hvað er þetta?“ segir kall. „Það er víst verið að kalla á mig úr kóngsríki,“ segir kelling. Kall segir að henni sé þá bezt að fara. Hún fór nú eins og fyrr heim í garðshorn og át eftir vild sinni smjörið úr kvartilinu og tók sér líka nokkuð meira þangað til blámaði fyrir botninum. Um kvöldið spurði kallinn hana yfir hvörri hún hefði setið. Hún segist hafa setið yfir gullsmiðsfrúnni. Kall spyr hvað barnið heiti. „Og Botn heitir burðugur sveinn,“ segir kelling. „Það er rétt,“ segir kall. „Ég fæ nú áður en langt um líður vísbendingu heiman frá kóngsríki hvönær ég á að sitja yfir eldabuskunni,“ segir kelling. „Æ-jæja,“ segir kall. Daginn eftir fóru þau kall og kelling á skóg. En eftir tímakorn liðið þá segir kelling eins og fyrr: „Á-á, á-á! Hvað vilji þið mér?“ „Hvað heyrirðu nú?“ segir kall. „Það er verið að kalla á mig úr kóngsríki eins og mig grunaði í gær,“ segir kelling. Kall segir að hún skuli þá fara. Kelling fór nú eins og fyrr heim í garðshorn og tók það sem eftir var í kvartilinu nema ofurlítið gráðakorn sem hún lét vera eftir í einni lögginni. Um kvöldið spyr nú kall hana hvað barnið heiti. „Og Lögg heitir liljan gulls,“ segir kelling. „Það er svo; þetta þykja mér minnileg nöfn,“ segir kall. Honum varð nú reikað út þangað sem kvartilið stóð og sá hann þá að það var orðið tómt. Kalli brá nú æði mikið í brún við þetta og hugsaði að láta kellingu sína úttaka á sjálfri sér gjöld fyrir athæfið. Svo gekk hann nú inn til kellingarinnar og krafði hana til að segja sér allt eins og var um breytni hennar þessu viðvíkjandi og svo tók hann hana og barði undir dauðann.