Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Tólf kóngssynir

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Tólf kóngssynir

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu tólf sonu og eina dóttur sem Ingibjörg hét. Ekki er getið um nöfn kóngssona þessara nema tveggja; hinn elzti hét Þorsteinn, en Sigurður hinn yngsti. Þess er getið að þegar Sigurður var ellefu ára kemur hann að máli við föður sinn og biður hann að lofa sér í hernað; en faðir hans svarar að til þess sé hann ennþá of ungur. Þegar hann er á tólfta ári nefnir hann þetta aftur við föður sinn, en hann fær hið sama svar, að ennþá sé hann of ungur og hann leyfi honum ekki að fara. Þegar Sigurður er á þrettánda ári ber hann málið ennþá upp fyrir föður sínum og sömuleiðis allir bræður hans sem einnig vilja fara í hernað. En faðir þeirrar svarar því að hann gefi þeim ekki fararleyfi fyr en Sigurður sé fjórtán ára.

Næsta ár ganga allir bræðurnir fyrir föður sinn og segja honum að nú muni þeir af landi burt og í hernað, hvort sem hann leyfi eða banni, enda sé nú Sigurður orðinn fjórtán ára. Konungur kvaðst nú ekki mundi hamla þeim – „en ekkert skip ljæ ég ykkur,“ segir hann; „þrjátíu menn getið þið fengið og hesta handa þeim, og hafið þið þar þrjátíu riddara.“ Þegar Ingibjörg kóngsdóttir fréttir þetta verður hún angurvær mjög. Hún unni Sigurði bróður sínum mjög og hafði oft sagt honum að sér félli þungt hugur um hernaðarferð hans.

Nú fara kóngssynir af stað og ríða jafnt og stöðugt í þrjá daga. Þá er þess getið að þeir komu að eik einni og leggja sig til svefns. Þeir sofa nokkra stund þangað til Sigurður vaknar fyrstur og vekur hina alla. Sigurður segir að nú sé ekki um annað að gjöra en að halda áfram hið bráðasta því þeir muni eiga slæmt veður í vændum. Þeir leggja upp og raðar Sigurður mönnunum eftir aldri, þannig að elzti riddarinn er fremstur, en Sigurður aftastur því hann var yngstur. Síðan fær hann þeim kefli nokkurt eða stöng og heldur riddarinn sem á undan reið í annan endann, en Sigurður í hinn. Það náði þannig fram á höfuð á fremsta hestinum og aftan til á lend á aftasta hestinum þegar hver reið á eftir öðrum, svo langt var keflið. Nú gjörði á þá blindöskubyl svo þeir sáu ekkert hvað þeir fóru, en því veitti Sigurður eftirtekt að bylurinn náði aldrei lengra en að þeim endanum á keflinu sem hjá honum var. Þeir halda áfram í bylnum sem versnaði meir og meir svo að gekk úr öllu hófi. Nú varð sá atburður að allir riddararnir og hestar þeirra duttu dauðir niður. Hestar bræðranna tóku nú óðum að letjast og svo fór á endanum að þeir duttu einnig dauðir niður. Nú fór bylurinn að stytta upp og sjá þeir þá að þeir eru komnir að á nokkurri svo breiðri að þeir sjá valla yfir hana. Sigurð fýsti samt að komast yfir fljótið og hann tekur það ráð að hann þekur búkinn á hesti sínum með áklæðunum af hinum hestunum og leggur til sunds og kemst yfir, rekur síðan hestinn yfir um aftur og bræðurnir eru þangað til að að þeir komast þannig selflutning á hestinum yfir ána. Halda nú bræðurnir frá ánni og eru þeir svo máttfarnir af kulda og þreytu að þeir geta ekki gengið. Sigurður sem ennþá var heilbrigður tekur það ráð að hann flytur bræður sína spotta og spotta á hestinum og er að því þangað til hann kemur að kotbæ einum. Hann ber að dyrum og kemur bráðum út stúlka hnuggin mjög og útgrátin. Sigurður spyr hvert hún sé hér húsráðandi, en hún neitar því. Hann spyr hvert að tólf kóngssynir muni geta fengið hér gistingu í nótt. „Ég vildi þið beidduð hér ekki um næturgistingu,“ segir hún, „því ef þið verðið hér í nótt verður það ykkar bani; er stutt hér til næsta bæjar og er ykkur ráðlegra að gista þar.“ „Ekki er nú hægt að halda lengra,“ segir Sigurður; „bræður mínir eru að dauða komnir hvort heldur er, og vildi ég nú finna húsráðanda.“ Stúlkan fer síðan inn og kemur von bráðara kona til dyra, ærið fasmikil og svo mikil óskapaskepna að þeir þóttust ekki slíka séð hafa. Sigurður mælti: „Vér erum komnir hér á þínar náðir, biðjum gistingar og erum þjakaðir mjög.“ Konan sagði að gistingin væri þeim víst velkomin – „og er það ekki vani minn að úthýsa og allra sízt slíkum gestum sem þér eruð.“ Hún býður þeim síðan inn. Sigurður biður konuna fyrir hestinn sinn og kveðst hún muni gæta hans vandlega. Sigurður vill fá að láta hestinn inn sjálfur, en það fær hann ekki. Nú eru dregin af bræðrunum vosklæði og fengin þur og hrein föt. Síðan er þeim borinn matur. Því næst er þeim boðið að fara að hátta. Konan vill taka fötin og færa á burt, en Sigurður kveðst því óvanur að fötin séu tekin frá sér þegar hann hátti; og varð ekki af því. Þá leiðir konan þá upp í loft eitt mikið og fallegt. Þar sjá þeir tólf rúm uppbúin. „Í þessum rúmum er ykkur nú ætlað að hvíla,“ segir konan, „og er það von mín að þið fáið góða og væra hvíld í nótt.“ Hún spyr þá að aldri og raðar þeim eftir honum í rúmin, þannig að sá elzti verður fremstur og hinn yngsti innstur. Hún segist nú ekki geta sýnt þeim meiri sóma nema hún ljái þeim tólf dætur sínar til að hvíla hjá og það sé þeim velkomið ef þeir vilji þiggja. Þeir kváðust reyndar slíkum góðgjörðum óvanir, en það væri þó vandi vel boðnu að neita. Konan gengur síðan í burt og kemur að vörmu spori með tólf stúlkur vel búnar og fríðar sýnum; er ein grátandi og er það hin sama og áður kom til dyranna. Konan raðar stúlkunum eftir aldri hjá kóngssonum; þær hátta og fara bráðum að sofa og hrjóta, en hún gengur burt. Það hittist svo á að stúlkan sem grét varð hjá Sigurði. Hann spyr hana að nafni. „Ég heiti Helga,“ segir hún. „Ertu dóttir konunnar?“ segir hann. „Nei, ég er kóngsdóttir og hefur hún rænt mér,“ segir hún. „Eru hinar stúlkurnar dætur hennar?“ segir Sigurður. „Já,“ segir Helga, „hún hefur átt þær með kóngum og kóngssonum sem hún hefur rænt og töfrað til sín, en drepið síðan.“ „Geturðu ekki kennt mér ráð svo hún komi því ekki fram að drepa okkur?“ segir Sigurður. „Þar sé ég ekki ráð til,“ segir Helga; „en þó væri reynandi að þú hvíslaðir að bróður þínum þeim sem næstur er að hann skuli segja við stúlkuna að hann geti ekki sofið nema stúlkan sé fyri framan og síðan hvísli þessu hver að öðrum svo allar stúlkurnar séu fyri framan. En hvað mig snertir þá er undir því komið ef þú vilt frelsa líf mitt að þú sért nógu fljótur að ná um öxina, en ég mun flýta mér að kveikja ljós.“

Nú líður lítil stund þangað til að heyrast dunur miklar og dynkir svo að húsið skalf og nötraði. Kemur þá kerling með öxi í hendi og er svo fasmikil og óhemjuleg að undrum sætir. Hún heggur höfuðið af öllum þeim sem fyri framan eru í rúmunum og kastar höfðunum í gat sem er á gólfinu svo þau hrynja niður í kjallara. Nú kemur þessi hrikaleikur að Sigurði og er það ekki að orðlengja að hann nær þegar um axarskaftið og í því sama vetfangi hefur Helga kveikt ljós. Kerling stendur þar á gólfinu ljót og tröllaleg á að líta. „Það er þér nú, Helga, að kenna að ég hefi drepið allar dætur mínar,“ segir hún. „Mæli ég nú svo um að þið standið allir tólf kóngssynir sem dæmdir meðan ég mæli: Skuluð þið hér eftir verða að nautum, halda til í þessu húsi og borða hér mat, leggja af ykkur hamina á meðan þið eruð hér, en liggja á nóttinni undir skíðgarði föður yðar. Skuluð þið ekki úr þeim álögum komast fyrri en maður einhver kemst til ykkar sem borðar einn bita og drekkur eitt staup hjá hverjum ykkar, og mun það seint verða. En þú Helga skalt hrökklast upp á eyðifjall að tveimur brunnum og ekki annað aðhafast en að ausa vatn úr einum brunninum í annan, og skal engi annar þér úr álögum geta komið nema sá sami sem kemur kóngssonunum úr álögum.“ Ráðast nú kóngssynir á kellingu og verður aðgangur þeirra bæði langur og harður; færast áflogin ofan stiga, út um dyr og út á völl; en þar kom um síðir að þeir gátu drepið kellingu.

Nú er frá því að segja að kóngssynir klæða sig og fer Sigurður að gæta að hesti sínum og finnur hann þá hungraðan og strengdan í hesthúsi. Verða nú kóngssynir að nautum og eru hjá skíðgarði föður þeirra um nætur, en Helga hverfur til fjalls.

Nú er þar til að taka að konungur faðir kóngssonanna átti ráðgjafa ráðsettan og gætinn. Honum verður einu sinni litið á nautahóp þenna, skýrir konungi frá og spyr hvert að nokkur muni sá vera í ríki hans sem eigi svona mörg naut. Konungur kveðst ekki vita til þess. Þegar Ingibjörg kóngsdóttir heyrir getið um nautin tekur hún sér ferð á hendur að skoða þau. Kemur þá eitt nautið til hennar með miklum vinalátum og eltir hana síðan heim að hallardyrum. Hún segir föður sínum að sér sýnist augun í nautinu líkjast mjög augunum hans Sigurðar bróður síns – „og er slíkt undarlegt,“ segir hún. Hún ber síðan þá bæn upp fyrir föður sínum að hann reyni að komast eftir hvernig það fæði sé lagað sem nautin lifi á. Konungur tekur þá það ráð að hann stefnir þing saman. Hann talar þannig þegar á þing er komið: „Sá atburður hefur orðið að tólf naut sjást hér á hverri nóttu undir skíðgarði mínum og veit ég ekki til að svo mörg naut séu til í ríki mínu. Vil ég nú bjóða þeim manni dóttur mína og hálft ríkið með sem getur sýnt mér fæðu þá sem nautin lifa á. En sá sem segir mér ranglega frá þessu skal deyja hinum herfilegasta dauða.“ Eftir þetta gengu menn af þingi.

Nú er þess að geta að skammt frá höll konungsins bjó kall og kelling í koti nokkru. Þau áttu þrjá syni; er ekki getið um nöfn tveggja þeirra, en einn hét Sigmundur. Hafði kall hann útundan og lá hann oftast í öskustó, en hinir tveir vóru í miklu uppáhaldi. Annar af uppáhaldssonum karls hugsar sér nú að vinna verðlaunin og leggur af stað til nautanna. Það fyrsta sem hann tekur sér fyrir hendur er það að hann rekur nautin burt frá skíðgarðinum með svipu og hlaupa þau þá eitthvað svo hann sér ekkert hvað af þeim verður. Hann tekur þá vatn og leir og blandar saman, fer til konungs og segir honum að þetta sé fæða nautanna. Þegar nú nautin komu næst var þeim boðinn þessi matur, en þau vildu ekki smakka. Sá þá konungur að karlssonur fór með ósannindi og var hann þá hengdur á gálga og lét hann þar líf sitt. Hinn annar karlssonur hugsar sér nú að vinna verðlaunin og er það ekki að orðlengja að hann hefur alla hina sömu aðferð og hinn og fær hin sömu afdrif. Nú skrifar kóngur karlinum bréf og segir honum að hann hafi látið drepa tvo sonu hans því þeir hafi svikið sig og unnið til þeirrar hegningar. Þegar karlinn veit þetta verður hann ákaflega reiður, ólmast um allt kotið, bramlar og brýtur hvað sem fyrir verður og þegar hann kemur í eldhúsið tekur hann lurk og leggur í Sigmund, segir að hann vilji nú ekki sjá hann lengur og skuli hann til fjandans úr húsum sínum. Sigmundur hrökklast nú úr kotinu og gengur út á skóg; er hann blár og blóðugur og hnugginn mjög. Hann ráfar þar um stund og tekur það síðan fyrir að hann fer til hallar konungsins. Hann hittir kóng og biður hann veturvistar og segir honum ófarir sínar. Kóngur verður við bón hans og lætur hann hafa annan fatnað. Nú líður og bíður og líkar kóngi ágætlega við Sigmund í öllum greinum. Sigmundur heyrir oft talað um nautin og er þess getið að hann biður kóng að lofa sér úr landi – „og vil ég vita,“ segir hann, „hvert ég get hvergi fundið eins góðan kóng og þú ert.“ Kóngur er tregur til, en þó verður það úr að hann gefur honum fararleyfi, fær honum nesti og skó til fararinnar. Sigmundur leggur af stað og fer fyrsta daginn ekki lengra en að skíðgarðinum og leggur sig hjá nautunum til svefns. Minnsta nautið er mjög vingjarnlegt við Sigmund. Hann vaknar um morguninn við það að þetta naut slær í hann halanum. Síðan halda nautin af stað og hann á eftir. Hann gengur lengi þangað til hann kemur að fljóti nokkru. Þar synda nautin yfir. Hann sofnar á fljótsbakkanum og vaknar aftur við það að minnsta nautið slær í hann halanum. Það gengur út í fljótið með fljótsbakkanum og eins og bendir Sigmundi að koma á bak sér. Hann fer á bakið á nautinu og syndir það með hann yfir um. Þegar hann er kominn yfir um gengur hann áfram og litast um. Sér hann þá að hann er kominn í fagurt land. Allt brosir þar á móti honum: skógarblóm og aldini; láð og lögur virtist honum svo yndislegt að [hann] þóttist aldrei í slíkt land hafa komið. Hann reikar þarna nokkra hríð gagntekinn af fegurð náttúrunnar þangað til hann kemur [að] bæ einum litlum og laglegum. Hann gengur að dyrum og sér hurð í hálfa gátt. Hann heyrir svo fagran söng í húsinu að hann kemst við, gengur inn og litast um. Hann sér þar tólf menn sitja undir borðum og snæddu kræsingar. Þeir urðu þögulir og daprir; ekki talaði hann neitt við þá og þeir ekki við hann, en þeir réttu honum sinn bitann hver og sitt staupið hver. Hann stingur því hjá sér og gengur síðan út. Honum verður reikað upp á eyðifjall nokkurt. Þar sér hann eitthvað bærast í dæld nokkurri. Þegar hann gengur nær sér hann að þetta er sorgbitin stúlka sem er að ausa vatni. Hún fellur í öngvit þegar hún sér manninn, en raknar þó bráðum við. Hún segir honum síðan af kringumstæðum og hvers vegna hún sé þar komin. Sigmundur tekur þá stúlkuna og leiðir niður að fljótinu. Þar eru þá nautin komin og ætla yfir um og komast þau á baki nautanna yfir um fljótið. Sigmundur fer með Helgu heim til hallar konungs og verður hann mjög feginn komu Sigmundar. Hann afhendir kóngi bitana og sopana og segist hann halda að þetta sé fæða nautanna. Kóngur spyr hvar hann hafi fundið stúlku þá sem með honum sé, en hann segir af hið sanna. Nú sofa menn hina næstu nótt og vakna snemma morguninn eftir. Þá ganga menn að skíðgarðinum og sjá þar tólf menn í öngviti og tólf nautahami skammt frá. Sigmundur brennir nautahamina, en kóngur dreypir á mennina. Þeir hressast von bráðar og þekkir hann þar syni sína sem hann þykist úr helju heimt hafa. Varð nú gleði mikil við hirðina, sem stóð yfir í marga daga. Þá varð það ráðið að Sigmundur skyldi fá Ingibjörgu kóngsdóttur og hálft kóngsríkið og settist hann nú að völdum. Sigurður fór úr landi með Helgu kóngsdóttur til föður hennar og gjörði þar brullaup sitt til hennar. Er það mælt að þar hafi verið mikil gleði á ferðum um þær mundir. Hinir aðrir synir konungs fengu og gott kvonfang og urðu annaðhvort kóngar eða jarlar. Er svo sagt að ríkisstjórn Sigmundar og allra bræðranna yrði hin ágætasta, og ættu mörg börn og mannvænleg. – Og kunnum vér svo ekki þessa sögu lengur.