Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Tistram og Ísól bjarta

Úr Wikiheimild

Kóngur og drottning réðu landi einu; þeim varð ei barna auðið. Varð kóngur sár af þessu við drottningu.

Eitt sinn fer hann í stríð. Sagði hann þá við drottningu að yrði hún ekki barnshafandi er hann attur kæmi yrði það hennar bani. Grét hún sárt af þessum hans orðum. Eitt kvöld er hún úti var kom kona ein til hennar og spurði því hún gréti. Sagði hún sem var. Bað hin aðkomandi að hún kæmi með sér. Gengu þær til sjávar; er þar lítill bátur er hún setur til sjávar og biður drottning í að fara. Rær hún yfir sjó til þess er [þær] land sjá. Þar eru mörg silkitjöld á landi. Fær ókunna konan drottning rauðan silkiskrúða og bláan, en sjálf er hún í svörtum. Þetta var nú kóngurinn hennar eigin. Gengu þær fyrir tjöldin og sögðu sveinar kóngs: „Þar gengu fallegar meyjar.“ „Færið mér þá fagrari mær,“ [sagði kóngur]. Fóru þeir með hana og lá hún í hvílu hans og er undir morgun leið tók gamla kona í hönd drottningar og fóru til báts síns. Reri hún sem fyrri og er þær komu til lands fylgir hún drottningu til hallar og biður hana glaða vera, því hún ólétt sé – „og dugi ekki þetta, áttu,“ kvað hún, „[að] finna [mig].“ Kom nú kóngurinn heim og var hinn sami við konu sína. Ól hún nú barnið og dó þar á ettir. Ólst hún, barnið, upp hjá föður sínum; það [var] stúlka og fyrir fegurð er hún kölluð Ísól bjarta. Það var strax iðja hennar að vera oft hjá veikum. Með sjónum voru græðslusmyrsl. Þangað gekk hún oft. Einu sinni er hún með sjónum gekk sá hún stórt skríni, setti í það fótinn og heyrðist henni í barnsgrátur. Hún átti fagurbúinn kastala og hafði hjá sér tvær þernur. Hétu þær Eyja og Freyja og sagði hún þeim að taka skrínið, en þær hlógu og sögðu hún kóngborin skyldi ekki vera að bera kuðungakassa heim úr fjöru til sín. Kom þá þykkja í Ísól og kvaðst sjálf geta borið skrínið, tók það undir hönd sér, fór í kastala sinn og lauk upp skríni þessu. Sá hún þar dægilegt barnsandlit og skrifað í lok skrínis með gylltum stöfum: Tistram; kallaði hún sveininn sama. Epli lá í munni barnsins og hrökk það út úr er hún hafði sett fótinn í það. Hún varð glöð við þetta, en þernurnar urðu hljóðar við. Hún gekk til föður síns og bað hann lofa sér að ala barnið upp til þess það yrði tólf ára og með gleði leyfði hann henni það. Dó nú móðir hennar tveimur árum síðar. So hafði staðið á sveini þessum að hann var konungborinn. Ljósu hans þótti hann so fallegur ettir fæðinguna, en af hatri við drottningu fer hún sona með barnið og lét dauðan hvolp hjá henni og var kóngur so reiður að hann myrti konu sína, en varð fáum dögum síðar yfirunninn af ræningjum er drápu hann.

Einu sinni er kóngur gekk með sjó langt sá hann í fjöru eina konu fagra, gekk til hennar. Hún var að greiða hár sitt með gullkambi. Hann gekk að henni og kyssti hana og bað hana með sér fara, en hún gerði sig auma. En hann gladdi hana og sagðist skyldi gera hana sína eigin drottningu. Brosti hún í kamp og hugsaði nú gott til glóðar með sig. Hún átti dóttir er Ísóta svarta [hét]. Hún lét ekki kóng vita af þessu. Gifti hann sig henni þann sama dag. Ísól bjarta var þar ekki. Var hún alla tíma í kastala sínum og gekk bara sér til skemmtunar út á skóg. Ettir eitt ár var drottning talfá við kóng og gekk hann á hana fast að segja því hún væri so, og sagði hún sér þækti hann hirðulaus um lönd sín og ríki. Við þessi orð brá hann við og bjó skipaflota sinn og sig og tók Tistram þá tólf ára með sér. Saknaði Ísól hans mjög, en tryggðum hétu þau sín á milli. Skildi hún við hann grátandi og skemmumeyjar með henni. Sigldu þeir nú burt. Drottning var ekki aðgerðalaus á meðan. Rak hún þræla sína út á skóg og sagði þeim að búa stóra gröf og djúpa og láta so net og hálm yfir og skógargreinir; og voru þrælar að þessu búnir og sögðu drottningu. Daginn ettir var ágætt veður og gekk stjúpa Ísólar í kastala hennar. Ísól bað hana heila vera, en mjög fákát var hún og vildi stjúpa hennar ræta allt af henni sem til gæti gleði verið. Hún bað hana ganga á skóga með sér og þernur hennar. Gekk drottning við hægri hlið Ísólar og Ísóta við hlið Freyju. Töluðu þær margt saman til þess þær allt í einu duttu þrjár í gryfju. Hlógu þær mæðgur stóra hlátra sem flögð og sagði stjúpa [Ísólar]: „Nú er mátulega komið; í staðinn fyrir þú Ísól bjarta áttir að eiga Tistram skal nú Ísóta svarta eiga hann.“ Byrgja þær nú gryfjuna og ganga kátar og glaðar heim. Sagðist drottning skyldi drepa hvurn er nefndi Ísól björtu. Var nú Ísóta svarta í hennar kastala. Kom nú konungur að landi og Tistram. Gengu þær í móti þeim drottning og dóttir. Er þeim nú ekið í gullvögnum heim til borgar. Spyr nú Tistram að Ísól. Kemur þá drottning og gefur honum drykk sem hann man ekki ettir Ísól. Situr allt í yfirlæti, en Ísóta er alltaf að bera á brýn við Tistram að eiga sig fyrri en seinna.

Er nú að segja frá Ísól og þernum hennar. Ettir langan tíma deyja þær Eyja og Freyja, en Ísól tekur skæri upp úr vasa sínum er móðir hennar hafði gefið henni í tannfé – og skyldi hún þau aldrei við sig skilja – og býr til tröppur upp úr gryfjunni og kemst hún upp, en missir skærin ofan í gryfjuna. Getur hún nú ekki unnið fyrir að ná þeim. Gengur hún heim í eitt rjóður, saumar sér úr skógarblöðum klæði og fer í þau. Gengur hún að höllinni heim og kemst í kokkhús eldabuskunnar. Hún býður henni að bæta í staðinn fyrir bita, því hún var svöng orðin. Kerling gerir það. Bætir og saumar Ísól so vel að eigi þótti slík vinna hafa sézt. Kemur að brúðkaupi Tistrams. Nú á Ísóta að sauma föt þeirra; til þeirra var nóg lagt. Er hún nú í ráðaleysi því hennar vinna var að liggja með þrælum og soddan; fer til eldakerlingar og biður hana nú góð ráð að hafa. Segist hún fornkerlingu hafa sem vel geti saumað fötin. Fær hún henni allt til þeirra. Saumar nú Ísól fötin og leggur með gullslíni um alla sauma og alstaðar fötin hans, en hvurgi hennar. Fær hún kerlingunni og tekur Ísóta við og verður vond að sjá sín föt óvönduð, en hin sona dýrðleg. Sættist hún við það því að falli var hún komin og mátti ekki bíða að giftast. Dró Tistram það til þess dags er hún barnið átti; var það þrælborið. Fór hún til þeirrar ókunnu konu og biður hana að bera klæði sín í dag því heiðursdagur sinn sé, en vani var að ganga á skóga, en hún mætti ekki tala orð; en hún yrði að láta þetta fyrir sig gera því hún lægi í blóðböndum ettir barnseign. Ísól gerir þetta. Er nú veizla haldin og ganga nú brúðhjón og fleira fólk út á skóg. Brúðhjón ganga hjá tóttarrúst og segir [þá Ísól]

„Áður varstu björt á fold,
nú ertu orðin svört af mold,

skemma mín.“ Hann hváði ettir þessu orði, en hún þagði. Gengu þau lengra og hjá læk einum. Þá sagði hún:

„Hér rennur lækur sá
er Tistram og Ísól bjarta
bundu sína ást og trú;
hann gaf mér hringinn,
ég gaf honum glófana
og vel máttu muna það nú.“

Hann spurði hana hvað hún segði so oft, en hún þagði. Ganga þau nú lengra og hjá gryfju stórri. Þá sagði hún og leit á gryfjuna:

„Hér liggur Eyja og Freyja,
báðar mínar skemmumeyjar.
Skæri mín þeim skildi ég hjá
og dauðum gekk so báðum frá.“

Og spyr hann hana hvað hún tali og vilji ekki segja sér, en hún þegir. Gengu þau so heim og um kvöldið fer Ísól til Ísótu og segist búin vera; nú eigi hún að hátta. Klæðist hún í brúðarföt sín og [gengur] til sængur og er Tistram kominn upp í og ætlar hún á ettir. En hann segir: „Bíddu við! Þú fer ekki í hvílu mína fyrri en þú segir mér tal þitt hjá rústunum.“ Hún mátti til og segja hún hefði gleymt fingurgulli sínu niðri; fer því fram og til Ísólar, spur því hún ekki hafi getað þagað sínum kjafti og hvað hún hafi sagt hjá rústinni, en hún sagði sama er hún áður sagði þar. Fór hún innar og sagði þessi orð. „Nú vil ég fara upp í.“ „Nei, þú bíður við. Hvað talaðir þú hjá læknum?“ Hún æðir fram og segir við Ísól: „Hvurn andskotann kjaftaðir þú hjá læknum?“ Ísól sagði þau orð er hún áður talaði hjá læknum. Sagðist Ísóta ekki geta lært þetta og mátti hún til og segja fjórum sinnum við Ísótu til er hún það kynni, kemur stúss inn og segist ekki hafa talað stórt og segir honum það. Nú er henni so kalt að hún segist verða upp í að fara því sér sé illt. „Ekki fyrri en þú segir hvað þú talaðir hjá gryfjunni.“ Hún fer og hann læðist á ettir og með sverð og heyrir að hún rífst við einhvurn, og les hún og segist mega [standa] í blóðböndunum á gólfinu hjá honum bara fyrir hennar kjafthátt í dag. Segir Ísól henni orðin; fer hún, en hann hafði brugðið sverði [í] dyrnar og fór hún í tvennt; gekk að rúmi drottningar og drap hana, fer so til Ísólar án þess hana [gruni], kallar á hana inn til sín, setur sverð fyrir brjóst henni og ætlar að drepa hana, segi hún sér ekki sannleikann. Gjörir hún það og fagna þau hvurt öðru með blíðu, ganga að hvílu kóngs; verða þar fagnaðarfundir. Ríkir hann ettir föður sinn til dauða.