Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Vírfinna Völublóm
Vírfinna Völublóm
Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttur sem hét Vírfinna og var kölluð Völublóm af því hún var so falleg. Hún ólst upp í ríkinu og var mjög efnileg. So leggst drottning veik og deyr og kóngur fékk sér drotningu aftur. Vírfinna var höfð í skemmu og þernur hjá henni. Kóngur fer í hernað og biður drottningu að passa ríkið á meðan og hún lofar því; so fer kóngur í hernað. Þegar hann er farinn fer drottning að skoða hvað hann á og er mjög rímileg og þykir hann eiga mikið, og so kemur hún að skemmu Vírfinnu og segir: „Sæl vertu Vírfinna mín,“ og segir hún komi aldrei út sér til gamans, hún skuli koma með sér í dag út á skóg, hún ætli þangað að skemmta sér. Þær fara so út á skóg og eru lengi að ganga um skóginn, og segir [drottning] að mikill sé skógur og fallegt sé plássið. Vírfinna segir það vera og so koma þær að mjög djúpu jarðfalli. So hún segir að þetta sé falleg gryfja. Vírfinna fer að skoða; þá hrindir hún Vírfinnu ofan í gryfjuna og segir að nú skuli hún hafa allan auðinn ettir hann föður [hennar]. Vírfinnu vill það til lífs að ekki er mikið vatn í henni. Hún hefur hníf í vasa sínum og fer að gera sér spor með hönum og kemst so upp úr loksins. So hleypur hún eins og fætur toga eitthvað í burtu. Þegar hún er lengi búin að hlaupa kemur hún loksins að einu húsi; hún fer þar inn. Hún sér þar borð og bekk og eitt rúm; hún býr um rúm[ið] og tilreiðir mat sem þar var í potti yfir eldi og fer so undir rúm. Þegar komið er kvöld koma tveir menn inn og segja það sé hér einhvur inni og megi hann gefa sig í ljós so hún fer undan rúminu. Þeir þakka henni fyrir; þeir spurja hana að hvað hún heiti; hún segir þeim það. Hún spyr hvað þeir heiti; þeir segja þeir séu bræður og heiti Finnar. Hún segir þeim upp alla sögu, en hún spyr hvað þeir séu að gera á daginn út á skóg. Þeir segja þeir séu að drepa það sem gangi attur á næturnar, það sé að drepa fénaðinn sinn og skemma eigur sínar. So þeir segja ef drottning komi þá skuli hún ekki hleypa henni inn og taka við öngu af henni. So fara þeir og hlaða grjóti fyrir dyrnar.
So víkur sögunni til drottningar að hún á gler sem hún gengur til og segir: „Segðu mér það, glerið mitt góða gullinu búna, hvurnin henni Vírfinnu Völublóm líður, lifir eða deyr.“ Þá segir glerið: „Lifir hún og lifir vel, hún er út í einni ey, fylgja henni Finnar tveir og fátt er hennar meinið.“ Hún tekur logagyllt belti og fer með það til Vírfinnu og heilsar henni vinalega; hún anzar ekki. Drottning segir að þó hún anzi sér ekki þá skuli hún taka við beltinu arna hennar móður hennar, hún skuli njóta þess. Hún er að þessari suðu fram undir kvöld og þá lofar hún henni að láta það yfrum sig; þá herðir hún það so fast að Vírfinna atlar að springa. So stekkur hún hlæjandi í burtu. En Vírfinnu vill það til lukku að þegar drottning er farin þá koma Finnarnir og eru að bera sig að ná því af henni og geta loksins, og þá var orðinn blár bugur yfrum hana. Þeir taka smyrsli úr krús og bera þar á so henni skánar. Þeir segja henni ríði á að taka ekki við neinu af henni hvað sem hún bjóði henni. So ganga þeir frá dyrunum eins og fyrra daginn.
Drottning spyr glerið og það segir sama og fyr. Hún tekur glas og kemur til Vírfinnu og heilsar henni; hún er alltaf að suða við hana að súpa á þessum dropum, það séu seinustu droparnir sem hún móður hennar hafi sopið á. Þegar komið er kvöld sýpur hún á þeim og þá logar hún innan og þá segir drottning hlæjandi að nú fái hún ekki auðinn eftir hann föður sinn; en þegar hún er farin koma Finnarnir og fara að slökkva logann og geta það loksins og hún er nærri því dauð. So segja þeir daginn eftir hvort hún vilji heldur þeir hlaði fyrir dyrnar eða ekki, þeir eigi að deyja á morgun. Hún vill það ekki. Þegar þeir eru farnir fer hún að tygja sig til og fer á stað og gengur lengi þangað til hún kemur í eina lág og þar liggja Finnarnir dauðir. Hún heldur so áfram og hugsar að drottning muni koma á ettir sér og hleypur og kemur fram á björg og þar er sjór neðanundir og skip. Hún biður þá að róa nær og þeir gera það, og klifrast so niðrettir nokkuð og fleygir sér so niðrí skipið. Henni vill þá so happalega til að þetta eru skip föður hennar. Það verður fagnaðarfundur. Hún segir hönum upp alla sögu; hann lætur hana niður í káetu.
Drottning fer að spurja glerið um Vírfinnu, en það segir henni ekkert og þá hugsar hún að hún sé dauð og lætur allt borgarfólkið segja að hún sé dauð. So kemur kóngur og þá gengur drottning til skips og er so dauf. Kóngur fer að ganga á hana; hún biður hann að minnast ekki á það, hún Vírfinna sé skilin við og hún hafi látið grafa hana og veitt henni alla virðingu. Kóngur læzt verða daufur, segir það verði ekki að því gert. Það er verið að bera upp úr skipinu; hann segir að hann hafi ætlað að gefa henni Vírfinnu þetta. Hún segir það sé ekki hægt héðan af. Kóngur segir það sé fallegast sem sé niðrí káetu. Hana langar að sjá það og henni er sýnt það og þegar [hún] sér Vírfinnu þá verður henni illt við, er stundum kolsvört, en stundum rauð. So fer kóngur heim í ríki og lætur þénara sína passa drottningu. So er grafið upp leiðið og þar eru þá tveir hundar skornir á háls. So lætur hann taka drottninguna og seta attan í ótemjur og siga so á hundum, og so er úti um hana. Og Vírfinna fékk ríkið eftir föður sinn og eignaðist kóng, og endar so þessi saga.