Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Vakur vesæli og Rósamunda

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Vakur vesæli og Rósamunda

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í koti sínu. Kóngur átti sér eina dóttur sem hét Rósamunda, en karlinn átti sér einn son sem Vakur hét. Rósamunda var upp alin sem annari kóngsdóttur sæmdi, byggður kastali skammt frá kóngshöllinni og þjónuðu henni margar skemmumeyjar. Lærði hún allar handyrðir sem heimurinn mundi kunna.

Vakur ólst upp í karlskoti og var ærið lítill vexti og kraftalítill, en ódæll var hann; því var hann kallaður Vakur vesæli. Lítið ástríki hafði hann af föður sínum, en móðir hans unni honum meira.

Það bar við einn jólaaftan um vetrinn að uxi kóngs hinn góði hvarf úr vöktun nautahirðara konungs. Þókti konungi það undarlegt og ærið mikill skaði því uxinn var afbragðs gripur, níu vetra gamall, hyrndur mjög og hornin víða grafin. Gullbjöllur voru á hornum uxans og hringafesti á milli hornanna. Svo þókti kóngi mikill missir uxans að hann hét þeim manni hálfu ríkinu að sér lifandi, en öllu eftir sinn dag og dóttur sinni, sem færði sér aftur uxann góða óskemmdan. Margir gengust fyrir þessum fögru loforðum, fóru til kóngshirðar og fengu blítt orðlof af konungi til burtfarar og heillar afturkomu. Margir komu veturtaksmenn til konungs, en við öngum tók hann nema með þessu skilorði; en engir komu aftur er þessa ferð fóru.

Þetta fréttir Vakur vesæli í garðshorni og fýsir sem aðra að verða konungsmágur, kemur því á ræður um þetta við föður sinn og móður og biður þau fararefna og fulltingis. Karl verður ærið byrstur og fær hann ekki annað af föður sínum en eina öxi til fararinnar og ill orð. Móðir hans er allt blíðari og býr hann eftir efnum. Að skilnaði fær hún honum rautt hnoða og biður hann að snara því á veginn fyrir sig þegar hann væri kominn áleiðis, en halda í endann; skyldi hann ekki annars gæta en elta hnoðað.

Vakur gengur nú heim í kóngsríki og ber upp erindi sín fyrir kóngi og spyr hvort hann mundi vilja unna sér sómans sem öðrum. Konungur segir það vera, en aðrir hefði ekki verið ólíkari til framkvæmdanna og hefði þó enginn aftur komið. Vakur var gagnkunnugur kóngsdóttur og hafði oft fengið hjá henni bita og sopa og flík utan á hann. Fer hann nú til hennar og er svo kompánlegur við hana sem þrautin væri unnin. Brosir kóngsdóttir að honum og óskar honum vel farar.

Vakur fer nú leiðar sinnar og gengur lengi lengi. Loks kemur hann að fjallshlíð einni. Er þá dagur að kvöldi kominn. Klifrar hann upp í eik eina og liggur þar um nóttina. Að morgni heldur hann enn áfram fram með fjöllunum, en að miðjum degi kemur hann að einstigi einu. Þar upp rennur knýtilskautinn; en svo var langt á milli sporanna að Vakur varð að höggva þrjú spor milli hvers spors með exinni áður hann kæmist upp. Þessu næst kemur hann að hellir einum. Þar logaði eldur á skíðum. Vakur kastar meiru á eldinn og gjörist bjart í hellinum. Hann gengur víða innan um hellirinn og litast um. Fátt sér hann þar gripa, en í einum stað í afhellir einum finnur hann uxa konungs og er hann vel verkaður. Þarna bíður Vakur allt til kvölds. En er komið var af dagsetri heyrir hann að þungt er til jarðar stigið. Kemur þá risi ærið stór með fuglakippu á baki. Tendrað hafði Vakur eldinn. En er risinn kemur í dyrnar segir hann: „Mannaþefur í helli mínum.“ Þá gengur Vakur fram og segir: „Það er von til því hér er ég.“ „Þú skalt nú ekki lifa lengur en til morguns,“ segir risinn. „Tölum seinna um það,“ segir Vakur, „en eitt líf á einu sinni að fara.“ Risinn skipar nú Vakri að búa fuglana til soðs og starfa þeir að því báðir. Mat mátti Vakur hafa eftir þörfum. Um morguninn er risinn árla á fótum, grípur nú í hár Vakri, en er með skálm mikla í annari hendi. Vakri brá svo við að að honum setti hlátur mikinn. Bar risinn hann nú fram í hellirinn og að trogi einu. Herðir Vakur nú á hlátrinum. Risinn spyr hvort hann hræðist ekki dauða sinn. „Nei,“ segir Vakur, „og þyki mér gaman að sjá hvernig þú fer að því.“ Risinn byrstist við þetta, leggur hann niður að troginu og mundar skálmina að hálsi honum. Vakur ærðist nú og sprakk af hlátri. Risinn snaraði þá skálminni, lét Vakur upp standa og mælti: „Þig get ég ekki drepið, þú gengur hlæjandi móti dauða þínum. Margan mann hefi ég drepið og hafa allir hræðzt, enda mun ég nú láta af manndrápum því þú hefir nú komið mér úr álögum. Varð ég fyrir þeim stjúpmóður-sköpum að ég skyldi verða að risa og byggja hellir þenna og aldrei úr þeim álögum komast fyrr en ég fyndi einhvern svo hraustan að ekki óaðist bana.“

Vakur var nú í glöðu geði er hann heyrði þetta og svo báðir þeir. Tók nú risinn nautið á herðar sér og bar ofan tröppurnar, og fylgdi hann Vakri þangað til þeir sáu heim til borgarinnar. „Hér munum við nú skilja,“ mælti risinn, „en ég mun nú fara og finna stjúpu mína því svo mælti hún um að ekki skyldi ég úr álögunum komast fyrr en hún væri dauð.“

Vakur teymdi nú nautið heim til borgar. Undruðust menn og fögnuðu afturkomu hans. Hélt konungur vel öll heitorð sín við Vakur. Tók hann foreldra sína heim til sín og varð konungur að tengdaföður sínum látnum og þókti góður konungur og ráðsvinnur. – Og kann ég ekki þessa lokalygi lengri.